31.5.2012 23:30

Fimmtudagur 31. 05. 12

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um meðferð alþingis á frumvörpum Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra um fiskveiðigjald og stjórn fiskveiða á vefsíðu sína í dag og segir:

„Mér telst svo til að í umfjöllun sinni um veiðigjaldafrumvarpið og frumvarpið um stjórn fiskveiða hafi atvinnuveganefnd Alþingis haldið 18 fundi; margir þeirra stóðu klukkutímum saman og örugglega engir undir tveimur tímum. Fjöldi þeirra sem sendu nefndinni umsagnir um málin sýnist mér að hafi verið um 80. Sumir sendu inn umsagnir um bæði frumvörpin í einu, aðrir álit um hvort frumvarp fyrir sig. Til nefndarinnar voru svo kvaddir um 70 gestir. Margir þeirra komu um langan veg. Rifu sig upp frá daglegum störfum sínum, lögðu land undir fót, ýmist akandi eða fljúgandi, með ærnum tilkostnaði og kynntu mál sitt með miklum ágætum.“

Nú er komið í ljós að undir stjórn Kristjáns L. Möllers frá Samfylkingu og Björns Vals Gíslasonar frá vinstri-grænum er ekkert gert með skoðanir þeirra sem veittu umsögn. Björn Valur sagði þegar hann rökstuddi afgreiðslu meirihlutans á málunum úr nefnd án þess að tekið væri á álitamálum að nú skyldu sjónarmið viðruð í umræðum í þingsal. Þetta er maðurinn sem sakar þingmenn stjórnarandstöðunnar um málþóf lýsi þeir skoðunum sínum á málum.

Einar Kristinn segir um afgreiðslu þeirra Kristjáns L. og Björns Vals á þessum frumvörpum:

„Ferðirnar suður [á fund atvinnuveganefndar] voru til einskis. Skýrslurnar höfðu verið settar í tætarann. Og rökin sem sett höfðu verið fram af alvöruþunga þess fólks sem við á að búa, höfðu greinilega ekki verið virt viðlits. Breytingartillögurnar voru hvorki fugl né fiskur, nema það sem laut að rekstrarumhverfi smábátaflotans. Þeim málum hefur verið hleypt í uppnám.

Þetta er auðvitað helber dónaskapur og lof„ar ekki góðu um önnur stór mál sem nú er verið að véla um í þinginu og meðal annars á vettvangi atvinnuveganefndar.“

Í ríkisútvarpinu og Fréttablaðinu er alið á því að uppnámið á alþingi sé stjórnarandstöðunni að kenna. Allir sem til þekkja vita að vandræðin eru vegna upplausnar í stjórnarliðinu. Þar koma menn sér ekki saman um neitt en vilja láta líta út eins og þeir séu að knýja fram afgreiðslu mála sem eru hálfköruð.

Rétt er að minna á að þetta gerist undir forystu ríkisstjórnar sem hreykir sér af því að hafa innleitt sérstakt gæðaeftirlit með gerð stjórnarfrumvarpa og afgreiðslu þeirra. Eftirlitið er rekið á ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur sem öskrar á þá sem andmæla henni. Hvernig væri að þingflokkur Samfylkingarinnar tæki sig saman í andlitinu og losaði þing og þjóð undan þessum ófögnuði? Samfylkingin mælist nú minni flokkur en Framsóknarflokkurinn.