30.8.2005 18:00

Þriðjudagur, 30. 08. 05.

Var klukkan 14.00 á Keflavíkurflugvelli og kynnti mér það, sem er að gerast á æfingu við að eyða sprengjum undir forystu starfsmanna Landhelgisgæslu Íslands með þátttöku sérþjálfaðra manna frá Bretlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Var greinilegt af samtölum við hina erlendu þátttakendur, að þeir meta mikils að geta tekið hér þátt í æfingum af þessu tagi.

Sé í DV að hinir siðavöndu blaðamenn þar leggja þannig út af dagbókarfærslu minni í gær: „Björn telur að blogg sé ekki opinber vettvangur heldur eitthvað prívat hólf á alheimsnetinu þar sem menn eru ekki ábyrgir orða sinna.“ Mér er óskiljanlegt, hvernig draga má þessa ályktun af orðum mínum. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar, að menn séu ábyrgir orða sinna á netinu og hef hvað eftir annað gagnrýnt hugleysingjana á malefni.com, sem vega að fólki úr launsátri en þora ekki að gera það undir nafni. Mér finnst hins vegar umhugsunarvert, hvort ekki hafi verið of langt gengið að segja manni upp fréttamannsstarfi fyrir að tala ógætilega á vefsíðu sinni.

Í DV fjallar Jónas Kristjánsson ritstjóri um tvo nýja úrskurði siðanefndar Blaðamannafélags Íslands gegn DV. Ritstjórinn segir í lok umfjöllunar sinnar: „DV mun fara eftir siðareglum sínum, þótt þær stangist í þessu atriði á við siðareglur Blaðamannafélagsins, sem er arfur frá vesælli tímum í blaðamennsku á Íslandi fyrir fjórum áratugum.“ Hvað ætli sami ritstjóri mundi segja, ef ráðherra ætlaði að fara að eigin reglum en ekki annarra, til dæmis lögum? Ætli Jónas mundi ekki öskra: Fasisti! Fasisti!