Dagbók: 2000
Sunnudagur 31.12.2000
Klukkan 10.30 var ríkisráðsfundur að Bessastöðum. Klukkan 14.00 fórum við Rut í útvarpshúsið, þar sem rithöfundarnir Þorvaldur Þorsteinsson og Ingibjörg Haraldsdóttir fengu verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Um klukkan 15.00 var ég þátttakandi í umræðum í Silfri Egils.
Fimmtudagur 28.12.2000
Klukkan 14.00 ritaði ég undir samning við Skýrr um nýtt upplýsingakerfi fyrir framhaldsskólana. Klukkan 16.00 fórum við Rut í Sunnusal Hótels Sögu, þar sem Talnakönnun og Frjáls verslun tilefndu Olgeir Kristjónsson mann ársins í viðskiptalífinu og kom það í minn hlut að afhenda honum viðurkenningarskjalið. Síðan fórum við í Norræna húsið, þar sem Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur hafði fengið Ásu Wright verðlaunin. Um kvöldið var ég síðan að Hótel Loftleiðum, þar sem Vala Flosadóttir var tilnefnd íþróttamaður ársins.
Þriðjudagur 26.12.2000
Fórum í Þjóðleikhúsið kl. 20.00 og sáum Antigónu eftir Sófókles í nútímalegri uppfærslu Kjartans Ragnarssonar. Er ég sammála þeim, sem veita sýningunni góða dóma.
Laugardagur 23.12.2000
Í hádeginu á Þorláksmessu hélt ég þeim sið að borða skötu í Þjóðleikhúskjallaranum með Árna Johnsen og frændum hans úr Vestmannaeyjum.
Miðvikudagur 20.12.2000
Fór í Hallgrímskirkju kl. 20.30 og hlustaði á þrjá kóra kvenna syngja undir stjórn Margétar Pálmadóttur fyrir fullu húsi.
Sunnudagur 17.12.2000
Klukkan 15.00 fór ég í Ráðhúsið í beina útsendingu á kaffispjalli við Kristján Þorvaldsson, þar sem við fórum yfir víðan völl, en sérstakt fréttaefni þótti það, sem ég sagði um kjaradeiluna við framhaldsskólakennara. Ég fór rakleiðis úr Ráðhúsinu í Langholtskirkju, þar sem jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur hófust kl. 16.00.
Laugardagur 16.12.2000
Fór klukkan 9.30 með Jóhönnu Maríu aðstoðarmanni mínum akandi í Snæfellsbæ, þar sem verið var að opna nýtt og glæsilegt íþróttahús í Ólafsvík. Var kominn heim aftur rétt fyrir kl. 19.00. Færðin var góð þótt Þröstur bílstjóri þyrfti að sýna aðgát vegna hálku og snjóblindu á sunnanverðu Snæfellsnesi.
Föstudagur 15.12.2000
Ríkisstjórnin hittist eins og venjulega kl. 9.30 en klukkan 10.30 voru atkvæðagreiðslur í alþingi. Það lá í loftinu að ríkisstjórnin þyrfti að hittast aftur vegna þess að beðið var forúrskurðar Samkeppnisráðs vegna samruna Landsbanka og Útvegsbanka. Var fundurinn klukkan 14.00 og þá kom í ljós, að ráðið hafnaði samrunanum. Alþingi kom saman til fundar klukkan 16.00 og ræddi þennan úrskurð í klukkustund.
Fimmtudagur 14.12.2000
Við upphaf fundar þingfundar kl. 10.30 hófu þingmenn vinstri/grænna máls á því, að ég hefði beitt óeðlilegum aðferðum , þegar ég samþykkti tilmæli útvarpsstjóra um hækkun afnotagjalds. Ég hafnaði þessari skoðun með vísan til ákvæða í lögum um Ríkisútvarpið. Klukkan 11.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem Rannskóknarráð Íslands og Össur kynntu stóran styrk til Össurar frá ESB.
Miðvikudagur 13.12.2000
Flaug heim með beinu flugi frá París, það var ekki unnt að leggja af stað þaðan fyrr en klukkstund eftir að við settumst í vélina vegna þrengsla á evrópska flugstjórnarsvæðinu.
Þriðjudagur 12.12.2000
Sat fundinn um menningarmál frá morgni til kvölds en hitti einnig Matsuura forstjóra UNESCO á einkafundi og flutti stutta ræðu.
Mánudagur 11.12.2000
Sat ráðstefnu um menningarmál á vegum UNESCO, en í hádeginu baup franski menningarmálaráðherrann fundarmönnum til málsverðar í Quai de Orsay-safninu. Að loknum fundum fór ég í Marais-hverfið, þar sem Erró var að opna sýninguna Erró émail sur acier í Galerie Montenay Giroux (monenaygiroux@claranet.fr) og hitti ég Erró þar og nokkurn hóp gesta. Er sýningin opin til 20. janúar 2001. Sunnudagur 10. desember 2000 Fór snemma dags í 13. hverfi og tók þar þátt í qigong utandyra með hópi fólks, sem hittist reglulega, en gekk síðan um Latínuhverfið, að Notre Dame, til Pompidou-safnsins, um Les Halles og að Lord Byron-götu skammt við Sigurbogann og hitti íslenskar fjölskyldur sem héldu litlu-jólin með börnum sínum. Tók þessi ganga mig rúmar fimm klukkustundir.
Laugardagur 9.12.2000
Flaug til Parísar um Kaupmannahöfn á menningarmálaráðherrafund á vegum UNECSO.
Miðvikudagur 6.12.2000
Þingflokkur sjálfstæðismanna kemur alltaf saman klukkan 16.00 á miðvikudögum og í dag lögðum við síðustu hönd á fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2001. Er það óvenjulega snemma og hefur afgreiðsla fjárlagafrumvarpsins gengið snurðulaust og eftir áætlun í þinginu.
Þriðjudagur 5.12.2000
Klukkan 08.45 var ég í Melaskóla og opnaði nýja heimasíðu Námsgagnastofnunar. Klukkan 12.00 var ég í nýju geymsluhúsi Þjóðminjasafns í Vesturvör í Kópavogi og opnaði nýja heimasíðu safnsins. Klukkan 17.00 vorum við Rut í Kringlunni, þar sem afhjúpuð var mynd eftir Erró.
Mánudagur 4.12.2000
Klukkan 09.00 var samráðsfundur ráðherra með fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga í Borgartúni 6 undir forystu félagsmálaráðherra. Klukkan 11.00 hófst þingfundur og atkvæðagreiðsla um fjárlagafrumvarp 2001 eftir aðra umræðu.
Sunnudagur 3.12.2000
Klukkan 17.00 var ég í Laugardalshöll og afhenti verðlaun í hönnunarkeppni 8. 9. 10 bekkjar grunnskólanema.
Föstudagur 1.12.2000
Klukkan 13.00 tók ég þátt í fullveldishátíð stúdenta við Háskóla Íslands og var þátttakandi í tveimur pallborðsumræðum, annars vegar um menntamál og hins vegar um menningarmál. Síðdegis fór ég í JL-húsið við Hringbraut, þar sem Myndlistarskólinn í Reykjavík, Alliance Française og Reykjavíkurakademían höfðu opið hús. Þá fórum við Rut í Gerðarsafn þar sem Búnaðarbankinn var að opna þriðju myndlistarsýninguna í tilefni af 70 ára afmæli sínu, Fullveldi, með listaverkum ungs fólks.
Fimmtudagur 30.11.2000
Klukkan 17.30 var mannfagnaður í Ráðhúsi Reykjavíkur, þegar borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kynnti nýja vefsíðu sína og Davíð Oddsson opnaði hana.
Miðvikudagur 29.11.2000
Klukkan 16.00 var efnt til kaffisamsætis í fundarsal menntamálaráðuneytisins til að kveðja Árna Gunnarsson skrifstofustjóra, sem lét af störfum 1. desember eftir tæplega 42 ára starf í stjórnarráðinu.
Mánudagur 27.11.2000
Klukkan 09.00 flutti ég ræðu á fundi um árangursstjórnun, sem fjármálaráðuneytið hélt fyrir starfsmenn stjórnarráðsins. Klukkan 22.00 var ég á Skjá 1 og tók þátt í viðræðum við Hannes Hólmstein Gissurarson um bandarísku forsetakosningarnra.
Sunnudagur 26.11.2000
Klukkan 14.00 fórum við Rut í Salinn í Kópavogi, þar sem var að ljúka fyrstu píanókeppninni á vegum Íslandsdeildar EPTA og afhenti ég sigurvegurunum verðlaun þeirra við hátíðlega athöfn. Klukkan 20.00 voru fyrstu tónleikar Kammersveitar Reykjavíkur á þessum vetri og fóru þeir fram í Þjóðmenningarhúsinu.
Laugardagur 25.11.2000
Klukkan 09.00 flutti ég ávarp við upphaf ráðstefnu evrópskra foreldrasamtaka á Hótel Loftleiðum, þar sem fjallað er um gildi tungumálakunnáttu. Klukkan 13.00 tók ég þátt í hátíð á vegum verkefnisins Kynslóðir mætast, en hún fór fram í Miðbæjarskólanum. 14 félags- og þjónustumiðstöðvar taka þátt í verkefninu með 14 grunnskólum Reykjavíkur.
Föstudagur 24.11.2000
Klukkan 14.00 var ég í Háskóla Íslands og tók þátt í upphafi málþings um Mat á skólastarfi.
Fimmtudagur 23.11.2000
Klukkan 16.00 var ég í Hinu húsinu og opnaði þar með formlegum hætti landsskrifstofu verkefnisins Ungt fólk í Evrópu.
Miðvikudagur 22.11.2000
Síðdegis svaraði ég tveimur fyrirspurnum á alþingi. Klukkan 19.30 var ég í Kastljósi með þeim herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi og Sigurði Líndal prófessor og ræddum við um framtíð Þingvalla og prestþjónustu þar.
Þriðjudagur 21.11.2000
Klukkan 14.00 var ég í Háteigsskóla og ritaði þar undir samning við Guðmund Kristmundsson og Þóru Kristinsdóttur dósenta í Kennaraháskóla Íslands um lesskimunarpróf til að finna börn með lestrarörðugleika. Klukkan 20.00 fórum við Rut í Listasafn Íslands, þar sem Hamrahlíðarkórinn flutti verk eftir núlifandi íslensk tónskáld.
Mánudagur 20.11.2000
Í upphafi þingfundar kl. 15.00 kvaddi Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sér hljóðs um stjórn þingsins og tók að ræða verkfall framhaldsskólakennara og ráðast á okkur fjármálaráðherra. Kennarar komu á þingpalla og stjórnarandstöðuþingmenn stóðu upp með skrifaðar ræður til að fjalla um verkfallið sem hluta af stjórn alþingis.
Sunnudagur 19.11.2000
Komum heim frá Akureyri um hádegisbilið. Klukkan 20.00 vorum við í Þjóðleikhúsinu, þar sem Eddu-verðlaunin voru afhent við glæsilega athöfn.
Laugardagur 18.11.2000
Sátum málstefnu Menntaskólans á Akureyri um stöðu íslenskrar tungu við lok aldar en ég flutti ávarp við upphaf hennar. Tókum einnig þátt í 120 ára afmæli skólans og vorum viðstödd þegar Ármann Snævarr afhjúpaði eirmynd af hvalbeininu fræga.
Föstudagur 17.11.2000
Klukkan 14.00 var ég höfuðstöðvum Tals, þar sem kynnt var nýt farsímakerfi, GPRS, sem gerir kleift að tengja farsíma og tölvu. Klukkan 17.00 fórum við Rut til Akureyrar og sáum þar um kvöldið sýningu Leikfélags Akureyrar á Gleðigjöfunum og skemmtum okkur vel.
Fimmtudagur 16.11.2000
Dagur íslenskrar tungu. Um hádegisbilið fór ég í Heiðaskóla í Reykjanesbæ og hlýddi á skemmtilega dagskrá nemenda þar í tilefni dagsins auk þess sem ég fékk tækifæri til að skoða þennan einstaklega glæsilega skóla. Klukkan 16.00 var sýningin Frá huga til huga opnuð í Þjóðarbókhlöðunni og flutti ég þar ávarp. Klukkan 17.00 bauð ég til athafnar í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem ég afhenti Magnúsi Þór Jónssyni, Megasi, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, og Stóru upplestrarkeppninni og Dr. Richard N. Ringler sérstaka viðurkenningu. Klukkan 20. 00 var hátíðarsýning í Íslensku óperunni á Stúlkunni í vitanum eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Böðvar Guðmundsson, en sagan er eftir Jónas Hallgrímsson. Það er ekki oft sem tækfæri gefst til að sjá íslenska barnaóperu, en þessi metnaðarfulla ópera er samin og sýnd í tilefni af fimmtíu ára afmæli Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Bera kennarar og nemendur hans hita og þunga verksins.
Miðvikudagur 15.11.2000
Síðdegis svaraði ég fjórum fyrirspurnum á alþingi og vísa ég þeim enn á vefsíðu alþingis eða menntamálaráðuneytisins, sem vilja kynna sér um hvað þær snerust. Ein komst í fréttir, það er um skipið Íslending.
Þriðjudagur 14.11.2000
Klukkan 14.00 var athöfn í Þjóðmenningarhúsinu vegna útgáfu tveggja sveinsbréfa í myndskurði, hinna fyrstu síðan 1954.
Mánudagur 13.11.2000
Síðdegis var fyrirspurnartími á alþingi, þar sem ráðherrar svöruðu óundirbúið fyrirspurnum þingmanna. Ásta Ragheiður Jóhannesdóttir spurði mig um starfsmannamál hjá Ríkísútvarpinu. Þær umræður er unnt að sjá með því að fara inn á vef alþingis eða menntamálaráðuneytisins, sjá Slóðirnar mínar hér á síðunni.
Laugardagur 11.11.2000
Klukkan 10.30 flutti ég ávarp við upphaf Málræktarþings á vegum Íslenskrar málefndar, þar sem rætt var um íslensku sem annað tungumál. Síðdegis fór ég til Grundarfjarðar, þar sem ég sótti fund héraðsnefndar Snæfellsness og ræddi hugmyndir heimamanna um framhaldsskóla. Föstudagur 10. nóvember 2000. Klukkan 13.00 flutti ég ávarp við upphaf þekkingardags.
Fimmtudagur 9.11.2000
Klukkan 10.00 fór ég á Hótel Borg, þar sem við Tórbjörn Jacobsen, menntamálaráðherra Færeyja, hittum Bubba Morthens, en Tórbjörn hafði óskað eftir því, þegar við hittumst í fyrsta sinn í Árósum um miðjan ágúst, að ég kæmi á fundi hans og Bubba, þegar hann kæmi til Íslands. Klukkan 15.00 var blaðamannafundur í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem forsætisráðherra kynnti áætlun um ritun sögu Stjórnarráðsins, en ég er formaður ritnefndar. Klukkan 19.30 fórum við á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þar sem Einar Jóhannesson klarinettuleikari frumflutti konsert eftir Jón Nordal við mikla hrifningu.
Miðvikudagur 8.11.2000
Klukkan 12.00 var efnt til fundar norrænna menningarmálaráðherra og Norræna menningarmálasjóðsins. Klukkan 14.00 hittumst við norrænu menningarmálaráðherrarnir á fundi í Norræna húsinu og lauk honum ekki fyrr en klukkan 18.00