Dagbók: desember 1997

Miðvikudagur 31.12.1997 - 31.12.1997 0:00

Klukkan 10.30 var ríkisráðsfundur á Bessastöðum. Þar staðfestir forseti Íslands eða endurstaðfestir ákvarðanir, sem teknar hafa verið af ráðherrum eða Alþingi, en þurfa formlega staðfestingu forseta til að koma til framkvæmda. Þessum ákvörðunum hefur fækkað mikið vegna þess, að skipanir í opinber störf eru nú í höndum ráðherra eða forstöðumanna stofnana en koma ekki lengur til formlegrar undirritunar hjá forseta. Þannig leiða nýju háskólalögin til dæmis til þess, að menntamálaráðherra kemur ekki lengur að því að ráða prófessora eða aðra starfsmenn háskóla, hann skipar aðeins einn starfsmann hvers háskóla, það er rektor hans. Eftir ríkisráðsfundinn buðu forsetahjónin ráðherrum kampavín í glas. Klukkan 14.00 var efnt til hefðbundinnar athafnar á vegum Ríkisútvarpsins, þegar úthlutað er viðurkenningu eða viðurkenningum úr rithöfundasjóði þess.

Þriðjudagur 30.12.1997 - 30.12.1997 0:00

Klukkan 10.30 fór ég í Landsbankann sem formaður Þingvallanefndar í þeim gleðilega tilgangi að taka við einni milljón króna í styrk til merkinga í þjóðgarðinum en áður hafði bankinn styrkt nefndina til að gefa út nýtt göngukort fyrir Þingvelli. Þá fékk Jafningjafræðslan einnig jafnháan styrk frá bankanum, en á vegum hennar er unnið mikið starf gegn fíkniefnum meðal framhaldsskólanema og er hún orðin til fyrir samstarf Félags framhaldsskólanema og menntamálaráðuneytisins. Klukkan 20. 00 var frumsýning á 4 hjörtum í Loftkastalanum, leikriti eftir Ólaf Jóhann Ólafsson.

Mánudagur 29.12.1997 - 29.12.1997 0:00

Klukkan 15.30 var hefbundin athöfn hjá Visa, þegar afhent voru menningarverðlaun fyrirtækisins. Klukkan 20.00 var tilkynnt um íþróttamann ársins við hefðbundna athöfn á Hótel

Fimmtudagur 18.12.1997 - 18.12.1997 0:00

Háskólafrumvörpin samþykkt á Alþingi. Ég efni til fundar í ráðuneytinu með stjórnendum Kennaraháskóla Íslands og verkefnisstjórn vegna sameiningar skólanna og við förum yfir næstu skref. ----- Annars einkennast þessir síðustu dagar þinghaldsins af því hjá ráðherrum og þingmönnum, að þeir reyna að sameina að vera sem mest á Alþingi og sinna jafnframt ýmsu, sem rengist undirbúningi jólanna og má þar meðal annars nefna hefðbundin jólasamkvæmi með vinum og samstarfsmönnum. Boðað er til þingflokksfunda með skömmum fyrirvara og menn sitja og bíða eftir að umræðum ljúki til að geta tekið afstöðu til mála í atkvæðagreiðslum.

Sunnudagur 15.12.1997 - 15.12.1997 0:00

Var á þingfundi fram til klukkan eitt eftir miðnætti í umræðum um háskólafrumvörpin.

Sunnudagur 14.12.1997 - 14.12.1997 0:00

Fór á jólatónleika Kammersveitar Reykjavíkur, þar sem Rut lék einleik og fékk mjög góða dóma fyrir í Morgunblaðinu 16. desember.

Laugardagur 13.12.1997 - 13.12.1997 0:00

Atkvæðagreiðsla um fjárlagafrumvarpið eftir aðra umræðu þess hófst klukkan 14 á Alþingi og stóð í tvær klukkustundir. Klukkan 17.00 fór ég á tónleika Mótettukórsins og Kristjáns Jóhannssonar í Hallgrímskirkju. Síðan á málverkasýningu Sigurbjörns Jónssonar og loks til Sævars Karls, sem var að opna nýja verslun í Bankastræti.

Föstudagur 12.12.1997 - 12.12.1997 0:00

Klukkan 11 var blaðamannafundur vegna samninga um árangursstjórnun. Klukkan 12 ritað undir samning um Viðskiptaháskólann í Reykjavík í Verslunarskóla Íslands. Klukkan 16.00 fundur með Bandalagi íslenskra listamanna.

Fimmtudagur 11.12.1997 - 11.12.1997 0:00

Fór um hádegisbilið til Keflavíkur vegna undirritunar skipulagsskrár um Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Fór síðdegis í heimsókn í Menntaskólann á Laugarvatni, þar sem ég opnaði formlega svonefndan ferðamálavef, sem er samstarfsverkefni skólans og sveitarfélaga í nágrenni hans. Skoðaði skólahúsnæði og heimavist en var síðan boðinn í glæsilegt kaffiboð á heimili skólameistarahjónanna. Vefsíðan er til marks um gagnlegt samstarf skóla og næstu nágranna hans.

Miðvikudagur 10.12.1997 - 10.12.1997 0:00

Efndi klukkan 14 til blaðamannafundar með nefnd um eflingu íþróttastarfs, sem kom til mín hinn 8. desember og skilaði áliti sínu.

Þriðjudagur 9.12.1997 - 9.12.1997 0:00

Fór á forsýningu á nýju James Bond-myndinni og skemmti mér vel eins og ég skýrði frá í símaviðtali við Rás-2 að morgni föstudagsins 12. desember

Sunnudagur 7.12.1997 - 7.12.1997 0:00

Fór um kvöldið á jólatónleika Fílharmóníu í Langholtskirkju

Laugardagur 6.12.1997 - 6.12.1997 0:00

Klukkan 11 sótti ég aðalfund Leiklistarráðs, flutti þar ávarp og svaraði fyrirspurnum.