Dagbók: október 1996
Fimmtudagur 25.10.1996
Fimmtudaginn 24. október fór ég í heimsókn í Verslunarskóla Íslands. Ræddi við skólastjóra, fulltrúa skólanefndar og Verslunarráðsins, skoðaði skólann og ávarpaði nemendur á Marmara og síðan kennara í kaffistofu þeirra. Er ekki vafi á því, að þessi skóli, sem er eini einkaskólinn af 37 framhaldsskólum, stendur ákaflega vel að vígi. Lét ég í ljós áhuga á því að taka með einum eða öðrum hætti þátt í því, að unnt yrði að koma Verslunarháskóla á fót, en lóð undir hann bíður við hlið Verslunarskólans í Kringlunni. Síðdegis fimmtudaginn 24. október var ég síðan við upphaf Kvikmyndahátíðar í Reykjavík og sá myndina Brimbrot eftir Lars von Trier. Tek ég undir með þeim, sem telja hana í hópi merkari mynda.
Miðvikudagur 23.10.1996
Miðvikudaginn 23. október var efnt til fundar í Borgartúni 6 og bundinn endi á tæplega tíu ára starf við skipulag á Grímsnes- Grafnings- og Þingvallahreppum. Tók ég þátt í þeirri athöfn sem formaður Þingvallanefndar og ritaði undir skipulagsuppdráttinn.
Þriðjudagur 22.10.1996
Þriðjudaginn 22. október vorum við Rut viðstödd, þegar bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness voru afhent í fyrsta sinn. Flutti Skúli Björn Gunnarsson verðlaunaþegi skemmtilega ræðu, þegar hann þakkaði heiðurinn.
Laugardagur 19.10.1996
Laugardaginn 19. október tók ég klukkan 13 þátt í upphafi ráðstefnu á vegum útvarpsréttanefndar um ofbeldi á ljósvakanum. Flutti ég þar ræðu. Klukkan 18.00 þennan sama laugardag flutti ég ávarp við upphaf sýningar á verkum úr listaverkagjöf Ásgríms Jónssonar í Listasafni Íslands. Að kvöldi þessa sama dags fórum við á frumsýningu á leikritinu Svaninum á vegum Annars sviðs og Leikfélags Reykjavíkur á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu.
Mánudagur 14.10.1996
Mánudaginn 14. október milli 17 - 19 var ég í húsakynnum sjálfstæðismanna í Grafarvogi og ræddi við þá, sem þangað komu og vildu hitta mig. Var það skemmtileg stund.
Föstudagur 11.10.1996
Föstudagskvöldið 11. október fórum við í leikhús í Hafnarfirði og sáum Birting eftir Voltaire á mjög skemmtilegri sýningu.
Þriðjudagur 8.10.1996
Þriðjudaginn 8. október var 1. umræða fjárlaga og stóð hún frá hádegi fram yfir miðnætti. Nokkuð mæddi á mér vegna gagnrýni á framlög til menntamála. Er þó meira gert úr þeim sparnaði en efni standa til. Fyrr þennan sama dag tók ég þátt í fundi með skólameisturum framhaldsskóla af landinu öllu og ræddi við þá um þessi mál. Hinn 8. október síðdegis efndum við Rut til móttöku í Ráherrabústaðnum fyrir stjórn og verðlaunahafa Móðurmálssjóðs, ritstjóra og fréttastjóra, í tilefni af því, að 150 ár voru þann dag liðin frá fæðingu Björns Jónssonar, ritstjóra og ráðherra, enn Móðurmálssjóðurinn var stofnaður í minningu hans. Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV, fékk verðlaun úr sjóðnum að þessu sinni.
Sunnudagur 6.10.1996
Sunnudaginn 6. október flutti ég ávarp á 50 ára afmæli Fósturskóla Íslands og eftir það brugðum við Rut okkur á sex listsýningar í Reykjavík og Kópavogi
Laugardagur 5.10.1996
Laugardaginn 5. október skaust ég af menntaþingi út í Melaskóla og flutti ávarp á 50 ára afmælishátíð skólans.
Föstudagur 4.10.1996
Föstudaginn 4. október klukkan 16 var ég við upphaf Prentmessu í Laugardalshöll og flutti þar ávarp. Er ótrúlegt að fylgjast með tækniframförunum á þessu sviði.
Fimmtudagur 3.10.1996
Fimmtudagskvöldið 3. október fór ég á frumsýningu Djöflaeyjunnar mér til góðrar skemmtunar.
Þriðjudagur 1.10.1996
Strax eftir þingsetningu 1. október fór ég í 70 ára afmæli Ísaksskóla, þar sem afhjúpað var fallegt glerlistaverk eftir Leif Breiðfjörð.