Dagbók: ágúst 1998
Laugardagur 30.8.1998
Síðdegis fórum við Rut að Bifröst í Borgarfirði, þar sem haldið var hátíðlegt 10 ára afmæli Samvinnuháskólans og 80 ára afmæli Samvinnuskólans. Flutti ég skólanum afmæliskveðju af þessu tilefni.
Föstudagur 29.8.1998
Fyrir ríkisstjórnarfundinn þar sem ákvörðun var tekin í bankamálinu og skýrt var frá því, að Guðmundur Bjarnason myndi gegna embætti umhverfis- og landbúnaðarráðherra til loka kjörtímabilsins, hitti ég fulltrúa frá Mirimax-kvikmyndafyrirtækinu, sem hefur kannað kosti þess að fyrirtækið fái hér aðstöðu til að taka kvikmyndir.
Fimmtudagur 28.8.1998
Skömmu fyrir hádegi fór ég í heilsubúðina til Ægis og Guðnýjar í Hafnarfirði, en ég hafði slegið til og samþykkt að láta taka af mér árumynd og hlusta síðan á Guðnýju greina hana fyrir Ísland í dag á Stöð 2 og var þátturinn með okkur Margréti Frímannsdóttur um þessa heimsókn okkar og reynslu sendur út föstudaginn 29. ágúst.
Miðvikudagur 26.8.1998
Fyrir hádegi hitti ég forystumenn í hinu nýja sveitarfélagi á Héraði og ræddi við þá um framtíð húsanna að Eiðum. Menntaskólinn á Egilsstöðum mun ekki nýta þessi hús næsta vetur og unnið hefur verið að því að finna þeim ný verkefni. Æskilegast væri, að þarna yrði starfsemi, sem samræmdist óskum um að fleira háskólamenntað fólk starfaði á Austfjörðum. Þar eins og annars staðar átta menn sig æ betur á því, að kjarnar með háskólamenntuðu fólki eru æskilegir til að styrkja almennar forsendur byggðar, skóla- og menningarstarf. Síðdegis fórum við í stutta gönguferð um Hallormsstaðaskóg undir leiðsögn Þrastar Eysteinssonar aðstoðarskógræktarstjóra. Var fróðlegt að fá stutta kennslustund hjá honum í trjásafninu. Þá héldum við að Skriðuklaustri, þar sem ég sat fund stjórnar Gunnarsstofnunar, sem starfar samkvæmt reglum frá því í desember 1997 og fer með stjórn hins mikla húss, sem Gunnar Gunnarsson skáld og Franziska kona hans gáfu íslensku þjóðinni í desember 1948. Húsið hefur verið nýtt á margan hátt. Þar er gestaíbúð, sem kallast Klaustur, fyrir lista- og fræðimenn. Tilefni heimsóknarinnar í Klaustur var meðal annars að afhenda þar nýja tölvu, en við Þorsteinn I. Sigfússon, prófessor og formaður framkvæmdanefndar Olympíuleikanna í eðlisfræði, ákváðum að gefa Klaustri eina af hinum fullkomnu IBM-tölvum, sem notaðar voru við leikana. Hafði Þorsteinn dvaldist í Klaustri dagana á undan með fjölskyldu sinni og reynt gripinn, meðal annars tengt hann við netið með góðum árangri. Með tölvunni stækkar þannig sjóndeildarhringur þeirra, sem dveljast á þessum einstaka stað og öllu aðstaða til vinnu og fræðistarfa batnar. Eru allar forsendur fyrir því að gera Skriðuklaustur að menningarsetri fyrir Austurland, ef menn einbeita sér að því og leyst verður úr jarða- og fasteignamálum á staðnum með það markmið í huga. Hitti ég meðal annars hreppsnefnd Fljótsdælinga og erum við einhuga um þann þátt málsins. Héldum við síðan heim með kvöldvélinni frá Egilsstöðum, kvöddum langþráð blíðviðrið og sólbirtuna þar og héldum í rigninguna fyrir sunnan. Austfirðingar ræða mikið um atvinnu- og byggðaþróun og hafa nokkrar áhyggjur af þróun mála vegna brottflutnings fólks. Erfitt er að andmæla þeim, sem segja, að öflugt stóriðjufyrirtæki á Austfjörðum muni styrkja byggð þar. Leita verður leiða til að sætta sjónarmið umhverfisverndar og tillögur um virkjanir. Hiti er hlaupinn í málið og áróðursstríð hafið, til dæmis heyrði ég því fleygt, að ýmsum þætti nóg um, hvernig Ríkisútvarpið, einkum svæðisstjórinn á Austfjörðum, tæki einhliða afstöðu með umhverfissinum. Mál eru komin á viðkvæmt stig, þegar fjölmiðlar eru dregnir í dilka með þessum hætti.
Þriðjudagur 25.8.1998
Við Rut fórum í bílaleigubíl austur á Egilsstaði. Á leiðinni hittum við fornleifafræðinga að Hofsstöðum í Mývatnssveit, þar sem Fornleifastofnun Íslands undir forystu Adolfs Friðrikssonar og Orra Vésteinssonar stendur fyrir miklum og merkum uppgreftri. Var fróðlegt að fara um svæðið og skoða það, sem þar hefur verið gert., er þetta einstakt rannsóknasvæði. Veðrið var einstaklega fallegt þennan dag. Við fórum inn að Kröflu og var þar fjöldi erlendra ferðamanna að skoða undur svæðisins. Þegar komið var ofan í Jökuldal skruppum við í Sænautasel og þágum kaffi og lummur hjá þeim, sem þar veita skemmtilega þjónustu fyrir ferðamenn í gömlum torfbæ. Klukkan 17 átti ég fund með háskólanefnd Austfirðinga og forystumönnum framhaldsskólanna á Austfjörðum um Fræðslunet Austurlands. Undir merkjum þess er ætlunin að bjóða Austfirðingum fjölbreyttari fræðslu, meðal annars á háskólastigi, en áður. Þar verða kostir fjarkennslu nýttir, meðal annars með þannig búnaði, að unnt verður að fylgjast með kennslu um leið og hún fer fram annars staðar.
Mánudagur 24.8.1998
Þingflokkur sjálfstæðismanna hittist norður á Akureyri og síðan fórum við í mannmargt og glæsilegt 60 ára afmæli Halldórs Blöndals samhönguráðherra.
Sunnudagur 23.8.1998
Veðrið var ekki síður fagurt þennan dag en laugardaginn, síðdegis efndum við Rut til móttöku í tilefni af 30 ára afmæli Norræna hússins og flutti ég þar afmæliskveðju.
Laugardagur 22.8.1998
Í einstaklega fögru veðri var troðfullur salur í Valhöll klukkan 14 þegar þar hófst ráðstefna Sambands ungra sjálfstæðismanna um erfðarannsóknir og gagnagrunna undir stjórn Ásdísar Höllu Bragadóttur, formanns SUS. Voru um 250 manns á ráðstefnunni og hlustuðu á ræður forsætisráðherra og sérfræðinga um þetta mikilvæga mál, sem forsætisráðherra taldi hið mikilvægasta til meðferðar í stjórnmálum um þessar mundir. Kom það í minn hlut að draga saman niðurstöður og líta til framtíðar í ráðstefnulok.
Föstudagur 21.8.1998
Klukkan 8.30 hófst ráðstefna í Háskólabíói í tilefni af 50 ára afmæli Tilraunastöðvarinnar á Keldum og flutti ég þar ávarp. Á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var fyrir hádegi voru afgreidd tvö mikilvæg málefni, sem snerta rannsóknir og vísindi. Í fyrsta lagi var ákveðið að fylgja fram markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál, sem Rannsóknarráð Íslands samdi að minni ósk og kynnt var á ársfundi ráðsins 22. apríl 1998, í öðru lagi var samþykkt tillaga okkar dómsmálaráðherra að flytja Aflfræðistofnun Háskóla Íslands á Selfoss og auka þjónustu hennar við Almannavarnir ríkisins og efla alþjóðlegt samstarf hennar. Síðdegis var athöfn í Skerjagarði, nýjum einstaklingsgarði Félagsstofnunar stúdenta, þegar fyrri hluti hans var formlega tekin í notkun, en 4. apríl 1997 tók ég fyrstu skóflustungu að honum með stórri vélgröfu og nú var ég hífður upp á þak og setti síðustu lofttúðuna á þann hluta hússins, sem er tilbúinn.
Fimmtudagur 20.8.1998
Fyrir hádegið kom Signar á Brunni, menntamálaráðherra Færeyja, á minn fund með Peter Pedersen, ráðuneytisstjóra sínum, en þeir komu hingað í tilefni 30 ára afmæli Norræna hússins. Ræddum við samstarf landa okkar í mennta- og menningarmálum.
Miðvikudagur 19.8.1998
Sídegis fór ég á Þjóðbrautina á Bylgjunni og ræddi þar með stjórnendum hennar, þeim Hrafni og Jakobi, við Harald Johannessen, málsvara Vef-Þjóðviljans, var tilefnið orð, sem ég lét falla í síðasta vikupistli mínum um afstöðu Vef-Þjóðviljans til tónlistarhússins. Í þættinum kom fram, að Haraldur er ekki á móti því, að tónlistarhús rísi, heldur vill hann ekki auka umfang ríkisins eins og hann telur, að gerist með því að ríkissjóður fjármagni byggingu hússins. Ég leitaðist við að rökstyðja, hvers vegna eðlilegt væri að verja opinberu fjármagni til hússins. Er það skoðun mín, að mannvirkjagerð af þessu tagi falli undir eðlilegt hlutverk opinberra aðila hér á landi eins og annars staðar, að sjálfsögðu má deila um, hvort ríkið á að koma að málinu, þetta eigi að vera verkefni sveitarfélagsins, Reykjavíkur, eins og tónlistarhúsið í Kópavogi er byggt af bænum þar, til þess er hins vegar að líta, að ríkið rekur Sinfóníuhljómsveit Íslands með öðrum og á að sjá henni fyrir viðunandi starfsaðstöðu. Eðlilega gætir töluverðrar óþreyju hjá þeim, sem mest þrá tónlistarhúsið. Undir forsjá menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið mikið starf til að undirbúa skynsamlega ákvörðun um málið, við bíðum hins vegar eftir ákvörðun Reykjavíkurborgar um lóð undir húsið auk þess sem nefnd á vegum samhönguráðherra um ráðstefnumiðstöð er leggja lokahönd á sitt verk, en hún hefur samþykkt þá grundvallarhugmynd, að ráðstefnumiðstöð og tónlistarhús rísi saman og gerðar verði 100% kröfur um hljómgæði og annað, sem gerir tónlistarhús að frábæru tónlistarhúsi.
Þriðjudagur 18.8.1998
Síðdegis brugðum við Árni Johnsen okkur austur fyrir fjall, var niðaþoka þegar við fórum um Þrengslin til Þorlákshafnar, birti þegar kom niður á láglendið, við fengum okkur tesopa í Kaffi Lefolii á Eyrarbakka og fórum síðan að Keldum á Rangárvöllum, þar sem Hjörleifur Stefánsson, forstöðumaður útiminjadeildar Þjóðminjasafns, og samstarfsmenn hans sýndu okkur framkvæmdir á staðnum, sem miða að því að endurreisa gamla bæinn og gönginn inn í hann. Er þetta umfangsmikið og kostnaðarsamt en bráðnauðsynlegt verk, verður að því mikil menningarbót og auk þess styrkir það forsendur fyrir ferðaþjónustu á þessum slóðum. Þá hittum við að sjálfsögðu einnig Drífu Hjartardóttur bónda og gæslumann húsanna á Keldum.
Laugardagur 15.8.1998
Skrapp austur í Listaskálann í Hveragerði, þar sem Pojektj - sýning tileinkuð minningu Dieter Roth var að hefjast með verkum eftir Björn Roth, Daða Guðbjörnsson, Dieter Roth, Eggert Einarsson, Kristján Guðmundsson og Ómar Stefánsson. auk þess sem Herman Nitch er sérstakur gestur. Einar Hákonarson listmálari á þennan glæsilega skála, sem hefur á skömmum tíma vakið athygli fyrir góðar sýningar. Þá leit ég einnig inn í Nýlistasafnið, þar sem Hjálmar Sveinsson sýningarstjóri kynnti mér sýninguna Leitin af Snarkinum, þar sem 14 listamenn eiga verk en að því er stefnt, að hún verði einnig sett upp í Berlín.
Fimmtudagur 13.8.1998
Fór eftir hádegi í Reykholt í Borgarfirði og ræddi stöðu mála þar og framtíðaráform.
Þriðjudagur 11.8.1998
Fór í viðtal við ríkissjónvarpið, sem vildi ræða við mig um framkvæmdir við Menntaskólann í Reykjavík. Þar er nú unnið að því koma húsi sem Davíð S. Jónsson og börn hans gáfu til minningar um Elísabetu Sveinsdóttur, eiginkonu Davíðs, í notkun fyrir skólann og reisa tengibyggingu milli hússins og Casa Nova, kennsluhúss MR. Kostar framkvæmdin 111 milljónir króna og á henni að verða lokið fyrir áramót. Spurt var, hvaða frekari áform væru vegna MR. Ég sagði, að næst yrði ráðist í viðgerð á gamla skólahúsinu, en hugmyndir væru um menntaskólaþorp á reitnum við skólann og talið, að alls myndi kosta um einn milljarð að reisa ný hús og gera við gömul. Lét ég þess getið, að ekki yrði unnt að ráðast í frekari framkvæmdir án samnings við Reykjavíkurborg um fjárhagslega þátttöku hennar og um skipulag á MR-reitnum. Þetta viðtal, sem ég sá ekki í 11-fréttum sjónvarpsins, virðist hafa farið fyrir brjóstið á ýmsum. Vef-Þjóðviljinn hneykslast á því, að ég hafi nefnt kostnað allt að milljarði við að ljúka öllu, sem menn telja nauðsynlegt að framkvæma á MR-reitnum, og notar síðan tækifærið til að hnýta í tónlistarhúsið, sem er einskonar kækur hjá ritstjórn þess blaðs - skil ég ekki, hvers vegna þessir miklu hugsjónamenn átta sig ekki á gildi mannvirkis í þágu tónlistar.
Laugardagur 8.8.1998
Fór síðdegis í Skálholt og hlustaði á Bach-sveitina leika en þau Jaap Schröder og Rut léku meðal annars einleik með sveitinni. Var Skálholtskirkja full eins og venjulega á tónleikunum þar, sem Helga Ingólfsdóttir semballeikari hefur staðið fyrir í meira en tvo áratugi.
Miðvikudagur 5.8.1998
Fór síðdegis með ráðuneytismönnum í Þjóðminjasafnið og nýja geymsluaðstöðu fyrir muni þess í Vesturveri í Kópavogi. Starfsmenn safnsins eru nú af mikilli alúð að ganga frá gripum þess, sem verða fluttir í Kópavog og geymdir þar á meðan ráðist er í það stórvirki að endurbyggja hús safnsins. Ríkisstjórnin samþykkti fyrr á árinu þá tillögu mína, að ráðist yrði í þessar framkvæmdir og auk þess fengi safnið afnot af Atvinnudeildarhúsinu svonefnda á háskólalóðinni. Með þeirri samþykkt var bundinn endi á óvissu um framtíðaraðsetur safnsins, en á síðasta kjörtímabili ræddi forveri minn um, að reist yrði nýtt hús yfir safnið á milli Hótel Sögu og Þjóðarbókhlöðunnar. Hafði lengi vafist fyrir mönnum að taka af skarið í þessu efni.
Sunnudagur 2.8.1998
Fórum um Hvalfjarðargöngin upp í Vatnaskóg og tókum þátt í hátíðarmessu sr. Sigurðar Pálssonar vegna 75 ára afmælis hins merka starfs Skógarmanna.