Dagbók: maí 2012

Fimmtudagur 31. 05. 12 - 31.5.2012 23:30

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um meðferð alþingis á frumvörpum Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra um fiskveiðigjald og stjórn fiskveiða á vefsíðu sína í dag og segir:

„Mér telst svo til að í umfjöllun sinni um veiðigjaldafrumvarpið og frumvarpið um stjórn fiskveiða hafi atvinnuveganefnd Alþingis haldið 18 fundi; margir þeirra stóðu klukkutímum saman og örugglega engir undir tveimur tímum. Fjöldi þeirra sem sendu nefndinni umsagnir um málin sýnist mér að hafi verið um 80. Sumir sendu inn umsagnir um bæði frumvörpin í einu, aðrir álit um hvort frumvarp fyrir sig. Til nefndarinnar voru svo kvaddir um 70 gestir. Margir þeirra komu um langan veg. Rifu sig upp frá daglegum störfum sínum, lögðu land undir fót, ýmist akandi eða fljúgandi, með ærnum tilkostnaði og kynntu mál sitt með miklum ágætum.“

Nú er komið í ljós að undir stjórn Kristjáns L. Möllers frá Samfylkingu og Björns Vals Gíslasonar frá vinstri-grænum er ekkert gert með skoðanir þeirra sem veittu umsögn. Björn Valur sagði þegar hann rökstuddi afgreiðslu meirihlutans á málunum úr nefnd án þess að tekið væri á álitamálum að nú skyldu sjónarmið viðruð í umræðum í þingsal. Þetta er maðurinn sem sakar þingmenn stjórnarandstöðunnar um málþóf lýsi þeir skoðunum sínum á málum.

Einar Kristinn segir um afgreiðslu þeirra Kristjáns L. og Björns Vals á þessum frumvörpum:

„Ferðirnar suður [á fund atvinnuveganefndar] voru til einskis. Skýrslurnar höfðu verið settar í tætarann. Og rökin sem sett höfðu verið fram af alvöruþunga þess fólks sem við á að búa, höfðu greinilega ekki verið virt viðlits. Breytingartillögurnar voru hvorki fugl né fiskur, nema það sem laut að rekstrarumhverfi smábátaflotans. Þeim málum hefur verið hleypt í uppnám.

Þetta er auðvitað helber dónaskapur og lof„ar ekki góðu um önnur stór mál sem nú er verið að véla um í þinginu og meðal annars á vettvangi atvinnuveganefndar.“

Í ríkisútvarpinu og Fréttablaðinu er alið á því að uppnámið á alþingi sé stjórnarandstöðunni að kenna. Allir sem til þekkja vita að vandræðin eru vegna upplausnar í stjórnarliðinu. Þar koma menn sér ekki saman um neitt en vilja láta líta út eins og þeir séu að knýja fram afgreiðslu mála sem eru hálfköruð.

Rétt er að minna á að þetta gerist undir forystu ríkisstjórnar sem hreykir sér af því að hafa innleitt sérstakt gæðaeftirlit með gerð stjórnarfrumvarpa og afgreiðslu þeirra. Eftirlitið er rekið á ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur sem öskrar á þá sem andmæla henni. Hvernig væri að þingflokkur Samfylkingarinnar tæki sig saman í andlitinu og losaði þing og þjóð undan þessum ófögnuði? Samfylkingin mælist nú minni flokkur en Framsóknarflokkurinn.

 

Miðvikudagur 30. 05. 12 - 30.5.2012 21:10

Í dag ræði ég við Hall Hallsson, blaðamanna og rithöfund, í þætti mínum á ÍNN um enska útgáfu á bók hans Váfugli. Útgáfuteiti bókarinnar var haldið í Westminster-höll,  heimkynnum breska þingsins við ána Thames í London. Það eru ekki margar bækur Íslendings sem kalla á slíka viðhöfn. Sjón er sögu ríkari, þátturinn verður næst sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Ríkisútvarpið (RÚV) tók mikla syrpu í dag vegna þess að Stöð 2 boðaði að hún ætlaði að sýna umræðuþátt með tveimur forsetaframbjóðendum, Ólafi Ragnari og Þóru.  Kallaði ríkisútvarpið á Þorbjörn Broddason prófessor sér til halds og trausts. Hann taldi þetta hið mesta hneyksli og sagði við síðdegisútvarp rásar 2:

 „Ef ég væri í hópi frambjóðenda myndi ég láta reyna á það [hvort þessi tilhögun að velja aðeins tvo frambjóðendur standist lög] með því að gera erindi til fjölmiðlanefndar. Við skulum athuga það að Stöð 2 er leyfisskyldur fjölmiðill og þetta leyfi er endurnýjað með reglulegu millibili og það hlýtur að vera litið á það hvernig þeir hafa staðið sig. Reyndar held ég að þetta verði ekkert mál því ég hef ekki nokkra trú á því að þessir tveir frambjóðendur, sem þarna eru nefndir, fallist á að hefja leikinn með svona ólýðræðislegum vinnubrögðum.“

Ríkisútvarpið hefur setið undir ámæli allra frambjóðenda nema Þóru fyrir hvernig forsetakosningamálum er háttað í því. Stjórnendur þess hafa þó varla látið svo lítið að svara þeirri gagnrýni og ekkert var sagt frá því þegar Ólafur Ragnar gagnrýndi ríkisútvarpið harkalega hinn 13. maí sl. Hafa fjölmiðlafræðingar verið kallaðir á vettvang í tilefni af gagnrýninni á RÚV?

Fjölmiðlanefndin sem Þorbjörn nefnir í ábendingu sinni til frambjóðenda taldi sig ekki geta tekið á kvörtun Ástþórs Magnússonar vegna framkomu RÚV. Ástþór kvartaði til umboðsmanns alþingis sem sent hefur fjölmiðlanefndinni spurningar varðandi lögmæti ákvarðana hennar.

Stjórnendur RÚV vita sem er að tveggja manna einvígis-þættir frambjóðenda eru miklu skemmtilegra efni en sjö frambjóðenda þættir. Það yrði eftir öðru ef fjölmiðlanefnd bannaði slíka þætti á Stöð 2 en teldi sig ekkert geta sagt um framgöngu RÚV.

Þriðjudagur 29. 05. 12 - 29.5.2012 22:41

Charlie Rose ræddi við Robert Caro í þætti sínum í kvöld um fjórða bindi ævisögu hans um Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseta. Fimmta og lokabindið kemur út eftir nokkur ár. Caro telur að Johnson sé einn áhrifamesti forseti Bandaríkjanna á síðari helmingi 20. aldarinnar og enginn forseti standi honum snúning þegar litið sé til áhrifa hans á Bandaríkjaþingi þar sem hann hafi sýnt snilldartök við að ná málum fram með réttu mati á mönnum og aðstæðum.

Þegar hlustað er á lýsingu eins og þá sem Caro gaf af Johnson og rifjað upp hvernig hann síðan yfirgaf Hvíta húsið og skildi almennt eftir sig slæma minningu um ár sín þar verður enn einu sinni ljóst að lengi má manninn reyna. Caro sagði að það hefði farið illa með Johnson að sitja í Hvíta húsinu og heyra allan guðslangan daginn sungið eða sönglað fyrir utan: Hey, Hey, Hey, LBJ how many children did you kill today! Var þetta gert með vísan til Víetnamstríðsins.

Á mbl.is segir að Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, telji ungt fólk muna eiga í basli á Íslandi um alla framtíð, hvorki meira né minna, nema Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Jafnaðarmenn álíti bestu leiðina úr baslinu að fara í ESB, þeir muni halda sínu striki þótt hart sé sótt að þeim vegna ESB-stefnu þeirra. Tími sé kominn til að horfa til framtíðar og bjóða upp á eitthvað annað en basl.

Þessi ræða þingflokkformannsins sýnir blinduna sem ESB-aðildarsinnar eru haldnir. Meðal atvinnuleysi innan ESB er um 10% en 22,1% meðal ungs fólks, hefur hækkað úr 14,7% árið 2008. Í Grikklandi er atvinnuleysi meðal ungs fólks yfir 50% og sömu sögu er að segja um Spán. Innan ESB tala menn um „atvinnulausu kynslóðina“, að slást í þann hóp er leiðin sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar býður ungu fólki.

Mánudagur 28. 05. 12 - 28.5.2012 22:50

Stjórnarandstaðan féll frá orðinu um skoðanakönnun á viðhorfi til álitamála við gerð nýrrar stjórnarskrár. Ætlunin var að greiða fyrir þingstörfum, væntanlega í samstarfi við stjórnarflokkanna sem dembdu á sjötta tug mála inn í þingið á lokadegi framlagningar og heimta afgreiðslu þeirra. Næsta sem spyrst frá þingi er að Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður vinstri-grænna, krefst þess að forseti alþingis bindi enda á umræður í þingsalnum með því að láta reyna á ákvæði í þingsköpum á þann veg að um hreina ögrun við stjórnarandstöðuna er að ræða.

Þessir stjórnarhættir eru fjarri öllu sem menn eiga að venjast á alþingi. Þeir endurspegla ekki annað en þann yfirgang og ofsa sem einkennir stjórnarhætti Jóhönnu Sigurðardóttur. Björn Valur veit að hann höfðar til þess sem hún telur hæfilegt þegar hann krefst ofríkis af forseta alþingis.

Eins og margoft hefur verið sagt hér á þessum stað ber þingflokkur Samfylkingarinnar ábyrgð á Jóhönnu og stjórnarháttum hennar. Nú telur Björn Valur að hann geti manað Jóhönnu og þingflokk hennar til óhæfuverka í þingsalnum í anda stjórnarsamstarfsins.

Þegar stjórnarandstaðan féll frá orðinu gerði Björn Valur strax lítið úr því sem hún náði fram með samningum. Nú setur hann salt í sárið sem reyndi að valda þá.

 

Sunnudagur 27. 05. 12 - 27.5.2012 22:50

Veðurblíðan í Fljótshlíðinni var einstök í dag. Fáir sumardagar gerast betri. Hitinn komst í 18 stig.

Í valdatíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur tvisvar verið boðað til leiðtogafunda NATO. Jóhanna hefur sótt þá báða með stuðningi stjórnarflokkanna. Á hinum fyrri var samþykkt ný varnarstefna fyrir NATO. Á hinum síðari var ákveðið að virkja eldflaugavarnarkerfi NATO sem verið hefur á döfinni í um 30 ár.

Skömmu áður en Jóhanna hélt til Chicago komu vinstri-grænir saman á einhverjum fundi og ályktuðu gegn aðild Íslands að NATO. Ályktunin var villikattarþvottur. Þeir eiga hins vegar fjóra ráðherra í ríkisstjórn Íslands og formann utanríkismálanefndar alþingis. Hann lætur eins og hann ætli að kalla Jóhönnu á teppið eftir NATO fundi. Það er álíka mikið í nösunum á honum eins og hann segist andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Andstaða vinstri-grænna við NATO-aðildina er einfaldlega hlægileg þegar litið er til þess sem þeir hafa samþykkt sem stjórnarflokkur.

Nú berast fréttir um að áhugamenn í Finnlandi um aðild Finna að NATO hafi komið því um kring að finnskar herþotur komi hingað til lands og sinni loftrýmisgæslu í samræmi við ákvæði samkomulags sem er í gildi milli Íslands og NATO. Ísland er þannig orðinn brúarsporður fyrir Finna á leið til NATO.

Allt gerist þetta meira eða minna í kyrrþey af því að stjórnarflokkunum og spunaliðum þeirra innan og utan stjórnarráðsins finnst óþægilegt að rætt sé um málið. Þeir vilja hafa það á sama gráa svæðinu og ESB-viðræðurnar og geta hagað málflutningi eins og þeim hentar hvað sem líður sannleikanum.

Laugardagur 26. 05. 12 - 26.5.2012 21:00

Helgi Seljan Kastljósmaður veittist í dag að Gretu Salóme Stefánsdóttur sem keppir í kvöld fyrir Ísland á vegum RÚV í Bakú í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Helgi sendi þessa kveðju til Gretu Salóme: „Vonandi skíttapar hún.“ Ástæðan er sú að Greta Salóme sagði við Stöð 2 :

„Ég [tel] að það sé reyndar ekki rétt að segja að hún, eða þessi keppandi, hafi látið sig varða mannréttindabrot. Mannréttindabrot varða okkur öll, að sjálfsögðu. Það er alveg sama hvaða keppandi það er. Það hefur hins vegar oft verið tekið fram að þetta er ekki pólitískur vettvangur, við erum komin hingað til að taka þátt í lagakeppni. Mannréttindabrot eru einfaldlega ekki hluti af þessari keppni. Við erum bara komin hingað til að gera okkar besta í keppninni."

Greta Salóme lítur réttilega á sig sem fulltrúa  RÚV og Íslands í söngvakeppni en hún hafi ekki verið send sem þátttakandI í baráttu fyrir mannréttindum. Að einn af stjórnendum Kastljóss skuli tala til hennar á þann hátt sem Helgi Seljan gerir er ómaklegt.

Sjónvarpið ætti að sjá sóma sinn í því að sýna mynd sem ég sá í norska sjónvarpinu um stjórnmál og mannréttindamál í Azerbajdsan og efla þannig stuðning við baráttu fyrir lýðræði þar frekar en starfsmenn RÚV ráðist á þá sem sendir eru þangað til að syngja fyrir hönd RÚV og Íslendinga.  

Greta Salóme og Jónsí sönnuðu í Krystalshöllinni í Bakú í kvöld hve óverðskulduð árás Helga Seljans er.

Egill Helgason, umræðustjóri RÚV, segir á vefsíðu sinni 26. maí:

„Það er sagt að Björn Bjarnason ætli að styðja Ara Trausta Guðmundsson. Það kemur vel á vondan, því Ari var í langan tíma foringi í einhverjum hörðustu kommúnistasamtökum sem hafa starfað á Íslandi.“

Álitsgjöf Egils Helgasonar er reist á sögusögn um afstöðu mína til frambjóðenda. Slík vinnubrögð þykja ekki vönduð meðal fjölmiðlamanna vilji þeir njóta trausts en ekki skipa sér í flokk með sögusmettum.

Ólafur Ragnar, Þóra og Ari Trausti hafa öll hallast að sósíalisma og Ólafur Ragnar og Ari Trausti að marxisma. Ég ræddi við Ara Trausta í þætti mínum á ÍNN og hef enga ástæðu til að ætla að hann hafi skrökvað að mér. Ari Trausti hefur heilsteyptustu skoðanir hinna þriggja fylgismestu forsetaframbjóðenda og á því auðveldast með að segja skilið við þær sem hann hafnar og halda til nýrrar áttar. Þegar ég lít þriggja fyrrverandi sósíalista velti ég fyrir mér hvort í því efni gildi ekki reglan um „the real thing“ þegar að uppgjöri kemur.

 

Föstudagur 25. 05. 12 - 25.5.2012 23:50

Það birtist nú sem ljóst var frá upphafi að Þóra Arnórsdóttir hefði ekki roð við Ólafi Ragnari Grímssyni eftir að forsetakosningabaráttan hæfist. Kannanir sem birtar voru í dag sýna öruggt forskot Ólafs Ragnars þótt ein af þremur sýni þau standa jafnt að vígi. Til þessa hefur Þóra notið mestra vinsælda.

Þunginn í kosningabaráttu Ólafs Ragnars er svo mikill að jafnvel kosningavél Samfylkingarinnar getur ekki elt hann uppi fyrir Þóru. Sú vél er einnig löskuð vegna átaka innan flokksins og vaxandi óánægju með Jóhönnu Sigurðardóttur. Skal enn og aftur lýst undrun yfir stuðningi þingflokks Samfylkingarinnar við hana. Jóhanna situr sem forsætisráðherra á ábyrgð hans. Málaferlin yfir henni vegna brota á jafnréttislögunum eru til marks um dæmalausa stjórnarhætti hennar. Þögnin um lögsóknina í öðrum fjölmiðlum en Morgunblaðinu er hins vegar til marks um helsjúka fjölmiðla.

Það ber minna á því núna en tíðkaðist áður hjá Ríkisútvarpinu að leita til stjórnmálafræðimanna og spyrja þá hvort stjórnmálamenn í hinu eða þessu landinu hefðu ekki sagt af sér lentu þeir í einhverju sem fréttamönnunum þótti tilefni til að draga fram í dagsljósið varðandi störf íslenskra ráðherra. Hér skal því haldið fram að hvergi þegðu fjölmiðlar jafnþunnu hljóði um málaferli á hendur forsætisráðherra og þeir gera hér um jafnréttismálið hér gegn Jóhönnu Sigurðardóttur.  

Fimmtudagur 24. 05. 12 - 24.5.2012 22:50

Það sýnir dæmigerðan einfeldnings- og afdalahátt hjá ríkisstjórn Íslands og stuðningsmönnum hennar að láta eins og ekkert sé eðlilegra en hefja samstarf við Evrópusambandið um afnám gjaldeyrishafta þegar allt er á öðrum endanum innan sambandsins vegna óvissu um framtíð evrunnar.

Hingað til lands kemur stækkunarstjóri ESB og segir í grein í Morgunblaðinu að menn misskilji tilgang framkvæmdastjórnar ESB í Icesave-málinu gegn Íslendingum. Hún sé bara að gæta réttar síns! Þá séu reglur sem Maria Damanaki, starfssystir stækkunarstjórans, segir nauðsynlegar til að auka sársauka refsinga ESB gegn Íslendingum ekki settar til að ná sér niðri á Íslendingum.

Stækkunarstjórinn skrifar þetta til að stinga upp í ráðherrana í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, það dugar líka til að þeir æmta hvorki né skræmta heldur láta gott heita.  Þetta er fólkið sem ætlar að halda á hagsmunum Íslands í viðræðum við ESB um framtíð íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar.

Það voru taktísk mistök að gera tillögum ríkisstjórnarinnar og Hreyfingarinnar um spurningaleik í formi þjóðaratkvæðagreiðslu svo hátt undir höfði að ætla að leggja ESB-viðræðurnar og framtíð þeirra í það púkk. Hefði tillaga Vigdísar Hauksdóttur hlotið samþykki hefðu átök vegna hennar dregið alltof mikla athygli að þessum bjálfalega spurningaleik.

Andstaða þingmanna við að leggja ESB-viðræðurnar undir í þjóðaratkvæðagreiðslu sýnir hins vegar að þeir eru ekki í takt við vilja almennings í málinu um að ýta því sem fyrst til hliðar. Stjórnmálaátök um ESB-málið eiga að standa sjálfstæð og snúast um það eitt en ekki tengjast spurningum um eitthvað allt annað.

Það var engin reisn yfir afgreiðslu alþingis á þessum málum í dag og enn minni yfir því hvernig ráðherrar tóku á móti Štefan Füle.

 

Miðvikudagur 23. 05. 12 - 23.5.2012 22:20

 

Í dag ræddi ég á ÍNN við Guðrúnu Sveinbjarnardóttur fornleifafræðing um rannsóknir í Reykholti í Borgarfirði undir hennar stjórn. Það er merkilegt að fyrir liggi tilgáta, byggð á rannsóknum, um hvernig Snorri Sturluson bjó og að hann hafi í húsum sínum notað gufu frá heitum hver í 112 metra fjarlægð til einhverra hluta. Þá má skoða göngin sem þeir fóru um sem drápu Snorra 23. september 1241.

Hjörleifur Sveinbjörnsson, skólabróðir  kínverska fjárfestisins Huangs Nubos, skrifar grein í Fréttablaðið miðvikudaginn 23. maí þar sem hann kallar samskipti Íslendinga og Huangs vegna þessara fjárfestingaráforma hins kínverska vinar síns „vandræðamál“. Það ætli ekki „að verða nein sátt um að Huang og fyrirtæki hans leigi Grímsstaði, nú þegar kaupin eru úr sögunni,“ segir Hjörleifur.

Hann telur „náttúrlega ómögulegt fyrir metnaðarfullt ferðaþjónustufyrirtæki að starta sinni starfsemi í illdeilum við mann og annan“. Fær Hjörleifur raunar ekki séð að Huang „hafi neina þörf fyrir Grímsstaðina alla undir sinn rekstur, en svo virðist sem jörðin sé annað hvort öll föl eða ekki“. Finnst Hjörleifi „athugandi fyrir Huang og hans fólk að láta á það reyna hvort fá megi lóð út úr Grímsstaðatorfunni en falast að öðrum kosti eftir jörð af normal stærð fyrir uppbygginguna“.

Þegar þessi orð eru lesin og vitað er um yfirlýst áform nokkurra sveitarfélaga á norðausturhorni landsins um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum fyrir 800 milljónir króna til að leigja jörðina Huang vaknar spurning um hver sé í raun ráðgjafi Huangs í samskiptunum við Íslendinga. Enginn hefur staðið honum nær en Hjörleifur. Skyldi Huang ekki taka neitt mark á honum?

Þetta þref um Grímsstaði á Fjöllum er niðurlægjandi fyrir alla sem að því koma, þeir munu óhjákvæmilega allir tapa andlitinu að lokum; ekki virðist neitt að marka sem umboðsmaður Huangs hér á landi segir hvorki við Íslendinga né hann.

Þriðjudagur 22. 05. 12 - 22.5.2012 20:15

Í dag náðist enn einu samkomulag á alþingi um framgang þingmála, greidd verða atkvæði um stjórnlagamálið og í frétt RÚV segir: „Í staðinn fengu þingmenn stjórnarandstöðunnar það fram að frumvarp til laga um náttúruvernd yrði tekið af dagskrá og færi aftur til nefndar.“

Fyrir hvern venjulegan mann er óskiljanlegt að samið sé um framgang hins ótrúlega illa skapaða stjórnlagamáls í skiptum fyrir það sem að ofan segir. Þögn stjórnarandstöðunnar um efni þess samkomulags sem hún gerði undir forystu Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur er skiljanleg ef hún náði ekki meiri árangri með samningnum en því sem sagt er frá í frétt RÚV.

Á Smugunni, vefsíðu VG, segir að vísu í dag: „„Ég mun standa við samkomulagið um það sem snýr að mér og mínum þingflokki,” sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, en hún bætti því við að samkomulagið um að ljúka umræðu um stjórnarskrármálið væri háð ýmsum skilyrðum um lúkningu annarra mála. Þau ræddi hún ekki frekar.“

Ríkisstjórnin situr uppi með það í dag að Hreyfingin hættir viðræðum um stuðning við hana og nýr meirihluti myndast gegn ESB-stefnu hennar í utanríkismálanefnd alþingis. Samt stendur stjórnarandstaðan ekki betur að áróðursmálum en svo að engu er líkara en allt loft hafi lekið úr henni.

Mánudagur 21. 05. 12 - 21.5.2012 22:41

Viðtal mitt við forsetaframbjóðandann Ara Trausta Guðmundsson er komið inn á vefsíðu ÍNN  og má skoða það hér.

Leiðtogar 28 NATO-ríkja koma saman í Chicago og samþykkja að virkja fyrsta þrepið í nýju eldflaugavarnarkerfi sem hefur vakið andstöðu beggja stjórnarflokkanna á Íslandi. Hvert aðildarríki NATO hefur neitunarvald. Fundinn situr forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, auk Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Rætt er við Jóhönnu í kvöldfréttum RÚV og af samtalinu má ætla að hún hafi tekið þátt í fundi um hlut kvenna í alþjóðlegum öryggismálum.

Þessi aðferð við að segja Íslendingum fréttir án þess að í þeim sé nokkur dýpt eða samhengi við umhverfi þeirra hér á landi og afstöðu þeirra sem koma við sögu er ekki liður í því að stuðla að upplýstri umræðu eða gegnsæi.

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Kristínu Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, sem lýsir breyttum aðstæðum hjá stofnuninni vegna fjölgunar hælisleitenda. Hún segir meðal annars:

„Hælisleitendum sem hingað koma fjölgar ár frá ári og fyrstu fjóra mánuði ársins komu hingað 27 og óskuðu eftir hæli. Það er 80 prósent aukning frá sama tímabili í fyrra, þegar 15 óskuðu eftir hæli. Í nágrannalöndum okkar hefur komið fyrir að fjölda hælisleitenda fjölgar gríðarlega á stuttum tíma.“

Ástæður fyrir fjölgun af þessu tagi geta verið margar.  Hin algengasta er þó að fréttir berast meðal hælisleitenda um breytingu á lögum eða pólitískri afstöðu stjórnvalda viðkomandi lands sem auðveldar útlendingum að sækja þar um hæli. Sagan sýnir að þetta getur gjörbreytt öllum útlendingamálum á skömmum tíma. Einmitt þetta hefur gerst hér á landi í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og er í anda stjórnarflokkanna og stefnu þeirra. Dæminu verður ekki snúið við með því að auka fjárveitingar til þeirra sem sinna félagslegum þáttum hælisleitenda.

Sunnudagur 20. 05. 12 - 20.5.2012 22:17

Kammersveit Reykjavíkur flutti fjórar hljómsveitarsvítur eftir J. S. Bach undir stjórn Richards Eggars í Eldborg í Hörpu klukkan 14.00 við góðar undirtektir áheyrenda.

Samningsmarkmið Íslendinga í landbúnaðarmálum í ESB-aðildarviðræðunum hafa ekki verið kynnt. Það kemur ekki í veg fyrir að Stefán Haukur Jóhannesson, formaður viðræðunefndar Íslands, segi í nýju blaði ESB-aðildarsinna, Sveitinni, sem sagt er frá í dag segi að ESB hafi skýrt frá vilja til að semja um sérlausnir í landbúnaðarmálum við Íslendinga. Mér finnst málflutningur sendiherrans frekar eins og hann sé að skýra málstað ESB en að árétta stöðu og stefnu Íslands í aðlögunarviðræðunum. Tilgangurinn virðist sá að búa menn undir þau tíðindi að íslenska viðræðunefndin leggi fram tillögur sem falli að skilyrðum ESB.

Það hefur aldrei lofað góðu í deilum Íslendinga um brýn hagsmunamál sín að viðræður hefjist á því að íslenska viðræðunefndin taki til við að setja sig í spor viðmælandans og semji síðan við sjálfa sig og komist að niðurstöðu í eigin hóp um það sem hún heldur að falli að kröfum viðmælandans. Við blasir að þetta ráði nú ferðinni í landbúnaðarmálum ef marka má það sem fram kemur í nýja blaðinu, Sveitinni.

Hér má lesa meira um það sem segir í þessu nýja ESB-aðildarblaði.

Laugardagur 19. 05. 12 - 19.5.2012 23:20

Í dag birti ég fjórðu og síðustu grein mína um bændur og ESB á Evrópuvaktinni en greinarnar eru í heild hér á síðunni. Var lærdómsríkt að fara í gegnum efnið sem ég kynnti mér við ritun greinanna. Ég sannfærðist  betur en áður um hve illa hefur verið komið fram við forystumenn bændasamtakanna af hálfu utanríkisráðherra og pólitískra útsendara hans. Í stað þess að taka málefnalega á því sem bændasamtökin hafa haft fram að færa hefur verið leitast við að grafa undan samtökunum sjálfum auk þess sem fulltrúum þeirra hefur verið haldið frá samráðsnefnd sem lýtur þriggja manna stjórn í umboði utanríkisráðherra.

Illskiljanlegt er hvað fyrir utanríkisráðherra vakir með þessari málsmeðferð. Að vísu er grunnt á óvild í garð bænda og hagsmunasamtaka þeirra meðal forystumanna Samfylkingarinnar. Það vekur til dæmis athygli að í tillögum Dags B. Eggertssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, um 11.000 ný störf sem ríkisstjórnin gerði að sínum á blaðamannafundi 18. maí virðist ekki minnst einu orði á ný störf tengd landbúnaði. Er það í anda þeirrar skoðunar innan Samfylkingarinnar að landbúnaðarstarfsemi sé frekar baggi á þjóðinni og þjóðarbúinu en því til framdráttar.

Í byrjun vikunnar skrifaði Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, að fyrir lok vikunnar yrði hún að fá svar frá ríkisstjórninni um eitthvað til að geta stutt hana. Síðan hefur Jóhanna Sigurðardóttir sagt að hún sé í stjórnarmyndunarviðræðum við Hreyfinguna. Í dag segir Þór Saari að hann verði að fá svar við einhverju næsta mánudag til að hann styðji stjórnina. Jóhanna Sigurðardóttir er í Chicago yfir helgina og að minnsta kosti fram á þriðjudag á NATO-fundi til að tryggja heimsfriðinn. Ætli Þór Saari semji  við Dag B.? – Sá er vanur að láta allt eftir Jóni Gnarr.

Föstudagur 18. 05. 12 - 18.5.2012 20:35

Allt í einu boðar ríkisstjórnin til blaðamannafundar til að kynna framtíðaráform Dags B. Eggertssonar sem reist eru á óskhyggju í anda 20/20 átætlunargerðar ESB. Í samtali við Ólöfu Nordal, varaformann Sjálfstæðisflokksins, í Kastljósi kvöldsins segir Dagur B. að þúsundir starfa séu í boði. Hann fetar þar í fótspor Jóhönnu Sigurðardóttur sem reglulega hefur boðað ný störf. Þessari áætlun Dags B. á að hrinda í framkvæmd að loknum kosningum 2013! Hann talar einnig um aga í fjármálum á sama tíma og Reykjavíkurborg fer marga milljarða fram úr áætlun undir hans stjórn.

Árni Páll Árnason hefur látið verulega að sér kveða undanfarið og jafnvel leyft sér að nefna að tími Jóhönnu til brottfarar sé kominn. Jóhanna veittist að Árna Páli á þingi í morgun fyrir skoðun hans á ESB af því að hann vill að þjóðin fái að segja álit sitt án þess að samið hafi verið við ESB. Ég fjalla um það í pistli sem lesa má hér. Nú stefnir Jóhanna  Degi B., stuðningsmanni Jóns Gnarrs, fram á völlinn til að ögra Árna Páli og Steingrímur J. tekur að sjálfsögðu þátt í leikritinu.

Dagur B. endurtekur gömlu tugguna um nauðsyn þess að menn „komi upp úr skotgröfunum“ . Þennan frasa notar samfylkingarfólk jafnan þegar það er upp við vegg. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, góðvinur Dags B. tók áskoruninni og sagðist kominn upp úr sinni gröf.  

Ungum hælisleitendum tók skyndilega að fjölga hér á landi, efasemdir eru um aldur þeirra. Farið er með þá sem börn. Barnaverndaryfirvöld segjast ætla að bíða með aðgerðir þar til þau sjái hvort hér sé um tilviljanakennda fjölgun eða eitthvað annað að ræða. Í fréttum segir að þeir sem komi hingað þekki hver annan.

Menn þurfa ekki að vera sérfræðingar í innflytjendafræðum til að átta sig á því að þar gildir sama lögmál og annars staðar, keðjan er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. Þeir sem sætta sig ekki við keðjuna láta reyna á hann. Í þessu máli er mesti barnaskapurinn fólginn í því að láta eins og um einhverja tilviljun sé að ræða eða fækkun þessara hælisleitenda felist í því að auka fjárveitingar til málaflokksins

Fimmtudagur 17. 05. 12 - 17.5.2012 10:35

Konrad Adenauer Stiftung, hugveita í tengslum við kristilega demókrata í Þýskalandi, hefur birt greinina Iceland - a reluctant EU candidate eftir mig á vefsíðu sinni, hún birtist fyrir lok mánaðarins í prentaðri útgáfu tímaritsins. Hér má lesa greinina.

Undir lok október var Fjalladrottningin, ær í minni eigu, felld í seinni leitum. Ég fór þess á leit við sýslumann að gerð yrði lögregluskýrsla um málið. Rannsókn þess er lokið og mér hefur borist bréf frá embætti sýslumanns þar sem fram kemur að niðurstaðan sé sú að dýraverndunarsjónarmið hafi ráðið ákvörðun leitarmanna. Þá er mér bent á að ég geti kært þessa niðurstöðu til ríkissaksóknara. Ég sætti mig við niðurstöðuna og hefst ekki frekar að í málinu. Fyrir mér vakti að allar staðreyndir þess lægju skýrt fyrir svo að ekki kæmi til eftirmála að ósekju.

Fjalladrottningunni fylgdu tvö síðborin lömb þegar hún var felld. Annað, svarta, kollótta gimbur setti Viðar á Hlíðarbóli á vetur og hefur hún dafnað vel og er nú í haga undir Þríhyrningi.

Miðvikudagur 16. 05. 12 - 16.5.2012 16:45

Sat í morgun ársfund Stofnunar Árna Magnússonar sem haldin var undir fyrirsögninni: Nýja landnámið í Kötlusal Hótel Sögu. Þar var fluttur fjöldi erinda um verkefni á starfssviði stofnunarinnar og lutu þau flest að notkun upplýsinga- og tölvutækni við varðveislu, skráningu og notkun menningararfsins og tungunnar.

Í hádegi hlýddi ég á Guðrúnu Sveinbjarnardóttur fornleifafræðing segja frá nýrri bók um rannsóknir á búsetu í Reykholti í Borgarfirði í þéttsetnum fyrirlestrasal Þjóðminjasafns.

Í dag ræddi ég við Ara Trausta Guðmundsson forsetaframbjóðanda í þætti mínum á ÍNN. Hann hefur mótað sér skýra afstöðu til stöðu forsetaembættisins meðal þjóðarinnar og setur hana fram á sannfærandi hátt.  Ari Trausti er sá í hópi frambjóðenda sem nýtur um þessar mundir þriðja mesta fylgis á eftir þeim Þóru og Ólafi Ragnari. Hann stendur hins vegar utan við átök þeirra. Þau eru til þess eins fallin að draga forsetaembættið inn í hatrammar persónulegar deilur auk þess sem Ólafur Ragnar tekur meira upp í sig um hlutverk forseta en samrýmist óbreyttum stjórnlögum.

Samtalið við Ara Trausta má sjá í kvöld klukkan 20.00, 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Nú er þáttur minn frá síðustu viku þar sem ég ræddi við Andra Árnason, verjanda Geirs H. Haarde í landsdómsmálinu kominn inn á vesíðuna www.inntv.is og má nálgast hann hér.

Þriðjudagur 15. 05. 12 - 15.5.2012 15:55

Á visir.is má lesa þriðjudaginn 15. maí:

„Fjórir umsækjendur um forstjórastöðu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu komu helst til greina, eftir langt og strangt ferli. Það voru auk Halldórs Guðmundssonar, sem tilkynntur var sem forstjóri 3. maí sl., Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona, fyrrverandi menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórólfur Árnason, verkfræðingur og m.a. fyrrverandi borgarstjóri, og Hrönn Greipsdóttir, fyrrverandi hótelstýra. […]

Samkvæmt heimildum fréttastofu var tekist á um ráðningu nýs forstjóra innan stjórnar Eignarhaldsfélagsins Portusar, sem á og rekur Hörpuna, en ríki og borg eru eigendur félagsins (Ríki 54%, borg 46%). Umsóknarferlið var einnig nokkuð umfangsmikið en umsækjendur fóru í gegnum hin ýmsu próf og lögðu fram framtíðarsýn fyrir stjórn Portusar og fulltrúa frá Capacent. Meirihluti stjórnar Portusar, það er þrír stjórnarmenn af fimm, vildu ráða Þorgerði Katrínu í starfið að loknu umsóknarferlinu, samkvæmt heimildum fréttastofu, en eftir nokkur átök í stjórninni varð úr að ráða Halldór í starfið.“

Þessi frétt þarfnast skýringar. Hvernig getur meirihluti stjórnar komist að niðurstöðu um ráðningu forstjóra en síðan er annar ráðinn? Hvernig kemur þetta heim og saman við heitstrengingar eigenda Portusar hjá borg og ríki um fagleg sjónarmið við ráðningu manna í störf og embætti?

Almenningur hefur sýnt Hörpu og starfsemi þar meiri áhuga en nokkur gat vænst þegar litið er til þess að gestir í húsið á einu ári nálgast eina milljón. Það er ekki í anda þess mikla áhuga að pukrast sé með val á stjórnendum Hörpu. Stjórn Portusar hefur neitað að birta lista yfir 42 umsækjendur um stöðu forstjóra. Stjórnin á að sjálfsögðu að birta þennan lista og skýra frá því hvernig staðið var að vali forstjórans. Það yrði í samræmi við hinn almenna áhuga á Hörpu og starfinu þar.

Mánudagur 14. 05. 12 - 14.5.2012 22:55

Hafi Ólafur Ragnar ætlað að slá aðra forsetaframbjóðendur út af laginu með gauragangi sunnudaginn 13. maí hefur honum tekist það. Honum tókst einnig að sýna hið rétta eðli fréttastofu RÚV og kalla fram hefðbundin yfirlætisfull viðbrögð stjórnenda stofnunarinnar. Þá tók hann blaðamann og ljósmyndara DV í kennslustund á kosningaskrifstofu sinni ef marka frásögn á vefsíðu blaðsins.

Allt er þetta í ætt við það sem við var að búast. Ólafur Ragnar hefur ekki tapað neinu af því sem einkennt hefur allan stjórnmálaferil hans. Nú finnst honum að vísu sjálfsagðara og eðlilegra en áður að sér sé sýnd óttafull virðing.

Þegar lá í loftinu vorið 2004 að Baugsmenn fengju Ólaf Ragnar til að bregða fæti fyrir fjölmiðlalögin sagði ég á þingi að eðlilegt væri að forseti gæfi þingmönnum til kynna að hann ætlaði að bregða fæti fyrir framgang laga ef einhver skilyrði tengd þeim kæmu fram. Hann gaf aldrei neitt slíkt til kynna.

Nú segist Ólafur Ragnar til þess búinn að neita að staðfesta lög um stjórn fiskveiða. Helst er að skilja að neitunin yrði ekki reist á skoðun hans á efni laganna heldur á því hve margir  þrýstu á hann. Stjórnarfarið sem hann boðar minnir á þann tíma þegar menn sendu bænarskrár til konungs. Hann færir stjórnarhætti aftur um marga áratugi í krafti stjórnarskrárákvæðis sem var sniðið að konungsvaldi.

Þetta eru sérkennilegir tímar. Ríkisstjórn skipuð fólki sem stóð að því að gera Ólaf Ragnar að forseta hefur ekki roð við honum. Kjósendur eru hinir einu sem geta haldið aftur af honum. Óljóst er hvaða áhrif offors hans hefur á þá.

Sunnudagur 13. 05. 12 - 13.5.2012 16:30

Eins og við var að búast valtaði Ólafur Ragnar Grímsson yfir Þóru Arnórsdóttur andstæðing sinn þegar hann kvaddi sér hljóðs og hóf kosningabaráttu sína í dag. Hann valdi sér Sigurjón M. Egilsson á Bylgjunni sem viðmælanda fyrir breiðsíðuárás á Þóru og sambýlismann hennar, Svavar Halldórsson, fréttamann á RÚV í leyfi. Ólafur Ragnar sagði enga tilviljun að Þóra veldi sér kvikmyndaleikstjóra sem kosningastjóra, þetta væri „2007 framboð“. Þá hefði Svavar misnotað aðstöðu sína til að lauma jákvæðum fréttum fyrir Þóru í sjónvarpið.

Hér hefur því verið haldið fram að kosningabaráttan stofnaði forsetaembættinu í hættu vegna aðferða Ólafs Ragnars við að brjótast úr þröngri stöðu. Þetta hefur sannast fyrsta daginn sem  Ólafur Ragnar fer af stað. Hann ætlar greinilega að kæfa alla andstöðu við sig með leiftursókn og setur virðingu embættis forseta Íslands ekki fyrir sig í því sambandi.

Ólafur Ragnar saumaði ekki að Þóru einni heldur einnig RÚV og DV. Hann taldi þessa fjölmiðla leggja sig fram um að gera hlut sinn sem verstan. Athyglisvert er í þessu sambandi að Ólafur Ragnar fær til samstarfs við sig á kosningaskrifstofunni, sem opnuð var í dag, Ólafíu B. Rafnsdóttur sem var um langt árabil framkvæmdastjóri starfsmanna- og þjónustusviðs 365 miðla, fjölmiðlasamsteypu Baugsmanna og helsta keppinautar RÚV. Henni var sagt upp störfum á Baugsmiðlunum í lok janúar 2012. Ólafía stjórnaði kosningabaráttu Ingibjargar Sólrúnar árið 2005 þegar hún keppti við Össur Skarphéðinsson um formennsku í Samfylkingunni.

Ólafur Ragnar vék óvildarorðum að Jóhönnu Sigurðardóttur og aðstoðarmanni hennar í dag. Hann velur sér hins vegar kosningastjóra sem ætti að ná inn í raðir Samfylkingarinnar. Ólafur Ragnar var hvattur til framboðs af Guðna Ágústssyni sem enn á nokkurn hljómgrunn meðal framsóknarmanna. Kannanir sýna hins vegar að kjósendur Sjálfstæðisflokksins mynda uppistöðuna í fylgi Ólafs Ragnars. Ætlar hann að hundsa þá í uppstillingu á kosningaliði sínu? Fæst enginn þjóðþekktur sjálfstæðismaður til að ganga fram fyrir skjöldu og lýsa stuðningi við Ólaf Ragnar?

Laugardagur 12. 05. 12 - 12.5.2012 23:55

Ríkisstjórnin leggur fram frumvarp um stjórn fiskveiða sem grefur undan atvinnuröryggi allra sem starfa að sjávarútvegi og 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Byggðarlög grípa til þess ráðs að kynna landsmönnum hvað sé í húfi fyrir þau með auglýsingum í fjölmiðlum. Þá umturnast Jóhanna Sigurðardóttir og skrifar í dag í Fréttblaðið:

„Þegar liðin eru rétt þrjú ár af kjörtímabilinu stendur ríkisstjórnin enn í ströngu eins og landsmenn verða áþreifanlega varir við þessa dagana. Það sést meðal annars í auglýsingum útgerðarvaldsins í landinu gegn áformum ríkisstjórnarinnar um breytt fiskveiðistjórnunarkerfi og hækkun veiðigjalds sem stendur til að innheimta af lögmætri eign almennings.“

Þessi texti endurspeglar enn einu sinni frekju og ofríkisáráttu forsætisráðherrans. Við hverju bjóst hún eftir að hafa stjórnað landinu jafnilla og raun ber vitni í þrjú ár? Að sitja á friðarstóli? Í þrjú ár hefur Jóhanna bögglast við að grafa undan sjávarútveginum án árangurs. Mál hennar eru svo illa undirbúin að þess vegna stendur hún „enn í stöngu“.

Það er sama hvort þingmenn mótmæla ríkisstjórnin í ræðum á alþingi eða almenningur rís gegn henni með því að segja skoðun sína í auglýsingum allt eru þetta skemmdarverk í augum Jóhönnu. Kveinstafir hennar hafa þó aðeins öfug áhrif, þeir auka alls ekki vinsældir ríkisstjórnarinnar. Kapphlaup er að hefjast innan Samfylkingarinnar um stól Jóhönnu.  

Það hefur enginn áhuga á rétta ríkisstjórninni hjálparhönd nema Hreyfingin og sérstaklega Þór Saari. Hann hneykslast á því að fólk mótmæli á friðsamlegan hátt með auglýsingum. Þór finnst skynsamlegra að gripið sé valdbeitingar gegn alþingi á Austurvelli,  unnin skemmdarverk á Alþingishúsinu og vegið að lögreglumönnum.

Föstudagur 11. 05. 12 - 11.5.2012 22:51

Egill Helgason gerði athugasemd  í tilefni af því að Jóhannes Jónsson sem átti Bónus ætlar að láta að sér kveða að nýju í smásöluverslun. Egill og raunar fjölskylda hans fékk það strax óþvegið frá Jóhannesi.  Það er óskemmtilegt að þessi tónn heyrist að nýju í viðskiptalífinu. Hann er hins vegar gamalkunnur hjá Jóhannesi og til þess ætlaður að þagga niður í öllum sem tala ekki opinberlega eins og honum líkar. Jón Ásgeir, sonur hans, kýs hins vegar að stefna þeim sem skrifa eða tala ekki eins og honum líkar fyrir dómstóla.

Hinn 9. desember 2009 var sagt í fréttum, að Jóhannes í Bónus og Kristín, dóttir hans, hefðu gengið á fund Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands. DV greindi frá því í nóvember, að Jóhannes sakaði Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor um að hafa dreift flugriti innan háskólans um son sinn Jón Ásgeir. Vildi Jóhannes fund með rektor, sem þyrfti að taka afstöðu til hvort reka ætti Hannes. Sagðist Jóhannes hafa fengið nóg af viðleitni þessa opinbera starfsmanns til að niðurlægja fjölskyldu sína.

Á vefsíðunni student.is sagði 9. desember 2009:

„Fundurinn í dag stóð í tuttugu mínútur og voru feðginin ánægð með hann. Þau sögðust hafa gengið á fund rektors með nokkur mál sem nú væru í ákveðnum farvegi sem þau væru ánægð með. Spurður hvort hann teldi að skoðanir og gjörðir háskólakennara utan kennslustofunnar hefðu áhrif á gæði kennslunnar sagði Jóhannes „Innræti manna hlýtur að hafa mikið að segja.““

Háskólarektor vildi ekki skýra frá umræðuefni á fundinum með Bónus-feðgininum. Ósennilegt er að annað hafi verið rætt á fundinum en tilefni hans. Ég sagði hér á síðunni 9. desember 2009:  „Jóhannes í Bónus er þekktur fyrir að vilja leggja stein í götu allra, sem hann telur sér óvinsamlega. Hann og fjölmiðlar hans leggja illt til þessara manna og leynt og ljóst er reynt að hrekja þá úr störfum þeirra. Það dregur úr virðingu Háskóla Íslands, leggi rektor hans þessari áráttu Jóhannesar lið.“

Þessi fundur Jóhannesar með háskólarektor minnir á fundinn sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri heimtaði með ríkissaksóknara eftir að hann neitaði að ákæra á þann veg sem Már vildi í krafti gjaldeyrishaftanna. Már telur greinilega að fælingarmáttur sinn skerðist við hina misheppnuðu aðför hans sem sérstakur saksóknari og ríkissaksóknari ákveða að hafa að engu. Hvenær skyldi umboðsmaður alþingis skila áliti sínu á þessu máli sem saksóknari hefur hafnað?

 

Fimmtudagur 10. 05. 12 - 10.5.2012 20:55

Í dag voru í síðasta sinn veittir styrkir úr rannsóknarsjóði Bjarni Benediktssonar. Til sjóðsins var stofnað á 100 ára afmæli föður míns. Síðan hefur 21 styrki verið úthlutað að fjárhæð 13.250.000 krónur til rannsóknarverkefna á sviði stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar í lögfræði og hag- og stjórnmálasögu í sagnfræði.

Athöfnin í dag var í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns og síðan buðum við Rut gestum til okkar í Háuhlíð. Fræðimennirnir sem hafa komið að úthlutun styrkja með okkur segja að framtakið hafi reynst lyftistöng fyrir rannsóknir á viðkomandi fræðasviðum.

Frá upphafi stefndum við í stjórn sjóðsins að því að úthluta styrkjum í fimm ár. Það hefur gengið eftir.

Fyrir fimm árum afhentum við systkinin Borgarskjalasafni skjalasafn föður okkar og móður. Það hefur nú verið skráð af mikilli alúð og stór hluti þess er kominn inn á netið, eins og sjá má hér.

Miðvikudagur 09. 05. 12 - 9.5.2012 21:47

Andri Árnason, hæstaréttarlögmaður og verjandi Geirs H. Haarde í landsdómsmálinu, var gestur minn á ÍNN í dag. Ræddum við almennt um málið auk þess sagði Andri frá rannsókn þess á vegum þings Evrópuráðsins. Ég hafði ekki áttað mig á því að þingið samþykkti í október 2011 að láta fara fram rannsókna á tveimur málaferlum, það er gegn Geir og Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraníu. Hún er einmitt að hætta í hungurverkfalli um þessar mundir. Í það fór hún til að mótmæla barsmíðum sem hún hafði orðið fyrir í fangavistinni. Nú fær hún að fara á sjúkrahús þar sem þýskir læknar munu annast hana af ótta við að annars verði eitrað fyrir hana.

Að sakamálaákæra fyrir tilstilli alþingis skuli rannsökuð af sömu mönnum á vegum þings Evrópuráðsins og rannsaka ákæruna og málatilbúnaðinn á hendur Tímósjenkó sýnir á hvaða stig stjórnarhættir hér á landi hafa þróast undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.  Evrópuráðsþingmenn samþykkja ekki slíka rannsókn á sínum vegum af því að þeir séu að leita að einhverju sem er til fyrirmyndar heldur af því að þeir telja að stjórnvöld viðkomandi lands hafi farið á svig við það sem eðlilegt er og samrýmanlegt grundvallarreglum mannréttindasáttmála Evrópu eða öðrum samþykktum Evrópuráðsins.

Ég er undrandi á því að þessi rannsókn á vegum þings Evrópuráðsins hafi ekki verið meira til umræðu hér á landi í tengslum við málið gegn Geir. Alþingi Íslendinga á fulltrúa á þingi Evrópuráðsins. Hafa þeir vakið einhvers staðar athygli á þessari samþykkt þingsins? Vissulega kann það að hafa farið fram hjá mér þar sem ég dvaldist erlendis meirihluta október 2011.

Þáttur minn á ÍNN fyrir viku, þegar ég ræddi við Gísla Gíslason hafnarstjóra er kominn á netið og má sjá hann hér. Ég er nú, í bili að minnsta kosti, með vikulegan þátt á ÍNN. Þáttinn með Andra má næst sjá á ÍNN klukkan 22.00, síðan á miðnætti og á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Komist þing Evrópuráðsins að þeirri niðurstöðu að um pólitísk réttarhöld gegn Geir H. Haarde hafi verið að ræða getur það leitt til þess að ESB verði að endurskoða dóma sína um ágæti íslenskra stjórnarhátta.

 

 

 

Þriðjudagur 08. 05. 12 - 8.5.2012 22:25

Í norskum sjónvarpsþætti sem sýndur var í RÚV í kvöld var rætt um að enginn vildi standa þannig að málum á Norður-Íshafi að þar ykist hernaðarleg spenna. Allir viðurkenna að miklar auðlindir sé að finna á svæðinu, einkum olíu og gas, en auk þess mikið af fiski.  Yfirlýst markmið er að fara að alþjóðalögum við nýtingu þessara auðlinda en ekki beita valdi.

Heilbrigð skynsemi segir að enginn hafi hag af því að stofna til hernaðarlegrar spennu á norðurslóðum þar sem stórveldi gæta eigin hagsmuna.

Eitt fyrsta verk Vladimir Pútins eftir að hann varð forseti Rússlands í þriðja sinn var þó að gefa fyrirmæli um að styrkja rússneska herflotann til aðgerða á Norður-Íshafi eins og lesa má hér.

Bandaríkjastjórn fer með hraða snigilsins þegar litið er til þess sem gerist á vettvangi bandarísku strandgæslunnar eða flotans með tilliti til norðurslóða. Bandaríkjamenn ráða varla yfir ísbrjótum sem duga til aðgerða á Norður-Íshafi. Líklegt er að í Bandaríkjunum vakni menn með andfælum einn góðan veðurdag vegna þess sem gerist á Norður-Íshafi. Spurning er hvort bandarísk stjórnvöld hafi ekki þegar sofið yfir sig.

Með því að endurnýja tækjakost Landhelgisgæslu Íslands og með aukinni þátttöku gæslumanna í alþjóðlegum eftirlitsstörfum hefur verið búið í haginn fyrir marktæka þátttöku Íslendinga í eftirliti, leit og björgun á Norður-Atlantshafi, anddyrinu að Norður-Íshafi. Engin þjóð á meira undir því en hin íslenska að halda vígdrekum frá þessum slóðum.

Mánudagur 07. 05. 12 - 7.5.2012 23:00

Það hefur verið óvenjulega kalt í Fljótshlíðinni um helgina, frost niður í fimm stig um nætur. Dagarnir eru hins vegar bjartir og fallegir. Nú er miklu minna ryk en undanfarin tvö vor í skemmunum hjá mér sem sýnir að öskurykið smýgur ekki lengur um allt.

Sunnudagur 06. 05. 12 - 6.5.2012 22:10

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um Huang Nubo, Samfylkinguna og ríkisstjórnina. Saga fjárfestingartilrauna hins kínverska auðmanns sýnir að hópur manna innan Samfylkingarinnar í tengslum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össur Skarphéðinsson hefur átt beina aðild að því að auðvelda Huang Nubo að koma á viðskiptasambandi við Íslendinga með milligöngu eiginmanns Ingibjargar Sólrúnar, lögfræðilegri aðstoð Lúðvíks Bergvinssonar og aðstoð sendiráðs Íslands í Peking undir forystu Kristínar Árnadóttur og með fulltingi Ragnars Baldurssonar sendiráðsstarfsmanns. Huang sagðist hafa fengið hvatningu frá Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands til að fjárfesta á Íslandi, Ólafur Ragnar sagði þetta ekki rétt.

Áður en Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafnaði kaupsamningi Huangs Nubos í nóvember 2011 lét Huang eins og fyrir sér vekti það eitt að festa fé á Íslandi. Eftir höfnunina setti Huang neitun Ögmundar í víðtækara samhengi. Reynsla hans af samskiptum við Íslendinga ætti að verða víti til varnaðar fyrir aðra kínverska fjárfesta sem hefðu áhuga á að reyna fyrir sér á Vesturlöndum. Dró hann almennt upp neikvæða mynd af samskiptum sínum við íslensk stjórnvöld.

Í pistlinum lýsi ég hvernig Huang Nubo hefur tekist að koma ár sinni fyrir borð hér á landi og stillt stjórnvöldum upp við vegg. Verður spennandi á sjá hver niðurstaðan verður að lokum.

Einkennilegt er að sjá viðbrögð samfylkingarfólks við samantekt minni. Látið er eins og ég fari með rangt mál þegar ég rifja upp reiðileg viðbrögð Huangs í nóvember 2011. Þau urðu einmitt til þess að ráðherrar Samfylkingarinnar hófust handa við að leita að hjáleið fyrir Huang til Grímsstaða.

Hinn 26. nóvember 2011 sagði Halldór Jóhannsson arkitekt, umboðsmaður Huangs, að umbjóðandi sinn ætlaði „sér ekki að reyna að hnekkja niðurstöðu íslenska ríkisins“. Hann hefði hins vegar orðið fyrir vonbrigðum yfir því að ákvörðunin hefði verið tekin algjörlega einhliða án nokkurrar tilraunar til samningaviðræðna.   Í frétt á mbl.is 26. nóvember 2011 er eftir Halldóri haft: „Það var ljóst í upphafi að hann [Huang] hafði engan áhuga á því að fara einhverja bakdyraleið [að Grímsstöðum], það kom aldrei til greina.“ Þessi orð hafa reynst röng eins og svo margt annað í málflutningi Huangs og manna hans.

 

Laugardagur 05. 05. 12 - 5.5.2012 23:40

Í dag sæmdi Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn og formaður Íþróttasambands lögreglumanna, mig gullmerki íþróttasambandsins fyrir gott samstarf á þeim árum sem ég var dómsmálaráðherra. Þetta er ánægjulegur heiður sem ég met mikils.

Í morgun hittumst við nokkur bekkjarsystkini úr B-bekk MR sem útskrifaðist 1964. Ásdís Skúladóttir hefur frumkvæði að því að við komum saman.

Lesi maður það sem Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur að segja um alþingi, hún líkir þingmönnum við bavíana, hlusti á Þór Saari, flokksbróður hennar, vega að þinginu og þingmönnum, og viti að Birgitta Jónsdóttir, þriðji þingmaður Hreyfingarinnar, safnar undirskriftum til að velta Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þingforseta úr sessi, er hneyksli að Jóhanna Sigurðardóttir kjósi að sitja í embætti í skjóli þessa fólks. Þingflokkur Samfylkingarinnar stendur á bakvið Jóhönnu. Hinn þverklofni flokkur vinstri-grænna á aðild að þessu lágkúrulega bandalagi. Þessi söfnuður dirfist að segja stjórnarandstöðuna vega að virðingu alþingis.

Föstudagur 04. 05. 12 - 4.5.2012 19:00

Menn geta deilt um markmið Huangs Nubos, fjárfestis frá Kína, með því að sækjast eftir aðstöðu á Grímsstöðum á Fjöllum. Eitt er víst, honum hefur þegar tekist að beita félagslegri leikfléttu til að ná markmiðum sínum. Þetta blasir við þegar sagt er frá samningi sem hann hafi gert við sveitarfélög sem ætli að kaupa landið og leigja honum til 40 ára. Þetta er kallað „social engineering“ á ensku og þykir fylgifiskur kínverskra umsvifa víða um heim.

Á visir.is er í dag birtur kafli úr samtali China Daily við Huang Nubo sem telur að hann hafi náð undirtökunum í samskiptum við íslenska ráðamenn. Huang segir: „Ég held að niðurstaðan verði ekki langt frá því sem ég vonaðist eftir. Með því að leigja landið er ólíklegt að málinu verði hafnað, því innanríkisráðherrann hefur ekkert með málið að gera í þetta skipti.“

Þarna hreykir Huang Nubo sér af því að hafa leikið á innanríkisráðherra með fléttunni sem stofnað er til með þátttöku sveitarfélaganna. Hann veit að hann á hauka í horni þar sem ráðherrar Samfylkingarinnar sitja.

Erlendis velta menn því fyrir sér hvað fyrir kínverskum yfirvöldum vaki með heimildinni til Hugangs vegna fjárfestinga hér á landi. Í því efni líta menn á fasteignina og legu Íslands. Nærtækara er að líta á stjórnarhættina og þau ráð sem beitt er til að útiloka þá innan íslenska stjórnkerfisins sem taldir eru andvígir brölti Huangs.

Fimmtudagur 03. 05. 12 - 3.5.2012 22:20

Líflegar umræður eru í netheimum um hvort Ólafur Ragnar Grímsson ákveði þegar öllu er á botninn hvolft að gefa ekki kost á sér að nýju til setu á Bessastöðum. Ólíklegt er að hann dragi sig í hlé, á hinn bóginn er Ólafur Ragnar tæplega sáttur við framvindu mála frá því að hann hætti við að hætta af umhyggju fyrir festu í stjórn ríkisins. Fjöldi forsetaframbjóðenda sýnir ekki mikla virðingu fyrir ákvörðun hans og fylgið í skoðanakönnunum hlýtur að vekja honum og stuðningsmönnum hans áhyggjum.

Allt stefnir í harða kosningabaráttu. Nú lendir forsetaembættið sjálft í meira ölduróti en nokkru sinni fyrr. Þótt áður hafi verið efnt til kosninga þegar sitjandi forseti gefur kost á sér til endurkjörs hafa aðstæður aldrei verið sambærilegar við það sem nú er. Sé það markmið Ólafs Ragnars að skila embættinu af sér sæmilega heillegu ætti hann að velta þeim kosti fyrir sér að draga það ekki inn í kosningaslaginn með framboði sínu.

Í hita leiksins verður ekki alltaf auðvelt fyrir andstæðinga Ólafs Ragnars að draga skil á milli hans annars vegar og embættisins hins vegar. Eftir að hann hefur setið að Bessastöðum í 16 ár er hann orðinn svo samgróinn embættinu að erfitt er fyrir hann sjálfan að gera mun á því sem snertir hann persónulega og embættið sérstaklega. Yrði Ólafur Ragnar ekki í kjöri mundi kosningabaráttan snúast um einstaklinga í framboði. Framboð Ólafs Ragnars dregur forsetaembættið sjálft inn á vígvöllinn.

Miðvikudagur 02. 05. 12 - 2.5.2012

Í dag ræddi ég við Gísla Gíslason, hafnarstjóra Faxaflóahafna, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum breytingar í gömlu höfninni í Reykjavík og þróun hafnarmála við Faxaflóann.

Samfylkingarsíðan Eyjan sér ástæðu til að hampa óhróðri sem Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG og fimmti varaforseti alþingis, flutti um Evrópuvaktina á alþingi í dag til að leggja stein í götu stuðnings við skrif á síðunni um ESB-málefni. Alþingi veitti Evrópuvaktinni styrk á síðasta ári. Af hálfu aðstandenda síðunnar hefur í einu og öllu verið farið að kröfum alþingis. Engu að síður sér þingmaðurinn ástæðu til þessara árása. Framgangan minnir aðeins á það þegar Álfheiður stóð við gluggann í Kringlunni í Alþingishúsinu með farsímann við eyrað og leiðbeindi þeim sem stóðu utan dyra. Nú vill hún gefa þeim sem fara yfir umsóknir vegna Evrópustyrkja alþingis árið 2012 fyrirmæli um hverja ekki megi styrkja. Fáránleikinn felst í því að hún vill að reglum sé breytt eftir að styrkir eru veittir.

Þessi skammarlega framkoma Álfheiðar á sér sem betur fer ekki hliðstæðu í störfum þingsins. Álfheiður sannar hins vegar að þeir sem hafa umboð þingsins til að ráðstafa styrkjum í nafni þess geta átt á hættu að jafnvel varaforseti þingsins komi í bakið á þeim. Að forseti alþingis láti þessi lúalegu vinnubrögð viðgangast átölulaust er ólíklegt enda hefur Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ekki látið undan yfirgangi Álfheiðar.

Þriðjudagur 01. 05. 12 - 1.5.2012 21:40

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa lýst áhyggjum af skuldsetningu Reykjavíkurborgar.  Hún hefði aukist um 56 prósent á tveimur árum. Þeir segja að árið 2009 hefði það tekið tvö ár fyrir borgina að greiða niður skuldir sínar, en í lok síðasta árs hafi þessi tími verið kominn upp í fimm ár.

Lýsingin er dæmigerð um afleiðingar stjórnarhátta Jóns Gnarrs og  Samfylkingarinnar. Látið er reka á reiðanum við stjórn meginmála, fréttir berast helst af skipulagsbreytingum í ráðhúsinu sem miða að því að mynda varnarmúr um borgarstjórann.  Skemmtilegheit Jóns Gnarrs verða dýrkeypt þegar upp er staðið. Reikningurinn er áritaður af Degi B. Eggertssyni, varaformanni Samfylkingarinnar, og sendur til skattgreiðenda í Reykjavík.