Dagbók: ágúst 2005

Miðvikudagur, 31. 08. 05. - 31.8.2005 22:33

Fór klukkan 20.00 á íbúaþing miðborgar, Vesturbæjar og Austurbæjar okkar í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, sem haldið var á Hótel Borg og var vel sótt. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Kjartan Magnússon og Gísli Marteinn Baldursson höfðu framsögu og svöruðu fyrirspurnum en Einar Eiríksson, formaður hverfafélags sjálfstæðismanna, stýrði fundi.

Gísli Marteinn brá upp korti af Vatnsmýrarsvæðinu, þar sem hann hafði teiknað inn bútaskipulag R-listans og eignarland ríkisins og sýndi fram á, að það sem eftir væri á forræði Reykjavíkurborgar væru í raun litlar spildur og þess vegna væri með öllu fráleitt að fara í einhverja alþjóðlega samkeppni um svæðið - getur Reykjavíkurborg ákveðið samkeppni um svæði í eigu annarra án samþykkis þeirra? Kortið staðfesti einnig betur en áður, hve fráleit og illa ígrunduð sú ráðstöfun er að úthluta Háskólanum í Reykjavík (HR) landræmu við austurjaðar flugvallarsvæðisins á hinu viðkvæma svæði milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Ríkið á þar að auki þríhyrnda sneið inn á þetta fyrirhugaða háskólasvæði og við það hefur ekkert verið rætt um ráðstöfun á því landi. Ég skil sífellt verr, hvers vegna stjórnendur HR létu glepjast af fyrirheitum Dags B. Eggertssonar um þetta land.

Á fundinum var áréttað, að sjálfstæðismenn eru til þess búnir á næsta kjörtímabili að leiða til lykta umræður um framtíð flugvallarins með það í huga, að í Vatnsmýrinni rísi íbúðarbyggð í bland við atvinnusvæði.

Undarlegt er, að enginn hafi vakið máls á þeirri staðreynd í umræðum um Vatnsmýrina og flugvöllinn, að á síðustu mánuðum hefur verið lögð ný austur-vestur braut í Vatnsmýrina norðanverða, sem sker hana frá miðborginni, það er Hringbrautin, og þetta er gert af því fólki, R-listanum, sem mest lætur með að það ætli að gera Vatnsmýrina að hluta af miðborginni! Þá hefur R-listinn verið með þá hugmynd að setja niður bensínstöð vestan við Umferðarmiðstöðina, sem myndi endanlega skera athafnasvæði Landsspítala og Háskóla Íslands í sundur.

Þriðjudagur, 30. 08. 05. - 30.8.2005 18:00

Var klukkan 14.00 á Keflavíkurflugvelli og kynnti mér það, sem er að gerast á æfingu við að eyða sprengjum undir forystu starfsmanna Landhelgisgæslu Íslands með þátttöku sérþjálfaðra manna frá Bretlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Var greinilegt af samtölum við hina erlendu þátttakendur, að þeir meta mikils að geta tekið hér þátt í æfingum af þessu tagi.

Sé í DV að hinir siðavöndu blaðamenn þar leggja þannig út af dagbókarfærslu minni í gær: „Björn telur að blogg sé ekki opinber vettvangur heldur eitthvað prívat hólf á alheimsnetinu þar sem menn eru ekki ábyrgir orða sinna.“ Mér er óskiljanlegt, hvernig draga má þessa ályktun af orðum mínum. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar, að menn séu ábyrgir orða sinna á netinu og hef hvað eftir annað gagnrýnt hugleysingjana á malefni.com, sem vega að fólki úr launsátri en þora ekki að gera það undir nafni. Mér finnst hins vegar umhugsunarvert, hvort ekki hafi verið of langt gengið að segja manni upp fréttamannsstarfi fyrir að tala ógætilega á vefsíðu sinni.

Í DV fjallar Jónas Kristjánsson ritstjóri um tvo nýja úrskurði siðanefndar Blaðamannafélags Íslands gegn DV. Ritstjórinn segir í lok umfjöllunar sinnar: „DV mun fara eftir siðareglum sínum, þótt þær stangist í þessu atriði á við siðareglur Blaðamannafélagsins, sem er arfur frá vesælli tímum í blaðamennsku á Íslandi fyrir fjórum áratugum.“ Hvað ætli sami ritstjóri mundi segja, ef ráðherra ætlaði að fara að eigin reglum en ekki annarra, til dæmis lögum? Ætli Jónas mundi ekki öskra: Fasisti! Fasisti!

Mánudagur, 29. 08. 05. - 29.8.2005 18:46

Sjálfstæðisflokkurinn fær 53,5% og 9 borgarfulltrúa í  Reykjavík í skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag, þegar spurt er um afstöðu vegna komandi borgarstjórnarkosnininga. Samfylkingin fær 29,7% og 5, vinstri/grænir 8,8% og 1 borgarfulltrúa, Framsóknarflokkurinn fær 4,8% og engan og frjálslyndir 2,2% og engan.

Þetta er ánægjuleg vísbending um hug borgarbúa um þessar mundir. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og samfylkingarkona sagði þetta fína niðurstöðu fyrir Samfylkinguna! Umræðurnar hefðu verið um Sjálfstæðisflokkinn og framboð hans. Skyldi hún ekki hafa tekið eftir umræðunum um upplausn R-listans? Alfreð Þorsteinsson framsóknarmaður sagðist oft hafa séð það svartara en þetta - hvenær í pólitík? Ólafur F. Magnússon sagðist ætla að haga seglum eftir vindi og starfa annað hvort til hægri eða vinstri - dæmigerður tækifærissinni, þótt hann hrósi sér jafnan af stefnufestu, þegar hann talar í borgarstjórn.

Ég var að hlusta á frétt á Stöð 2 þar sem rætt var um 7. gr. relugerðar, sem ekki hefur tekið gildi, og fjallar um útfarir, bálfarir og fleira. Ég var undrandi á fréttinni og að fréttamaðurinn vissi ekki, að verið er að huga að breytingu á þessari grein, en reglugerðin var send um 700 aðilum til umsagnar fyrir undirritun hennar og útgáfu. Enginn gerði þó athugasemd við þetta ákvæði hennar fyrr en eftir útgáfu reglugerðarinnar.

Sunnudagur, 28. 08. 05. - 28.8.2005 15:45

Var austur á Þingvöllum klukkan 10.00 og flutti ávarp yfir norrænum séfræðingum um heimsminjalista UNESCO í fræðslumiðstöðinni á Hakinu. Gekk síðan með þeim að Valhöll en á leiðinni talaði Skúli Skúlason rektor um náttúru Þingvalla og Þingvallavatns, Guðmundur Hálfdanarson prófessor um sögu og þjóðernislegt gildi Þingvalla og Adólf Friðriksson fornleifafræðingur um fornleifarannsóknir.

Það var norðangjóla og frekar kalt og við Rut fundum engin ber, þegar við leituðum þeirra í nágrenni Valhallar.

Í Morgunblaðinu í dag andmælir Bjarni Harðarson, ritstjóri á Suðurlandi, fyrirvaralausum brottrekstri fréttamanns hljóðvarps ríkisins á Suðurlandi fyrir gálaus og vanhugsuð ummæli hans um Baugsmenn á vefsíðu sinni. Þau hafa nú verið þurrkuð af síðunni, en hinir siðavöndu blaðamenn DV hafa birt þau á prenti. Bjarni veltir fyrir sér, hvort brottreksturinn sé til marks um nýjar reglur í þessu efni hjá RÚV, ef litið er til orða, sem fréttamenn létu til dæmis falla í harði fréttastjóradeilu fyrr á árinu. Honum finnst einnig skrýtið, að fréttamaðurinn skuli ekki hafa fengið tækifæri til andmæla og bera hönd fyrir höfuð sér, áður en hann var rekinn. Ég sagði frá gálausum skrifum á vefsíður í pistli hér á síðunni 6. mars 2004, meðal annars hjá þáttargerðarmanni hljóðvarpsins. Ég minnist þess ekki, að sú færsla hans hafi dregið dilk á eftir sér.

Fór klukkan 17.00 á lokatónleika kirkjulistahátíðar Hallgrímskirkju og hlustaði á Matteusarpassíu eftir Trond Kverno, sem dómkórinn í Ósló og einsögvarar fluttu en Terje Kvam stjórnaði.

Föstudagur, 26. 08. 05. - 26.8.2005 10:07

Ritaði minningargrein í Morgunblaðið á útfarardegi Guðmundar Benediktssonar og var meðal líkmanna í jarðarför hans klukkan 11.00 í Dómkirkjunni, en séra Þórir Stephensen jarðsöng.

Fimmtudagur, 25. 08. 05. - 25.8.2005 20:15

Í samráði við mig hefur Margeir St. Ingólfsson hjá Hugsmiðjunni breytt útliti vefsíðunnar og hleypt henni á vefinn í nýjum búningi í dag. Með breytingunni verður dagbókin meira áberandi en áður og kann ég að fara að nota hana til að segja frá fleiru en því, sem á daga mína drífur.

*

Flaug klukkan 07.45 til Ísafjarðar, þar sem þingflokkur sjálfstæðismanna hittist.

Fórum til Bolgunarvíkur og snæddum morgunverð með bæjarfulltrúum sjálfstæðismanna.

Heimsóttum sjúkrahúsið á Ísafirði, fyrirtækið 3Xstál, þróunarsetrið og háskólasetrið.

Snæddum hádegisverð með bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði.

Funduðum á hótelinu og var rætt um fjárlagafrumvarp komandi árs eins og venja er á sumarfundum þingflokksins. Til að unnt sé að leggja frumvarpið fram í upphafi þings, þurfa þingflokkar ríkisstjórnarinnar að veita henni grænt ljós til þess um þetta leyti árs.

Ég hélt heim með vél klukkan 18. 20.

Miðvikudagur, 24. 08. 05. - 24.8.2005 15:47

Flutti í hádeginu erindi um hryðjuverk í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur.

Mánudagur, 22. 08. 05. - 22.8.2005 15:46

Var klukkan 09.45 á Bessastöðum, þar sem tekið var á móti Vaclav Klaus, forseta Tékklands, og konu hans. Í stuttu samtali okkar gladdist hann yfir því, að ég rifjaði upp, að daginn áður, 21. ágúst voru 37 ár liðin, frá því að sovéski herinn var sendur inn í Tékkóslóvakíu til að kæfa vorið í Prag, eins og frelsisbylgjan um landið var nefnd. Hann sagðist einmitt hafa tekið þátt í minningarathöfn um þennan atburð, áður en hann hélt til Íslands.

Síðdegis hlustaði ég á erindi sem þeir fluttu á Mont Pelerin ráðstefnunni í hótel Nordica: Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Bent Jensen, prófessor frá Kaupmannahöfn, og Vaclav Klaus um það, hvernig menntamenn létu glepjast af kommúnismanum og hvers vegna auk þess sem Klaus varaði við því, hvernig fólk með sama hugsunarhátt er að nota ýmiss konar málefni og samtök til að koma ár sinni fyrir borð og takmarka frelsi annarra.

Sunnudagur, 21. 08. 05. - 21.8.2005 15:40

Fór klukkan 17.00 í Hallgrímskirkju og hlýddi á Matteusarpassíuna undir stjórn Harðar Áskelssonar. Mér þótti ég kannast við mann á fremsta bekk og þegar betur var að gáð sat þar Lord Archer, sá frægi rithöfundur og stjórnmálamaður í Bretlandi, ásamt konu sinni. Ég heilsaði þeim í lok tónleikanna og létu þau í ljós hrifningu með flutninginn.

Laugardagur, 20. 08. 05. - 20.8.2005 15:37

Fór klukkan 16.00 og var við setningu kirkjulistarhátíðar Hallgrímskirkju, þar sem ég flutti ávarp.

Föstudagur, 19. 08. 05. - 19.8.2005 14:39

Var klukkan 13. 30 í Þjóðmenningarhúsinu og flutti ræðu á sendiherrastefnu, það er fundi íslenskra sendiherra á vegum utanríkisráðuneytisins.

Miðvikudagur, 17. 08. 05. - 17.8.2005 14:37

Viðtöl fyrir hádegi eins og venjulega á miðvikudögum.

Flutti um kvöldið stutta ræðu yfir norrænum lögfræðingum um lög og lýðræði.

Föstudagur, 12. 08. 05. - 12.8.2005 22:51

Klukkan 09.00 hitti ég Hans Jesper Helsö, yfirmann danska heraflans, og Haakon Syrén, yfirmann sænska heraflans, og aðstoðarmenn þeirra. Þeir heimsóttu mig í ráðuneytið, þegar þeir áttu hér stutta viðdvöl á leið sinni til Danmerkur frá Grænlandi.

Klukkan 10.00 var ríkisstjórnarfundur og þar var ákveðið að við Árni Magnússon félagsmálaráðherra skyldum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar leiða starf við endurskoðun á stjórnarráðslögum og stjórnsýsluskipan ráðuneyta. 

Fimmtudagur, 11. 08. 05. - 11.8.2005 22:44

Hélt klukkan 08.00 fljúgandi ásamt embættismönnum úr dóms- og kikrjumálaráðuneytinu austur á Egilsstaði. Þar tókum við bíl á leigu og ókum að Kárahnjúkum, þar sem við hittum sýslumann og yfirlögregluþjón og síðan stjórnendur Impregilio og Landsvirkjunar á svæðinu. Ræddum við á um öryggismál og dvalarleyfi útlendinga og skoðuðum síðan stíflugerðina. Mannvirkin eru einstök og með ólíkindum að sjá umsvifin á svæðinu og fá lýsingu á þeim.

Ókum síðan til þeirra, sem vinna að því að koma túrbínunum fyrir inni í fjallinu skammt frá Valþjófsstað. Ókum um einn km inn í fjallið og sáum gímaldið fyrir sex túrbínur, sem eiga að verða í stöðvarhúsinu, en það er um 40 metra hátt eða eins og 10 hæða blokk. Við sáum ekki rúmlega 400 metra fallgöngin, sem starfsmenn Slippstöðvarinnar á Akureyri eru að klæða með stálhólki. Þetta hlýtur að vera ótrúlega erfitt og vandasamt verk, en eitthvað hefur það tafist vegna skorts á mannafla, en Slippstöðin er á höttunum eftir málmiðnaðarmönnum í Póllandi og Þýskalandi.

Ókum niður á Reyðarfjörð og hittum þar sýslumann og lögreglumenn. Eftir fund með þeim héldum við á svæðið, þar sem starfsmenn Bechtel eru að reisa álverið fyrir Alcoa. Ræddum við yfirmenn framkvæmdanna um öryggismál og dvalarleyfi. Bechtel leggur áherslu á að ráða Pólverja til starfa hjá sér, ef engir Íslendingar eru tiltækir. Impregilio á Kárahnjúkum er með rúmlega 400 Kínverja, Pakistani, Portúgali og fleiri þjóða menn eða alls frá meira en 40 löndum. Byggingarframkvæmdirnar við álverið eru á áætlun og eru einnig svo stórar í sniðum, að maður á erfitt að skynja eða skilja umfangið.

Á leiðinni á flugvöllinn litum við inn á lögreglustöðina á Egilsstöðum og ræddum við lögreglumenn á vakt.

Mér er óskiljanlegt, hvers vegna Egill Helgason og ýmsir aðrir, sem hafa að atvinnu að segja álit sitt á atburðum líðandi stundar, skuli mikla fyrir sér, að lögregla fylgist með þeim, sem hafa að markmiði að trufla framkvæmdir við Kárahnjúka og á Reyðarfirði. Sem betur fer eiga slík viðhorf ekki hljómgrunn meðal almennings.

Það er verkefni lögreglunnar að halda uppi lögum og reglu og bregðast við í samræmi við atvik hverju sinni. Ef hún fylgist ekki með þeim, sem kjósa skemmdarverk í stað umræðna, gera þeir sér lítið fyrir í skjóli myrkurs og mála slagorð sín á Alþingishúsið eða stöpulinn á styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli.

Miðvikudagur, 10. 08. 05. - 10.8.2005 22:20

Var síðdegis á fundi að Breiðabólstað í Fljótshlíð með séra Önundi Björnssyni sóknarpresti og Óskari Magnússyni, formanni sóknarnefndar. Var fundurinn haldinn í tilefni af hvatningu minni í ræðu 17. júní, að árið 2007 yrði þess minnst á verðugan hátt, að 200 ár verða liðin frá fæðingu séra Tómasar Sæmundssonar, prófasts á Breiðabólstað og Fjölnismanns.

Þriðjudagur, 09. 08. 05. - 9.8.2005 21:58

Skrapp síðdegis upp að Hrísbrú í Mosfellsdal og þar sýndi Jesse Byock mér þann einstæða árangur, sem náðst hefur við fornleifarannsóknir undir hans stjórn.

Föstudagur, 05. 08. 05. - 5.8.2005 21:54

Ríkisstjórnin kom saman kl. 14.30 til að taka lokaákvörðun um sölu Símans.

Fimmtudagur, 04. 08. 05. - 4.8.2005 21:52

Flugum klukkan 13.20 frá Trieste með Futura á vegum Heimsferða og lentum á Íslandi 04.40 tímum síðar eða um klukkan 16.00 á íslenskan tíma eftir mjög þægilegt og gott flug.