Dagbók: ágúst 2007

Föstudagur, 31. 08. 07. - 31.8.2007 22:39

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, ritar grein í Morgunblaðið í dag og skammar Gabriel Stein, sérfræðing og ráðgjafa frá London, fyrir skoðanir hans á ESB-aðild Íslands. Stein taldi hana fráleita á ráðstefnu um galdmiðla og alþjóðavæðingu, sem RSE hélt á dögunum. Andrés segir:

„Gabriel Stein sagði að Ísland yrði dregið fyrir Evrópudómstólinn vegna útilokunar annarra landa frá fiskimiðunum hér við land og dómstóllinn myndi að sjálfsögðu dæma Íslendingum í óhag. Þar með myndu íslensku fiskimiðin fyllast af spænskum og portúgölskum togurum. Þetta er gömul bábilja sem andstæðingar Evrópusambandsaðildar hafa lengi haldið á lofti þar til að þetta var endanlega hrakið í skýrslu Evrópunefndar Alþingis sem kom út í vor. Þar kemur skýrt fram að reglan um hinn svokallaða ,,hlutfallslega stöðugleika" er einn af hornsteinum sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Samkvæmt henni fengju aðeins íslensk fiskveiðiskip kvóta hér við land og þetta hefur verið staðfest bæði af fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og fulltrúum Evrópudómstólsins. “

Það er rangt hjá Andrési, að nokkuð af því, sem Gabriel Stein sagði um þetta efni sé hrakið í skýrslu Evrópunefndar. Þar er alls ekkert fjallað um þá skoðun Steins, að litlu skipti, þótt Íslendingar teldu sig hafa fengið einhver sérkjör í fiskveiðum í aðildarsamningi við ESB. Annarra þjóða menn t.d. Spánverjar eða Portúgalir myndu einfaldlega kæra þessa niðurstöðu til Evrópudómstólsins, sem myndi á grundvelli jafnræðisreglu fella sérkjörin úr gildi.

Stein byggir skoðun sína á dómum, sem fallið hafa um slík sérkjör og afnám þeirra. Evrópunefndin ræddi það mál ekki og þess vegna er óvarlegt fyrir Andrés að skjóta sér á bakvið skýrslu hennar í þessu efni. Auk þess snýst túlkun Andrésar á reglunni um „hlutfallslegan stöðugleika“ aðeins um hluta þess, sem lagt yrði á íslenskan sjávarútveg með ESB-aðild.

Evrópuumræður í þeim tón, sem einkennir skrif Andrésar Péturssonar, skila litlum árangri, þær minna meira á kveinstafi en rökræður.

Fimmtudagur, 30. 08. 07. - 30.8.2007 22:24

Í hádeginu hitti ég sendinefnd frá Færeyjum undir forystu færeyska dómsmálaráðherrans með þátttöku fulltrúa allra þingflokka í Færeyjum og embættismanna. Hópurinn kom hingað til að fræðast um útlendingalöggjöfina og hvernig staðið er að því að veita útlendingum atvinnuleyfi.

Mér þótti broslegt að sjá Dag B. Eggertsson, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, telja til stórtíðinda, að hugmyndir væru um að breyta Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í opinbert hlutafélag. Á sínum tíma barðist samfylkingarfólk í borgarstjórn fyrir þessari skipan en komst ekki  framhjá vinstri/grænum, sem haga sér eins og naut fyrir framan rauða dulu, þegar þeir heyra minnst á hlutafélag um opinberan rekstur. Ætlar Dagur virkilega að beita sér gegn þessari breytingu á OR? Eða er hann bara svona æstur, af því að hann telur ekki rétt staðið að dreifingu fundargagna til sín?

Miðvikudagur, 29. 08. 07. - 29.8.2007 18:48

Var í dag í heimsókn hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og sat fundi um vöxt, þróun og eflingu þessa stóra og margþætta embættis undir stjórn Jóhanns R. Benediktssonar.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er vikið að svari mínu hér á síðunni mánudaginn 27. ágúst við spurningu í Staksteinum þann sama dag. Í Staksteinum segir að þessu sinni:

„Af þessu svari má ráða, að dómsmálaráðherra dragi lagaþekkingu Staksteina í efa. Allavega sýnist hann ekki telja Staksteina í hópi "framsækinna" túlkenda á lögum. Hvað skyldi annars felast í orðinu "framsækinn" í þessu samhengi?!“

Síst af öllu vakti fyrir mér að efast um lagaþekkingu Staksteinahöfundar. Hér á síðunni hef ég gagnrýnt framsækna lögskýringu. Í ræðu, sem ég flutti hinn 23. september 2003 sagðí:

„Texta íslensku laganna á að túlka samkvæmt slíkum almennum reglum en innan mannréttindadómstólsins [Evrópu] láta menn ekki við það eitt sitja að dæma eftir orðum mannréttindasáttmálans heldur taka, eins og við vitum, sér jafnframt fyrir hendur að skýra og geta sér til um, hvernig þessum orðum yrði hagað við núverandi aðstæður, og túlka síðan ákvæði sáttmálans í samræmi við það. Er þetta gjarnan gert á þeirri forsendu, að sáttmálinn sé það, sem menn kalla „lifandi texti.““

Taldi ég varasamt að standa þannig að túlkun á lögum og áréttaði það í pistli hér á vefsíðu minni 24. október 2004 með þessum orðum:

„Ég hef ekki skipt um skoðun um svonefnda framsækna lögskýringu, eftir að hafa hlustað á ræður á málþinginu um EFTA-dómstólinn, en þar var staðfest, að hið sama á við um hann og aðra Evrópudómstóla, að þar er viðleitni til að smíða réttarreglur, telji dómarar það nauðsynlegt.“

Sé svar mitt til Staksteina lesið með þessa vitneskju í huga, má draga þá ályktun, að í raun sé ég sammála höfundinum um túlkun hans á lögum en sú skoðun megi sín lítils sé lokaorðið hjá dómurum, sem aðhyllast framsækna skýringu á lögum.

 

Þriðjudagur, 28. 08. 07. - 28.8.2007 21:58

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun kynnti ég tillögu til handhafa forsetavalds, Geirs H. Haarde, Gunnlaugs Claessens og Sturlu Böðvarssonar um, að þeir skipuðu dr. Pál Hreinsson, forseta lagadeildar Háskóla Íslands, hæstaréttardómara. Þegar undirskrift Sturlu Böðvarssonar, forseta alþingis, hafði verið fengin um kl. 16.30, en hann fundaði með forsætisnefnd þingsins í Stykkishólmi, var send út tilkynning um skipunina.

Lögum samkvæmt ber að kynna allar tillögur til forseta Íslands eða handhafa forsetavalds í fjarveru hans í ríkisstjórn. Hér er um formsatriði að ræða og fara ekki fram efnislegar umræður um efni tillögunnar, enda er hún flutt á ábyrgð viðkomandi ráðherra og verður ekki breytt af öðrum en honum. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald, þar sem sest er á rökstóla um tillögur af þessu tagi.

Helgi Jóhannesson, formaður Lögmannafélags Íslands, sagði í útvarpsviðtali í morgun, að hann teldi það utan við verksvið hæstaréttar að hafa afskipti af skipan manna í réttinn með því að veita ráðherra umsögn - þar væri um stjórnsýsluathöfn að ræða. Taldi hann skynsamlegra að þriggja manna nefnd skipuð fulltrúum dómstólaráðs, lögmanna og alþingis veitti ráðherra umsögn um skipan í embætti hæstaréttardómara.

Ég hef sagt á alþingi, að huga mætti að annarri aðferð við að komast að niðurstöðu um val á dómurum í hæstarétt, en þó yrði lokaákvörðun alltaf að vera í höndum ráðherra, sem bæri hina pólitísku ábyrgð.

Mánudagur, 27. 08. 07. - 27.8.2007 18:44

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag segir:

„Í Morgunblaðinu í gær var skýrt frá því að Hæstiréttur hefði skilað inn umsögnum um hæfi og hæfni umsækjenda um lausa dómarastöðu við Hæstarétt. Dómsmálaráðherra staðfesti við Morgunblaðið að slík umsögn hefði borizt.

Að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins telur meirihluti réttarins að þrír umsækjendur séu hæfastir. Tveir dómarar skila séráliti og telja að rétturinn hafi enga heimild til að raða umsækjendum í hæfnisröð og telja alla umsækjendur hæfa. Einn dómari telur að fjórði umsækjandinn sé jafnhæfur og hinir þrír.

Samkvæmt texta laganna á Hæstiréttur að veita umsögn um hæfi og hæfni umsækjenda. Í lögunum segir ekki að rétturinn eigi að raða umsækjendum í röð eftir því hver eða hverjir séu hæfastir að mati réttarins.

Hvað gerist nú ef Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tæki upp á því að endursenda bréf dómaranna og óskaði eftir því, að umsögnin yrði í samræmi við íslenzk lög?

Er ekki nauðsynlegt að draga línuna einhvers staðar og er betra tækifæri til þess en einmitt nú þegar rétturinn fjallar um nýja umsækjendur?

Það er svo önnur saga, að Morgunblaðið hefur lýst þeirri skoðun, að þessu fyrirkomulagi eigi að breyta. Dómararnir sjálfir eigi ekki að fjalla um eftirmann þess, sem lætur af störfum.

Sendir Björn svona bréf?“

Svarið er: Ég endursendi ekki bréf dómaranna. Niðurstaða þeirra um efni laga vegur þyngra en höfundar Staksteina. Framsækin túlkun dómara á lögum er ekki óþekkt hér frekar en annars staðar.

Sunnudagur, 26. 08. 07. - 26.8.2007 18:12

Var klukkan 09.20 í stjórnstöðinni við Skógarhlíð og hitti þá, sem stjórnuðu leit af tveimur þýskum ferðamönnum á Öræfajökli. Leitin var mjög umfangsmikil og var björgunarsveitin á Höfn í Hornafirði leiðandi við hana en kallað var á hæfustu fjalla- og björgunarmenn af öllu landinum alls 131. Lögreglan á Eskifirði mat aðstæður í tjöldum mannanna. Þar fannst miði með dagsetningum og fjölda klukkustunda, sem talið er, að sýni göngustundir hvern dag. Þar er dagurinn 1. ágúst skráður en enginn tímafjöldi. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafði yfirumsjón og stjórnstöðvarbíll með mönnum var sendur frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í Reykjavík. Stjórnendur sögðu aðstoð þyrla landhelgisgæslunnar hafa verið ómetanlega og TETRA-fjarskiptakerfið hefði reynst vel, meðal annars til að ferilvakta björgunarmenn bæði úr færanlegu stjórnstöðinni og úr Skógarhlíð. Þjóðverjarnir eru taldir látnir og leit er hætt.

Um hádegisbil fór rúta með 31 um borð, erlenda starfsmenn Arnarfells, út af veginum í Bessastaðabrekku í Fljótsdal. Þegar tilkynnt var um slysið hófst viðamikil björgunaraðgerð undir yfirstjórn stöðvarinnar við Skógarhlíð, sem nú var mönnuð fulltrúum heilbrigðiskerfisins, enda reyndi mjög á það í öllum viðbrögðum við greiningu og móttöku á 15 slösuðum farþegum, sem fluttir voru undir læknishendur til Egilsstaða, Neskaupstaðar, Reykjavíkur og Akureyrar, en tvær þyrlur landhelgisgæslunnar, Eir og Gná, komu þar við sögu auk fokkersins, Syn og flugvéla frá Akureyri og Flugfélagi Íslands í Reykjavík. Þá var opnuð fjöldahjálparstöð á vegum Rauða krossins á Egilsstöðum með sérstöku símanúmeri fyrir aðstandendur erlendis.

Skömmu áður en björgunaraðgerðir vegna rútuslyssins hófust hafði borist tilkynning um að erlendrar konu væri saknað í Kverkfjöllum. Voru björgunarsveitir kallaðar á vettvang með leitarhundum. Var ákveðið, að þyrlur landhelgisgæslunnar sneru til leitar að konunni, eftir að hafa lokið hlutverki sínu á Fljótsdal. Í þann mund, sem þær komu á vettvang, eða rúmlega 16.00 hafði skálavörður í Sigurðarskála fundið konuna heila á húfi.

Það var því mikið um að vera hjá björgunarmönnum, lögreglu, landhelgisgæslu og heilbrigðisstarfsfólki í dag og enn sannaðist, hve skjótt og vel tugir ef ekki hundruð manna bregðast við með skömmum fyrirvara og leggja mikið á sig til hjálpar öðrum.

Auk þess sem að ofan er getið kviknaði eldur að meðferðarheimilinu Stuðlum og björguðu reykkafarar þar tveimur stúlkum. Þá varð mannmargur árekstur í Hvalfjarðargöngum.

Laugardagur, 25. 08. 07. - 25.8.2007 10:55

Yfirlýsing Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að ekki verði veitt leyfi til hvalveiða, ef ekki tekst að finna markað fyrir hvalkjötið, hefur vakið mikla athygli víða um heim. Hér má lesa frásögn The Daily Telegraph.

Í sumarbyrjun bárust fréttir um að Paul Watson, leiðtogi Sea Shepherd-samtakanna, væri á leið til Íslandsmiða í sumar á skipi samtakanna Farley Mowat til að hindra hvalveiðar. Nú er skipið hins vegar á Bermuda-eyjum samkvæmt frétt samtakanna, þar sem sagt er, að nú sé verið að búa það undir átök á Norður-Atlantshafi á næsta ári.

Í frétt frá Sea Shepherd-samtökunum í gær, eftir að yfirlýsing sjávarútvegsráðherra lá fyrir, segir, að þau muni ekki senda Farley Mowat á Íslandsmið á næsta ári en þó vera á nálægum slóðum til að halda Íslendingum við efnið.

Frétt Sea Shepherd einkennist af þeim hálfsannleika og ósannindum, sem setja svip sinn á málflutning Pauls Watsons. Hann segir um söluna á hvalkjötinu: „In other words, Icelanders will not eat the meat because it's poison, but they have no qualms about selling poisoned meat to the Japanese.“

Paul Watson segist í frétt Sea Shepherd-samtakanna hafa komið til Íslands 1988 til að láta ákæra sig fyrir skemmdarverk á hvalbátum 1986 í Reykjavíkurhöfn.

Hér er frásögn Morgunblaðsins frá 21. janúar 1988 af því hvernig Watson boðaði komu sína til landsins. Hann var handtekinn um leið og hann steig á land á Keflavíkurflugvelli og fluttur til yfirheyrslu hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Hér er frásögn Morgunblaðsins frá 23. janúar 1988, þegar lýst er brottvísun Watsons. Jón Sigurðsson, síðar bankastjóri Norræna fjárfestingabankans, var dómsmálaráðherra á þessum tíma.

Hér má sjá, hvernig skrifað er um Nicolas Sarkozy í The New Yorker.

Föstudagur, 24. 08. 07. - 24.8.2007 21:09

Nú hefur verið skýrt frá því að Hugo Chávez, einræðisherra í Venezúela, hafi ákveðið að færa klukkuna fram um hálftíma. Hann skýrði frá þessu í vikulegu sunnudagsspjalli sínu í sjónvarpi, en þar flytur hann ræður í allt að sex klukkustundir í lotu að fordæmi Fidels Castrós.

Chávez tengdi klukkubreytinguna við ákvörðun sína um sex klukkustunda vinnudag á næsta ári. Hann telur, að stytting vinnudagsins auki framleiðni og breytingin á klukkunni falli betur að líkamsklukku íbúa Venezúela, enda ráðist heilastarfsemin af sólarljósinu.

Líklegt er, að Chavés telji þessar ráðstafanir sínar auka stuðning í Venezúela við þau áform sín að sitja á forsetastóli um ótakmarkaðan tíma og hrinda í framkvæmd „sósíalisma 21. aldarinnar“ eins og hann kallar stefnu sína.

Fimmtudagur, 23. 08. 07 - 23.8.2007 11:13

Klukkan 14.30 var ég í lögreglustöðinni í Reykjavík og ritaði þar undir samkomulag með þeim Þórarni Tyrfingssyni, forstöðumanni SÁÁ, og Jóni H. B. Snorrasyni, aðstoðarlögreglustjóra, um móttöku SÁÁ á áfengis- og fíkniefnaneytendum.

Klukkan 16.10 var ég á hótel Nordica og hlýddi þar á erindi á ráðstefnu RSE um alþjóðavæðingu og gjaldmiðla. Þar kom fram á afdráttarlausan hátt, að unnt er að skipta á íslensku krónunni og evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Gengur þetta þvert á upplýsingar, sem okkur voru gefnar í Evrópunefndinni og endurpeglast í skýrslu okkar. 

Gabriel Stein, sem starfar við hagfræðirannsóknir í London, hvatti eindregið til þess á ráðstefnunni að Íslendingar stæðu utan ESB. Hann er raunar síður en svo sannfærður um, að skynsamlegt sé fyrir okkur að falla frá íslensku krónunni. Telur að rannsaka þurfi og ræða málið meira en gert hefur verið, áður en ákvörðun af því tagi verður tekin.

 

Miðvikudagur, 22. 08. 07. - 22.8.2007 21:55

Fórum í heimsókn í útbúi Fiskistofu á Höfn og kynntum okkur síðan humarhótelið, áður en við ókum til Reykjavíkur. Vorum um fimm og hálfan tíma á akstri.

Þriðjudagur, 21. 08. 07. - 21.8.2007 21:49

Jakarnir voru óvenju stórir og þéttir í lóninu á Breiðamerkursandi. Fjöldi ferðamanna var mikill.

Litum inn á Þórbergssetri í Suðursveit og skoðuðum sýninguna þar okkur til fróðleiks og ánægju. Þorbjörg Arnórsdóttir veitti okkur leiðsögn um hluta sýningarinnar og miðlaði okkur af þekkingu sinni.

Renndum í gegnum jarðgöngin í Almannaskarði, en þau eru mikil samgöngubót á hringveginum.

Vorum á Höfn um hádegisbil. Þingflokkur sjálfstæðismanna kom þar saman til fundar klukkan 15.00.

Mánudagur, 20. 08. 07. - 20.8.2007 21:44

Ókum að Litla Hofi í Öræfum og nutum þar bændagistingar.

Athygli vakti hve mörg ökutæki voru á ferðinni frá Ítalíu, röð húsbíla og raunar bílar af öllum gerðum.

Sunnudagur, 19. 08. 07. - 19.8.2007 23:00

Forsíðufrétt Morgunblaðsins er um, að melantónín eigi að verða aðgengilegt Íslendingum gegn lyfseðli innan tíðar. Um langt árabil hefur verið unnt að kaupa melantónin í fæðubótarbúðum í Bandaríkjunum og á flugvöllum, þar sem efnið er talið gott til að sigrast á tímamun á ferðalögum.

Hér hefur einnig verið bannað að kaupa öflug bandarísk fæðubótarefni eins og V-75 eða V-2000 frá hinu virta bandaríska fyrirtæki Solgar. Skyldi verða heimilt að kaupa þessi efni hér? Þau eru til sölu á evrópska efnahagssvæðinu - án lyfseðils.

Laugardagur, 18. 07. 08. - 18.8.2007 19:25

Óneitanlega er dálítið skringilegt, að hlusta á Stefán Pálsson, málsvara hernaðarandstæðinga, kvarta undan því, að Rússar séu teknir til við að haga sér eins og á tímum kalda stríðsins með því að senda sprengjuþotur út á Kyrrahaf og Norður-Atlantshaf.

Ef einhver spilar hér sömu plötu og á tíma kalda stríðsins er það einmitt Stefán sjálfur, sem vildi helst, að löggann lumbraði á sér í tilefni menningarnætur - það yrði hans bónus í dag, af því að löggann hefði gert það í kalda stríðinu!

Þegar rætt er um ákvarðanir á borð við þá, að Rússar hafi ákveðið að hefja úthafsflug sprengjuvéla á ný, er fráleitt að líta tvo áratugi til baka og meta flugið með vísan til þess tíma. Ákvörðunina á að meta í ljósi framvindu alþjóðastjórnmála og hermála líðandi stundar. Hún bendir til þess, að Rússar ætli í krafti olíuauðs að gera sig meira gildandi á alþjóðavettvangi. Spyrja á: Hver er tilgangurinn með því?

Föstudagur, 17. 08. 07 - 17.8.2007 11:07

Í Listasafni Árnessýslu í Hveragerði er skemmtileg málverkasýning með fjallamyndir Ásgríms Jónssonar að uppistöðu en samtímalistamenn koma einnig við sögu. Listastafnið er í húsi, sem Einar Hákonarson reisti af miklum stórhug til listsýninga.

Við litum inn á sýninguna á leið í Skálholt, þar sem við hlýddum kl. 19.00 á frumflutning á Íslandi á óratoríunni Ísrael úr Egyptalandi eftir Händel. Hörður Áskelsson stjórnaði Schola Cantorum og alþjóðlegri barokkhljómsveit ásamt einsöngvurum við mikla hrifningu áheyrenda.

Vladimír Pútin Rússlandsforseti tilkynnti í dag, að hann hefði gefið fyrirmæli til rússneska hersins um að hefja að nýju langflug Blackjack og Bear sprenguvéla, sem geta borið kjarnokruvopn, yfir úthöfin. Sagt var frá því, að þrír hópar flugvéla hefðu verið sendir af stað út á Kyrrahaf, Norður-Atlantshaf og yfir Norðurpólinn.

Olíuauður Rússa gerir þeim kleift að setja hervél sína af stað á nýjan leik til að gera sig meira gildandi á alþjóðavettvangi. Þótt greinilega hafi verið þurrkað rykið af gömlum æfingaskrám spengjuvélanna, verður að vænta þess, að ekki vaki fyrir Rússum að draga til dæmis úr öryggi farþegaflugvéla á íslenska flugstjórnarsvæðinu.

Sagt var frá því, að Norðmenn og Bretar hefðu sent orrustuvélar til móts við rússnesku sprengjuvélarnar í nágrenni Íslands.

Fimmtudagur, 16. 08. 07. - 16.8.2007 8:38

Að óreyndu mætti ætla, að hagfræðiprófessor með fastan dálk í dagblaði, teldi sér um þessar mundir bera að upplýsa lesendur sína um þróun alþjóðlegra fjármála og áhrif hennar í eigin landi. Þetta á þó ekki við um prófessor Þorvald Gylfason, dálkahöfund Fréttablaðsins. Í dag og fyrir viku ræðir hann í dálki sínum leiðir til að draga úr næturómenningu í Reykjavík um helgar. Hann telur það helst til framfara í því efni, að ég hætti sem dómsmálaráðherra og segir meðal annars í grein sinni í dag:

„Ég hef spurt þingmenn um málið. Þeir segja mér, að það taki því ekki að flytja vantraust á dómsmálaráðherrann, því það sé löngu ákveðið, að hann verði innan tíðar gerður að sendiherra. Þannig sæta menn ábyrgð á Íslandi.“

Fróðlegt væri, að Þorvaldur upplýsti við hvaða þingmenn hann hefur rætt í því skyni að fá þá til að flytja tillögu um vantraust á mig. Ég tala nú ekki um, ef þeir hafa ákveðið, að ég verði sendiherra. Af minni hálfu standa slík vistaskipti alls ekki fyrir dyrum - snúi ég mér að öðru eftir næstu kosningar, kynni það til dæmis að vera kennsla í háskóla.

Á sínum tíma skýrði Þorvaldur frá því í dálki sínum, að hann byggi yfir mikilvægri vitneskju um Baugsmálið eftir samtal við sessunaut sinn í millilandaflugvél. Hann sagðist þó sem blaðamaður (svo!) ekki geta sagt, hver heimildarmaður sinn væri. Það er því borin von, að Þorvaldur skýri frá því, hvaða þingmenn eru að dæla í hann röngum upplýsingum um framtíð mína.

Fyrir kosningar hvatti Jóhannes Jónsson kaupmaður kjósendur til að halda mér utan alþingis vegna verks, sem ég hafði ekki unnið. Nú segir Þorvaldur Gylfason ekki verða flutt vantraust á mig að sinni ósk vegna starfs, sem ég tek ekki að mér.

Ætli prófessorinn trúi því virkilega, að þetta framlag hans til umræðna um lögreglumál, bæti ástandið í miðborg Reykjavíkur?

Fór klukkan 10.00 um borð í skipið Logos II í Reykjavíkurhöfn, en það er hingað komið með bókamarkað og til að boða kristna trú.

Miðvikudagur, 15. 08. 07. - 15.8.2007 18:53

Gunnlaugur Júlíusson heldur úti vefsíðu, þar sem hann fræðir lesendur um langhlaup og aðrar þrekraunir. Hann ræðir einnig ýmislegt annað eins og hér má sjá:

„Það var skrítið fréttamatið hjá Kastljósi sjónvarpsins nýlega. Einhver stelpa sem hafði verið dæmd fyrir ólöglegt athæfi við vinnubúðir Alcoa á Reyðarfirði vildi heldur sitja inni í fjóra daga en borga 50 þúsund kall í sekt. Sýndur var mikill langhundur um hennar hlið málsins í Kastljósi eins og hún væri einhver píslarvottur og hinar ólöglegu gerðir hennar rétlættar eins og hægt var. Í myndskeiðum sem tekin voru var m.a. reynt að lítillækka lögregluna og gera hana tortryggilega. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem sjónvarpið er á þeim nótum. Mega allri þeir sem dæmdir verða fyrir ólöglegt athæfi í þjóðfélaginu búast við að sjónvarpið veiti þeim slíkan stuðning eða hvað er þetta eiginlega. Er sjónvarpið komið í krossferð í þessum málum?“

Stefán Pálsson, málsvari hernaðarandstæðinga, ætlar að rölta um borgina á menningarnótt. Hann væntir að sjálfsögðu mikils af deginum og segir við Fréttablaðið í dag: „Það væri óvæntur bónus ef löggan lumbrar á okkur eða sprautar á okkur táragasi en ég býst við að hún verði upptekin við önnur störf.“

Páll Baldvin Baldvinsson ritar ekki vinsamlega um lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í leiðara Fréttablaðsins í dag, telur hana ekki blanda nóg geði við fólk. Hvort hann telur bónus við ferð um miðborgina að löggan lumbri á honum, kemur ekki fram. Egill Helgason vill að lögreglan sé í flokkum meðal fólks við næturskemmtun sína, líklega svo að hún sé betur í stakk búinn til að lumbra á fólki.

Jónas Kristjánsson segir: „Miðbærinn í Reykjavík er eini miðbær evrópskra höfuðborga, sem er undirlagður óðum skríl um nætur og morgna.“Í sömu mund berast fréttir frá Danmörku um, að lögregla þar sé með málmleitartæki til að finna hnífa á næsturskríl í borgum þar. Breskir lögreglumenn hvetja til þess, að verð á áfengi sé hækkað þar í landi og áfengiskaupaaldur í 21 ár til að hafa hemil á drykkjuskríl í borgum í Bretlandi.

Víðar en hér er vandasamt að tryggja öryggi vegna skríls- og drykkjuláta. Gagnaðgerðir taka mið af aðstæðum á hverjum stað.


Þriðjudagur, 14. 08. 07. - 14.8.2007 21:12

Viðbrögð við grein Stefán Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, bera með sér, að erfitt geti verið að finna leiðina til að hreinsa ómenningarsvip af helgarnóttum í miðborginni. Þau rök heyrast fyrir óbreyttu ástandi, að yfir miðborgarlífinu sé svo skemmtilegur blær eða ástandið höfði sérstaklega til ferðamanna - borgin hafi verið markaðssett undir þessu flaggi. Skyldu margir hætta við að heimsækja Reykjavík, ef stuðlað yrði að meira öryggi og hreinlæti í miðborginni? Yrði borgarbragurinn fyrir miklum hnekki, ef umgengni batnaði?

Stefán Pálsson, talsmaður hernaðarandstæðinga, saknaði helst lögreglunnar, þegar hann og nokkrir félagar hans þrömmuðu milli sendiráða í dag til að mótmæla æfingunni Norðurvíkingur. Ætli þeir hafi þráð að lenda í útistöðum við einhvern í nafni friðar?

Í Kastljósinu var látíð í það skína, að sekt fyrir akstur á 140 km hraða væri eitthvað sérstök, vegna þess að Blönduóslögreglan ætti í hlut. Brot af þessu tagi leiðir til hárrar sektar og annarra lögboðinna afleiðinga. Blönduóslögreglan fór einfaldlega að lögum í þessu máli eins og embættismenn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem að því komu. Er það kannski til marks um efnisþurrð, að rætt sé sérstaklega, þegar lögregla og embættismenn fara að lögum?

Mánudagur, 13. 08. 07. - 13.8.2007 21:36

Grein Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í Morgunblaðinu í dag um nauðsyn samhentra og ábyrgra aðgerða til að uppræta næturómenninguna í miðborg Reykjavíkur um helgar, hefur hlotið góðar undirtektir.

Í Kastljósi kvöldsins ræddu þau Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri/grænna í borgarstjórn, og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, grein Stefáns og töldu sjálfsagt, að borgarstjórn Reykjavíkur gengi til samstarfs í því skyni að finna bót á næturlífinu í borginni. Gísli Marteinn taldi alltof mörgum veitinga- og skemmtistöðum hefði verið komið fyrir á litlum bletti í miðborginni. Þá vildu þau ræða reynsluna af lengdum afgreiðslutíma veitingastaða og taka mið af henni við framtíðarákvarðanir.

Eftir setu mína í borgarstjórn er ég þeirrar skoðunar, að alltof margir aðilar komi að málefnum miðborgarinnar fyrir hönd borgarstjórnar og borgaryfirvalda. Í raun sé erfitt að henda reiður á því, hver sé hinn rétti viðmælandi, vilji menn stuðla að umbótum í miðborginni. Miðað við hina pólitísku samstöðu, sem birtist í Kastljósinu, er þess að vænta, að fulltrúi borgarstjórnar í viðræðum við lögreglustjóra hafi skýrt og ótvírætt umboð.

Veitingamenn hafa mikinn hag af því, að öfugþróun og illu umtali um næturlíf miðborgarinnar linni. Án ábyrgra aðgerða er hætta á því, að svo verði þrengt að skemmtanahaldi og veitingarekstri í hjarta borgarinnar, að þessari starfsemi verði sjálfhætt.

Sunnudagur, 12. 08. 07. - 12.8.2007 21:56

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri grænna, var að býsnast yfir því í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, að Þjórsárver skyldu ekki hafa verið tilnefnd af ríkisstjórninni á yfirlitslista um framtíðarstaði á heimsminjaskrá UNESCO. Taldi hún það til marks um, að stjórnmálamenn ættu ekki heima í heimsminjanefnd Íslands en menntamálaráðherra skipaði okkur Össur Skarphéðinsson og Sæunni Stefánsdóttur, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins, í nefndina 12. maí sl.

Listinn, sem ríkisstjórninni samþykkti að tillögu menntamálaráðherra og umhverfisráðherra föstudaginn 10. ágúst, var ekki saminn af okkur þremur í heimsminjanefndinni, sem kom saman til fyrsta fundar síns 31. júlí. Listinn var saminn af þeim, sem Álfheiður telur líklega fagfólk á þessu sviði, og hafði hann verið samþykktur af fyrri heimsminjanefnd, þegar hann var lagður fyrir okkur og var okkur ljúft að leggja blessun yfir hann.

Yfirlitslistar um framtíðarstaði eru samdir á nokkurra ára fresti og taka mið af heildarstefnu UNESCO í heimsminjamálum og tekur nýi listinn mið af því. Meginverkefni heimsminjanefndar er að halda utan um sérfræðilega vinnu við framkvæmd tillagna, sem birtast á yfirlitslistanum. Álfheiður taldi fráleitt, að dómsmálaráðherra og iðnaðarráðherra væru færir um að sinna þessu verkefni. Við Össur komum hins vegar báðir að því að tryggja Þingvöllum sæti á heimsminjaskránni og kynntumst þá þeim meginsjónarmiðum, sem ber að hafa í huga við úrvinnslu slíkra verkefna - þar kemur stjórnmálareynsla að góðu gagni.

Laugardagur, 11. 08. 07. - 11.8.2007 23:54

Vorum klukkan 17.00 í Hallgrímskirkju, þar sem ég hélt setningarávarp kirkjulistahátíðar. Síðan fluttu Mótettukórinn, alþjóðleg barokkhljómsveit og einsöngvarar H-moll messu Bachs undir stjórn Harðar Áskelssonar við mikla hrifningu áheyrenda.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins fetar Sigmund í fótspor ruglukollanna á visir.is og gefur ranglega til kynna, að ég vilji takmarka för ungs fólks um miðborg Reykjavíkur. Sigmund er sjálfum sér samkvæmur í rugli sínu. Hann hefur um margra ára skeið látið eins og ég sé að stofna eða hafi stofnað íslenskan her. Gangist menn upp í að hafa rangt fyrir sér, eiga þeir það við sjálfan sig en ekki aðra. Sé einhverjum skemmt, er tilganginum náð.

 

Föstudagur, 10. 08. 07. - 10.8.2007 21:28

Þorsteinn Pálsson tekur undir með mér í leiðara Fréttablaðsins í dag um að leiða eigi alla til ábyrgðar til að þurrka ómenningarbraginn af miðborg Reykjavíkur. Það vefst ekki fyrir honum að skilja dagbókarfærslu mína um þetta efni, þótt ýmsir á öðrum fjölmiðlum nái ekki upp í það, sem ég sagði.
 
Helge Sander, vísindamálaráðherra Danmerkur, segir ögrandi, að Rússar hafi sett niður flagg á hafsbotni við Norðurpólinn. Danir senda næsta sunnudag leiðangur af stað til pólsins til að safna gögnum til stuðnings sjónarmiðum danskra stjórnvalda í lögsögudeilunni á Norðurheimskautinu. Danir hafa ákveðið að verja 230 milljónum danskra króna til ársins 2010 til að fá úr því skorið, hvort landgrunnið við Norðurpólinn er tengt Grænlandi á þann hátt, að unnt sé að gera kröfur til yfirráða yfir auðlindum á svæðinu utan 200 mílna frá Grænlandsströnd
 
Þetta kort The National Geographic sýnir líklega breytingu á ís við Norðurpólinn.

Fimmtudagur, 09. 08. 07. - 9.8.2007 20:20

The Economist birtir grein um stjórnarhætti í Venezúela hjá Hugo Chavez einræðisherra og segir frá því, að aðeins Haiti standi verr að mati Alþjóðabankans, þegar lagt sé mat á spillingu í ríkjum Suður-Ameríku. Fróðlegt væri að fá álit Maríu Kristjánsdóttur á þessari frásögn The Economist. María tók upp hanskann fyrir Chavez, þegar hann réðst gegn einkasjónvarpstöðvum í Venezúela. Í janúar sl. ritaði hún greinar í Lesbók Morgunblaðsins og bar blak af Chavez.

Miðvikudagur, 08. 08. 07. - 8.8.2007 21:01

Mér er ekki kunnugt um, hver ritstýrir visir.is en ég gef ekki mikið fyrir ályktunarhæfileika hans, úr því að hann dregur þá ályktun af dagbókarfærslu minni í gær, að ég vilji setja einhverja reglu um að fólk yngra en 23 ára megi ekki vera í miðborg Reykjavíkur um helgar.

Hugleiðing mín snerist um nauðsyn samstarfs til að sporna gegn hömluleysi. Með samstarfi allra, sem hlut eiga að máli, næðist bestur árangur í viðleitni til að tryggja öryggi borgaranna og draga úr sóðaskap.

Að túlka orð mín á þann veg, sem gert er á visir.is og gera mér upp skoðun í fyrirsögn er aðeins til marks um ruddaskap og tillitsleysi á ritvellinum. Móðursýkin í skrifum þeirra, sem blogga svo í tilefni af ruglinu í ritstjóra visir.is, er sérstakt rannsóknarefni.

Í tilefni af þessu sendi ég eftirfarandi tölvubréf til frettir@visir.is:

„Ég rakst á það á visir.is að mér var gerð upp skoðun um ferðir ungs fólks í miðborg Reykjavíkur og hef ritað um það í dagbókarfærslu í dag. Ég skora á ykkur að birta dagbókarfærsluna orðrétta um leið og þið leiðréttið fyrirsögn ykkar og biðjist afsökunar á að hafa gert mér upp skoðun.“

Visir.is lætur ekki við það sitja að rangfæra orð mín heldur tekur til við að bera rangfærsluna undir veitingamenn eins og þessi frétt sýnir. Þar er rætt við Ívar Agnarsson, rekstrarstjóra á Sólon, sem liggur ekki á skoðun sinni. Í fréttinni segir:

„Á Sólon er 22 ára aldurstakmark en Ívar segir að flestir gesta staðarins séu rétt yfir þeim aldri. „Hvernig ætlar maðurinn að gera þetta? Ætlar hann að girða 101 af um helgar? Þetta er bara ekki framkvæmanlegt og í raun ótrúlegt að honum skuli detta þetta í hug,“ segir Ívar í samtali við Vísi.“

 

Þriðjudagur, 07. 08. 07. - 7.8.2007 20:46

Þegar rætt er um atburði verslunarmannahelgarinnar og því velt fyrir sér, hvers vegna allt fór fram á frekar skikkanlegan hátt, má ekki gleyma nánu samstarfi mótshaldara og lögreglu. Viðbúnaður lögreglu var í samræmi við það, sem menn væntu á hverjum stað og hún vann náið með þeim, sem báru ábyrgð á mannfagnaði víða um land. Ákvarðanir bæjaryfirvalda á Akureyri drógu einnig mjög úr líkum á vandræðum þar.

Besta leiðin til að auka næturöryggi í miðborg Reykjavíkur er að kalla alla til ábyrgðar. Vegna skynsamlegra varrúðarráðstafana á Akureyri sögðust ýmsir hafa misst spón úr aski sínum. Viðleitni til að sporna við hömlulausum veitingarekstri í miðborginni kann að koma við buddu einhvers. Þar eru þó minni hagsmunir í húfi en öryggi borgaranna, sem seint verður metið til fjár.

Nýta á reynsluna af samstarfi og ákvörðunum vegna hátíða um verslunarmannahelgina, þegar hugað er að leiðum til að draga úr óreglu og ólátum í miðborg Reykjavíkur.

 

Mánudagur, 06. 08. 07. - 6.8.2007 18:15

Umferð austan úr Fljótshlíð í dag var róleg og án tafa, raunar lítið meiri en um venjulegar helgar. Vandræði urðu helst vegna bifreiða, sem var ekið undir löglegum hámarkshraða og sköpuðu þannig spennu meðal þeirra, sem vildu aka á löglegum hraða.

Eins og fram kemur í þessari grein í The Sunday Times er náið fylgst með öllum hræringum meðal afkomenda Richards Wagners, auk þess sem verk meistarans vekja heitar tilfinningar.

Sunnudagur, 05. 08. 07. - 5.8.2007 22:12

Veðrið lék áfram við okkur í Fljótshlíðinni. Fjöldi fólks lagði leið sína á kristilega Kotmótið. Flugvélar að Múlakoti virtust ekki eins margar og stundum áður. Seinni dag flóamarkaðarins renndu margir í hlað, þótt ekki seldist eins mikið og í gær.

Í Fréttablaðinu hefur verið rætt um læknavakt í tengslum við þyrluþjónustu landhelgisgæslunnar. Mætti draga þá ályktun, að eitthvað kunni að vera bogið við  þjónustustig læknavaktarinnar. Um vaktina gildir samningur og gerir hann ráð fyrir þjónustu án tillits til fjölda þyrla. Mikið og farsælt samstarf hefur verið milli landhelgisgæslunnar og lækna - nauðsyn þess góða samstarfs dregur enginn í efa.

Laugardagur, 04. 08. 07. - 4.8.2007 17:57

Mikið fjölmenni var á kristilega Kotmótinu í Fljótshlíðinni, þegar við litum inn á það í dag. Það komu einnig margir á flóamarkaðinn, sem Rut efndi til hér í hlíðinni. Veðrið var sólbjart og hlýtt en nokkur norðanvindur og niður við ströndina eru sandstrókar, sem spilla útsýn til Eyja.

Fyrir ári fórum við til Bayreuth og sáum frumsýningu á nýrri uppfærslu á Niflungahringnum eftir Richard Wagner. Bayreuth-hátíðin í ár hófst á nýrri uppfærslu á Meistarasöngvurunum frá Nurnberg. Katharina Wagner, 29 ára barnabarnabarn Wagners (1813-1883), er ábyrg fyrir uppfærslunni, sem hefur fengið dræmar undirtektir eins og sjá má hér á vefsíðu Bloomberg. Kona hefur ekki sett upp verk á hátíðinni síðan Cosima, ekkja Richards Wagners, gerði það á sínum tíma.

Síðar á árinu á að taka ákvörðun um, hver tekur við stjórn Bayreuth-hátíðarinnar af Wolfgang Wagner, föður Katharinu. Wolfgang vill. að Katharina taki við af sér. Uppfærsla hennar á Meistarasöngvurunum þykir ekki hafa styrkt stöðu hennar í keppni við hálfsystur sína og frænku, Þessar þrjár konur eru helst taldar koma til álita, ef stjórn hátiðarinnar verður áfram í höndum fjölskyldunnar.

Föstudagur, 03. 08. 07. - 3.8.2007 19:45

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir í Fréttablaðinu í dag, að hann missi ekki svefn vegna spurningar minnar hér á síðunni sl. miðvikudag um, hvort ríkið ætti ekki að selja aðra hluta RÚV en gömlu gufuna, það er rás 1. Það vakti alls ekki fyrir mér að raska svefnró útvarpsstjóra og er gott að vita, að spurning mín hafði ekki svo alvarlegar afleiðingar. Viðbrögð útvarpsstjóra eru annars í ætt við tóninn frá Kastljósi, leyfi sér einhver að finna að efnistökum þess, og koma þau því ekki á óvart.

Stjórnendur almannaútvarps hvarvetna í Evrópu þurfa að halda uppi vörnum fyrir stofnanir sínar vegna nýrrar samkeppni og minnkandi skilnings  stjórnmálamanna og almennings á nauðsyn þess að viðhalda hinu ríkisrekna kerfi. Hvergi hefur almannaútvarp notið meiri virðingar en í Bretlandi, BBC, en þar hafa undirstöður þess nötrað oftar en einu sinni undanfarin ár vegna óvandaðrar framgöngu starfsmanna þess.

Ég vek athygli lesenda minna á því að á www.andriki.is er boðin ókeypis áskrift að Þjóðmálum í tilefni af tveggja ára afmæli bóksölu Andríkis. Andríkismenn segja:

„Andríki hefur nú ákveðið að halda upp á þessa tveggja ára sögu og leyfa viðskiptavinunum að njóta þess með sér. Næstu tvær vikur býðst öllum þeim sem panta bækur úr Bóksölu Andríkis eins árs ókeypis kynningaráskrift að hinu ómissandi tímariti, Þjóðmálum. Eins og áður hefur verið minnst á þá eru Þjóðmál ómissandi fyrir alla áhugamenn um þjóðmál og menningu en í hverju hefti eru forvitnilegar og vandaðar greinar um ótal efni sem hinir útbreiddari fjölmiðlar hafa ekki sans fyrir.“

Fimmtudagur, 02. 08. 07. - 2.8.2007 18:50

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, segir á vefsíðu sinni í tilefni af frétt um fylgi stjórnmálaflokkanna samkvæmt Gallup:

„Bloggararnir Björn Bjarnason og Sigurður Kári Kristjánsson ráðherra og alþingismaður halda því fram að það sé einsdæmi að stjórnmálaflokkur haldi jafn miklu fylgi í svo langan tíma þrátt fyrir að vera samfellt í ríkisstjórn. Þetta er ekki rétt og skal þeim bent á Zimbabwe sem dæmi þar sem Robert Mugabe ræður ríkjum. Þar fær hann meiri hluta atkvæða kosningar eftir kosningar en lílfskjörin í landinu versna og versna og verðbólgan mælist nú um 4000 þúsund prósent í landinu. “

Að bera saman stjórnmálalíf hér á landi og hjá einræðisherranum Mugabe er dæmi um viljaleysi til málefnalegra umræðna um stjórnmál og lítilsvirðing við þá, sem búa við kúgun alræðisherrans. Skyldi Jón trúa því, sem hann segir í þessum pistli?

Miðvikudagur, 01. 08. 07. - 1.8.2007 19:08

Var klukkan 08.00 í skátaheimilinu við Hraunbæ og tók þar þátt í athöfn til að minnast 100 ára afmælis skátahreyfingarinnar, en 28 milljónir manna um heim allan eru nú félagar í henni.

Hlutafélagavæðing RÚV hafði ekki að markmiði að auðvelda RÚV að kaupa starfsmenn annarra stöðva og veita þeim ríkisskjól. Væri ekki best,að selja batteríið allt (fyrir utan gömlu gufuna), svo að snillingarnir gætu keppt við Baugsmiðlana á jafnréttisgrundvelli, án þess að fá nefskatt?

Rupert Murdoch tókst að finna formúlu til að kaupa The Wall Street Journal. Hann er ekki með neina Kínamúra milli ritstjórnarstefnu og frétta. Hann rekur fjölmiðla án þeirrar hræsni, að sjónarmið eigandans séu marklaus.

Í viðskiptakálfi  Fréttablaðsins í dag er sagt, að Murdoch sé að tapa í samningaviðræðunum við eigendur Wall Street Journal. Hvenær?