Dagbók: ágúst 2016

Miðvikudagur 31. 08. 16 - 31.8.2016 14:30

Í dag ræddi ég við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, aðstoðarmann innanríkisráðherra og frambjóðanda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðurlandi vestra, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld.

Kjartan Jóhannsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, skrifar fróðlega grein í Morgunblaðið í dag í tilefni af grein sem ég birti í blaðinu 19. ágúst þar sem ég vakti máls á 112. gr. EES-samningsins og að í krafti hennar gætu Bretar fengið viðurkenningu á að rétti sínum til að takmarka frjálsa för til lands síns gerðust þeir aðilar að EES-samningnum sem er auðveldasta leið þeirra til að halda tengslum við innri markað ESB eftir úrsögn úr ESB. Sjá grein mína hér.

Kjartan lýsir aðdraganda þess að samkomulag náðist um 112. greinina en íslensk stjórnvöld hefðu talið „pólitískt nauðsynlegt og af ýmsum ástæðum rétt að sækjast eftir öryggisventli að því er varðaði frjálsa för fólks, þannig að Ísland ætti rétt til að grípa í taumana ef allt færi úr böndunum“.

Þetta var einmitt eitt af hitamálunum á alþingi þegar fjallað var um EES-samninginn og er eitt af hitamálunum vegna úrsagnar Breta úr ESB. Hvort þeir geti takmarkað frjálsa för til lands síns.

 Kjartan segir að ekki hafi verið unnt að semja við ESB um undanþágur heldur rétt „til að grípa til aðgerða í óbærilegu ástandi, með ströngum ákvæðum um sönnun ástands og rétti gagnaðila til mótatgerða. Í stað undanþága, sem ekki fengust, komu öryggisákvæði“. Hafi Íslendingar undir forystu Hannesar Hafsteins aðalsamningamanns teflt fram kröfu um sams konar öryggisákvæði og Íslendingar höfðu í samningnum um norrænan vinnumarkað. Þetta sjónarmið hafi ratað inn í 112. gr. EES-samningsins en það sé „einungis unnt að nýta í neyð“.

Spyrja má hvað sé „neyð“ í þessu sambandi. Ákvörðun Breta um ESB-úrsögn hefur leitt til „neyðarástands“ sem verður að ljúka áður en það verður óviðráðanlegt eða tjónið varanlegt. Í leit að leið út úr vandanum verður að skoða alla kosti og þar með 112. gr. EES-samningsins. Greinin hlýtur að gilda fyrir alla en ekki suma hver sem aðdragandi hennar var.

Að lokum eru það sáttmála- eða samningsákvæði sem ráða niðurstöðu ágreinings innan EES/ESB. Þau verður að túlka samkvæmt orðanna hljóðan hvaða skoðun sem menn hafa á þeim. Að þessu leyti standa Liechtensteinar og Íslendingar jafnfætis Bretum.

Þriðjudagur 30. 08. 16 - 30.8.2016 16:45

Ríkið lagði áherslu á að auka gegnsæi og auðvelda foreldrum að fylgjast með framvindu skóla- og menntamála til dæmis með miðlun upplýsinga um niðurstöður samræmdra prófa og samanburð milli skóla. Frá öllu slíku hefur verið horfið. Einkunnagjöf með bókstöfum bregður meiri leyndarhjúpi yfir árangur í skólastarfi en áður hefur verið.

Ástæða er til að velta fyrir sér hvar umræður um þróun skólamála fer fram. Hún er að minnsta kosti ekki mikil í fjölmiðlum þegar hugað er að inntaki náms eða hvernig tíma nemenda er varið. Foreldrum er ef til vill miðlað svo miklum upplýsingum um skólastarfið á fundum eða á samfélagsmiðum að þeir telja sig ekki þurfa að afla sér frekari upplýsinga á opinberum vettvangi.

Nú þegar nýtt skólaár er að hefjast blasir mikill vandi við stjórnendum leikskóla og grunnskóla í Reykjavík. Boðleiðir innan borgarkerfisins eru svo flóknar eða seinfarnar að stjórnendur leikskóla telja sig verða að fjölmenna í ráðhúsið til að upplýsa Dag B. Eggertsson borgarstjóra um grunntölur varðandi rekstrarvanda leikskólanna. 

Borgarstjóri og annar samfylkingarmaður, Skúli Helgason, nefndarformaður skólamála, láta eins og kvartanir stjórnenda leikskóla og grunnskóla séu einfaldlega reistar á misskilningi. Stjórnendurnir skilji ekki hve meirihlutinn hafi í raun gert mikið fyrir skólana.

„Við höfum lent á því núna liðnu skólaári að kennarar ákváðu að færa sig um set frá Reykjavík og fara yfir í nágrannasveitarfélögin því þar fengu þeir betri starfsaðstæður og jafnvel betur borgað,“ sagði Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Seljaskóla, í sjónvarpssamtali að kvöldi mánudags 29. ágúst.

Magnús sagði að 600 barna skóli fengi 20 milljónum krónum meira í sinn hlut í Kópavogi en í Reykjavík.

Krafa meirihluta borgarstjórnar um leynd og þöggun lét ekki á sér standa. Í sama fréttatíma hvatti Skúli Helgason til að ekki yrði talað um vandann. Þeir sem stæðu að skólamálum í Reykjavík ættu ekki „að senda út þau skilaboð að einhver stórkostleg vá sé fyrir dyrum“.

Mánudagur 29. 08. 16 - 29.8.2016 12:15

Birtar hafa verið tölur í Frakklandi sem sýna að tekjur í París af ferðamönnum hafa minnkað um einn milljarð evra fyrstu átta mánuði ársins. Þessar tekjur námu 21 milljarði evra árið 2015, þær dragast saman um 1,5 milljarð evra í ár verði ekki breyting til batnaðar lokamánuði ársins.

Samdráttinn skýra yfirvöld með vísan til hryðjuverkanna í París í fyrra og Nice í ár. Flóð hafi verið i vor og veðrið óhagstætt. Þá hafi mikil sókn ferðamanna frá Asíulöndum inn á Île-de-France, það er til Parísar og nágrennis, alvarlega skaðað ímynd Frakklands gagnvart viðskiptavinum með góð fjárráð. Vitnað er í Valérie Pécresse, forseta héraðsráðs Île-de-France, sem hafi sagt að unnt sé að grafa undan góðu áliti á skömmum tíma en það taki langan tíma að endurheimta það.

Um 30% af veltunni í franskri ferðaþjónustu má rekja til umsvifa í Île-de-France héraði. Þessar nýju tölur vekja því áhyggjur víðar en í París og nágrenni. Í fyrra komu fleiri erlendir ferðamenn til Frakklands en nokkru sinni fyrr, 84,5 milljónir. Stjórnvöld vilja að þeir verði 100 milljónir árið 2020 til að Frakkland haldi forystu sinni sem ferðamannaland i heiminum. Af ótta við áhrif minni tekna af ferðamönnum skipuleggja frönsk stjórnvöld nú herferð til að snúa vörn í sókn.

Forvitnilegt er fyrir þá sem skipuleggja ferðaþjónustu hér á landi að fylgjast með umræðum og greiningu Frakka á stöðu sinni þegar harðnar á dalnum hjá þeim. Vissulega hafa þeir ávallt þurft að leggja hart að sér til laða til sín ferðamenn en fjöldi þeirra sem sækir Frakkland heim sýnir að land og þjóð hafa gífurlegt aðdráttarafl enda bjóða fá lönd sambærilega fjölbreytni fyrir ferðamanninn og Frakkland.

Sé það rétt að fjölgun eins hóps ferðamanna fæli aðra frá hlýtur það að setja svip á markaðssetningu og vilja til að taka á móti hópum sem aðrir forðast. Þetta minnir aðeins á sérstöðu ferðaþjónustu sem atvinnugreinar þar sem mannleg samskipti og tengsl við daglegt líf gistiþjóðarinnar skipta miklu. 

Nýlega var ég einn á ferð og bauð ferðamanni við vegarbrún far með mér til borgarinnar. Hann hafði á einum mánuði ekið hringinn og reynt og séð meira en ég hef gert. Hvað réð því að hann kom til Íslands frá mjög fjarlægu heimalandi sínu? Hann hafði heyrt tónlist Sigurrós í kvikmynd og vildi kynnast heimkynnum þeirra sem hana gerðu og fluttu.

Sunnudagur 28. 08. 16 - 28.8.2016 14:00

Ástæða er til að velta fyrir sér réttmæti þess að skrifa um framboð Viðreisnar á forsendum Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem standa að Viðreisn hafa vissulega margir komið að starfi innan flokksins og vafalaust stutt hann oftar án beinnar þátttöku í flokksstarfinu. Þeir urðu hins vegar fúlir í garð flokksins á landsfundi snemma árs 2009 þegar samþykkt var málamiðlunartillaga sem við Friðrik Sophusson lögðum fram um að ekki yrði sótt um aðild að ESB nema þjóðin tæki ákvörðun um það í atkvæðagreiðslu.

Á landsfundi fyrir þingkosningar 2013 rufu ESB-sinnarnir þessa sátt. Fyrst á fundi utanríkismálanefndar fundarins og síðan á landsfundinum sjálfum. Þeir urðu undir í atkvæðagreiðslu á fundinum og sættu sig ekki við þá niðurstöðu heldur höfðu í hótunum við flokksforystuna og frambjóðendur. Síðan ákvað þessi fámenni hópur að segja skilið við flokkinn og býður nú fram undir nafninu Viðreisn.

Að vega og meta Viðreisn á forsendum Sjálfstæðisflokksins gefur alranga mynd af nýja flokknum. Viðreisn er í grunninn ESB-aðildarflokkur borinn uppi af ESB-aðildarsinnum sem telja sig ekki ná fram sjónarmiðum sínum innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir höfða því ekki til þeirra sem aðhyllast stefnu Sjálfstæðisflokksins heldur hinna sem hafa starfað í flokkum með ESB-aðild á dagskrá, það er kjósenda Samfylkingarinnar og Bjartra framtíðar.

Við framboð Viðreisnar blasir við að Samfylking og Björt framtíð eru í rúst. Flokkarnir töpuðu skírskotun sinni sem einkum var reist á boðskap forystumanna flokkanna um að ganga í ESB og taka upp evru.

ESB-sinnar í Samfylkingunni fengu pólitísku óskastund sína vorið og sumarið 2009. Þeir klúðruðu svo ESB-málinu á svo eftirminnilegan hátt að nýi ESB-flokkurinn, Viðreisn, þorir ekki að flagga því nú fyrir kosningar.

Að ræða um Viðreisn á forsendum Sjálfstæðisflokksins gefur ranga mynd. Að sjálfsögðu á að ræða um Viðreisn á hennar eigin forsendum. Hornsteinn stefnu hennar er aðild að ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hafnað þeirri stefnu.

Í sjálfu sér er ekki nýtt að ritað sé um íslensk stjórnmál, þau skýrð og skilgreind með vísan til Sjálfstæðisflokksins og forystumanna hans eins og þeir hafi í hendi sér að ráða þróun allra mála. Að því er Viðreisn varðar má rekja upptök hennar til samþykkta landsfundar Sjálfstæðisflokksins en eftir að forráðamenn Viðreisnar neituðu að fara að þessum samþykktum og kusu sér aðra leið er Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega án þeirra og heldur sína leið.

Laugardagur 27. 08. 16 - 27.8.2016 17:58

Í gærkvöldi var ljósakvöld í garði gamla bæjarins í Múlakoti í Fljótshlíð. Heppnaðist það mjög vel og sóttu um 100 manns samkomuna. Kom í minn hlut að setja hana og hér má lesa ávarp mitt.

Að ráðast í endurgerð húsa og garðs eins og gert hefur verið í Múlakoti er ekkert áhlaupaverk heldur kostar bæði þolinmæði og mikið fé. Úrtölumenn verða á vegi þeirra sem valið hafa leið endurreisnarinnar en takist hún verða þó allir fljótt sáttir að verki loknu og fagna að í það skuli hafa verið ráðist.

Fyrir réttum 20 árum 18. ágúst 1996 átti ég þátt í að opna garðinn Skrúð við Núp í Dýrafirði eins og sjá má hér.

Séra Sigtryggur Guðlaugsson stofnandi Skrúðs, prófastur á Núpi réðst í það stórvirki 7. ágúst 1909 að stofna með formlegu hætti matjurta- og skrautgarð. Valdi hann daginn þegar rétt 150 ár voru liðin frá því að Björn Halldórsson í Sauðlauksdal setti niður kartöflur hér á landi, fyrstur manna.

Garðurinn Skrúður hlaut í maí 2013 alþjóðleg verðlaun „Premio Internazionale Carlo Scarpa per il Giardino“ eða „Alþjóðaverðlaun Carlo Scarpa fyrir garða“.  

Verðlaunin eru nefnd í höfuðið á Carlo Scarpa, einum frægasta arkitekt Ítala á síðastliðinni öld og hefur samnefnd menningar- og rannsóknastofnun veg og vanda af vali þeirra staða sem verðlaunaðir eru hverju sinni.

Í tilkynningu dómnefndar segir meðal annars að þau sé veitt „ þessum litla jurtagarði sem er hannaður eftir reglum rúmfræðinnar og staðsettur í mikilfenglegu landslagi Vestfjarða, og komið á fót í nágrenni unglingaskólans á Núpi á árunum 1907-1909“.

Sagan um hvernig hróður Skrúðs við Núp hefur borist um víða veröld með þessari miklu viðurkenningu er áminning um hve varðveisla og virðing fyrir því sem gert af hugsjón og stórhug skiptir miklu.

Hver sem kynnir sér sögu garðsins sem Guðbjörg Þorleifsdóttir, húsfreyja í Múlakoti, gerði 1897 sér að yfir honum svífur meira en það sem við kennum almennt við garðrækt. Þess vegna kallaði ég garðinn í Múlakoti „lifandi þjóðargersemi“ í orðum mínum við upphaf samkomunnar í gær.

Það er fagnaðarefni að markvisst er unnið að endurreisn garðsins í Múlakoti samhliða endurgerð gamla bæjarins þar. Hróður þess framtaks á ekki síður eftir að berast víða en endurreisn Skrúðs á sínum tíma.


 

Föstudagur 26. 08. 16 - 26.8.2016 10:30

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vildi ekki að efnt yrði til flokksþings fyrir kosningar. Hann greip til tafaleikja en þrjú kjördæmisráð hafa nú sagt hug sinn og flokksþing verður haldið. Sigmundur Davíð segist ætla að bjóða sig fram á ný til formennsku. Málsmetandi ráðamenn í flokknum segjast ekki fara gegn honum. 

Nú taka framsóknarhjólin að snúast hraðar og spennan eykst. Fyrr en siðar ætti að halda flokksþingið til að losa framsóknarmenn úr þessari spennitreyju.

Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi býður sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna alþingiskosninganna. Rætt er við hana í Fréttablaðinu í dag og er hún meðal annars spurð um afstöðuna til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu. Hildur svarar:

„Ég held að það sé hægt að gera mun betur í því að bjóða upp á valfrelsi í velferðarmálum. Valfrelsi snýst um virðingu gagnvart til dæmis fólki sem er að eldast og vill gjarnan búa heima og stýra sinni þjónustu sjálft. Það sé ekki ríkisbragur á henni alltaf. Við sjálfstæðismenn höfum haft þá skoðun lengi að það sé í lagi, og það halli ekki á neinn, þó að við bjóðum upp á aukna þjónustu varðandi eitthvað sem þá kostar. Þessi tiltekna þjónusta hefði hvort sem er aldrei verið í boði hjá hinu opinbera en það væri hægt að kaupa sér aukaþjónustu og fá þannig peninga inn í kerfið til að standa betur að þeirri grunnþjónustu sem við viljum tryggja. [...] Vill almenningur kerfi þar sem aldrei má taka neina aðra snúninga. Það sé bara opið frá níu til fimm og þú færð þrif sem ná upp í einn metra og þrjátíu sentimetra en ekki hærra. Og að standa í biðröð? Við þekkjum alveg þetta kerfi og sjáum hvert það stefnir.“Á öðrum stað í samtalinu segir Hildur: „Mér finnst oft meiri fordómar frá vinstri yfir til hægri en öfugt og hef verið hugsi yfir því hvernig hópur fólks lengst til vinstri, sem er mjög upptekið af því að vera fordómalaust gagnvart samkynhneigð eða trúarbrögðum, sem er gott og blessað, er mjög snöggt að vera með fordóma gagnvart einhverjum sem á pening.“

Það verður forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum talsmönnum pólitíska rétttrúnaðarins til vinstri við þessum hispurslausu skoðunum sem auðvitað eiga fyllsta rétt á sér og gott er að viðra opinberlega.

Fimmtudagur 25. 08. 16 - 25.8.2016 15:00

Samtal mitt við Árna Heimi Ingólfsson tónlistarfræðing er komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum bók hans Sögu tónlistarinnar sem er sannkallað stórvirki.

Í hádeginu í dag var opinn fundur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands þar sem Janne Haaland Matlary, prófessor við stjórnmálafræðideild Oslóarháskóla og ráðgjafi norsku ríkisstjórnarinnar í öryggismálum, ræddi um öryggis- og utanríkismál líðandi stundar.

Það er mikill fengur að því að fá fyrirlesara frá Norðurlöndunum hingað til að ræða þessi mál vegna þess hve lítil fræðileg umræða er um þau af hálfu innlendra manna. Þá eru forsendur til slíkra umræðna af innlendri hálfu allt aðrar en norrænna fræðimanna vegna skorts á rannsóknum hér sem unnar eru með aðgang að þekkingu og reynslu herfræðinga eða hermanna.

Matlary prófessor sat í hópi sérfræðinga utan norska stjórnkerfisins sem hafði aðgang að leynilegum trúnaðargögnum hersins og samdi skýrsluna Sameiginlegt átak sem kom út í apríl og snerist um stöðu Noregs í öryggismálum og leiðir til að treysta öryggi lands og þjóðar. Hér má sjá hvað ég sagði um þessa skýrslu í maí 2015. 

Yfirmaður norska heraflans gaf út skýrslu með mati hersins á stöðu öryggismála í október 2015. Norska ríkisstjórnin lagði síðan fram tillögur sínar um varnar- og öryggismálastefnu Noregs 2017 til 2020 17. júní 2016. Eru tillögurnar nú til umræðu og afgreiðslu í norska stórþinginu.

Alþingi samþykkti 24. ágúst frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð. Miklu skipti að samstaða náðist um ályktun alþingis um þjóðaröryggi þar sem viðurkennt er að aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin eru hornsteinar.

Nú skal skipa þjóðaröryggisráð sem meðal annars skal meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum; stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál.

Forsætisráðuneytið fer með málefni þjóðaröryggisráðs. Nú er þess beðið að það leggi fram áætlun um hvernig unnið skuli að matinu á ástandi og horfum í öryggis- og varnarmálum og öðrum þáttum nýju laganna. Miklu skiptir að traustið sem myndast hefur við afgreiðslu ályktunar og laga um þjóðaröryggismál á alþingi rofni ekki þegar kemur að sjálfri framkvæmdinni.

ps. Hér fyrir ofan er sagt að frv. um þjóðaröryggisráð hafi verið samþykkt 24. ágúst og reisti ég það á frétt Morgunblaðsins. Hún var ekki rétt, þingið afgreiddi frv. ekki þann dag. 

 

 

 

Miðvikudagur 24. 08. 16 - 24.8.2016 18:15

 

Í dag ræddi ég við Árna Heimi Ingólfsson tónlistarfræðing á ÍNN um bók hans Sögu tónlistarinnar sem kom út sl. vor, mikið og fróðlegt verk. Þátturinn verður frumsýndur kl. 20.00 á rás 20.

Vafalaust er unnt að stunda hluta lögreglu-háskólanáms í fjarnámi. Grunnfærnin til að sinna starfinu af öryggi fyrir sjálfan sig og aðra felst í námi og þjálfun þar sem fjarnám dugar ekki.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þennan þátt námsins sé best að stunda í aðstöðu sem er á Keflavíkurflugvelli. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að skólinn hafi ráðgert að nýta aðstöðuna þar í tilboði sínu til Ríkiskaupa vegna námsins. Tilboðið fækk hæstu einkunn 9,5 af 10. Menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson valdi hins vegar Háskólann á Akureyri og er gefið til kynna að það hafi verið vegna fjarkennslu.

Hafi byggðasjónarmið að lokum ráðið ákvörðun ráðherrans vó það þyngra en öryggissjónarmið. Ýmis ummæli vegna ákvörðunarinnar má skilja á þann hátt að hún leiði til fjölgunar lögreglumanna á landsbyggðinni. Ekki skal gert lítið úr mikilvægi þess. Öryggisþátturinn vegur líklega þyngra en búseta þegar tekin er ákvörðun um hvort hefja eigi lögreglunám. Sé dregið úr mikilvægi hans minnkar almennur áhugi á að stunda námið.

Ég skrifaði grein í Morgunblaðið föstudaginn 19. ágúst (sjá hér) þar sem ég taldi EFTA/EES-aðild henta Bretum best á leið þeirra út úr ESB. Um svipað leyti og greinin birtist var sagt frá áhuga breskra fésýslumanna á að Bretar gerðu tvíhliða samning við ESB eins og Svisslendingar hefðu gert. Tvíhliða samningar Svisslendinga hafa kallað á slíkan texta-frumskóg að líklega ratar enginn um hann enda skiptist hann í svo mörg hólf að ESB hefur lagt hart að Svisslendingum að taka upp aðra skipan. Þeir neita og komast upp með það vegna þess að land þeirra er eins og tappi sem unnt er að nota til að stífla lífæðar ESB. Eitt er að hluti Breta vilji semja um þetta við ESB annað að ESB taki þetta í mál. – Hafa Bretar sterkari samningsstöðu gagnvart ESB en Svisslendingar?

 

Þriðjudagur 23. 08. 16 - 23.8.2016 14:30

Spurning er hvort Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra stefnir að formannsframboði í Framsóknarflokknum í krafti þess að hún styðji ekki langtímastefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og boði að leggja fram frumvarp um almannatryggingar og fá það samþykkt á síðustu dögunum fyrir þingrof þótt það hafi ekki enn verið samið að fullu og því síður samþykkt í ríkisstjórn.

Sagt var í hádegisfréttum ríkisútvarpsins að ósamda frumvarpið fæli í sér „verulegar breytingar og hækkanir á lífeyrisgreiðslum ekki síst gagnvart konum sem ekki hafi verið lengi á vinnumarkaði og körlum í láglaunastörfum“. Af orðum Eyglóar í fréttatímanum má ráða að ráðuneyti hennar hafi ekki lokið vinnu sinni við frumvarpið og þá sé hvorki vitað um umsögn forsætisráðuneytisins né fjármálaráðuneytisins. Mátti jafnvel skilja Eygló á þann veg að hún væri ekki viss um hvort umsagnir þessara ráðuneyta bærust. Fjármálaráðuneytinu er þó skylt að leggja fram kostnaðarmat á stjórnarfrumvörpum.

Af efni fréttarinnar má ráða að tilgangur Eyglóar með að ræða þetta mál á þann veg sem hún gerði hafi fyrst og síðast verið að skapa sér áróðursstöðu innan Framsóknarflokksins og gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Sýnir staðan í Framsóknarflokknum hve brýnt er að ganga sem fyrst til kosninga svo að nýtt umboð fáist fyrir nýja ríkisstjórn. Við mat á stöðu ríkisstjórnarinnar verður að leggja mat á vilja beggja stjórnarflokkanna til að standa saman að lausn mála.

Ágreiningur innan Framsóknarflokksins setur svip á þingflokk hans, fundi kjördæmaráða hans og teygir sig nú inn í ríkisstjórnina. Kalt mat á þessari stöðu leiðir til þeirrar niðurstöðu að boða verði til kosninga þar sem flokkunum er veitt nýtt umboð í ljósi þess sem þeir hafa fram að bjóða.

 

Mánudagur 22. 08. 16 - 22.8.2016 10:30

Skólar eru nú að hefjast að nýju eftir sumarleyfi. Daglegt líf tekur á sig annan blæ. Þetta var til dæmis greinilegt í miðborg Reykjavíkur upp úr hádegi á föstudaginn þegar Lækjargata fylltist af ungu, glæsilegu fólki á leið úr Kvennaskólanum eða MR. Í stuttan tíma settu nemendurnir meira að segja meiri svip á gangstéttirnar en erlendu ferðamennirnir.

Í góða veðrinu var mannfjöldi fyrir framan Hörpu sem er á orðin miðstöð ferðamanna í miðborginni. Þar tekur fólk upp bitann sinn vilji það ekki fara á veitingastaði og salernisaðstaða er góð í húsinu. Þeir sem veita ferðaþjónustu hafa fengið aðstöðu í Hörpu meðal annars til að skipuleggja hópferðir.

Harpa hefur tekjur af þeim sem sækja þar ráðstefnur. Hvað með þá sem koma þangað til að borða nestið sitt? Aðstaða til þess er nauðsynleg í Reykjavík og vilji ráðamenn að Harpa sé nýtt í því skyni ber að taka ákvörðun um það og framfylgja henni meðal annars með því að borgaryfirvöld beri eðlilegan kostnað af slíkri þjónustumiðstöð.

Borgaryfirvöld hafa árum saman íþyngt rekstri Hörpu með ólögmætri innheimtu á fasteignagjöldum. Hvergi hefur birst að þau kunni að meta hve ríkan þátt húsið hefur átt i að skapa aðstöðu og afþreyingu fyrir erlenda ferðamenn í borginni. 

Það er í raun undarlegt miðað við þróun undanfarinna ára að ekki skuli vera tvískipt stjórn á Hörpu. Annars vegar stjórn sem lýtur að listrænu hliðinni þar sem tónlistin með sinfóniuna í fararbroddi er þungamiðjan og hins vegnar stjórn sem ber ábyrgð á rekstri hússins og skapar þann ramma sem hæfir húsinu. Það var aldrei ætlunin að tónlistarstarfsemi bæri rekstur hússins í þessari mynd á herðum sér.

Nú hefur Leifur Magnússon upplýst í Morgunblaðinu að ríkið hefur ekki heimild til að selja Reykjavíkurborg neitt land í Vatnsmýrinni nema það sem er utan flugvallargirðingar og í því efni er stuðst við heimild í fjárlögum frá árinu 2013. Þrátt fyrir þetta er látið eins og ríkið geti selt borginni land innan girðingar vallarins.

Enn eitt stjórnsýsluhneykslið vegna flugvallarins er afhjúpað í grein Leifs. Það er fyrir löngu tímabært að alþingi taki af skarið um réttarstöðu Reykjavíkurflugvallar með sérstökum lögum til að losa starfsemina þar undan þeirri kvöð að vera háð duttlungum ráðamanna borgarinnar.

 

Sunnudagur 21. 08. 16 - 21.8.2016 12:15

Á vefsíðunni vardberg.is var í gær sagt frá sérkennilegri grein um Ísland á þýskri vefsíðu, Bürgerstimme, sjá hér

Fram kemur að á rússnesku net-fréttasíðunni Sputniknews hafi mánudaginn 15. ágúst birst endursögn af grein eftir Þjóðverjann Joachim Sondern á þýska netfréttablaðinu Bürgerstimme laugardaginn 13. ágúst. Sondern (f. 1984) lýsi sjálfum sér sem áhugamanni um þjóðfélagslega heimspeki.

Sputniknews er ein af áróðurssíðunum sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur ýtt úr vör til að útbreiða það sem rússnesku áróðursvélinni er þóknanlegt. Sondern fer ekki leynt með aðdáun sína á Pútín þegar hann segir Íslendinga í tapliðinu með því að leggjast flata fyrir Bandaríkjunum og NATO í stað þess að halla sér að þeim hópi ríkja þar sem Pútín hefur forystu. Sondern segir:

„Þegar öllu er á botninn hvolft eru það efnahagskerfi BRICS-ríkjanna [nýmarkaðsríkjanna Brasilíu, Rússlands, Indlands og Kína] sem duga best, fólk um allan heim viðurkennir hvílíka framtíð BRICS hefur undir Rússlandi. Hvort sem um er að ræða sjálfstæða mynt, þróunarbanka eða bann við erfðabreyttum matvælum – í öllum tilvikum boðar Valdimir Pútín nýja hugsun. Þetta er ástæðan fyrir ótta NATO-veldanna um að heimsmynd þeirra hrynji eftir því sem áhrif BRICS verða meiri á íbúa þeirra.“

Þetta er einkennilegur boðskapur hvernig sem á hann er litið en þó sérstaklega þegar staða Íslendinga er metin. Þeir hafa frelsi til að semja við allar þessar þjóðir eins og viðskiptasamningurinn við Kína sýnir. Raunar var það sjálfur Pútín sem bannaði innflutning á islenskum fiski og matvælum til Rússlands.

Í stað þess að segja beint að það komi sér illa fyrir hernaðarhagsmuni Rússa að Ísland sé í NATO og hafi tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin er ráðist ómaklega að Íslendingum, þeir hafi aldrei notið sjálfstæðis og láti blekkjast af lygum um ógn af Rússum.

Umhugsunarefni er hvað knýr Þjóðverja til að setjast niður og semja órökstuddan óhróður um Íslendinga vegna aðildar þeirra að NATO og að viðbúnaði til að tryggja stöðugleika og hernaðarlegt öryggi á N-Atlantshafi. Nærtækasta skýringin er að skrifin eigi að þjóna hagsmunum Rússa. Óþarfi er að leita langt yfir skammt í því efni.

 

Laugardagur 20. 08. 16 - 20.8.2016 11:00

Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi blaðamaður á Fréttablaðinu og  varaborgarfulltrúi R-listans, svaraði fyrir nokkrum vikum spurningu blaðamanns um hvort hann ætlaði að bjóða sig fram á vegum vinstri-grænna í komandi þingkosningum. Hann sagði nefnd á vegum flokksins vinna að uppstillingu lista í Reykjavík, en síðan yrði flokksráð að samþykkja hann. Svarið var með öðrum orðið opið.

Vegna komandi þingkosninga er Kolbeinn tekinn til við að skrifa að nýju um pólitík í aðsendum greinum til Fréttablaðsins. Boðskapur hans er að Steingrímur J. Sigfússon hafi staðið sig einstaklega vel sem fjármálaráðherra.

Kolbeinn vill á þennan hátt gera lítið úr árangri í ríkisfjármálum í ráðherratíð Bjarna Benediktssonar. Taldi Kobeinn (í grein 18. ágúst) Bjarna fara með rangt mál þegar hann sagði á þingi að afgangur á fjárlögum yfirstandandi árs yrði meiri en allur uppsafnaður halli vinstristjórnarinnar. Bjarni svaraði Kolbeini samdægurs á FB-síðu sinni og ítrekaði að á árunum 2009, 2010, 2011 og 2012 hefði samanlagður halli ríkissjóðs verið rétt um 390 milljarðar. Það væri einnig staðreynd að það stefndi í um 400 milljarða afgang á fjárlögum yfirstandandi árs. Það væri meira en allur uppsafnaður halli vinstristjórnaráranna.

Bjarni sýndi að Kolbeinn fór með rangt mál í fleiri en einu tilliti í blaðagrein sinni. Kolbeinn vildi þó eiga síðasta orðið og sagði í nýrri grein í Fréttablaðinu (19. ágúst) að Bjarni væri „óvenju pirraður þessa dagana“! Kolbeinn gafst þannig upp á málefnalegum rökræðum. Birtist það meðal annars í þeim rangfærslum hans að ríkissjóður hefði staðið illa þegar bankakerfið hrundi fyrir átta árum. Það var einmitt einstaklega sterk staða ríkissjóðs þá sem auðveldaði öll átök við ríkisfjármálavandann vegna hrunsins.

Rangfærslurnar í málflutningi Kolbeins Óttarssona Proppé sýna hvaða leið hann telur líklegasta til að verða valinn á framboðslista VG í Reykjavík: að taka upp hanskann fyrir Steingrím J. Sigfússon sem fjármálaráðherra – manninn sem afhenti kröfuhöfunum bankana með leynd, notaði hrunið til að innleiða skattkerfi í anda sósíalista og vildi setja Icesave-klafann á þjóðina svo að aðeins fátt eitt sé nefnt. Sé fortíðarþrá til hörmungarstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. varða á leið til fram innan VG lofar það ekki góðu um framtíðina.

Föstudagur 19. 08. 16 - 19.8.2016 12:00

Eitt af þeim leikbrögðum sem menn nota þegar þeir komast í rökþrot er að segja: Já, en þetta eru gamlar fréttir. 

Þeir sem taka að sér að verja ákvörðun Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins um að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um mikilvæga ríkisstjórnartillögu gera það með þessum hætti. Framsóknarflokkurinn hafi áður brosað til vinstri. Eygló hafi jafnan haft þennan fyrirvara vegna útgjalda úr ríkissjóði, þau yrðu að vera meiri til ráðuneytis hennar. Það hafi áður gerst að ráðherrar styðji ekki stjórnarfrumvörp.

Allt er þetta satt og rétt en dugar ekki sem vörn fyrir Eygló. Það verður að skoða hvert mál fyrir sig. 

Í gær greiddu þingmenn í fyrsta sinn atkvæði um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017 til 2021 í samræmi við lög nr. 123/2015, um opinber fjármál. Áætlunin er reist á fyrirliggjandi fjármálastefnu fyrir sama tímabil og skilyrðum hennar. Þetta er því mikilvægt stefnumótandi skjal sem ítrekað hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. 

Allt sem snertir fjárlagatillögur og fjármálastefnu ríkisstjórnar er þess eðlis að krefjast verður meiri samheldni ráðherra um þau mál en önnur pólitísk álitamál. Að rjúfa samstöðu ríkisstjórnar um fjármál ríkisins felur í sér yfirlýsingu um ágreining af því tagi að undrun vekur að ráðherra kjósi að sitja áfram í ríkisstjórninni eða forsætisráðherra taki ekki af skarið og leysi hann frá störfum. 

Í þessu tilviki er einnig um fyrstu atkvæðagreiðslu um lögbundna tillögu af hálfu ríkisstjórnarinnar að ræða. Að gefa það fordæmi að ráðherra geti átölulaust setið hjá við atkvæðagreiðsluna vegna óánægju með að ráðuneyti hans fái ekki nóg fyrir sig er ekki aðeins varhugavert heldur grefur undan markmiðum laganna sem standa að baki tillögunni og í raun tillögunni sjálfri.

Hér á þessum stað var á það bent áður en stjórnarhremmingarnar urðu í byrjun apríl að skynsamlegt væri að rjúfa þing og kjósa í haust vegna augljósra bresta í stjórnarsamstarfinu. Þessir brestir hafa nú birst skýrar en áður. Fram hjá þeim verður ekki litið enda verður nýtt þing kosið í haust. 


Vilji menn túlka framgöngu Eyglóar á þann veg að framsóknarmenn brosi nú til vinstri segir það kjósendum á hverju þeir eiga von kjósi þeir Framsóknarflokkinn: ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum og yfirboðum í ríkisútgjöldum.

Fimmtudagur 18. 08. 16 - 18.8.2016 15:00

Samtal mitt við Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra á ÍNN í gær má sjá hér

Hér var vakið máls á því á dögunum að Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365, hefði gert upp við Samfylkinguna vegna ESB-málsins í leiðara Fréttablaðsins laugardaginn 13. ágúst. Kristín sagði Samfylkinguna hafa klúðrað málinu og eyðilagt draumsýn sína. Niðurstaðan hér var að stjórnmálasamband stjórnenda 365 og Samfylkingarinnar sem hófst árið 2003 hefði rofnað.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, tók upp hanskann fyrir 365 eftir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gagnrýndi Fréttablaðið á FB-síðu sinni miðvikudaginn 17. ágúst. Í Skjóðunni nafnlausum dálki í markaðsblaði Fréttablaðsins þennan sama miðvikudag var skrifað af þótta í garð Bjarna og spurt hvenær hann ætlaði að hætta að berja hausnum við steininn og viðurkenna þá ,,einföldu staðreynd" að leiðin til að bæta hag allra væri sú að taka upp alþjóðlega mynt.

Vegna þessa benti Bjarni á leiðara aðalritstjóra 365 um ESB-klúður Samfylkingarinnar og  leiðara Þorbjörns Þórðarsonar, blaðamanns Fréttablaðsins, 17. ágúst þar sem sagt er að margir af virtustu hagfræðingum heims séu „nú sammála um að evran í núverandi mynd hafi verið mistök“. Þorbjörn segir: „Brestir á evrusvæðinu og óvissa um framtíð myntsamstarfsins gerir það varla fýsilegt fyrir Íslendinga að stefna á upptöku evru.“

Þetta vakti Bjarna undrun um „hve margir fjölmiðlar hér á landi virðast starfa án þess að nokkur ristjórnarstefna sé sjáanleg“. Bjarni segir:

„Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast síðan á að grípa gjallarhornið sem fjölmiðillinn er orðinn fyrir þá og dæla út skoðunum yfir samfélagið. Ein í dag - önnur á morgun. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegginn?“

Þessi orð urðu Katrínu tilefni til að taka þykkjuna upp við Bjarna á þingfundi í dag. Sagt er að Jón Ásgeir Jóhannesson, ráðgjafi eiginkonu sinnar, eiganda 365, sé Skjóðan. Lagði Katrín grunn að nýju pólitísku bandalagi 365 við stjórnmálaflokk með ræðum sínum á alþingi í dag? Víst er að enginn annar stjórnarandstæðingur sá ástæðu til að bera blak af 365.

Miðvikudagur 17. 08. 16 - 17.8.2016 15:30

Í dag ræddi ég við Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er á dagskrá kl. 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun – alltaf eftir kl. 20.00 á tímaflakki Símans.

Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri ÍNN, ræddi við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, í þætti sínum Hrafnaþingi í gær. Benedikt vill bylta starfsumhverfi í landbúnaði og sjávarútvegi og segist hafa á takteinum ný kerfi sem haldi þótt við förum inn í Evrópusambandið. Ekkert mál sé að semja um tvo til þrjá kafla við ESB og leggja málið fyrir þjóðina sem hljóti að samþykkja aðild til að taka upp evru en fráleitt sé að ætla að Ísland breytist í Grikkland og Portúgal við innleiðingu evrunnar hér.

Sá sem vill leiða Ísland inn í ESB verður að samþykkja að atvinnugreinarnar sjávarútvegur og landbúnaður verði innlimaðar í sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB. Benedikt talaði um dauða hönd nefnda og ráða í þessum greinum hér á landi, við ESB-aðild skapaðist eitthvert frelsi í greinunum. Staðreynd er að innan ESB mundu þær verða örsmá afgangsstærð hjá tæknikrötum í Brussel sem taka mið af hagsmunum ESB en ekki smáþjóða.

Mátti skilja Benedikt á þann veg að samráð íslenskra fiskifræðinga nú við alþjóðlega starfsbræður við töku ákvarðana um leyfilegan hámarksafla jafngilti því að færa ákvarðanir um hámarksaflann til Brussel. Þá lét hann eins og danskir og breskir sjómenn nytu sín vel undir sjávarútvegsstefnu ESB. Hún hefur þó næstum gengið að fiskstofnum dauðum á miðum þeirra. Loks telur hann að ESB muni samþykkja ráð okkar yfir 200 mílunum af því að Grænland og Færeyjar eru utan ESB!

Ógjörningur var að átta sig á hvort Benedikt lýsti með orðum sínum eigin skoðun eða stefnu Viðreisnar. Margt bendir til að ástandið innan flokksins sé ekki ólíkt því sem er hjá pírötum, að fámennur hópur manna ráðskist með menn og málefni en út á við sé látið eins og um fjöldahreyfingu sé að ræða – gagnsæið er ekki neitt.

Nú er ólga innan raða pírata vegna ásakana um að sigurvegari í prófkjöri þeirra í norðurlandskjördæmi vestra hafi „smalað grimmt“ meðal fjölskyldu og vina, alls greiddu 95 atkvæði í prófkjörinu en 17 buðu sig fram. Ekki er gefið upp hve margir greiddu sigurvegaranum atkvæði - gagnsæið er ekki neitt.

Þriðjudagur 16. 08. 16 - 16.8.2016 12:30

Félagsmál og þar með húsnæðismál hafa jafnan verið í höndum vinstri manna í ríkisstjórnum. Þeir hafa talið frumskyldu sína að hleypa sjálfstæðismönnum ekki beint að þessum málaflokki við ríkisstjórnarborðið.

Af núlifandi stjórnmálamönnum hafa fáir talað meira um húsnæðismál en Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. Í alla áratugina sem hún sat á þingi leit hún á húsnæðismál sem sérsvið sitt og talaði oft eins og hún ein vissi hvernig ætti að móta stefnu sem sérstaklega tæki mið af hag hinna lakast settu.

Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga núna þegar enn einu sinni eru kynnt ný úrræði í húsnæðismálum og vinstrsinnar býsnast yfir því að ekki sé nóg að gert fyrir hina tekjulægstu. Víst er að nýja stefnan auðveldar stórum hópi ungs fólks að eignast eigið húsnæði. Halda menn að væri til eitthvert eitt ráð til að gera þeim sem minnst bera úr býtum kleift að festa fé í húsnæði að vinstrisinnarnir hefðu ekki nýtt sér það? Að vísu þykjast þeir hafa gert það en því miður árangurslaust ef marka má stöðuna í húsnæðismálum núna. Að skella skuldinni vegna hennar á núverandi ríkisstjórn er fráleitt.

Í frétt ríkisstjórnarinnar vegna nýju aðgerðanna segir meðal annars:

„Á árunum 2005 til 2014 jókst hlutfall ungs fólks á leigumarkaði verulega, úr 12% í 31%. Jafnframt er fólk á aldrinum 25-29 ára mun líklegra til að búa í foreldrahúsum nú en fyrir áratug. Eftirspurn eftir minni íbúðum hefur einnig aukist mikið á undanförnum  árum með tilheyrandi verðhækkun húsnæðis, en minnstu eignirnar hafa hækkað hlutfallslega mest og rúmlega tvöfalt meira en sérbýli frá árinu 2009.“

Þetta segir sína sögu um í hvert óefni hefur stefnt. Með aðgerðum sínum ætlar ríkisstjórnin að snúast gegn þessari þróun. Vonandi tekst það þrátt fyrir hefðbundna, málefnasnauða og árangurslausa afstöðu vinstri manna. Reynslan sýnir að þeir ráða ekki yfir neinu sem dugar til að móta skynsamlega, opinbera stefnu í húsnæðismálum. Þeim hefur verið trúað allof lengi fyrir yfirstjórn málaflokksins. Ástæðulaust er að taka mark á niðurrifstali þeirra í stjórnarandstöðu.

 

 

Mánudagur 15. 08. 16 - 15.8.2016 14:00

Engu er líkara en tveir Framsóknarflokkar starfi nú í landinu. Sá sem fylgir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni flokksformanni að málum og hinn sem stendur að baki Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra og varaformanni flokksins.

Sigurður Ingi lýsir skoðun sinni um flokksmálefni, telur til dæmis að efna beri til flokksþings fyrir kosningar, nefnir ákveðna dagsetningu fyrir kjördag og ákveður hvaða mál skuli setja á oddinn. Sigmundur Davíð talar í véfréttarstíl og vill til dæmis ekki svara spurningu fréttamanns ríkisútvarpsins um hvort hann muni sem flokksformaður leggja til á miðstjórnarfundi 10. september að boðað skuli strax til flokksþings eða ekki.

Þingmenn flokksins tala um einhug innan sinna raða eftir að þeir hittast. Þórunn Egilsdóttir, varaformaður þingflokks Framsóknarflokksins, sagði í ríkisútvarpinu í morgun að þingkosningar yrðu í haust. Enginn hefði mótmælt þeirri ákvörðun á fundi þingflokksins að kvöldi sunnudagsins 14. ágúst. Þórunn sagði að á fundinum hefðu þingmenn stillt saman strengi.

Miðað við málflutning framsóknarþingmannanna Vigdísar Hauksdóttur, Gunnars Braga Sveinssonar, Sigmundar Davíðs  og Þorsteins Sæmundssonar gegn ákvörðun um að kosið skuli til þings 29. október 2016 koma orð Þórunnar nokkuð á óvart enda er gengið að því sem vísu að þingmennirnir fjórir hafi setið þingflokksfundinn.

Þögn þeirra á þingflokksfundinum kann að vera til marks um að þeir átti sig á að ekki sé vænlegt til eflingar flokknum að hann snúist gegn því að kjósendur fái tækifæri til að leggja dóm á störf þingmanna fyrr en síðar.

Miðað við sterka málefnastöðu ríkisstjórnarinnar sem styrktist enn frekar í dag með tillögunum sem kynntar voru í húsnæðis- og verðtryggingarmálum er sérkennilegt að innan Framsóknarflokksins skuli menn setja á deilur um atriði sem snerta form en ekki efni og eru til þess eins fallin að draga úr trausti til flokksins.

 

 

 

 

Sunnudagur 14. 08. 16 - 14.8.2016 15:00

Nú segir breska blaðið The Sunday Times að Bretar muni ekki ganga úr ESB fyrr en undir árslok 2019 vegna þess að „uppnám“ sé vegna málsins í ríkisstjórninni.  Segir blaðið að ráðherrar hafi gert áhrifamönnum í fjármálaheiminum í London viðvart um að mjög ósennilegt sé að 50. gr. ESB-sáttmálans um úrsögn úr sambandinu verði virkjuð í ársbyrjun 2017 en við það hefst tveggja ára samningaferli um úrsögnina.

Meginvandi Theresu May og stjórnar hennar er að innan breska stjórnarráðsins og meðal stjórnmálamanna veit enginn hvaða leið er best úr ESB, það skortir bæði samningsmarkmið og sérfræðinga. Telur ríkisstjórnin skynsamlegra að gefa sér góðan tíma til undirbúnings  en láta slag standa.

Deilur í Bretlandi um dagsetningar varðandi úrsögnina og upphaf ferðarinnar úr ESB minna dálítið að talið hér á landi vorið 2009 um nauðsyn hraðferðar inn í ESB, Annars vegar töluðu ESB-aðildarsinnar á þann veg að nota yrði tækifærið af því að „hér varð hrun“ til að sækja um aðild og hins vegar að úr því að Carl Bildt og Svíar tækju við umsókninni yrði hún afgreidd með hraði og það tæki kannski í mesta lagi 18 mánuði að ganga frá aðildarsamningi sem yrði lagður fyrir þjóðina.

Tillögu um að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vildi ESB-umsókn var hafnað. Slíkt þekktist ekki meðal siðaðra þjóða. Rokið var undirbúningslaust af stað, allur málatilbúnaðurinn reyndist rangur og málsmeðferðin tómt klúður. Í raun varð úr þessu einstakt hneyksli í utanríkismálasögu þjóðarinnar.

Breska ríkisstjórnin fékk umboð og fyrirmæli þjóðarinnar um að ganga úr ESB. Það kom henni og embættismönnum hennar í opna skjöldu. Forsætisráðherrann David Cameron sagði af sér, nýr forsætisráðherra og ný ríkisstjórn kom til sögunnar og vill hún vanda sig. Stjórnin ætti að láta hroðvirkni  ESB-aðildarríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur verða sér víti til varnaðar.

Jóhanna og Össur höfðu að vísu aldrei neitt umsóknarumboð frá þjóðinni þótt þau létu stundum í það skína að þau mundu gera svo góðan samning að öll þjóðin samþykkti hann. Allt var það blekking eins og annað hjá ESB-aðildarsinnum. ESB-úrsagnarsinnar í Bretlandi eru óþolinmóðir. Vilji þeir læra af samskiptareynslu okkar Íslendinga við ESB sjá þeir að best er að gefa sér góðan tíma til undirbúnings, afla sér nægrar þekkingar og hvorki blekkja sjálfa sig né aðra.

 

 

Laugardagur 13. 08. 16 - 13.8.2016 18:00

Staðfest er í fréttum undanfarið að Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri hjá 365, hikar ekki við að víkja þeim úr starfi sem henni eru ekki að skapi. Ingibjörg S. Pálmadóttir, eigandi 365, og Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, fara sameiginlega með yfirstjórn fjölmiðlaveldisins og kalla þá á teppið sem sýna þeim ekki hollustu. Innan 365 ríkir hræðsla við eigendur og stjórnendur.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag lyftir Kristín refsivendinum gegn Samfylkingunni fyrir að hafa klúðrað ESB-umsókninni. Hún segir:

„Af stað var hrundið atburðarás þar sem tíma, fé og og vinnu rándýrra sérfræðinga var eytt í að fínpússa samninga sem aldrei var raunhæft að yrðu að veruleika. Heilt ráðuneyti var skipulagt til að einblína á aðildarferlið í fyrirsjáanlegri framtíð. Samt var ESB-ferðin alltaf án fyrirheits og umsóknin að endingu dregin til baka. Nú situr utanríkisráðuneytið uppi með hóp sérfræðinga í Evrópumálum, sem eru verkefnalausir. […]

Samfylkingin á öðrum fremur sök á því að Evrópudyrunum hefur verið skellt á Íslendinga – í bili. […] Sá sem mest vildi, klúðraði. Af hverju ætti Evrópusambandið annars að taka upp þráðinn að nýju eftir það sem á undan er gengið? Af hverju ætti þjóðin að veðja á annað svona leikrit? […] Flokkurinn klúðraði draumsýn margra okkar og skaðaði hagsmuni lands og þjóðar.

Því skyldi engan undra að Samfylkingin eigi nú erfitt uppdráttar og reyni að samsama sig Pírötum af því að þeir eiga upp á pallborðið þessa stundina. Fall flokksins, sem fyrir stuttu taldi sig annan turnanna í íslenskum stjórnmálum er hátt. Sennilega væri flokksmönnum hollast að líta í eigin barm eftir sökudólgum.“

Hér talar sárreiður ESB-aðildarsinni sem segir draumsýn sína hafa verið eyðilagða af Samfylkingunni. Augljóst er að hjarta ráðamanna 365 slær ekki með Samfylkingunni fyrir kosningar í ár eins og verið hefur síðan 2003 þegar bandalag eigenda Fréttablaðsins var gert við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um að koma Davíð Oddssyni frá völdum.

Ekkert af því sem Kristín Þorsteinsdóttir segir um ESB-aðildarferlið er ofsagt. Það er svartasta skeiðið í utanríkismálasögu íslenska lýðveldisins og sögu utanríkisþjónustunnar þar sem röngum ákvörðunum var fylgt fram með blekkingum.

Spennandi verður að sjá á hvern ráðamenn 365 veðja í kosningabaráttunni núna sem merkisbera ESB-aðildarinnar.

Föstudagur 12. 08. 16 - 12.8.2016 21:30

Þau pólitísku stórtíðindi gerðust í dag að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tilkynnti brottför sína úr stjórnmálum, hann yrði ekki í kjöri í þingkosningunum sem ákveðnar hafa verið 29. október. Illugi hefur verið ráðherra síðan 2013 og einn af forvígismönnum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Framboðsfrestur í prófkjöri flokksins í borginni rann út í dag. 

Kannanir undanfarið hafa sýnt að sjálfstæðismenn og píratar skiptast á að njóta mesta fylgis. Píratar hafa talað eins og þeir séu eina opna lýðræðisaflið í landinu. Sé tekið mið af þátttöku í prófkjöri pírata annars vegar og sjálfstæðismanna hins vegar sést að píratar standa sjálfstæðismönnum á engan hátt snúning. Að ímynda sér að aðeins 1033 einstaklingar tækju þátt í sameiginlegu prófkjöri sjálfstæðismanna í báðum kjördæmum Reykjavíkur og í suðvesturkjördæmi, kraganum svonefnda utan um höfuðborgina, er fráleitt. 

Það voru aðeins 1033 sem kusu í sameiginlegu prófkjöri pírata í þessum þremur kjördæmum, var kosningaþátttakan aðeins 36% miðað við þá sem höfðu kosningarétt. Engin endurnýjun var: Birgitta, Jón Þór og Ásta sem öll hafa setið á þingi þetta kjörtímabil skipa þrjú efstu sætin. Gunnar Hrafn Jónsson sem sagði af sér sem fréttamaður ríkisútvarpsins til að helga sig baráttu pírata lenti í fimmta sæti og sjálfur Þór Saarifyrrv. þingmaður, lenti í 11. sæti.

Áður en úrslitin í þessum þremur kjördæmum lágu fyrir höfðu píratar kynnt niðurstöður í prófkjörum sínum í suðurkjördæmi og norðausturkjördæmi.

Smári McCarthy mun leiða pírata í suðurkjördæmi eins og hann gerði í kosningunum árið 2013. Einungis 113 manns greiddu atkvæði í prófkjörinu í suðurkjördæmi. Alls voru 24 í framboði og kom því fjórðungur atkvæða í prófkjörinu frá frambjóðendum sjálfum segir á vefsíðunni Eyjunni. Þar segir einnig að þetta sé örlítið betri þátttaka en í prófkjöri pírata í norðausturkjördæmi þar sem aðeins 74 greiddu atkvæði. 

Þessar tölur um fimm kjördæni landsins af sex sýna að aðeins 1220 manns tóku þátt í prófkjörum pírata þótt látið sé eins og þau séu öllum opin. Það er færra fólk en kemur að stefnumótun á landsfundi sjálfstæðismanna. Niðurstöður prófkjöra pírata sýna að þar hefur lítil klíka tögl og hagldir. Allt annað er argasta blekking enda fer Birgitta sínu fram án tillits til annarra.

Hvað sem skoðanakannanir um fylgi pírata segja er þar á ferð lítill frekar ólýðræðislegur hópur fólks sem villi helst kollvarpa stjórnarskrá lýðveldisins í einhverju áralöngu reiðikasti.

Fimmtudagur 11. 08. 16 - 11.8.2016 14:30

Samtal mitt við Teit Björn Einarsson, aðstoðarmann fjármálaráðherra, á ÍNN i gær er komið á netið og má sjá það hér.

Ákvörðun Páls Magnússonar, fyrrv. útvarpsstjóra, um að bjóða sig fram í fyrsta sæti sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi hefur vakið verðskuldaða athygli og umræður. Páll er þjóðkunnur maður vegna starfa sinna í fjölmiðlum. Faðir hans, Magnús H. Magnússon, var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í gosinu 1973 og þingmaður Alþýðuflokksins á Suðurlandi frá 1978 til 1983, félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1978–1980, jafnframt samgönguráðherra frá 1979.

Verður spennandi að sjá hvernig Páli vegnar á pólitískum vettvangi. Hann hefur oft kvatt sér hljóðs um stjórnmál á liðnum árum og látið forystumenn  innan Sjálfstæðisflokksins finna fyrir gagnrýni sinni ekki síður en aðra.

Haukur Örn Birgisson, hrl. hjá Íslensku lögfræðisstofunni, ritar reglulega um lögfræðileg álitaefni í viðskiptablað Morgunblaðsins. Í dag ræðir hann þingrof og kosningar. Hann segir að „einhvers konar stjórnskipunarlegt neyðarástand“ þurfi „að koma til svo þing sé rofið“. Er það svo? Hver hefur mótað þá venju? Nægir ekki póitískt mat forsætisráðherra? Er það ekki einmitt vegna þess sem stundum hefur verið um það samið við stjórnarmyndun að þing skuli ekki rofið nema stjórnarflokkarnir séu sammála um það?

Fimmta apríl 2016 fór þáverandi forsætisráðherra á fund forseta Íslands og taldi forseti að hann ætlaði að leggja fyrir sig tillögu um þingrof og bað um umþóttunartíma. Ráðherrann sagði síðan af sér síðdegis. Þeir sem tóku við keflinu af honum gáfu yfirlýsingu um að stefnt skyldi að þingrofi og kosningum haustið 2016 enda gæfist svigrúm til afgreiðslu ákveðinna mála. Höfðu þeir umboð þingflokka sinna til þessara yfirlýsinga.

Að láta eins og þessi aðdragandi þingrofsins skipti engu máli gefur ekki rétta mynd.

Hver sem aðdragandinn er þá er þingrofsvaldið i höndum forsætisráðherra og hann er ekki bundinn af „einhvers konar stjórnskipulegu neyðarástandi“. Í grein sinni nefnir Haukur Örn Birgisson einnig „stjórnskipuleg grundvallarsjónarmið“ til sögunnar og telur Ögmund Jónasson fylgja þeim með því að leggja til að ákvörðun um þingrof verði borin undir alþingi. Ástæða er til að velta fyrir um hvaða stjórnarskrá þeir félagar eru að tala. Hvergi er vikið að þessari aðferð í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

 

 

 

 

 

Miðvikudagur 10. 08. 16 - 10.8.2016 15:30

Í dag ræddi ég við Teit Björn Einarsson, aðstoðarmann fjármálaráðherra, í þætti mínum á ÍNN. Verður hann frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20.00 og síðan sýndur á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Í upphafi brá ég upp glæru með þessum hagtölum sem sýna góða stöðu þjóðarbúsins um þessar mundir:

Hagvöxtur  4%  árið 2015. Hann var 1,8% á Norðurlöndunum og 2,1% í öllum OECD ríkjunum.

Atvinnuleysi var 2,9% árið 2015 miðað við 8% árið 2009. Í júní 2016 mældist atvinnuleysi 2%.

Launavísitala hækkaði um 12,5% milli ára og kaupmáttur, það sem kaupa má fyrir launin, hækkaði um 10,7%.

Verðbólga var 1,6% í júní.

Skuldir árið 2008 námu heildarskuldir fyrirtækja og heimila 357% af landsframleiðslu en nú eru skuldir þessara aðila helmingi lægri 177%.

Heildarskuldir hins opinbera voru 69% af landsframleiðslu í fyrra, samanborið við 95% árið 2011. 

Erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað mikið. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.215 ma.kr. í lok fyrsta ársfjórðungs 2016 en skuldir 4.347 ma.kr. Staðan var því -6% af landsframleiðslu í lok fyrsta ársfjórðungs 2016 en hún var hins vegar -131% árið 2008. 

Þegar staðan er þessi þarf engan að undra að stjórnarandstaðan kjósi að ræða eitthvað annað en efnahagsmál og stofni þess í stað til rifrildis um kjördag. Í lýðræðisríki þar sem þingrofsréttur er hluti stjórnlaga þarf skýr málefnaleg rök til að berjast gegn því að þjóðinni gefist kostur á að ganga til kosninga. Hér var það ákveðið í apríl 2016 eftir að forsætisráðherrann sagði af sér og boðaði að hann hefði þá þegar viljað rjúfa þing. Að snúa ákvörðun um þingrof í rifrildi um dagsetningu kosninga er stórundarlegt. Ákvörðunin um kjördag er á valdi forsætisráðherra.

Alvöru stjórnmálabarátta á að snúast um hvort haldið skuli áfram á þeirri braut sem skilað hefur þjóðarbúinu góðum árangri eða hvort menn vilji fá yfir sig sundurleita vinstri stjórn sem sameinast um það eitt að hækka skatta.

Heilbrigð verðmætasköpun fyrir frumkvæði einstaklinga er forsenda velferðar og heilbrigðs velferðarkerfis. Ríkissjóður er eitt tækjanna til að skapa sóknarfærin enda sé hann ekki ofhlaðinn skuldaböggum. Nú hefur tekist að létta þessum böggum af ríkissjóði á undraskömmum tíma. Sé illa á málum haldið er einnig unnt að sliga ríkissjóð á undraskömmum tíma.

 

Þriðjudagur 09. 08. 16 - 9.8.2016 11:30

Málefnafátækt stjórnarandstöðunnar birtist skýrt í síbyljunni um að alþingi verði óstarfhæft nema sagt sé hvaða dag verði kosið í haust. Ætla mætti að það væri með ráðum gert hjá forystumönnum stjórnarflokkanna að gefa ekki upp daginn til að draga fram innantóman málflutning stjórnarandstöðunnar. Hótanir hennar um skemmdarverk á þingi hafa síðan orðið vatn á myllu þeirra sem vilja ekki kosningar í haust og tala eins og stjórnarháttum sé ógnað sé kosið í lok október eða byrjun nóvember frekar en í apríl.

Í sjálfu sér er skiljanlegt að stjórnarandstaðan kjósi að tala um dagsetningar í stað málefna. Leggur fréttastofa ríkisútvarpsins henni lið við að halda lífi í þeim umræðum. Á mbl.is hafa hins vegar birst annars konar og forvitnilegri fréttir af stjórnarandstöðunni undanfarið. Hún er klofin um flest mál þegar grannt er skoðað.

Innan Samfylkingarinnar er ágreiningur milli Oddnýjar Harðardóttur formanns og Össurar Skarphéðinssonar, fyrrv. formanns, um hvort munur sé á pírötum og samfylkingarfólki. Össur telur að svo sé ekki. Oddný segir pírata ekki jafnaðarmenn. Birgitta spyr á mbl.is af þessu tilefni mánudaginn 8. ágúst: „Hvað er að vera jafnaðarmaður í dag? Hún [Oddný] hefur kannski ekki verið að kynna sér hvað við stöndum fyrir.“ Hvernig ber að skilja þessi orð, að píratar séu jafnaðarmenn?

Birgitta segist hins vegar ekki vita hvað Samfylkingin geri komist hún í ríkisstjórn. Stóri munurinn á pírötum og Samfylkingu sé að píratar hafi ekki ákveðið hvort þeir séu hlynntir aðild að ESB eða ekki. Samfylkingin sé „kannski eini flokkurinn sem er með afgerandi stefnu að ganga í ESB. Það er mjög stór munur því öll þeirra stefna hefur alltaf mótast af því að við göngum í ESB. Það hefur verið eina lausnin sem þau hafa við öllum vandamálum á Íslandi. Það er rosalega stór munur myndi ég segja.“

Í viðtalinu við mbl.is mildar Birgitta fyrri kröfu sina og skilyrði um 9 mánaða kjörtímabil að loknum næstu þingkosningum, krafan sé „ekki meitluð í stein“. Að svo mæltu segir hún svo að VG og Samfylking leggist svona fast gegn kröfunni um 9 mánuði til „að reyna að skapa sér sterkari stöðu í samningaviðræðum. Það er oft gert,“ segir Birgitta að lokum. Birgitta vill að stjórnarsáttmáli sé gerður fyrir kosningar, kjósendum til leiðbeiningar.

Mánudagur 08. 08. 16 - 8.8.2016 11:00

Í frétt á mbl.is sunnudaginn 7. ágúst var sagt frá útvarpsþætti þar sem Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður pírata, hefði lagt til „að allir flokkar geri tíu ára áætlanir um hvað þeir vilja sjá gerast í þjóðfélaginu“.

Já, nú vill Birgitta sjá tíu ára áætlun. Skyldu píratar hafa komið sér saman um hana? Þetta er algjör kúvending hjá Birgittu og líklega svar hennar við gagnrýni á hugmynd hennar um stjórnarsáttmála fyrir kosningar um níu mánaða kjörtímabil að þeim loknum til að breyta stjórnarskránni og kollvarpa stjórnarráðinu. 

Má segja að það sé annað hvort í ökkla eða eyra hjá Birgittu og hún kjósi að vera á sífelldri hreyfingu svo að ekki sé unnt að saka hana um að hafa nokkra ákveðna skoðun. Hvernig skyldi hún ætla að gera áætlun til tíu ára?

Í danska blaðinu Jyllands-Posten er í dag sagt frá flokki pírata á Íslandi. Þar er rætt við píratana Sunnu Ævarsdóttur og Söru Óskarsson, en blaðamennirnir Thomas Aagaard og Mikkel Danielsen voru hér 26. apríl til 4. maí til að kynnast flokki pírata og boða fjórar greinar í blaðinu. Þeim sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum er ljóst að andinn í greinunum endurspeglar það sem bar hæst á þeim tíma og gefur því ekki raunsanna mynd af stöðunni á líðandi stundu.

Þær stöllur draga upp eins svarta mynd af íslenskum ráðamönnum og þeim er unnt til að rökstyðja þá skoðun að komandi kosningabarátta verði sú „grimmasta“ sögunnar vegna mikillar reiði almennings. Um sjálfstæðismenn segir Sunna: „De er skide ligeglade medom de fucker det op, eller om folk har mistet tilliden til dem.“

Boðað er að Sunna og Sara verði í framboði til þings í komandi kosningum. Ekki sé ástæða til að efast um að þær nái kjöri, það sé „real chance“ að þær verði ráðherrar.

Ástæða er til að velta fyrir sér hvort Sunna og Sara hafi sagt blaðamönnunum að líkindi bentu til að þær yrðu ráðherrar að loknum kosningum. Hafi þær gert það skortir þær ekki sjálfsöryggið um að bæði sigri þær í prófkjöri meðal pírata, komist á þing og takist að lokum að breyta stefnu pírata um að þingmenn megi ekki vera ráðherrar.

 

Sunnudagur 07. 08. 16 - 7.8.2016 12:00

Á Facebook-síðu Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, má lesa þessa færslu að morgni sunnudags 7. ágúst:

„Á Bylgjunni eru Svandís [Svavarsdóttir þingflokksformaður VG], Birgitta [Jónsdóttir þingflokksformaður pírata], Óttarr [Proppé formaður Bjartrar framtíðar] og Oddný [Harðardóttir formaður Samfylkingarinnar] að lýsa minnihluta ofbeldinu sem notað var á stjórnvöld þegar Sigmundur Davíð var forsætisráðherra 

Málið er einfalt: 

Það er gríðarlegt ofbeldi sem beitt er í þinginu - frekjan er rosaleg - við höfum verið kölluð pólitískir hryggleysingjar og lindýr - ef þau fá ekki sínu fram - þá er þingið tekið í gíslingu - Svandís fer fyrir aðgerðum 

Þingsköpin eru ónýt og allar breytingar á þeim undanfarin ár hafa að því að virðist vera samin af lögfræðilegum amatörum 

Ég er meðal annars að hætta á þingi vegna þessa ofbeldis - forseti þingsins og forsætisnefnd þora ekki að beita sér til að laga ástandið 

Nú slekk ég á útvarpinu - því ég get ekki hlustað á fólk skrifa/segja söguna upp á nýtt - og geng út í sólina“

Ég kveikti ekki á útvarpinu og veit því ekki hvað þar er um að vera enda í hróplegu ósamræmi við sólskinið að hlusta á upphrópanir og innihaldslaust tal stjórnarandstöðunnar. Hún hefur ekkert að bjóða.

Einmitt vegna þess að stjórnarandstaðan hefur ekkert að bjóða er undarlegt að andstæðingar hennar láta eins og hún fái nægan stuðning í kosningunum í haust til að mynda ríkisstjórn að þeim loknum og innleiða hér að nýju efnahagslegu helstefnuna sem ríkti 2009 til 2013.

Ég er sammála Vigdísi um þingsköpin. Þau eru eins og gatasigti og eiga ríkan þátt í virðingarleysinu sem ríkir gagnvart alþingi. Við beytingar á þingsköpum er jafnan skilin eftir einhver gloppa sem minnihlutinn getur nýtt sér til að ná hreðjartökum á þingheimi. Sé rætt að beita meirihlutavaldi til að binda enda á umræður taka innviðir þingsins að nötra.

Í breska þinginu var 18. júlí rædd og afgreidd tillaga um að endurnýja kjarnorkuherafla Breta, mjög umdeilt mál. Theresa May, nýorðin forsætisráðherra, flutti upphafsræðuna klukkan 15.00, þá talaði Jeremy Corbyn, leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Síðan sagði þingforseti að 52 væru á mælendaskrá, til að allir kæmust að fyrir atkvæðagreiðslu kl. 22.00 yrðu menn að stytta mál sitt. Það gekk eftir. Hvað hefði gerst í alþingi?

Laugardagur 06. 08. 16 - 6.8.2016 14:00

Þegar enn var rætt um aðild við fulltrúa ESB um aðild Íslands að sambandinu kepptust talsmenn viðræðnanna með Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og embættismenn hans í broddi fylkingar við að lýsa þeirri skoðun að engin tengsl væru á milli viðræðnanna og ákvarðana um makrílveiðar á Íslandsmiðum. 

Eftir að viðræðunum var slitið og aðildarumsókninni skilað er pólitíska andrúmsloftið allt annað vegna ákvarðana íslenskra stjórnvalda um veiðarnar – ögranir og beinar hótanir af hálfu ESB eru úr sögunni. Skotar og Írar telja sig ekki lengur geta beitt sama pólitíska þrýstingi og þeir gerðu á tíma viðræðnanna. Íslensk stjórnvöld eru með öðrum frjáls undan afskiptum Brusselmanna og ESB-ríkjanna.

Í ár er heimilt að veiða 166.000 tonn af makríl við Ísland en aldrei hefur veiðst svo mikið og á þessu stigi er óvíst að takist að ná öllum þessum afla en þá er þess jafnframt að geta að í ár stunda íslensk skip einnig veiðar í grænlenskri lögsögu sem ekki var árið 2015. Föstudaginn 5. ágúst var sagt frá því að þá næmi makrílveiði grænlenskra skipa og íslenskra skipa í leigu grænlenskra aðila samtals rúmum 26.600 tonnum í grænlensku lögsögunni. 

Sé staðan nú borin saman við það sem var á tíma ESB-aðildarviðræðnanna er í raun ótrúlegt að íslenskir stjórnmála- og embættismenn skyldu leyfa sér að halda því að þjóðinni að engin tengsl væru á milli makríl-deilunnar og ESB-aðildarviðræðnanna. Greining á þessum málflutningi rennir enn stoðum undir þá skoðun að tími ESB-viðræðnanna hafi verið svartasti tíminn í utanríkismálasögu lýðveldistímans.

Föstudagur 05. 08. 16 - 5.8.2016 10:30

Morgunblaðið reið loks á vaðið í gær og leitaði álits formanna VG og Samfylkingar á kröfu Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanns pírata, um að saminn yrði stjórnarsáttmáli fyrir kosningar og þar yrði gert ráð fyrir breytingu á stjórnarskránni og níu mánaða kjörtímabili að kosningum loknum.

Þegar um þetta var spurt kom að sjálfsögðu í ljós að hvorki Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingar, né Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, vilja semja um þetta. Þá standa flokkar þeirra beggja að samkomulagi um áfangabreytingar á stjórnarskránni sem er eitur í beinum Birgittu.

Í innsetningarræðunni 1. ágúst mælti Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands með málamiðlunarleið í stjórnaskrármálinu enda er hún hin hefðbundna íslenska aðferð við breytingar á stjórnarskránni þótt Jóhanna Sigurðardóttir hafi leitt málið í annan og verri farveg með stuðningi VG og Framsóknarflokksins vorið 2009.

Birgitta Jónsdóttir heldur fast í átakaleið Jóhönnu í stjórnarskrármálinu eins og fram kom þegar fréttamaður ríkisútvarpsins ræddi við hana um innsetningarræðu forsetans. Á ruv.is 2. ágúst er þetta haft eftir Birgittu:

„Hann [forsetinn] talar um að taka þetta í áfangaskrefum. Hann hefur reyndar gert það áður. Ef þjóðarviljinn er sá að við förum í stjórnarskrárbreytingar og við höfum til dæmis stutt kjörtímabil til þess að koma því á, þá framfylgi ég fremur vilja þjóðarinnar en forsetanum. Ef það er ekki vilji til þess þá þurfum við að sjálfsögðu að finna einhverjar leiðir til þess að koma á samfélagssáttmálanum sem var samþykktur af þjóðinni árið 2011.“

Í þessum ummælum vísar Birgitta annars vegar til „þjóðarvilja“ og hins vegar „samfélagssáttmála sem var samþykktur af þjóðinni árið 2011“. Að baki þessum orðum er engin innstæða, þetta er áróðurstugga sem fámennur hópur endurtekur. Þarna talar hún einnig um „stutt kjörtímabil“. Engin samstaða er um það frekar en annað sem Birgitta hefur fram að færa í þessu máli.

Nú fer fram prókjör hjá netvæddu pírötunum þar sem velja má milli 105 frambjóðenda í tölvukosningu. Ekki vill betur til en svo að forritið með frambjóðenunum veitir enga tryggingu fyrir því að atkvæði fari rétta boðleið, kerfið virðist einnig hreinsa á brott nöfn einhverra frambjóðenda.

Hver sem niðurstaðan verður í vandræðalegu prófkjöri pírata verða þeir að gera grein fyrir hvort Birgitta sé virkilega málpípa þeirra eða þeir fylki sér að baki öðrum til að auka trúverðugleika sinn og samstarfshæfni.

Fimmtudagur 04. 08. 16 - 4.8.2016 13:15

Viðtal mitt við Magnús Þór Hafsteinsson á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér. 

Nokkrar umræður hafa orðið undanfarið um öryggismál Íslands. Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Robert Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, birtu miðvikudaginn 29. júní yfirlýsingu sem endurspeglar aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli vegna breytts mats á hernaðarstöðunni á N-Atlantshafi. Yfirlýsingin er innan ramma varnarsamningsins frá 1951 en hróflar ekki á neinn hátt við ákvæðum hans.

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson stjórnmálafræðingur skrifar um þessa yfirlýsingu í Fréttablaðið í dag og kallar hana „samning“ og lætur eins og „lýðræðið hafi gersamlega verið sniðgengið í sambandi“ við hann. Var yfirlýsingin þó kynnt í utanríkismálanefnd 10. júní 2016 og gerð hennar hófst að frumkvæði Íslendinga í tíð Gunnars Braga Sveinssonar sem utanríkisráðherra, það er veturinn 2015 til 2016.

Gunnar Hólmsteinn hneykslast á því fyrirkomulagi sem hefur verið í 10 ár, að íslensk stjórnvöld annist rekstur varnaraðstöðu og –búnaðar á Keflavíkurflugvelli og veiti gistiríksstuðning við flugsveitir erlendra samstarfsríkja. Að þessu leyti er ekkert nýmæli að finna í yfirlýsingunni þótt Gunnar Hólmsteinn tali þar um nýjan kafla „í sögu öryggis og varnarmála á Íslandi“.

Annað í útlistun greinarhöfundar er í sama dúr. Hann horfir fram hjá efni yfirlýsingarinnar um gildi varnarsamningsins frá 1951 og telur að til hafi orðið ígildi nýs samnings. Þá segir hann sér „ekki kunnugt um að samráð hafi verið haft við sjálfstæðismenn“ í málinu. Hvers vegna skyldi Gunnari Hólmsteini átt að vera kunnugt um það? Er hann innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokknum? Það er hins vegar formaður utanríkismálanefndar alþingis, Hanna Birna Kristjánsdóttir. Málið var kynnt henni og nefnd hennar.

Á grundvelli eigin kenninga um að utanríkisráðherra hafi ritað undir yfirlýsinguna án samráðs telur Gunnar Hólmsteinn að ef til vill megi flokka þetta sem „aðför að fullveldi Íslands“ enda hafi utanríkismálanefnd alþingis verið „algerlega“ sniðgengin í málinu.

Steinunn Þóra Árnadóttir er fulltrúi vinstri grænna í utanríkismálanefndinni og gagnrýnin á yfirlýsinguna. Hún sendi sjálf frá sér yfirlýsingu 30. júní þar sem sagði meðal annars: „utanríkisráðherra beið fram á síðasta starfsdag nefnda fyrir sumarleyfi með að upplýsa utanríkismálanefnd um að til stæði að undirrita þessa yfirlýsingu“.

Hvers vegna leggja menn sig gjarnan fram um að afflytja umræður um öryggis- og varnarmál? Líklega vondur málstaður þeirra.

 

 

 

Miðvikudagur 03. 08. 16 - 3.8.2016 18:30

 Í dag ræddi ég á ÍNN við Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi alþingismann, um bókina Þjóðarpláguna íslam eftir Hege Storhaug sem út kom í vor í þýðingu hans. Þátturinn er frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20.

Efni innsetningarræðu Guðna Th. Jóhannessonar hefur verið til umræðu í fréttatímum ríkisútvarpsins.

Í gær sagði Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor til dæmis í fréttatíma að ræðan hefði markað tímamót „bæði varðandi form og innihald“ og þar hefðu verið boðaðir nýir umræðuhættir sem einkenndust af kurteisi og virðingu.

Ólafur Þ. hélt því fram að íslenskir umræðuhættir hefðu lengi „einkennst af karpi og stóryrðum í ætt við bresk og bandarísk stjórnmál“. Guðni Th. hefði hins vegar boðað „nýja umræðuhætti, meira í takt við norræn stjórnmál, sem einkennast þá af kurteisi, sanngirni, virðingu fyrir skoðunum andstæðinganna og hógværð“. Sér sýndist „hún bara hafa farið býsna vel ofan í okkar þrasgjörnu þjóð,“ sagði prófessorinn og bætti við þessari kveðju til Ólafs Ragnars Grímssonar:

„Nú eru gamlir bardagahundar úr gömlu hefðinni að hætta í íslenskum stjórnmálum og þetta er kannski rétti tíminn til þess að gera tilraun til að færa okkur yfir í norræna farið. En það verður ekki auðvelt.“

Lét Ólafur Þ. að því liggja að Guðni Th. hefði skilgreint sig frá Ólafi Ragnari með því að vilja „kurteislega og málefnalega“ umræðu um stjórnmál. „Þessi breyting á umræðuháttum væri mjög jákvæð fyrir íslenskt samfélag,“ sagði Ólafur Þ. í lok samtalsins.

Vafalaust vildi Ólafur Þ. vera kurteis og málefnalegur í þessum dómi sínum um ræðu Guðna Th. Fyrir hinu er þó auðvelt að færa rök að hann hafi oftúlkað innsetningarræðu nýja forsetans til að ná sér niðri á forvera hans og einhverjum fleirum „bardagahundum“ sem prófessornum eru greinilega ekki að skapi. Ólafur Þ. fyrr í sumar óvirðingarorðum um Davíð Oddsson, nú fær Ólafur Ragnar kalda kveðju hans í skjóli umsagnar um innsetningarræðu nýs forseta.

Í áranna rás hef ég hlustað á margar hátíðarræður og er þeirrar skoðunar að ræða Guðna Th. hafi hvorki markað tímamót í íslenskri umræðuhefð né fært stjórnmálaumræður í norrænan búning. Virðing Guðna Th. fyrir embætti forseta Íslands einkenndi ræðuna og einlægur vilji til að gera sitt besta. Jafnframt endurspeglaði ræðan breytingarnar sem orðið hafa á þjóðfélaginu með stökkinu frá einsleitni til fjölbreytni sem forseti vill ekki að valdi sundrungu. 


Þriðjudagur 02. 08. 16 - 2.8.2016 12:30

 

Menn minnast Ólafs Ragnars Grímssonar á ólíkan hátt sem forseta Íslands. Hér skulu endurbirt ummæli tveggja álitsgjafa á vinstri kantinum um hann. Ummælin birtust þau á blog-síðu Egils Helgasonar mánudaginn 1. ágúst.

Egill sagði sjálfur:

„En það má minnast þess á degi forsetaskipta að það var í raun fráfarandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, sem gaf íslensku útrásinni mál, mótaði orðfæri hennar og hugmyndagrundvöll öðrum fremur. Ólafur hrósaði sér af sambandi sínu við verkamenn og bændur í viðtali [við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í ríkissjónvarpinu] í gærkvöldi, en það er samt staðreynd að fáir íslenskir stjórnmálamenn hafa verið haldir jafnmikilli glýju gagnvart valdi peninga og þeim sem eiga mikið af þeim.“

Í athugasemd við þessa blog-færslu Egils segir Illugi Jökulsson:

„Ég hef sagt það áður og segi það enn: Þegar útrásin hófst, þá vissi ópeningafróður maður eins og ég ekkert um hvort einhver glóra væri í þessu. Sumt virtist augljóslega tómt rugl. En að lokum tók ég þann pól í hæðina að fyrst Ólafur Ragnar - sem átti þó að heita einhvers konar vinstri maður - taldi þetta gott og gilt, þá gæti þetta allt saman varla verið á algjörum sandi reist. Mér fannst vandræðalegt rausið í Ólafi Ragnari um eðli Íslendinga, en trúði því að maður eins og hann tæki ekki þá miklu áhættu að knýta sig svo mjög við útrásarvíkingana nema hafa gengið úr skugga að þetta allt væri bæði á traustum grunni reist, og þokkalega siðlegt. Ég held að hrifning Ólafs Ragnars á útrásinni hafi sannfært fleiri en mig um það sama. Allt reyndist þetta blekking ein. Ég skal fúslega viðurkenna að ég á erfitt með að fyrirgefa Ólafi Ragnari þetta.“

Þá segir Egill einnig í athugasemd á eigin síðu:

„Ólafur bjó til sjálft orðfærið sem var notað í útrásinni. Gaf þessu öllu lögmæti og ákveðinn hugmyndagrundvöll að standa á. Hann í raun seldi sig alltof djúpt inn í þetta fyrirbæri. Manni dettur sumpart í hug Blair á Englandi sem hliðstæðu. Hann var líka svona heillaður af peningavaldi.“

Vilji þeir sem kalla sig sanna vinstrisinna eða sósíalista í breska Verkamannaflokknum staðfesta eigið ágæti gera þeir það með því að hallmæla Tony Blair, sigursælasta leiðtoga Verkamannaflokknum. 

Mánudagur 01. 08. 16 - 1.8.2016 17:30

Herra Guðni Th. Jóhannesson (48 ára) var settur inn í embætti sem sjötti forseti lýðveldisins við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu í dag – fjölmenni var í sumarblíðu á Austurvelli og fagnaði nýja forsetanum og konu hans Elizu Reid  á svölum þinghússins. Fylgja þeim árnaðaróskir um farsæld í hinu háa embætti.

Í aðdraganda athafnarinnar endurtók Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttakona hvað eftir annað í beinni útsendingu sjónvarpsins að dregið hefði verið úr kröfum um hátíðarklæðnað við athöfnina – það er karlar væru ekki lengur í kjólfötum né konur í síðum kjólum auk þess sem gestum væri ekki skylt að bera heiðursmerki. Af því hve þetta var oft endurtekið í útsendingunni og hefur verið áréttað oft í ríkisútvarpinu má ætla að um stórviðburð sé að ræða. Nýi forsetinn ákvað þetta að sögn til að vera í takt við tíðarandann.

Forsetahjónin voru í hátiðarklæðnaði, hann í kjólfötum með heiðursmerki og hún í skautbúningi. Báru þau sig vel.

Að athygli sé beint að klæðnaði gesta frekar en inntaki athafnarinnar sjálfrar er ef til vill í takt við tíðarandann. Frásögn ríkisútvarpsins var öll um hina ytri umgjörð, dagskrána sjálfa, en ekkert gert til að rýna í ræðu biskups Íslands í helgistund í Dómkirkjunni eða ræðuna sem Guðni Th. flutti við athöfnina í þinghúsinu.

Ræðuna má lesa hér á vefsíðunni www.forseti.is 

Hann sagðist taka við embættinu „með auðmýkt í hjarta, veit að ég á margt ólært, veit að mér getur orðið á“.  Hann teldi að forseti ætti „að öllu jöfnu að standa utan sviðs stjórnmálanna, óháður flokkum eða fylkingum“. Í embættinu mundi hann „samt vekja máls á því sem mér býr í brjósti, benda á það sem vel er gert og það sem betur mætti fara“.

Hann vék að samfélagsmálum, náttúru landsins, tungunni, sögunni og fjölbreytileika nútímasamfélags á Íslandi:

„Við játum ólík trúarbrögð, stöndum sum utan trúfélaga, við erum ólík á hörund, við getum heitið erlendum eiginnöfnum, þúsundir íbúa þessa lands eiga sér erlendan uppruna og tala litla eða enga íslensku en láta samt gott af sér leiða hér. Við lifum tíma fjölbreytni og megi þeir halda áfram þannig að hver og einn geti rækt sín sérkenni, látið eigin drauma rætast en fundið skjól og styrk í samfélagi manna og réttarríki hér á landi.“

Það verði þó að vega þyngra sem sameinar en sundrar og þar hefði þjóðhöfðinginn hlutverki að gegna.