25.8.1998 0:00

Þriðjudagur 25.8.1998

Við Rut fórum í bílaleigubíl austur á Egilsstaði. Á leiðinni hittum við fornleifafræðinga að Hofsstöðum í Mývatnssveit, þar sem Fornleifastofnun Íslands undir forystu Adolfs Friðrikssonar og Orra Vésteinssonar stendur fyrir miklum og merkum uppgreftri. Var fróðlegt að fara um svæðið og skoða það, sem þar hefur verið gert., er þetta einstakt rannsóknasvæði. Veðrið var einstaklega fallegt þennan dag. Við fórum inn að Kröflu og var þar fjöldi erlendra ferðamanna að skoða undur svæðisins. Þegar komið var ofan í Jökuldal skruppum við í Sænautasel og þágum kaffi og lummur hjá þeim, sem þar veita skemmtilega þjónustu fyrir ferðamenn í gömlum torfbæ. Klukkan 17 átti ég fund með háskólanefnd Austfirðinga og forystumönnum framhaldsskólanna á Austfjörðum um Fræðslunet Austurlands. Undir merkjum þess er ætlunin að bjóða Austfirðingum fjölbreyttari fræðslu, meðal annars á háskólastigi, en áður. Þar verða kostir fjarkennslu nýttir, meðal annars með þannig búnaði, að unnt verður að fylgjast með kennslu um leið og hún fer fram annars staðar.