Dagbók: nóvember 2011
Miðvikudagur 30. 11. 11.
Enn heldur Jóhanna Sigurðardóttir áfram að grafa undan Jóni Bjarnasyni ráðherra í ríkisstjórn sinni án þess að hafa þrek til annars en láta það í hendur annarra hvort Jón situr áfram í stjórninni eða ekki.
Í kvöld birtist viðtal mitt við Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor á ÍNN um bók hans Íslenskir kommúnistar vandaðasta sagnfræðiritið sem kemur út fyrir þessi jól og ætti með réttu að fá íslensku bókmenntaverðlaunin á svið sagnfræði. Á bakvið bókina liggur gífurleg heimildarvinna og hún varpar einstæðu ljósi á þann þátt stjórnmálasögunnar sem snýr að þeim sem störfuðu á vegum og á kostnað Moskvuvaldsins á Íslandi í tíð Sovétríkjanna.
Við umhugsun um bókina hef ég áttað mig betur en áður á réttmæti ábendingar Eyjólfs Konráðs Jónssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, til mín á sínum tíma þegar ég starfaði á blaðinu og hann sagði: Það á ekki að tala um íslenska kommúnista heldur á að segja kommúnistar á Íslandi, þeir fylgdu aldrei íslenskri stjórnmálastefnu heldur fóru eftir fyrirmælum frá Moskvu. Bók Hannesar sannar réttmæti þessara orða.
Þegar litið er til átakanna meðal vinstri grænna um þessar mundir má sjá að þeir sem halda í gömlu línuna sem nær allt aftur til þess þegar menn þorðu að kalla sig kommúnista standa að sjálfsögðu með Steingrími J. Þar í hópnum eru Álfheiður, dóttir Inga R. Helgasonar, og Svandís, dóttir Svavars Gestssonar, sem voru báðir í innsta hring. Ingi R, var á sínum tíma nefndur gullkistuvörður Alþýðubandalagsins af því að hann tók við fjármunum að utan. Svavar stundaði nám í marxískum fræðum í Austur-Berlín og Svandís var í leikskóla með börnum miðstjórnamanna í austur-þýska kommúnistaflokknum. Þessi tími er ekki lengra frá okkur en svo.
Ólafur Ragnar Grímsson sigraði Steingrím J. í innanflokksátökum í Alþýðubandalaginiu. Það er því ekkert nýtt að sá armur flokksins telji sig eiga harma að hefna gagnvart Ólafi Ragnari. Álfheiður Ingadóttir segir að hún ætli ekki að þiggja boð hans á Bessastaði 1. desember. Það er ekki nóg að hún vilji lítilsvirða hann með fjarveru sinni heldur einnig notar hún heimboðið til að auglýsa fyrirlitningu sína á honum. Bók Hannesar Hólmsteins auðveldar mönnum að skilja þessa heift milli fólks sem áður sat í sama flokki.
Þriðjudagur 29. 11. 11
Nú eru tvær kvikmyndir sýndar hér sem snúast um skuggahliðar stjórnmálanna, Ides of March sem George Clooney leikstýrir auk þess að leika eitt aðalhlutverkanna. Myndin er mögnuð vegna handritsins. Hin er frá BrasilíuTropa de Elite 2. Hún er öðru vísi en ekki síður mögnuð og mest sótta mynd í Brasilíu frá upphafi. Í báðum myndunum felst þjóðfélagsádeila. Í hinni fyrri á stjórnmálamenn og almannatengla en á stjórnmálamenn og lögreglumenn í hinni síðari.
Í dag skrifaði ég pistil um ástandið í ríkisstjórninni. Stjórnarhættir eru komnir langt frá öllu sem eðlilegt er.
Stjórnarhættir í Reykjavíkurborg leiða borgarbúa og börn þeirra inn á einkennilegar brautir ef svo er komið að skólastjórnendur telja ekki heimilt að farið sé með bænina faðir vor þegar þeir fara með börn í kirkju á aðventunni. Fyrirmæli borgarstjórnar um hvað má og hvað má ekki í kirkjum ber að hafa að engu. Kirkjan er griðastaður. Jón Gnarr og félagar eiga ekki að ráða því hvað þar er sagt. Að gefa fyrirmæli af þessu tagi sýnir út í hverjar öfgar menn eru komnir undir merkjum pólitísks rétttrúnaðar.
Öfgaflokkur vantrúarmanna í Póllandi hefur krafist þess að kross sem hangir á vegg þingsalarins í Varsjá verði fjarlægður. Þegar ég las um þetta kom í hugann hvort þess yrði ekki krafist hér að krossinn yrði fjarlægður úr íslenska fánanum.
Tropa de Elite 2
Mánudagur 28. 11. 11
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í morgunútvarpi RÚV í morgun að aðförin að sér innan ríkisstjórnarinnar ætti rætur í andstöðu hans við aðild Ísland að Evrópusambandinu.
Í dag hefur þrýstingur á brottför Jóns úr ríkisstjórninni aukist, hvorki Steingrímur J. Sigfússon flokksformaður né Björn Valur Gíslason þingflokssformaður vilja lýsa yfir stuðningi við Jón. Björn Valur segir að um sé að ræða vandamál innan flokksins og unnið sé að lausn þess.
Á sama tíma og gerð er aðför að Jóni Bjarnasyni sem getur ekki lokið á annan veg en þann að Jón hverfi úr ríkisstjórn ætli Jóhanna Sigurðardóttir að halda andlitinu berast fréttir um að ESB sæki harðar að íslenskum stjórnvöldum en áður. Þau vilja fá hina tímasettu áætlun sem Jón neitaði að senda í september þegar hann boðaði að hann ætlaði til viðræðna við aðila í Brussel til að vita hvað þeir vildu.
Jón hefur ekki farið til Brussel. Jóhanna Sigurðardóttir hefur hins vegar gert það og hitt Herman Van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, og José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Þar lagði hún áherslu á að aðildarviðræðum við ESB yrði flýtt. Það verður ekki gert án þess að til aðlögunar komi. Jón Bjarnason er á móti aðlögunum. Þess vegna vill Jóhanna losna við hann.
Steingrímur J. og Björn Valur vilja þóknast Jóhönnu og ýta Jóni Bjarnasyni til hliðar svo að hann sé ekki þvælast fyrir í ESB-málum og ríkisstjórnin lifi áfram. Þeir vita hins vegar að ekki er unnt að standa að aðför að Jóni vegna ESB vegna kjósenda VG. Þá er valin sú leið að ráðast að honum vegna fiskveiðistjórnunarmála og vinnuskjals sem er í skoðun hjá tveimur ráðherrum. Ómerklileg brögð eru einkenni ómerkilegra manna eins og sannast enn í þessu máli.
Sunnudagur 27. 11. 11
Ríkisstjórnin er komin að fótum fram. Tveir ráðherrar vinstri-grænna láta sér í léttu rúmi liggja hvað Jóhönnu Sigurðardóttur finnst. Það er gert grín að henni á alþjóðavettvangi. Hún er sögð ein af 100 valdamestu konum heims en ráði þó ekki við eigin innanríkisráðherra sem hún segist ósammála um landsölu.
Jóhanna ræðst á Jón Bjarnason. Samfylkingarmenn láta eins og sjávarútvegsmál hafi verið tekin af honum. Kallað er á prófessor í stjórnmálafræði til að spinna um það í fréttatíma RÚV. Jón á síðasta orðið um málaflokkinn í ríkisstjórn á meðan hann er ráðherra. Jóhanna vill losna við hann en ræður ekki við málið. Þá er tekið til við að grafa undan Jóni, meira að segja Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG, gengur í málið. Hann vinnur aldrei nein skítverk nema með samþykki Steingríms J. Sigfússonar.
Samfylkingunni hefur tekist að rústa VG í höndunum á Steingrími J. Hvernig ætlunin er að raða brotunum saman til að stjórnin lifi kemur í ljós. Jóhanna hættir ekki fyrr en þingflokkur Samfylkingarinnar ber hana út úr stjórnarráðinu.
Ég fjalla um þetta og ESB samþykkt landsfundar sjálfstæðismanna í nýjum pistli.
Laugardagur 26. 11. 11
Ég las einhvers staðar um Steve Jobs, undramanninn hjá Apple, að hann hefði síður en svo verið allra. Hann hefði hins vegar haft hinn einstæða hæfileika að framleiða eitthvað sem væri þannig úr garði gert að héldi maður á því segði maður við sjálfan sig; Já, þetta er einmitt það sem mig hefur alltaf vantað.
Mér dettur þetta í hug eftir að hafa kynnst iPad. Það er ótrúlegt undratæki, að minnsta kosti fyrir fréttafíkil. Að geta lesið blöð hvaðanæva úr heiminum á jafneinfaldan hátt og í iPad er með ólíkindum. Vegna þess hve ég skrifa mikið kemur tækið þó ekki í stað tölvunnar hjá mér.
Ég er með tvö netföng, annað nálgast ég í gegnum postur.simnetpro.is Ég átti í erfiðleikum með að tengja iPadinn við það. Fór ég því í Apple-búðina við Laugaveg og leitaði ráða. Þeir sögðu mér að það kynni að vera erfitt að tengjast simnetpro.is, ég skyldi ræða við tæknimenn Símans. Ég leit til þeirra í Ármúlanum og viti menn þar datt pósthólfið í samband og hefur verið tengt síðan.
Föstudagur 25. 11. 11
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra neitaði í dag að veita Huang Nubo, fjárfesti frá Kína, undanþágu til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Hann sagðist ekki hafa lagaheimild til að veita undanþáguna um það séu lögfræðingar ráðuneytis hans sammála. Þeir sem draga þessa lögfræðilegu niðurstöðu í efa geta leitað réttar síns fyrir dómstólum.
Ég tel að niðurstaða lögfræðinganna sé rétt. Lögin ber meðal annars að túlka í ljósi umræðnanna sem urðu á alþingi vegna aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu. Var mjög varað við því að með aðildinni yrði opnað fyrir kaup útlendinga á íslensku landi. Við sem stóðum að samþykkt aðildarinnar lögðum okkur fram um að verja þann málstað að setja eigi kaupum útlendinga á landi sem þrengstar skorður. Var það liður í því að mynda nægan meirihluta meðal þingmanna til stuðnings EES-samningnum.
Ég tek undir þá röksemd innanríkisráðuneytisins að yrði undanþága veitt til að kaupa 300 ferkílómetra land jafngilti það að undanþágureglan yrði í raun úr sögunni.
Eitt er að samfylkingaþingmenn láti öllum illum látum vegna niðurstöðu Ögmundar annað að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tali um ákvörðun ráðherra í ríkisstjórn sinni eins og hún gerir. Hún segir Ögmund hafa valdið sér vonbrigðum og bætir við: „Ég tel það óheppilegt hvað ráðherra hélt þessu máli fyrir sjálfan sig og var búin að tilkynna hana viðkomandi aðila áður en hann kom á ríkisstjórnarfund í morgun og það var auðvitað afar óheppilegt.“
Jóhanna reynir á þennan hátt að skjóta sér undan ábyrgð á ákvörðun Ögmundar, hún ber hins vegar ábyrgð á Ögmundi, hún ritar undir skipunarbréf hans og veitir honum lausn. Annaðhvort stendur hún með ráðherra í ríkisstjórn sinni eða veitir honum lausn. Hér eins og svo oft áður ætlar Jóhanna að leika tveimur skjöldum. Hún hefur ekki burði til að reka Ögmund án þess að falla sjálf.
Fyrir Kínverjum vakir ekki aðeins að kaupa land heldur einnig að skapa sér aðstöðu til pólitískra áhrifa. Þeim hefur svo sannarlega tekist það þótt landið falli ekki í kínverskar hendur.
Fimmtudagur 24. 11. 11
Í dag varð lántökukostnaður breska ríkisins lægri en hins þýska í fyrsta sinn í þrjú ár. Í gær gerðist það í fyrsta sinn síðan evran kom til sögunnar að þýska ríkið gat ekki selt öll skuldabréf sín í útboði.
Bresk blöð telja þetta til marks um að evran sé á hraðferð á öskuhaug sögunnar. Bandaríkjamenn fari með fé sitt af evru-svæðinu. Breskir bankar láni bara öruggustu viðskiptavinum sínum.
Hér á landi er utanríkisráðherra þeirrar skoðunar að evran verði betri eftir gjöreyðinguna. Þess vegna sé best að hraða sér inn á evru-svæðið. Stjórnmálamenn eru gagnrýndir fyrir að sjá ekki bankahrunið 2008 fyrir. Nú stjórna hér menn sem sjá ekki hrun evrunnar og vilja ólmir komast í rústirnar.
Miðvikudagur 23. 11. 11
Ég verð ekki var við að nokkurs staðar sé fjallað um þessar sviptingar að neinu gagni í íslenskum fjölmiðlum utan Evrópuvaktarinnar. ESB-fréttir hér eru um að Össur telji evurna munu hafa betur í dauðastríðinu, enginn spyr hann hvort íhlutunin í fjárlagafullveldið breyti engu um afstöðu hans.
Steingrímur J. fjármálaráðherra þegir þunnu hljóði hann lætur ekki aðeins leiða ESB-stefnu sína til slátrunar í samstarfinu við Samfylkinguna heldur einnig fjármálaráðuneytið. Nái áform framkvæmdastjórnar ESB fram að ganga yrði íslenski fjárlagaramminn ákveðinn í Brussel.
Svo er hingað kominn ráðherra Evrópumála frá Írlandi til að telja okkur trú um ágæti ESB og minna okkur á hve mikils við förum á mis við að vera ekki í sambandinu. Hvers vegna í ósköpunum átta ráðherrar annarra ríkja ekki sig á því að það fer þeim ákaflega illa að blanda sér í viðkvæm innanríkismál ríkja sem ekki eru í ESB-klúbbnum? Það er mikill munur á því að tala við þjóðir í klúbbnum og þær sem standa utan hans. Þetta blessað fólk kemur hingað líklega í góðri trú um að það sé að gera einhverjum greiða af því að Össur og félagar hafa grátbeðið það um aðstoð.
Þriðjudagur 22. 11. 11
Hinn 12. desember 1989 skrifaði ég umsögn í Morgunblaðið um bókina Útgangan eftir Úlfar Þormóðsson. Hún fjallar um uppgjör innan Alþýðubandalagsins á þeim tíma. Ég sagði:
„Því miður hafa menn innan flokksins ekki haft þrek til að ganga á hólm við lygina sem haldið hefur verið á loft í nafni hans og forvera hans Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins og Kommúnistaflokks Íslands, sem var stofnaður 1930. Bókin Útgangan - bréf til vinar er samkvæmt kynningu á bókarkápu „uppgjör höfundarins við ákveðna menn og málefni á Íslandi“.
Ég viðurkenndi að fyrir mig væri stór hluti bókarinnar á dulmáli. Velti ég fyrir mér hvort bókin væri „ein samfelld árás“ á Ólaf Ragnar Grímsson, þáverandi formann flokksins. Enginn vafi væri á einarðri andstöðu Úlfars við hann. Taldi hann flokksformanninn hafa eyðilagt Þjóðviljann, þar sem Úlfar var um tíma formaður útgáfustjórnar. Undir lok umsagnarinnar sagði ég:
„Úlfar er í þeirri fylkingu Alþýðubandalagsins sem óttast uppgjör við fortíð flokksins og umræður um hana. Honum er því þóknanlegt að umræður innan Alþýðubandalagsins snúist um annað en lygina sem flokkurinn og forverar hans hafa tekið að sér að verja í íslenskri stjórnmálabaráttu. Úlfar og félagar hans fara undan í flæmingi nú orðið, þegar rætt er um hugsjónalegan grundvöll stjórnmálaskoðana þeirra.“
Mér kom þetta í hug þegar ég las reiðiskrif Úlfars á vefsíðu hans vegna þess sem ég sagði hér á síðunni í gær þegar ég velti fyrir mér hvort kommúnistar á Íslandi hefðu fengið fé með því að skrifa of háa reikninga fyrir að prenta Fréttir frá Sovétríkjunum. Úlfar hefði átt að vita það sem formaður útgáfustjórnar Þjóðviljans. Hann vill hins vegar ekki ræða málið málefnalega heldur kastar skít í okkur Hannes Hólmstein Gissurarson sem greinilega hefur snert auman blett á Úlfari með bók sinni um kommúnista á Íslandi.
Mánudagur 21. 11. 11
Nýlega gaf Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor út bók um íslenska kommúnista sem sýnir að þeim var fjarstýrt frá Moskvu og þáðu þaðan fé. Miklar umræður eru nú um fjárgjafir frá Moskvu til danska kommúnistaflokksins, DKP. Engum blöðum er um það að fletta að flokkurinn naut fjár frá sovéska kommúnistaflokknum fram að hruni Sovétríkjanna árið 1991.
Danskir kommúnistar ráku prentsmiðju. Þar prentuðu þeir eigið blað Land og Folk auk þess að sinna prentverki fyrir aðra þar á meðal sovésk stjórnvöld, til dæmis við blaðið Fakta om Sovjetunionen. Var innheimt ofurverð fyrir þá prentun og var féð sem þannig var aflað notað til að standa undir kostnaði við starfsemi DKP. Um þetta er ekki deilt í Danmörku. Þar hafa menn komið fram sem staðfesta þessa tilhögun.
Í DR2, danska sjónvarpinu, var í kvöld rætt við Ole Sohn, núverandi atvinnumálaráðherra í dönsku vinstri stjórninni. Því er haldið fram að hann segi ekki satt eða kjósi að þegja um mikilvæga hluti. Hvort honum hefur tekist að ýta frá sér í kvöld kemur í ljós. Hann á að hættu að missa ráðherrembættið takist honum það ekki.
Málið hefur magnast stig af stigi og er rætt af mikilli alvöru. Hér á landi gáfu Sovétmenn út Fréttir frá Sovétríkjunum. Miðað við hve margt er líkt með starfsemi kommúnista í Danmörku og á Íslandi er líklegt að héðan hafi verið sendir ofurháir reikningar til Moskvu fyrir prentunina á Fréttum frá Sovétríkjunum.
Sunnudagur 20. 11. 11
Landsfundi okkar sjálfstæðismanna lauk í dag. Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður og Ólöf Nordal varaformaður. Fundurinn samþykkti tillögu okkar Friðriks Sophussonar um að hlé skuli gert á ESB-viðræðunum og ekki farið af stað aftur án þjóðaratkvæðagreiðslu.
Hanna Birna Kristjánsdóttir má mjög vel við una að hljóta 44% atkvæða í formannskjöri. Hún talaði sig inn í hug og hjörtu landsfundarfulltrúa og sýndi mikinn pólitískan styrk.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Egill Helgason, spunaliði Samfylkingarinnar á Eyjunni og í RÚV, telja sig hafa fundið snöggan blett á Sjálfstæðisflokknum vegna þess að við Friðrik létum að okkur kveða í ESB-málum. Látið er eins og fyrrverandi stjórnmálamenn hafi einhver óeðlileg áhrif á landsfundinum. Þegar litið er til fundarins eru engir sem hann sitja fyrrverandi stjórnmálamenn, allir eru þar virkir þátttakendur. Þótt athygli hafi beinst að ESB-málum er alrangt að líta þannig á að þau skipti mestu máli um það sem á landsfundinum gerðist.
Þetta nöldur þeirra Össurar og Egils dregur aðeins athygli að því að í Sjálfstæðisflokknum taka allir virkan þátt í flokksstarfinu á landsfundi en innan Samfylkingarinnar er æðsta stjórn í höndum Jóhönnu Sigurðardóttur sem er til dæmis eldri en ég og hefur setið mun lengur á alþingi en ég gerði. Við Friðrik erum ef til vill gerðir að skotspæni af þeim samfylkingarfélögunum til að draga athygli frá hinum gamla formanni Samfylkingarinnar - eða kannski er bara verið að beina spjótum gegn Jóhönnu með því að veitast að okkur.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, gaf skyndiálit á samþykkt landsfundarins um ESB-mál. Þetta álit stenst ekki gagnrýni eins og ég rökstyð hér.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, kemst að þeirri niðurstöðu á vefsíðu sinni að einhver „harðlínuöfl“ hafi orðið ofan á innan Sjálfstæðisflokksins í ESB málum. Þetta sýnir að þingamaðurinn vill ekki hafa það sem sannara reynist. Róttækustu tillögur í ESB-málum náðu ekki fram að ganga á landsfundinum. Hitt er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði ESB-stefnu Samfylkingarinnar.
Laugardagur 19. 11. 11
Viðtalsþáttur minn á ÍNN með Ásdísi Höllu Bragadóttur er kominn á netið eins og hér má sjá.
Landsfundi sjálfstæðismanna var framhaldið í morgun og sótti ég fund í utanríkismálanefnd hans klukkan 09.30 þar sem lögð var lokahönd á tillögu um afstöðu til Evrópusambandsins og að lokum var samþykkt tillaga sem við Friðrik Sophusson fluttum um að hlé yrði gert á aðildarviðræðunum og ekki gengið þeirra að nýju fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvort hún verður samþykkt á fundinum á morgun kemur í ljós.
Eftir hádegi hlustuðum við á stórræður Davíðs Oddssonar, Geirs H. Haarde, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal.
Nýliðinn við að flytja slíka stórræðu á landsfundi, Hanna Birna Kristjánsdóttir, stóðst eldraunina með mikilli prýði.
Föstudagur 18. 11. 11
Ég sat landsfund sjálfstæðismanna í allan dag í Laugardalshöll. Fyrir hádegi sátu formaður, varaformaður og formaður þingflokks fyrir svörum. Umræðurnar risu ekki hátt. Eftir hádegi var rætt um skipulagsbreytingar á flokknum og síðan hófust fundir nefnda um málefni.
Það er beinlínis súrrealiskt að hlusta á fólk tala um ESB-aðildina eins og það sé upp á líf og dauða fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sjá til þess að aðildarviðræðurnar deyi ekki af hans völdum þegar þær eru í raun komnar á sker vegna þess hve illa er að þeim staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar og vegna upplausnar innan ESB.
Því er meira að segja haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn muni gjalda þess í komandi þingkosningum og útiloka sig frá stjórnarmyndun að þeim loknum bendi hann á þá staðreynd að ekki sé unnt að halda áfram viðræðum við ESB innan rammans sem Össur hefur markað og þess vegna sé eðililegt að ljúka þessu ferli og huga að málinu að nýju.
Gunnar Gunnarsson, einn stjórnenda Spegilsins, ræddi við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing um formannskjörið á RÚV í kvöld. Gunnar gat ekki hamið andúð sína á Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni í spurningum sínum og innskotum. Fyrir þá sem hlusta á fréttaþætti og fréttaskýringaþætti í erlendum fjölmiðlum er með ósköpum að sitja undir hinum grímulausa áróðri sem birtist í þáttum RÚV. Víðsjá í gær lauk til dæmis með því að stjórnandinn kynnti hlustendum daglegan fundartíma í tjaldbúðum á Austurvelli.
Fimmtudagur 17. 11. 11
Einn þeirra leitarmanna sem stóð að því að smala í eftirleit í Fljótshlíðinni hringdi í mig í morgun og sagði mér að óhjákvæmilegt hafi verið að fella Fjalladrottninguna mína af því að hún hefði hrapað í björgum og verið svo lemstruð að eina ráðið hafi verið að skjóta hana.
Fjölmenni var við jarðarför Matthíasar Á Mathiesens í Hafnarfarðarkirkju í dag þar sem séra Þórhallur Heimisson jarðsöng.
Laugardalshöllin var þéttsetinn klukkan 16.30 þegar 40. landsfundur Sjálfstæðisflokksins var settur. Bjarni Benediktsson setti fundinn með ræðu og var máli hans oft fagnað með lófataki. Umbúnaðurinn var annar en á sumarfundinum árið 2010 þegar ræðustóllinn hafði ekki verið fluttur úr Valhöll. Hann stóð nú voldugur á senunni svo að nú verður ekki rifist vegna fjarveru hans. Þá var umgjörðin eins þjóðleg og unnt var að hugsa sér. Augljóst er að skipuleggjendur fundarins hafa tekið mið af gagnrýni á umbúnað 39. landsfundarins.
Miðvikudagur 16. 11. 11
Í dag ræddi ég við Ásdísi Höllu Bragadóttur, stjórnarformann Sinnum, í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má sjá á tveggja tíma fresti þar til klukkan 18.00 á morgun, næst klukkan 22.00 í kvöld. Það hefur ekki farið mikið fyrir Sinnum í auglýsingum eða almennt í umræðum. Fyrirtækið hefur hins vegar vaxið og dafnað vel á skömmum tíma.
Hinn afkastamikli og fjölhæfi blaðamaður á Morgunblaðinu. Árni Matthíasson, hefur gluggað í bók Hannesar Hólmsteins um íslenska kommúnista og segir í blaðinu í morgun:
„Líkindi með trúarbrögðum og stjórnmálum má líka sjá nær okkur í tíma: Þegar íslenskir námsmenn héldu austur yfir járntjald til náms á sjöunda áratugnum fengu þeir margir áfall við að sjá hvernig lífið gekk fyrir sig þar, hve almenningur hafði það skítt, menningin var fátækleg og kúgunin yfirþyrmandi. Þeir voru þó ekki lengi að því að finna skýringuna, blessaðir sakleysingjarnir; beittu heiðarlegum, varfærnislegum og vísindalegum vinnubrögðum heilsteyptra sósíalista, eins og Árni Björnsson lýsti því í Þjóðviljanum í ágúst 1983, og komust að þeirri niðurstöðu að það sem hrjáði alþýðulýðveldin væri ekki kommúnismi, heldur að það væri ekki nógu mikill kommúnismi stundaður þar, kenningin væri ekki nógu hrein, eins og segir í Passíusálmunum: »...þín kenning klár / kröftug sé, hrein og opinskár“.“
Þegar ég las þetta datt mér í hug umræðan um evruna og vandann á evru-svæðinu. Hinir trúuðu segja að vandinn sé ekki evrunni að kenna heldur að það sé ekki nógu mikið yfirþjóðlegt vald á evru-svæðinu, það þurfi ekki minna heldur meira ESB, þjóðirnar fylgi ekki nægilega mikilli og samhæfðri aðhaldsstefnu ríkisfjármálum. Kenningin er ekki nógu hrein í þágu evrunnar. Takist að hreinsa hana sé björninn unninn. Sagan endurtekur sig er oft sagt, vonandi gerir hún ekki á sama hátt í þágu evrunnar og kommúnismans það er með einræði, kúgun, handtökum og aftökum.
Þriðjudagur 15. 11. 11
Það var eins og að aka á sumardegi úr Fljótshlíðinni í dag nema birtan var minni. Hinn tvíbreiði vegur úr Lækjarbotnum upp á Hellisheiði léttir umferðina. Nú hlýtur næsta skrefið að felast í vegabótum milli Hveragerðis og Selfoss. Við það gjörbreytast samgöngur austur fyrir fjall.
Lesandi síðu minnar spurði mig með tölvubréfi hvers vegna Fjalladrottning mín hafi verið skotin á færi af leitarmönnum. Ég hef ekkert svar við því enda hafa þeir ekki gefið mér neinar skýringar.
Mánudagur 14. 11. 11
Við skruppum austur í Fljótshlíð. Hér er sumarhiti í vetrarmyrkrinu.
Mér bárust þær fréttir eftir að ég kom hingað að fyrir tveimur vikum eða svo hafi leitarmenn fundið Fjalladrottninguna mína í fjallendi fyrir innan Hlíðina. Hún var með tveimur lömbum sem hún bar í kringum 17. júní. Hún kom ekki til byggða fyrr en um þorrablót á þessu ári. Í fyrra gekk hún fram eftir Hlíðinni í sumarbyrjun vegna öskunnar frá Eyjafjallajökli. Að þessu sinni lét hún leitarmenn ekki ná sér frekar en áður og hljóp upp brattann og leitaði skjóls á bjargsyllu. Þeir vopnuðust og skutu hana á færi. Lömbin fengu að lifa.
Sunnudagur 13. 11. 11
Að lokinni messu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði héldum við Gunnar Eyjólfsson í Grafarvogskirkju þar sem efnt var til Dags orðsins. Að þessu sinni var dagskráin helguð Matthíasi Johannessen. Ástráður Eysteinsson prófessor og sr. Gunnar Kristjánsson prófastur fluttu erindi um ljóð Matthíasar en Gunnar Eyjólfsson las ljóðabálkinn Hrunadansinn eftir Matthías. Sjálfur flutti Matthías hugvekju í messunni sem fylgdi á eftir erindunum og ljóðalestrinum.
Nú hafa tveir teknókratar, fyrrverandi innanbúðarmenn í valdakerfi ESB, tekið við embætti forsætisráðherra í Grikklandi annars vegar og á Ítalíu hins vegar. Út því að ekki hefur tekist að tryggja embættismannavaldi ESB heimild til að hlutast til um innri efnahag og ríkisfjármál einstakra ríkja beitir ESB sér fyrir stjórnarskiptum í erfiðleikalöndum og sér til þess að gamlir ESB-emættismenn setjist þar við völd.
Illa ígrunduð yfirlýsing George Papandreous, fyrrverandi forsætisráðherra Grikkja, um þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna hefur aukið á þrýsting af hálfu framkvæmdastjórnar ESB um að haft sé auga með stjórnarherrum einstakra landa og þeim komið frá sem ESB-valdið telur að valdi sér vandræðum.
Laugardagur 12. 11. 11
Fórum í kvöld í Hörpu og sáum Töfraflautuna hjá Íslensku óperunni. Glæsileg sýning og skemmtileg í þéttsetnum sal sem fagnaði flytjendum vel og innilega.
Furðulegt er að sjá afskipti og áhyggjur bloggara Samfylkingarinnar af landsfundi Sjálfstæðisflokksins og því hvort frambjóðendur til formennsku í flokknum svari fyrirspurnum frá Kolbeini Óttarssyni Proppé (KÓP) á Fréttablaðinu eða ekki. Hann hefur sagt slíkar furðufréttir á forsíðu blaðsins meðal annars til stuðnings sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar að vel er skiljanlegt að stjórnmálamenn úr Sjálfstæðisflokknum vilji ekki svara spurningum hans.
Spyrja má: Hvað kemur Merði Árnasyni við hvaða skoðanir menn í Sjálfstæðisflokknum hafa á mönnum og málefnum? Hvers vegna skyldi hann ekki hafa beitt sér gegn því að Jóhanna yrði sjálfkjörin formaður Samfylkingarinnar? Kannski vegna þess að hann er svona heillaður af skoðunum hennar?
Egill Helgason, álitsgjafi á samfylkingarsíðunni Eyjunni og umræðustjóri RÚV, hefur ruglað svo mikið um formannskjör á landsfundi sjálfstæðismanna undanfarna mánuði að hann á fullt í fangi með að skrifa sig frá eigin skáldskap. Það skiptir Egil engu hvaða skoðanir Sjálfstæðisflokkurinn hefur, hann býr alltaf til einhvern flöt til að finna að þeim.
Föstudagur 11. 11. 11
Undarlegt er að stjórn Samtaka atvinnulífsins taki allt í einu upp á því þegar allt er á hverfanda hveli innan Evrópusambandsins og evran í uppnámi að álykta um ESB-aðildarviðræður eins og ekkert sé sjálfsagðara en þær haldi áfram. Hvað hefst með því að storka heilbrigðri skynsemi? Frásögn af stjórnarfundinum minnir helst á lýsingu á herráði sem kemur saman þegar stríð er tapað og ályktar að barist skuli til síðasta manns.
Fimmtudagur 10. 11. 11
Nú er ferð mín á vegum Evrópuvaktarinnar fyrir styrk frá alþingi til Brussel, Berlín og Frankfurt á enda.
Þetta hafa verið fróðlegar vikur. Þær leiða mér heim sanninn um að af hálfu ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar í ESB-málinu er ekki lögð hin minnsta áhersla á að segja þjóðinn alla söguna um aðildarviðræðurnar og því síður um það sem er að gerast innan ESB.
Að sjálfsögðu skiptir framtið ESB og evru-svæðisins mestu máli en ekki hitt hvort unnt sé að hengja hatt sinn á að alþingi hafi samþykkt umsókn og leiða verði viðræður vegna hennar til lykta hvað sem það kostar.
Það er af og frá að innan ESB sé sú skoðun ríkjandi að brýnt sé að ljúka viðræðum við Íslendinga. Raunar held ég að fleiri telji eðlilegt að gera hlé á þeim eða jafnvel hætta þeim en halda þeim áfram við núverandi aðstæður. Það sanni aðeins að íslenskir ráðamenn viti ekkert um ESB að þeir skuli hamra á því að flýta viðræðunum.
Miðvikudagur 09. 11. 11
Við höfðum gaman að því að skoða sýningar Gabríelu Friðríksdóttur og Errós í safni í hjarta elsta hverfis borgarinnar í skjóli dómkirkjunnar þar sem keisarar voru krýndir. Okkur kom þó á óvart að sjá búnaðinn um handritin hjá Gabríelu. Við erum vön því að sjá þau sýnd á annan hátt. Sýningarnar eru hér í tengslum við að Íslendingar voru heiðursgestir á bókamessunni í Frankfurt fyrir mánuði.
Í Berlín átti ég þess kost að hitta fólk í þýska utanríkisráðuneytinu sem fylgdist með bókamessunni vegna þess að ráðuneytið leggur fé til hennar. Lét það mjög vel af hlut Íslands og vitnaði til þess að stjórnendur sýningarinnar hefðu getið þess að þátttaka Íslands jafnaðist á við hið besta sem menn hefðu kynnst í áranna rás.
Ég skrifaði pistil um kynningaráform ESB á Íslandi.
Þriðjudagur 08. 11. 11
Þegar ég les frásagnir af ummælum Össurar Skarphéðinssonar um evruna og viðræðum Jóhönnu Sigurðardóttur við erlenda ráðamenn, nú í Brussel, velti ég fyrir mér hvort Jóhanna og Össur telji virkilega að þau séu að leiða Ísland inn í gerviheiminn sem þau lýsa. Eitt er víst: ESB- og evru-heimurinn er allur annar en birtist í fagnaðarlátunum sem spunaliðarnir segja að alltaf verði þegar þau birtast einhvers staðar á erlendri grundu.
Nú hefur ESB og fjármálamörkuðum tekist að ýta Silvio Berlusconi til hliðar. Hvað halda menn að ESB mundi þola Jóhönnu lengi sem forsætisráðherra ef Ísland væri í ESB? Eða Össur sem utanríkisráðherra?
Mánudagur 07. 11. 11
Ég skrifaði sjötta pistil minn frá Berlín í dag og má lesa hann hér.
Af því tilefni fékk ég bréf frá dyggum lesanda síðu minnar sem sagði:
„Þessi viðmælandi þinn í dag, þingmaður í Bundestag, sem var andvígur aðild Íslands að ESB, hvaða rök færði hann fyrir máli sínu ? Fróðlegt væri að vita, hvað viðmælendur þínir sjá helzt í vegi aðildar Íslands. Eru það sömu rök og við höfum teflt fram, eða eru það einhver önnur rök ?
Nú eru einu rök aðildarsinna, að þjóðin verði að fá að tjá sig um samning til að fá málið út af borðinu. Þetta er rökleysa hins fávísa manns, sem langar mikið inn í ESB, en skortir dómgreind til að leggja mat á upplýsingar, sem liggja á borðinu.“
Ég svaraði:
„Þingmaðurinn skilur einfaldlega ekki að nokkrum detti í hug að ætla inn í ESB núna þegar allt er þar á hverfanda hveli. Þeir sem eru innan ESB vita ekki hver framvindan verður, hvers vegna skyldi þjóð eins og Íslendingum þykja kappsmál að tengjast þessu öngþveiti. [...]
Eitt er að sjá rök í vegi fyrir – annað er að sjá rök með, menn átta sig ekki á því hvaða rök knýja á um aðildarumsóknina. Þeir skilja þau ekki miðað við stöðu Íslands og tengsl við ESB. Í Berlín segja menn: Þið fáið málið út af borðinu með því að ákveða það sjálfir hvernig sem þið gerið það. Enginn bað ykkur um umsókn, þið ákváðuð hana sjálfir. Þið ráðið líka hvernig ferlinu lýkur.“
Sunnudagur 06. 11. 11
Áður en ég hélt í ferð mína til Brussel og Berlínar tók ég viðtal á ÍNN við Halldór Björn Runólfsson, forstöðumann Listasafns Íslands, um nýja listasögu Íslands og má sjá viðtalið hér.
Mér er ljúft að draga til baka efasemdir mínar um ágæti almenningssamganga í Berlín. Þær byggðust á hreinni vanþekkingu. Kerfið er til mikillar fyrirmyndar eins og ég hef sannreynt á einni viku.
Í gærkvöldi sáum við óperu eftir Dvorak sem heitir Rusalka og er sýnd í Komische Oper. Var það góð skemmtun þótt efast megi um gildi þess að færa verk af þessu tagi í nútímabúning.
Laugardagur 05. 11. 11
Í morgun birti Þorsteinn Pálsson, fulltrúi í ESB-viðræðunefnd Össurar Skarphéðinssonar, grein í Fréttablaðinu og sagði andstæðinga ESB-aðildar jafnframt að snúast gegn NATO.
Í fréttum RÚV í kvöld var rætt við Benedikt Jóhannesson formann sjálfstæðismanna sem vilja að Ísland gerist aðili að ESB. Benedikt sagði meðal annars:
„En það er ekki þar með sagt að það séu allir asnar sem eru á móti Evrópusambandinu. Menn eiga bara hins vegar að afgreiða þetta með rökum en ekki því að þeir séu á móti því bara vegna þess að Samfylkingin sé með því.“
Erfitt er að gera upp á milli þess hvor er ómálefnalegri Þorsteinn eða Benedikt. Hvers vegna færa þeir ekki rök fyrir málstað sínum í stað þess að hnýta í aðra?
Undanfarnar vikur hef ég kynnt mér afstöðu manna í Brussel og Berlín til aðildarumsóknar Íslands. Þegar spurt er hvað hafi orðið til þess að Íslendingar sóttu um bendi ég á tvennt: kröfu Samfylkingarinnar og þrána eftir að komast inn á evru-svæðið.
Stuðningur eins flokks og sundrunarafla í öðrum flokkum skapar ekki nægan pólitískan bakhjarl í nokkru landi til ESB-aðildar. Af þeim sökum hafa menn ekki mikla trú á því að Ísland gangi í ESB. Hafi þrá eftir evrunni ráðið för er það almennt viðhorf að þá hljóti menn nú að staldra við og hugsa sinn gang.
Ef til vill þarf ekki að koma á óvart að Þorsteinn og Benedikt færi ekki rök fyrir ESB-aðildinni? Þau finnast einfaldlega ekki.
Föstudagur 04. 11. 11
Við höfum verið ótrúlega heppin með veður þá viku sem við höfum dvalist í borginni. Ekki hefur rignt dropa, sól skinið hvern dag og hiti verið milli 12 og 15 gráður. Mannlífið á götunum er mikið. Víða má sjá jólaskraut og unnt er að fá sér glühvein ef svo ber undir.
Fimmtudagur 03. 11. 11
Ég sé að Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Það kemur mér ekki á óvart. Megi kosningabaráttan verða flokknum og góðum málstað til framdráttar. Fjölmiðlar senda mér spurningar um afstöðu mína til frambjóðenda. Hana mun ég láta í ljós með atkvæði mínu á landsfundinum.
Ég sé á blogginu að Illugi Jökulsson lýsir óánægju með orð Hönnu Birnu í útvarpsviðtali. Hverjum kemur það á óvart? Ekki mér. Ég kynnti mér málflutning Illuga í Baugsmálinu. Hann vildi sýkna þá sem hlutu dóm. Ég treysti ekki dómgreind hans.