20.11.2011

Sunnudagur 20. 11. 11

Landsfundi okkar sjálfstæðismanna lauk í dag. Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður og Ólöf Nordal varaformaður. Fundurinn samþykkti tillögu okkar Friðriks Sophussonar um að hlé skuli gert á ESB-viðræðunum og ekki farið af stað aftur án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir má mjög vel við una að hljóta 44% atkvæða í formannskjöri. Hún talaði sig inn í hug og hjörtu landsfundarfulltrúa og sýndi mikinn pólitískan styrk.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Egill Helgason, spunaliði Samfylkingarinnar á Eyjunni og í RÚV, telja sig hafa fundið snöggan blett á Sjálfstæðisflokknum vegna þess að við Friðrik létum að okkur kveða í ESB-málum. Látið er eins og fyrrverandi stjórnmálamenn hafi einhver óeðlileg áhrif á landsfundinum. Þegar litið er til fundarins eru engir sem hann sitja fyrrverandi stjórnmálamenn, allir eru þar virkir þátttakendur. Þótt athygli hafi beinst að ESB-málum er alrangt að líta þannig á að þau skipti mestu máli um það sem á landsfundinum gerðist.

Þetta nöldur þeirra Össurar og Egils dregur aðeins athygli að því að í Sjálfstæðisflokknum taka allir virkan þátt í flokksstarfinu á landsfundi en innan Samfylkingarinnar er æðsta stjórn í höndum Jóhönnu Sigurðardóttur sem er til dæmis eldri en ég og hefur setið mun lengur á alþingi en ég gerði. Við Friðrik erum ef til vill gerðir að skotspæni af þeim samfylkingarfélögunum til að draga athygli frá hinum gamla formanni Samfylkingarinnar - eða kannski er bara verið að beina spjótum gegn Jóhönnu með því að veitast að okkur.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, gaf skyndiálit á samþykkt landsfundarins um ESB-mál. Þetta álit stenst ekki gagnrýni eins og ég rökstyð hér.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, kemst að þeirri niðurstöðu á vefsíðu sinni að einhver „harðlínuöfl“ hafi orðið ofan á innan Sjálfstæðisflokksins í ESB málum. Þetta sýnir að þingamaðurinn vill ekki hafa það sem sannara reynist. Róttækustu tillögur í ESB-málum náðu ekki fram að ganga á landsfundinum. Hitt er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði ESB-stefnu Samfylkingarinnar.