29.8.2007 18:48

Miðvikudagur, 29. 08. 07.

Var í dag í heimsókn hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og sat fundi um vöxt, þróun og eflingu þessa stóra og margþætta embættis undir stjórn Jóhanns R. Benediktssonar.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er vikið að svari mínu hér á síðunni mánudaginn 27. ágúst við spurningu í Staksteinum þann sama dag. Í Staksteinum segir að þessu sinni:

„Af þessu svari má ráða, að dómsmálaráðherra dragi lagaþekkingu Staksteina í efa. Allavega sýnist hann ekki telja Staksteina í hópi "framsækinna" túlkenda á lögum. Hvað skyldi annars felast í orðinu "framsækinn" í þessu samhengi?!“

Síst af öllu vakti fyrir mér að efast um lagaþekkingu Staksteinahöfundar. Hér á síðunni hef ég gagnrýnt framsækna lögskýringu. Í ræðu, sem ég flutti hinn 23. september 2003 sagðí:

„Texta íslensku laganna á að túlka samkvæmt slíkum almennum reglum en innan mannréttindadómstólsins [Evrópu] láta menn ekki við það eitt sitja að dæma eftir orðum mannréttindasáttmálans heldur taka, eins og við vitum, sér jafnframt fyrir hendur að skýra og geta sér til um, hvernig þessum orðum yrði hagað við núverandi aðstæður, og túlka síðan ákvæði sáttmálans í samræmi við það. Er þetta gjarnan gert á þeirri forsendu, að sáttmálinn sé það, sem menn kalla „lifandi texti.““

Taldi ég varasamt að standa þannig að túlkun á lögum og áréttaði það í pistli hér á vefsíðu minni 24. október 2004 með þessum orðum:

„Ég hef ekki skipt um skoðun um svonefnda framsækna lögskýringu, eftir að hafa hlustað á ræður á málþinginu um EFTA-dómstólinn, en þar var staðfest, að hið sama á við um hann og aðra Evrópudómstóla, að þar er viðleitni til að smíða réttarreglur, telji dómarar það nauðsynlegt.“

Sé svar mitt til Staksteina lesið með þessa vitneskju í huga, má draga þá ályktun, að í raun sé ég sammála höfundinum um túlkun hans á lögum en sú skoðun megi sín lítils sé lokaorðið hjá dómurum, sem aðhyllast framsækna skýringu á lögum.