5.1.2007 22:24

Föstudagur, 05. 01. 07.

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) sendi frá sér tilkynningu í dag, þar sem sagði meðal annars:

„Stjórn SUS ákvað að nefna verðlaunin eftir Kjartani Gunnarssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, til að heiðra það mikla starf sem hann hefur skilað til þess að auka frelsi á Íslandi og bera út hugmyndir frjálshyggjunnar. Starf Kjartans í þágu frelsisins er langt í frá einskorðað við stöðu hans sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í 26 ár. Frá unga aldri hefur hann verið í forystu meðal þeirra sem barist hafa fyrir frjálshyggjunni á Íslandi. Hann var meðal annars helsti hvatamaður og leiðtogi í þeim hópi sem gaf út ritið „Uppreisn frjálshyggjunnar“ en í henni má finna stefnu þeirrar kynslóðar sjálfstæðismanna sem hvað mest áhrif hefur haft á þróun landsmála á undanförnum áratugum.“

Vinir Kjartans samfagna honum vegna þessa heiðurs, sem sýnir enn, hve mikillar virðingar og vinsælda hann nýtur innan Sjálfstæðisflokksins, þegar hann lætur af störfum framkvæmdastjóra. Kjartan hefur ekki aðeins sett sterkan svip á Sjálfstæðisflokkinn heldur einnig á þjóðlífið allt með hógværð sinni, hjálpsemi og vináttu.

Í vikunni hef ég sagt frá vaxandi þunga í gagnrýni á evruna í ýmsum ríkjum, þar sem hún er notuð sem gjaldmiðill. OECD hefur nú gefið út skýrslu til varnar evrunni. Skýrslan ætti að evru-söfnuðinn hér á landi, þótt hún hafi ekki komið í veg fyrir að Jacques Chirac, forseti Frakklands, gagnrýndi evrustjórana fyrir ákvarðanir þeirra.

Þróun efnahagsmála ræðst af ákvörðunum einstaklinga og áhrif þeirra ráðast af stöðu og störfum. Vísasti vegurinn til að grafa undan íslensku krónuninni er að tala hana niður og láta eins og unnt sé með töfrasprota að taka upp evru og þá sé allur vandi leystur. Einföldun af þessu tagi stenst ekki gagnrýni.