17.8.2016 15:30

Miðvikudagur 17. 08. 16

Í dag ræddi ég við Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er á dagskrá kl. 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun – alltaf eftir kl. 20.00 á tímaflakki Símans.

Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri ÍNN, ræddi við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, í þætti sínum Hrafnaþingi í gær. Benedikt vill bylta starfsumhverfi í landbúnaði og sjávarútvegi og segist hafa á takteinum ný kerfi sem haldi þótt við förum inn í Evrópusambandið. Ekkert mál sé að semja um tvo til þrjá kafla við ESB og leggja málið fyrir þjóðina sem hljóti að samþykkja aðild til að taka upp evru en fráleitt sé að ætla að Ísland breytist í Grikkland og Portúgal við innleiðingu evrunnar hér.

Sá sem vill leiða Ísland inn í ESB verður að samþykkja að atvinnugreinarnar sjávarútvegur og landbúnaður verði innlimaðar í sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB. Benedikt talaði um dauða hönd nefnda og ráða í þessum greinum hér á landi, við ESB-aðild skapaðist eitthvert frelsi í greinunum. Staðreynd er að innan ESB mundu þær verða örsmá afgangsstærð hjá tæknikrötum í Brussel sem taka mið af hagsmunum ESB en ekki smáþjóða.

Mátti skilja Benedikt á þann veg að samráð íslenskra fiskifræðinga nú við alþjóðlega starfsbræður við töku ákvarðana um leyfilegan hámarksafla jafngilti því að færa ákvarðanir um hámarksaflann til Brussel. Þá lét hann eins og danskir og breskir sjómenn nytu sín vel undir sjávarútvegsstefnu ESB. Hún hefur þó næstum gengið að fiskstofnum dauðum á miðum þeirra. Loks telur hann að ESB muni samþykkja ráð okkar yfir 200 mílunum af því að Grænland og Færeyjar eru utan ESB!

Ógjörningur var að átta sig á hvort Benedikt lýsti með orðum sínum eigin skoðun eða stefnu Viðreisnar. Margt bendir til að ástandið innan flokksins sé ekki ólíkt því sem er hjá pírötum, að fámennur hópur manna ráðskist með menn og málefni en út á við sé látið eins og um fjöldahreyfingu sé að ræða – gagnsæið er ekki neitt.

Nú er ólga innan raða pírata vegna ásakana um að sigurvegari í prófkjöri þeirra í norðurlandskjördæmi vestra hafi „smalað grimmt“ meðal fjölskyldu og vina, alls greiddu 95 atkvæði í prófkjörinu en 17 buðu sig fram. Ekki er gefið upp hve margir greiddu sigurvegaranum atkvæði - gagnsæið er ekki neitt.