Miðvikudagur 31.12.1997
Klukkan 10.30 var ríkisráðsfundur á Bessastöðum. Þar staðfestir forseti Íslands eða endurstaðfestir ákvarðanir, sem teknar hafa verið af ráðherrum eða Alþingi, en þurfa formlega staðfestingu forseta til að koma til framkvæmda. Þessum ákvörðunum hefur fækkað mikið vegna þess, að skipanir í opinber störf eru nú í höndum ráðherra eða forstöðumanna stofnana en koma ekki lengur til formlegrar undirritunar hjá forseta. Þannig leiða nýju háskólalögin til dæmis til þess, að menntamálaráðherra kemur ekki lengur að því að ráða prófessora eða aðra starfsmenn háskóla, hann skipar aðeins einn starfsmann hvers háskóla, það er rektor hans. Eftir ríkisráðsfundinn buðu forsetahjónin ráðherrum kampavín í glas. Klukkan 14.00 var efnt til hefðbundinnar athafnar á vegum Ríkisútvarpsins, þegar úthlutað er viðurkenningu eða viðurkenningum úr rithöfundasjóði þess.