Dagbók: 2005

Laugardagur, 31. 12. 05. - 31.12.2005 16:23

Ríkisráðsfundur var haldinn að Bessastöðum klukkan 10.30 eins og venja er á gamlársdegi.

Ég renndi yfir áramótagreinar flokksformannanna í Morgunblaðinu og staldraði við hinn neikvæða nöldurtón í grein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Hvað þýða þessi orð: „Evrópusambandið er bannorð“? Eða þessi setning: „..íslensk stjórnvöld láti af andúð sinni í garð Evrópusambandsins“? Eða þetta: „Þeir flokkar sem hafna Evrópusambandsaðild með öllu verða að réttlæta fyrir þjóðinni það velferðartap sem við verðum fyrir í formi minni útflutningstekna, hærra matarverðs, hærri vaxta og mikilla hagsveiflna“? Ég veit ekki til þess, að Evrópusambandið sé neins staðar bannorð, ég sit til dæmis í nefnd með fulltrúum allra flokka, þar sem sífellt er verið að ræða um Evrópusambandið og alls ekki af neinni andúð. Hvernig er unnt að halda því fram, að við stöndum verr að vígi efnahagslega en Evrópusambandsþjóðir, þegar allar hagtölur sýna hið gagnstæða? Við erum fremst Evrópuþjóða, þegar samkeppnishæfni er metin, í fjórða sæti á eftir Bandaríkjunum, Hong Kong og Singapore.

Hvernig getur Ingibjörg Sólrún sagt að jafnaðarmennska sé í sókn en „nýfrjálshyggja“ eins og hún kallar sjálfstæðisstefnuna á undanhaldi? Í árslok 2004 mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 34,6% en 42% núna - þá mældist fylgi Samfylkingarinnar 30,2% en 27% núna. Þá var fylgi ríkisstjórnarinnar 46,7% en 53% núna.

Ingibjörg Sólrún ræðst að mér á þennan veg: „dómsmálaráðherra kaupir sig frá málaferlum sem eru yfirvofandi vegna geðþóttaákvörðunar við skipan hæstaréttardómara.“ Hér vísar hún til samkomulags, sem við Hjördís Hákonardóttir gerðum með vísan til álits kærunefndar jafnréttismála. Við Hjördís sömdum um námsleyfi hennar, en tímann ætlar hún að nota til lögfræðilegra rannsóknarstarfa. Árás á mig fyrir að ljúka þessu máli með góðri sátt og samkomulagi, getur flokkast undir venjulegt pólitískt skítkast - en varla á það við um Hjördísi, viðsemjanda minn. Hvers á hún að gjalda, að sitja undir slíkum ávirðingum?

Föstudagur, 30. 12. 05. - 30.12.2005 23:06

Ríkisstjórnin kom saman klukkan 09.30 og ræddi um niðurstöðu kjaradóms og viðbrögð við honum. Ákveðið var, að þing yrði ekki kallað saman en fyrir það yrði lagt 17. janúar frv. um að launahækkun skyldi verða 2,5% hjá þeim sem kjaradómur hækkaði. Eftir ríkisstjórnarfundinn hittu forsætisráðherra og utanríkisráðherra forystumenn stjórnarandstöðunnar og samkvæmt fréttum var ákveðið þar, að stjórnarandstaðan myndi huga að að því að tilnefna menn í nefnd til að móta framtíðarskipan mála, eftir að þing hefði fjallað um frv. um breytingu á niðurstöðu kjaradóms.

Þættir í útvarpi eða sjónvarpi um upprifjanir á árinu eða dómar um hvað þótti merkilegt eða ómerkilegt, skemmtilegt eða leiðinlegt, vekja ekki sérstakan áhuga minn. Kannski er það vegna hins pólitíska rétttrúnaðar, sem einkennir þættina, að þeir eru svona óspennandi og í raun fyrirsjáanlegir, þegar vitað, hverjir taka þátt í þeim.

Ég tek undir með Vef-Þjóðviljanum í dag, þegar hann vekur athygli á mismunandi viðbrögðum fjölmiðlamanna við því, þegar kjörnir fulltrúar skipta um flokka. Ef fólk snýr til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn úr Frjálsynda flokknum eða Samfylkingunni er látið eins og um pólitíska dauðasynd sé að ræða en hætti menn að verða óháðir til að ganga í Samfylkinguna er látið eins og um sjálfsagðan hlut sé að ræða.

Fimmtudagur, 29. 12. 05. - 29.12.2005 18:14

Í morgun las ég í The New York Times, að dálkahöfundurinn David Brooks hefði fyrir tólf mánuðum stofnað verðlaun kennd við heimspekinginn Sidney Hook fyrir bestu stjórnmála- og menningarritgerðir ársins. Hann skýrir frá því, að verðlaunin veiti hann David Samuels fyrir ritgerðina In a Ruined Country í tímaritinu The Atlantic Monthly en hún snýst um Yasir Arafat eins og hér má lesa að minnsta kosti í nokkra daga, eins og segir á síðunni.

Þrefið um launamál okkar, sem lútum kjaradómi heldur áfram. Eftir að forsætisráðherra hafði fengið neikvætt svar frá kjaradómi í gærkvöldi, ákvað hann að skipa þverpólitíska nefnd til að ræða málið, áður en þing kemur saman að nýju 17. janúar 2006. Við svo búið skýrðu þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, frá því, að þau myndu ekki skipa menn í þessa nefnd nema ákveðið yrði, að alþingi kæmi saman milli jóla og nýárs.

Miðvikudagur, 28. 12. 05. - 28.12.2005 20:56

Dagar eins og þessi eru ágætir til að fara yfir mál, sem krefjast nokkurrar yfirlegu í ráðuneytinu, því að ekki er mikið um að óskað sé eftir afgreiðslum mála á milli jóla og nýárs. Sat meginhluta vinnudagsins á fundi með samstarfsfólki mínu til að ræða efni mikils lagabálks - og setti mynd af fundinum inn á myndasíðuna mína, einkamál.

Ég missti af því á Mont Pelerin fundinum hér í sumar, þegar Andrei Illarionov, efnahagsráðgjafi Vladimirs Putins Rússlandsforseta flutti erindi sitt, en haft var á orði við mig af þeim, sem hlustuðu á hann, að mikið væri, ef hann yrði ekki rekinn fyrir þá þungu gagnrýni, sem hann flutti á stjórn efnahagsmála og stjórnarhætti almennt í Rússlandi.

Illarionov hefur sagt af sér og BBC hafði eftir honum í gær, að í Rússlandi ríkti ekki lengur stjórnmálalegt frelsi heldur réðu ríkisfyrirtæki ferðinni og þau hugsuðu aðeins um eigin hag. „Ég skrifaði ekki undir samning við slíkt ríki,“ sagði Illarionov við fréttamenn og bætti við: „Eitt er að starfa í landi, sem er að nokkru frjálst. Annað er þegar stjórnmálakerfið hefur breyst og landið er ekki lengur frjálst og lýðræðislegt.“ Hann sagðist einnig hafa getað sagt það, sem honum bjó í brjósti, en nú hefði það einnig breyst.

Viktor Tsjérnomírdin, fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands, sem er nú sendiherra lands síns í Úkraínu, sagði ekkert mark takandi á gagnrýni Illarionovs, hann hefði verið orðinn alltof neikvæður og með allt á hornum sér. „Það voru mistök að hafa hann svona lengi í Kreml,“ sagði sendiherrann við Interfax-fréttastofuna.

Kjaradómur svaraði bréfi forsætisráðherra frá því í gær og í svarinu sagði meðal annars:

„Kjaradómur ítrekar, að ákvörðun sína þann 19. desember s.l. tók dómurinn að virtum öllum þeim reglum sem honum ber að fara eftir samkvæmt lögum nr. 120/1992. Formaður dómsins gerði ráðherra ítarlega grein fyrir sjónarmiðum þeim sem lágu að baki ákvörðuninni með bréfi dags. 23. þ.m. Hefur ekkert það komið fram sem bendir til að dómurinn hafi ekki gætt lögmætra sjónarmiða við þá ákvörðun. Það er því niðurstaða dómsins að úrskurður hans frá 19. desember 2005 skuli óbreyttur standa.“

 

Þriðjudagur, 27. 12. 05. - 27.12.2005 17:54

Við hittumst ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem erum í bænum, auk forseta alþingis og ræddum stöðuna vegna kjaradóms og háværra sjónarmiða um, að þar hefði verið gengið of langt við hækkun launa æðstu embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa. Síðdegis var tilkynnt, að forsætisráðherra hefði ritað formanni kjaradóms bréf og óskað eftir endurskoðun á þeim þætti í niðurstöðu dómsins, sem lýtur að þjóðkjörnum fulltrúum.

Í 22.00 fréttum sjónvarps var rætt við Sigurð Líndal prófessor emeritus, sem taldi meinbaugi á því, að kjaradómur breytti niðurstöðu sinni, að minnsta kosti með vísan til þeirra raka, sem kæmu fram í bréfi forsætisráðherra. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagðist frekar vilja sjá þing koma saman og breyta lögum en Sigurður Líndal sagði, að breyting á lögum myndi væntanlega eiga að leiða til afturvirkni til að svipta menn launum, sem þeim hefðu verið ákveðin og slíkt gæti talist hæpið. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður vinstri/grænna, var hlynntur þeirri leið, sem forsætisráðherra valdi.

Mánudagur, 26. 12. 05. - 26.12.2005 15:50

Jólin hafa verið tíðindalaus og mér hefur gefist tími til þess að læra betur en áður að nota starfrænu myndavélina mína og átta mig á kostum hennar. Ef til vill á ég eftir að verða iðnari við að setja myndir inn á síðuna, ef ég man þá eftir að hafa myndavélina með í för. Epilca-forritið er þannig úr garð gert, að mjög auðvelt er að flytja myndir inn á vefsíður. Ég bætti fáeinum myndum inn á mynadsíðuna mína núna.

Eftir að ég ritaði um jólasveininn á síðuna á aðfangadag, heyrði ég frá því sagt í fréttum ljósvakamiðla Baugs, að herra Karl Sigurbjörnsson biskup hefði í aðfangadagsprédikun sagt, að hann tryði ekki á jólasveininn. Kafli úr prédikun biskups er birt á www.visir.is og þar segir:

„Grýlur og jólasveinar er í besta falli leikur, skemmtun. Allir hafa gott af því að bregða á leik. Ég hef oft leikið jólasvein. En ég trúi ekki á jólasveininn, fremur en nokkur heilvita, fullorðin manneskja. Það er munur á leik og alvöru. Börnin skynja það. Börn læra að greina milli sannleika og blekkinga. Þau þekkja leikinn og ævintýrið. En þau vita líka hvað er satt og heilt. Það er mikil synd þegar hinir fullorðnu gera þar ekki greinarmun á, og rugla börn beinlínis í ríminu. Jólaguðspjallið er heilagur sannleikur."

Þarna sjáum við hver munur er á því að trúa á eitthvað eða ímynda sér eitthvað í leik, sem byggist á frjóu ímyndunarafli.

Í Berlingske Tidende í dag birtist grein undir fyrirsögninni: Kejserens nye storslaaede penge. Efnið er kynnt á þennan hátt: „Danmark Aarets gang 2005 gav islandske tilstande overalt í dansk erhversliv - og i privatökonomierne. Det blev stiftet gæld for milliarder og atter milliarder, og nu maa vi bare haabe, at det ikke er en moderne udgave af „Kejserens ny Kæder“.

Laugardagur, 24. 12. 05. - 24.12.2005 15:44

Gleðileg jól!

Föstudagur, 23. 12. 05. - 23.12.2005 21:17

Þorláksmessa hefur tekið á sig aðra mynd en á árum áður, þegar venja var að efna til mikilla samkvæma á vinnustöðum, að minnsta kosti þar sem ég vann á Almenna bókafélaginu og Morgunblaðinu á sjöunda, áttunda og fram á níunda áratuginn. Voru margir framlágir á aðfangadag fyrir bragðið og nutu sín ekki vel á jólunum. Þá er jólaglöggið einnig á undanhaldi á jólaföstunni en jólahlaðborð komin í staðinn eða jólamálsverðir á vinnustöðum - til dæmis er efnt til slíks hádegisverðar á alþingi í boði forseta þingsins miðvikudag skömmu fyrir þinghlé. Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu tókum við starfsfólkið okkur einnig saman og pöntuðum hangikjöt með tilheyrandi í matinn einn desember-föstudag í hádeginu.

Umræðurnar um niðurstöðu kjaradóms halda áfram og undir kvöld var birt bréf Garðars Garðarsson hrl., formanns dómsins, til forsætisráðherra í framhaldi af samtali þeirra í gær. Þar rökstyður Garðar niðurstöðu dómsins. Hann segir meðal annars: „Þótt það ráði ekki ákvörðun Kjaradóms heldur sé aðeins haft til hliðsjónar, þá hefur launavísitalan frá maí 2003 til nóvember 2005 hækkað um 14,13% en laun Kjaradóms, með hækkuninni sem gildir fyrir árið 2006, um 13,64%“

Garðar segir, að kjaradómur sé mjög „meðvitaður um að ákvarðanir hans kunna að hafa áhrif langt út fyrir þann hóp sem Kjaradómur er að úrskurða laun. Leiðsögn Kjaradóms um það atriði er þó heldur veikburða í lögunum, en þar segir „Ennfremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“...Kjaradómur hlýtur ... að líta til þess hluta vinnumarkaðarins sem sambærilegur getur talist með tilliti til starfa og ábyrgðar eins og beinlínis stendur í lögunum.“

Bréfi sínu lýkur formaðurinn á þessum orðum: „Nauðsynlegt er að finna aðferð til að ákveða laun forseta, alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna sem sæmileg sátt getur verið um. Það þarf líka að huga að því að ríkið er á samkeppnismarkaði um hæfasta starfsfólkið.“

Milli jóla og nýars ræðir forsætisráðherra við aðila vinnumarkaðarins um málið. Morgunblaðið vill að þing komi saman milli jóla og nýárs og við þá ósk vaknaði stjórnarandstaðan með hið sama á vörunum.

Fimmtudagur, 22. 12. 05 - 22.12.2005 22:09

Birtan var falleg í dag og ekki dró úr fögnuðinum, að deginn er tekið að lengja á ný. Síðan í ágúst hef ég farið í Laugardalslaugina í fyrsta hóp á morgnana og lengt sundsprettinn frá því sem hann hefur um langt árabil í Sundhöllinni - þótt ég sakni félaga minna þar, met ég meira að auka þrekið með meiri áreynslu við sundið.

Ég hélt áfram fundum í ráðuneytinu til að ná öllum þráðum saman vegna áformanna um stækkun lögregluumdæma og breytingar tengdum þeim, sem snerta einnig skipulag ákæruvaldsins.

Lengi fylgdist ég með Alistair Cook lesa vikulegt bréf sitt frá Ameríku í BBC World Service. Hann andaðist í mars 2004 95 ára að aldri og las bréf sín brostinni röddu undir lokin, en dánarmein hans var lungnakrabbi, sem hafði lagst í bein hans. Nú berast þær fréttir frá New York, að beinum hans kunni að hafa verið stolið af glæpagengi, sem þrífst á því að selja líkamshluta til lækninga. Fjölskylda hans fékk duftker með ösku, sem sögð var geyma leifar hans og var öskunni dreift í Central Park. Nú er dregið í efa, að þetta hafi verið rétt aska.

Aðrar fréttir frá Bandaríkjunum herma, að þar séu vaxandi andmæli gegn því, að kveðjan Happy Christmas sé að víkja fyrir kveðjunni Happy Holidays, sem á að þóknast þeim, sem fagna ekki fæðingu Krists. George W. Bush hafi meira að segja ekki treyst sér að hafa orðin Merry Christmas á jólakorti sínu og í þinginu séu menn hættir að taka sér jólaleyfi Christmas holiday, nú taki þeir sér vetrarfrí, Winter brake.

Miðvikudagur, 20. 12. 05. - 21.12.2005 21:24

Var með viðtöl í morgun eins og venjulega á miðvikudögum og sat síðan fundi fram eftir degi auk þess að svara einhverjum fyrirspurnum fjölmiðlamanna um samkomulagið við Hjördísi Hákonardóttur.

Eins og jafnan þegar kjaradómur birtir ákvarðanir sínar (hann gerði það í gær) um hækkun launa þeirra, sem undir hann falla, verður hvellur, ef mönnum þykir meira en nóg um þær hækkanir, sem ákveðnar eru. Skyldi nokkurn tíma verða unnt að finna gallalaust kerfi til að ákveða kjör þeirra, sem undir dóminn falla?

 

Þriðjudagur, 20. 12. 05. - 20.12.2005 21:32

Annað hefti tímaritsins Þjóðmála kom út í gær og er í dag dreift til áskrifenda. Ég vil enn og aftur hvetja til áskriftar að þessu fjölbreytta tímariti. Auðvelt er að gera það í gegnum vefsíðu Andríkis - árgjaldið fyrir fjögur hefti er aðeins 3500 krónur.

Borgarstjórn samþykkti einum rómi á fundi sínum í dag tillögu R-listans um bann við dauaðrefsingum. Árni Þór Sigurðsson vinstri/grænum flutti framsögu fyrir tillögunni. Enginn annar kvaddi sér hljóðs og var tillagan síðan samþykkt einum rómi. Flutningur R-listans á þessari tillögu er til marks um, að enn geta menn komið sér saman um tillögur í borgarstjórn í nafni listans, þótt hann sé dauður.

Sagt var frá því í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins, að við Hjördís Björk Hákonardóttir dómstjóri á Selfossi, hefðum náð samkomulagi um námsleyfi hennar í eitt ár, en að því loknu getur hún snúið að nýju til fyrri starfa eða samið um starfslok.

Er góð sátt milli okkar um þetta og tókst hún á fundi, sem við héldum 17. nóvember s.l. en Hjördís hvarf frá störfum dómstjóra 15. desember og hefur Hjörtur Aðalsteinsson verið settur í hennar stað.

Á sínum tíma lýsti ég mig vanhæfan til að skipa dómara í hæstarétt, þar sem Hjördís var meðal umsækjanda, vegna þess að þetta mál var óleyst, en það má rekja til umsóknar hennar um dómarastarf í hæstarétti og álits kæurnefndar jafnfréttismála í framhaldi af því.

Mánudagur, 19. 12. 05. - 19.12.2005 18:54

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík kom saman klukkan 17.15 í Valhöll og samþykkti einum rómi framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 27. maí 2006. Á listanum er úrvalsfólk, jafnmargar konur og karlar.

Sama dag og listinn var ákveðinn efndi Dagur B. Eggertsson til blaðamannafundar og bauð sig fram til fyrsta sætis á lista Samfylkingarinnar næsta vor og berst hann um sætið við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra og Stefán Jón Hafstein, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn. Fleiri kunna enn að bjóða sig fram í þetta sæti, því að prófkjörið verður ekki fyrr en í febrúar 2006.

Á morgun er fundur í borgarstjórn og þar er fyrsta mál á dagskrá R-listans um að taka þátt í baráttu gegn dauðarefsingum. Tillagan er til marks um, hvaða mál það eru eftir dauða R-listans, sem helst sameina hann, það er mál, sem geta ekki valdið ágreiningi. Ég veit ekki um neinn Íslending, sem er fylgjandi dauðarefsingu.

Lesa meira

Sunnudagur, 18. 12. 05. - 18.12.2005 22:14

Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur voru vel sóttir að venju, kl. 17.00 í Áskirkju. Var hljóðfæraleikurunum vel fagnað.

Fréttir berast um, að í Brussel hafi leiðtogum ESB-ríkja tekist að ná samkomulagi um fjárlög til 2013, án þess í raun sé vitað, hvað gerist á þeim tíma annað en sumir verða að borga meira og aðrir minna, auk þess sem Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi gegnt miklu hlutverki, þar sem hún stilliti sér upp  sem sáttasemjari milli Tonys Blairs og Jacques Chiracs. Þá er einnig sagt, að tekist hafi á fundi WTO í Hong Kong að ná samkomulagi um eitthvað, sem á að gerast eftir átta til 10 ár.

Það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn  árið 2005 að ná samkomulagi um slíka hluti, því að líklega kemur það í hlut annarra að hrinda því í framkvæmd auk þess sem alltaf má semja að nýju.

Spennandi verður að sjá, hvernig Árvakri tekst að halda á málum, eftir að hann er kominn að rekstri Blaðsins  og Morgunblaðið boðar öflugustu blaðaútgáfu landsins. Morgunblaðið  er eini prentmiðillinn, sem stendur undir nafni, hinir eru að raða efni í kringum auglýsingar, fyrir utan DV, sem verður daglegra verra (DV) eins og Rúnar Kristjánsson sagði í Morgunblaðinu á dögunum og á hann örugglega eftir að fá í staðinn títuprjónstungu  frá ritstjórn DV. Reynsla mín er sú, að alltaf þegar ég nefni DV og gagnrýni hér á síðunni, er fundið að mér á einn eða annan veg í blaðinu. Vegsaukinn kemur úr ólíklegustu áttum.

Laugardagur, 17. 12. 05. - 17.12.2005 18:09

Þegar ég sá fyrirsögnina: Kyrrðin í hreyfingunni á forsíðu Lesbókar Morgunblaðsins í dag, datt mér strax í hug qi gong. Síðan sá ég, að þarna var Fríða Björk Ingvarsdóttir blaðamaður að skrifa um dvöl sína í Kína og vitnaði í tai-chi-meistarann Yang Ai Min, sem fræðir hana um gildi hins kínverska viðhorfs að lifa í nú-inu í vissu þess, að fortíðin hafi mótandi áhrif. Þá segir: „Fortíðin - sem hið kyrra afl lifir m. ö. o. í hreyfingu líðandi augnabliks. Sama hugsun er undirstaðan í tai chi, sem einstaklingar hafa í árþúsundir notað sem farveg til að finna „kyrrðina í hreyfingunni“, eins Yang orðaði það.“ Þetta rímar vel við það, sem við segjum í qi gong, grunnæfingum tai chi og kínverskrar bardagalistar. Við njótum „núsins“ í vissunni um, að við breytum ekki fortíðinni og ráðum ekki framtíðinni.

Síðasta qi gong æfing hóps Aflsins, félags qi gong iðkenda, fyrir jól var kl. 08. 10 föstudaginn 16. desember. Við hittumst þrisvar í viku á þessum tíma og æfum saman í 40 mínútur.

Hlustaði á fréttir á NFS kl. 19.30 og þar var sagt, að „í morgun“ hefði ég sagt eitthvað um rannsóknir á svonefndu fangaflugi á vegum Bandaríkjastjórnar. Ég hef ekki talað neitt við fréttamenn NFS í dag. Fréttamennska með röngum tímasetningum brýtur einföldustu reglur vandaðra fjölmiðla.

Föstudagur, 16. 12. 05. - 16.12.2005 20:50

Var rétt í þessu að ljúka við að horfa á aðalfréttatíma BBC World Service en þar voru fjögur höfuðefni: leiðtogafundur ESB í Brussel, Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og vinsælasti ráðherra Bush-stjórnarinnar, WTO-fundurinn árangurslausi í Hong Kong og um 5 mínútna kynning á íslensku kvikmyndinni Gargandi snilld eða Screaming Masterpiece, sem þulan sagði hafa verið frumsýnda í London í dag. Var farið lofsamlegum orðum um tónlistina, sem þar var kynnt.

Klukkan 09.00 var ég í sal Lögreglufélags Reykjavíkur og tók þátt í því með félagsmönnum að fagna 70 ára afmæli félagsins. Flutti stutt ávarp og afhenti fjórum lögreglumönnum viðurkenningu fyrir björgunarafrek þeirra 10. september sl. þegar báturinn Harpa strandaði.

Þegar ég kom af ríkisstjórnarfundi ræddi Helgi Seljan við mig fyrir hönd NFS, það er sjónvarpsfréttastöðvar Baugsveldisins, sem kemur í stað Talstöðvarinnar. Ég hef ekki búnað til að horfa á þessa stöð, nema þegar hún tengist Stöð 2. Stjórnmálamenn, sem fara þarna í þætti, hafa sagt mér, að þeir heyri aldrei neinn minnast á þá við sig. Þá þögn telja þeir til marks um lítið áhorf. Ég heyri stundum dagskrána í gegnum Talstöðina.

 

Fimmtudagur, 15. 12. 05. - 15.12.2005 21:59

Sat fundi fram eftir degi og fór síðan í útgáfuhóf til Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, sem fagnaði með glæsibrag úgáfu þriðja bindis af ævisögu Halldórs Laxness. Elja Hannesar er með ólíkindum og saga hans um Laxness mun standa af sér allar árásir samtímamanna, enda byggjast þær á öðru en virðingu fyrir því, að Hannes Hólmsteinn skuli hafa tekið sér þetta mikla verk fyrir hendur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari hafnaði í dag kröfu verjenda Baugsmanna um að vísa Baugsmálinu frá dómi. Í forsendum úrskurðar dómarans sagði, að í málinu hefði verið lagður fram fjöldi gagna með ummælum mínum um ákærðu Jón Ásgeir og Jóhannes, um Baug hf., um fjölmiðla í eigu þess fyrirtækis, um eitt og annað í stjórnmálum, sem snertir þessa aðila, og um málið sjálft. Hér vísar dómarinn til þess, sem lesið var eftir mig í dómsalnum meðal annars héðan af síðunni á degi íslenskrar tungu 16. nóvember síðastliðinn eða fyrir réttum mánuði.

Í úrskurði sínum sagði dómarinn, að ekki yrði  annað sagt um ummæli dómsmálaráðherra í garð ákærðu og Baugs hf. baugssamsteypunnar en að þau væru mjög gagnrýnin. Hann taldi hins vegar, að þau gerðu mig ekki vanhæfan til að skipa sérstakan ríkissaksóknara í málinu.

 

Miðvikudagur, 14. 12. 05. - 14.12.2005 0:18

Var klukkan 12.00 á efri hæð í Sólon Íslandus á fundi hjá Landsambandi sjálfstæðiskvenna og Tikin.is undir stjórn Ástu Möller til að ræða þann kafla í bók Guðna Th. Jóhannessonar Völundarhús valdsins, sem snýst um stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens 8. febrúar 1980.

Mitt sjómarmið vegna bókarinnar ætla ég að ræða nánar síðar. Þarna sagði ég, að allir leikendur í bókinni væru menn, sem ég þekkti á einn eða annan veg. Ég hefði ekki gert mér grein fyrir, að Kristján Eldjárn hefði skráð samtöl vegna stjórnarmyndunar á þann veg, sem hann gerði. Ég hefði rætt við hann í trúnaði. Hann hefði rétt eftir mér.

Þorsteinn Pálsson, sem var í pallborði ásamt mér, og ræddi málið, eftir að Guðni hafði hafið fundinn, sagði mikla einföldun að tala um sigurvegara í stjórnmálum eins og í knattspyrnuleik, Geir gæti talist sigurvegari, ef litið væri til málefna, þótt Gunnar væri talinn hafa sigrað við stjórnarmyndun 8. febrúar 1980.

Síðdegis var fundur í Evrópunefnd.

Mánudagur, 12. 12. 05. - 12.12.2005 22:32

Eftir fundarhöld fram eftir degi settist ég við það verk að fínpússa tímaritsgreinina um Schengen og urðu því aðrar skriftir enn að sitja á hakanum. Ég hafði frest til 12. desember til að skila henni og tókst það. Schengensamstarfið er margþætt og tryggir Íslendingum annars konar samstarfsleiðir við Evrópusambandið en EES-samningurinn.

Í dag hringdu þeir í mig vinir mínir í síðdegisútvarpi Bylgjunnar og spurðu mig um tvennt: yfirlýsingu ríkissaksóknara Svía um eitt lögregluumdæmi á Norðurlöndunum og frumvarp til breytinga á umferðarlögum, þar sem meðal annars er fjallað um vald starfsmanna vegagerðarinnar til eftirlits, en Landssamband lögreglumanna telur hættu á því, að verið sé að fara inn á verksvið félagsmanna sinna.

Mér finnst ágætt að ræða við þá félaga Þorgeir og Kristófer og þeir hafa líklega oftast rætt við mig af fjölmiðlamönnum um málefni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þeir hafa áhuga á lögreglu- og dómsmálum sömu sögu er að segja um Svein Helgason, sem nú er umsjónarmaður morgunútvarps RÚV. Skiptir miklu í samtölum við fjölmiðlamenn, að þeir hafi þekkingu og áhuga á því, sem þeir vilja ræða.

Sjálfsagt er nota alþjóðlegar mælistikur til að átta okkur á framvindu íslenska þjóðfélagsins, hins vegar er ekki jafnaugljóst, að unnt sé að mæla allt hér á kvarða annarra, eins og til dæmis hvað skólaganga á að vera löng eða hvort ráðherrar skuli víkja sæti eða ekki. Þetta sífellda fjölmiðlatal um, að í þessu eða hinu landinu hefði ráðherra vikið, ef þetta eða hitt hefði gerst þar, sem gerist hér, er marklaust, nema menn beri fleira saman en einhvern einstakan atburð.

Í sumum þjóðþingum tíðkast, að þingmönnum er vikið af þingi í nokkra daga fyrir framkomu þeirra í þingsalnum. Á að hefja umræður um slík úrræði hér á landi, af því að þau eru lögbundin sumstaðar í útlöndum?

Sunnudagur 11. 12. 05. - 11.12.2005 22:09

Fórum klukkan 18.00 í Hallgrímskirkju og hlýddum á þrjá síðari kafla Jólaoratoríu Bachs. Var sannarlega vel staðið að flutningi þessa stórvirkis.

Hafði ekki tíma til að skrifa vikulega pistilinn um helgina, þar sem ég var önnum kafinn við að rita langa ritgerð um Schengen-samstarfið til að verða við ósk frá ritstjóra tímarits, en allir frestir voru að renna sitt skeið. Það er gott að geta gefið sér tíma til að kafa dýpra en í daglegri önn ofan í mál, sem maður er að sinna - og vonandi tekst mér að koma þessu frá mér þannig að það sé birtingarhæft.

Laugardagur 10. 12. 05. - 10.12.2005 11:15

Heyrðist að Baldur Þórhallsson í Háskóla Íslands væri eitthvað að jagast í mér í útvrapinu út af ummælum mínum í Morgunblaðinu vegna álits umboðsmanns alþingis um Falun gong. Baldur ætti að lesa pistil minn frá 9. júní 2002 um þetta mál.

Sé að Boris Johnson er að láta af ritstjórn The Spectator eftir sex og hálft ár þar samhliða þingmennsku, nú tekur hann að sér að fara með æðri menntun í nýju skuggaráðuneyti Davids Camerons. Johnson hefur aukið veg vikuritsins og segir það aldrei hafa verið útbreiddara en nú, prentað í 70.000 eintökum. Conrad Black réð Johnson á sínum tíma en nú er Black ekki lengur eigandi og situr undir ákæru í Bandaríkjunum.

Í The Spectator 3. desember birtist þessi texti í ramma á bls. 21.

„Í Politics dálki okkar 24. september skrifaði Andy McSmith: „Sagt er að Conor Cruise O'Brien heitinn hafi síðustu ár ævi sinnar skammast sín fyrir að koma frá ómerkilegu landi eins og Írlandi.“

Dr. Conor Cruise O'Brian er á lífi og hreykinn af því að vera írskur. The Spectator biður Conor Cruise O'Brian afsökunar á að hafa móðgað hann með þeirri ósönnu fullyrðingu, að hann skammaðist sín fyrir að koma frá Írlandi.“

Fórum síðdegis í Hallgrímskirkju og hlustuðum á einsöngvara, Schola Cantorum og alþjóðlega barokksveit flytja þrjá fyrstu kaflana í Jólaóratoríu Bachs undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Föstudagur 09. 12. 05. - 9.12.2005 0:09

Ríkisstjórnin kom saman klukkan 09.00 í morgun en þingfundir hófust kl. 10.30 en þá var ég í Bústaðakirkju við brautskráningu úr Lögregluskóla ríkisins, þar sem ég flutti ávarp.

Síðdegis dró að lyktum þingstarfa og rúmlega 17.00 hófst lokaafgreiðsla en undir lok funda varð stutt umræða um hæstaréttardóm, sem gekk í gær, þar sem fundið var að því, hvernig félagsmálaráðherra stóð að starfslokum Valgerðar H. Bjarnadóttur við Jafnréttisstofu og henni dæmdar skaðabætur. Kröfðust stjórnarandstæðingar afsagnar Árna Magnússonar en greinilegt var af umræðunum, að hugur fylgdi ekki þessari kröfu, enda ekki nein rök fyrir henni. Dómurinn er til leiðbeiningar um beitingu þeirra laga, sem koma til álita við starfslok opinberra starfsmanna.

Í dag var birt álit umboðsmanns alþingis vegna kvartana talsmanna Falun gong manna yfir því, að þeim var bannað að fara um borð í Flugleiðavélar í júní árið 2002, þegar þeir vildu koma hingað til lands til að mótmæla forseta Kína. Umboðsmaður vísaði til útlendingalaga frá 1965 og taldi þau ekki hafa heimilað aðgerðir stjórnvalda á þessum tíma. Á þeim þremur og hálfa ári, sem liðin eru frá þessum atburðum, hafa ný útlendingalög verið sett.

Fimmtudagur, 08. 12. 05. - 8.12.2005 22:35

Þingfundir áttu að hefjast klukkan 10.00 í morgun, en þeim var frestað til kl. 13.00, þar sem kviknaði í gamalli rafmagnstöflu í þinghúsinu á níunda tímanum.

Atkvæðagreiðsla var í þinginu kl. 18.00 og eftir hana fór ég í Tollstöðina, þar sem opnuð var sýning á vegum tollvarða í tilefni af 70 ára afmæli félags þeirra. Flutti ég stutt ávarp á sýningunni.

Ég hef áður vitnað hér á síðunni í vikulegan dálk, sem Paul Johnson skrifar í vikuritið The Spectator. Í síðasta heftinu, sem ég las, segir hann frá bænum sínum á aðventunni, en Johnson er rammkatólskur. Hann segist hafa lært það sem barn á fjórða áratugnum að biðja þess, að Guð kæmi aftur til Rússlands og 1989 hafi kraftaverkið gerst. Þá segir Johnson:

„Guð svarar þannig bænum að lokum, ef þær eru bornar fram af heilum huga og eru verðugar og réttlátar. Ég bið, að England fari að nýju undir hina heilögu móðurkirkju, fyrir endalokum poptónlistar og sjónvarps, fyrir útrýmingu á nútímalist, Picassoisma og öllu slíku drasli, niðurrifi Tate nútímasafnsins ( þó ég sé ekki viss um að það sé löglegt), hruni ofbeldisfulls íslam, frelsun Kína, Norður Kóreu og Kúbu og að Englandi verði bjargað undan ómenningu, dónaskap og Evrópusambandinu. Ég er þolinmóður. Við sjáum, hvað setur.“

Mér datt í hug að setja þessa skorinorðu afstöðu hér á síðuna, þegar ég sá, að höfundur Staksteina rifjaði upp komu Roberts Conquests til Íslands í morgun og spásögn hans frá því snemma á áttunda áratugnum um þróun stjórnmála í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fórum við saman Staksteinahöfundurinn og ég með Conquest í ógleymanlega ökuferð austur fyrir fjall og kynnumst viðhorfum hans. Þá var hann þekktastur fyrir að hafa afhjúpað fjöldamorð Stalíns í Úkraínu í bók sinni The Great Terror. Conquest er enn að og hefur nýlega sent frá sér bók, þar sem hann varar við aðför að lýðræðinu fyrir tilstilli alþjóðastofnana, sem lifi eigin lífi.

Miðvikudagur, 07. 12. 05. - 7.12.2005 22:24

Þingflokksfundir hófust klukkan 10.00 í morgun til að búa menn undir lokadaga þings fyrir jólaleyfi. Í hádeginu fór ég á Rotary-fund eftir langa fjarvist þaðan og hlustaði á Ingimund Sigfússon flytja fróðlegt erindi um reynslu sína af því að hverfa úr viðskiptalífinu til sendiherrastarfa.

Eftir hádegi voru fjárlög ársins 2006 samþykkt á alþingi. Nokkrar breytingartillögur voru við frumvarpið og tóku margir stjórnarandstæðingar til máls um næstum þær allar til að gera grein fyrir atkvæði sínu. Líklega stafar þessi ræðugleði af sjónvarps- og netútsendingu úr þingsalnum, því að ekki breytir hún afstöðu neins þingmanns.

Eitt af því, sem stjórnarandstaðan ræddi (og eiginlega hið eina sem komst í ljósvakamiðlana), snerti fjárveitingar til mannréttindaskrifstofunnar, sem hún vildi binda í fjárlögunum. Á það var ekki fallist af meirihlutanum, á hinn bóginn varð sú breyting á fjárlagafrumvarpinu, að 4 milljónir til mannréttindamála voru fluttar frá utanríkisráðuneytinu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Á þessu ári úthlutaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið þessu fé, eftir að auglýst var eftir umsóknum um styrki. Finnst mér líklegt, að sami háttur verði hafður á næsta ári.

Þriðjudagur, 06. 12. 05. - 6.12.2005 22:30

Ríkisstjórnarfundur var í styttra lagi, þar sem atkvæðagreiðslur áttu að vera í þinginu klukkan 10.30 en þær hófust þó ekki fyrr en um hálftíma síðar, þar sem stjórnarandstæðingar tóku til máls um störf þingsins í upphafi fundar og beindu máli sínu til menntamálaráðherra vegna samræmdra prófa og frumvarps um RÚV. Skrýtnast var að heyra vinstri/græna býsnast yfir því, að menntamálaráðherra hefði kynnt frumvarpið um RÚV í Kastljósi áður en það var lagt fram á alþingi, slíkt mætti bara ekki! Ég man ekki betur en vinstri/grænir efni til blaðamannafundar fyrir þingbyrjun til að kynna væntanleg þingmál sín - má það kannski ekki?

Var klukkan 14.00 í borgarstjórn, þar var rætt í annað sinn um fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Ég skil ekki hvernig Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri nennir að vera sífellt að tönnlast á því, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram fjárhagsáætlun sína fyrir árið 1994 ( fyrir 11 árum) eins og það skipti einhverju máli enn þann dag í dag og borgarstjóri hneykslast á því, að þessi áætlun hafi nú ekki verið eins vel úr garði gerð og fjárhagsáætlun sín núna, það hafi vantað eitthvað inn í hana og borgarsjóður hafi verið með yfirdrátt í Landsbankanum o. s. frv. o. s. frv.

Ég vakti athygli borgarstjóra á því, að ný lög um frágang og efni fjárhagsáætlunar hefðu verið sett 1998 og árið 2000 hefði félagsmálaráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu vegna kæru frá Sjálfstæðisflokknum, að R-listinn færi ekki að þeim lögum við gerð fjárhagsáætlunar sinnar. Hvernig henni dytti í hug að vera eltast við eitthvað gagnvart Sjálfstæðisflokknum, sem ekki var lögbundið árið 1994? Yfirdrátturinn gilti í samskiptum Reykjavíkurborgar og Landsbankans um árabil. Hann var auðvitað eins smámynt í samanburði við skuldafjall R-listans um þessar mundir, en það er orðið svo stórt, að erfitt er að lýsa því svo nokkur skilji.

Þetta tal Steinunnar Valdísar um eitthvað frá því fyrir 1994 til að réttlæta gjörðir R-listans minnir mig á, hvað ég varð undandi, þegar ég settist á alþingi árið 1991 og framsóknarmenn á þingi voru enn að rífast út Sjálfstæðisflokkinn fyrir eitthvað, sem gerðist á viðreisnaráratugnum, en honum lauk árið 1971, 20 árum áður. Það getur hæglega orðið að kæk hjá stjórnmálamönnum að fara alltaf að tala um hið sama, hvað svo sem er á dagskrá. Mér heyrist helst, að Steinunn Valdís sé með þennan kæk að því er varðar Sjálfstæðisflokkinn. Umræðustjórnmál af þessum toga skila auðvitað engu.

Í kvöld fór ég í Fíladelfíukirkjuna og naut þess vel að hlusta á hina árlegu tónleika þar, sem síðan er sjónvarpað á aðafangadagskvöld.

Mánudagur, 05. 12. 05. - 5.12.2005 22:16

Var á fundi með borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna í hádeginu, síðan í þingflokknum og loks við upphaf þingfundar, þegar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru á dagskrá. Engin spurning var lögð fyrir mig.

Á þingflokksfundinum var samþykkt heimild til menntamálaráðherra til að leggja fram frumvarp um að breyta RÚV í hlutafélag í eigu ríkisins. Ég hóf baráttu fyrir því í tíð minni sem menntamálaráðherra að þessi breyting yrði gerð á RÚV. Er fagnaðarefni að þessi áfangi hafi náðst í samvinnu við Framsóknarflokkinn. Andstæðingar þessa nýmælis bera hag RÚV ekki fyrir brjósti.

Í svari vegna minnkandi gengis í skoðanakönnunum sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, að nú væri unnið að því að bæta innra starf flokksins og þetta mundi allt fara batnandi. Í dag var síðan skýrt frá því að Skúli Helgason, stjórnmálafræðingur, fyrrverandi fjölmiðlamaður og starfsmaður Eddu, yrði framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar frá áramótum. Þá mundi Sigrún Pálsdóttir fjölmiðlafræðingur sjá um nýjan upplýsingavef flokksins.

Skúli Helgason skrifaði einlæga saknaðargrein um R-listann, þegar hann var í andaslitrunum eða kannksi nýlátinn. Líklegt er, að framkvæmdastjórn Skúla verði til að ýta undir framboð Dags B. Eggertssonar í efsta sæti á borgarstjórnarlista Samfylkingarinnar. Dagur er einnig harmi sleginn yfir dauða R-listans - en listinn var í gjörgæslu, frá því að Ingibjörg Sólrún sneri baki við honum til að verða forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Nú ætlar þetta þríeyki að lyfta Samfylkingunni í áður óþekktar hæðir.

Laugardagur, 03. 12. 05. - 3.12.2005 17:03

Vetrarstillur og ljósbrigði gera ekki síður heillandi að fara úr ys og þys borgarinnar en sumarhitinn og birtan auk þess sem hávaði frá umferð og heyvinnslutækjum er enginn á þessum árstíma.

Viðtalið við Hreggvið Jónsson, fyrrverandi forstjóra Norðurljósa, í Morgunblaðinu í dag í tilefni af því, sem um hann er sagt í bók Einars Kárasonar rithöfundar um Jón Ólafsson, sem kenndur er við Skífuna, bætist við allt annað, sem sagt hefur verið um þessa bók og er á þann veg, að þar sé ekki endilega verið að birta það, sem sannara reynist.

Í Lesbók Morgunblaðsins í dag skrifar Matthías Johannessen meðal annars: „Það sem ég hef á móti peningum er sú árátta auðmanna að kaupa sér völd. Það er hægt að kaupa allan fjárann, áhrif, afstöðu, skoðanir. Það er hægt að kaupa lögfræðinga, endurskoðendur, já hvern ekki? Það er jafnvel hægt að kaupa fjölmiðla.“ Þegar viðtalið við Hreggvið er skoðað í þessu ljósi má þá bæta við upptalningu Matthíasar - ævisögu? 

Föstudagur, 02. 12. 05. - 2.12.2005 11:55

Fundaði í Brussel fyrir hádegi meðal annars um aðild ESB að stjórn hættuástandans (crisis management) víða um heim, en hlutur ESB í þessu efni hefur vaxið hratt á skömmum tíma og nú eru fulltrúar þess við störf á 10 hættusvæðum um heim allan.

Ritaði undir aðildarsamning Íslands að evrópsku réttaraðstoðinni (Eurojust) með Michael Kennedy formanni ráðs Eurojust.

Átti fund með norska dómsmálaráðherranum um sameiginleg viðfangsefni.

Flaug frá Brussel til Kaupmannahafnar kl. 17.10 og síðan heim frá Kaupmannahöfn klukkan 20.10 lenti um þremur tímum síðar.

Sá að hæstiréttur hefur komist að niðurstöðu vegna kæru um það hvort Sigurður Tómas Magnússon sé bær til að flytja allt Baugsmálið sem ríkissaksóknari. Málið er að nýju komið í hendur héraðsdómsins.

Fimmtudagur, 01. 12. 05. - 1.12.2005 22:03

Fullveldisdagurinn - er í höfuðstöðvum Evrópusambandsins meirihluta dagsins. Stjórna ráðherrafundi samsettu nefndarinnar um framkvæmd Schengen-samningsins. Umræðurnar snúast um það, hvort unnt verði að standa við fyrirheitið um aðild 10 nýju ESB-ríkjanna að Schengen árið 2007. Enn hefur ekki verið greitt úr lögfræðilegum álitaefnum auk þess sem tæknileg atriði varðandi gagnagrunn landamæraeftirlits eftir stækkun eru óleyst.

Notaði tímann einnig til að ræða málefni til undirbúnings fyrir starf Evrópunefndar.

Les þessa frétt á ruv.is:

„Litlar breytingar eru á fylgi flokkanna samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups nema hvað fylgi Samfylkingarinnar minnkar sjötta mánuðinn í röð. Formaður flokksins segir unnið að innra starfi og að þessar tölur muni breytast.

Þjóðarpúls Gallups var unninn dagana 26. október til 28. nóvember. Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú tæplega 11% en var um 9% í síðasta Þjóðarpúlsi, kjörfylgið var um 18%.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst líka á milli mánaða og er nú tæp 43%, var um 41% sem er nokkru meira en fylgið í kosningunum 2003 sem var um 34%.

Frjálslyndi flokkurinn mælist nú með 3,5% fylgi, aðeins minna en síðast og nokkuð undir 7% kjörfylgi.

Samfylkingin er með ríflega 25% fylgi en það var um 28% síðast og fylgið í kosningunum mældist 31%.

Fylgi Vinstri-grænna eykst á milli mánaða, það mælist tæp 18% sem er prósentustigi meira en síðast og helmingi meira en kjörfylgið.“
 
 
Vek athygli á því, sem ég hef feitletrað - spyr enn: Er Ingibjörg Sólrún að velta fyrir sér að láta Össur taka við á ný? Fylgi Samfylkingarinnar hefur minnkað jafnt og þétt síðan hann tapaði fyrir henni sem formaður. Er lýsingin á fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki of varlega orðuð - flokkurinn mælist með 9% meira fylgi en í kosningunum 2003? Orðalagið er sambærilegt við það og notað er um 3,5% minna fylgi Frjálslynda flokksins í kosningunum!

Miðvikudagur, 30. 11. 05. - 30.11.2005 10:05

Var með viðtöl fyrir hádegi eins og venjulega á miðvikudögum en um hádegisbli hélt ég út á Keflavíkurflugvöll og hélt þaðan klukkan 14.15 með Icelandair til Kaupmannahafnar, vélin lenti þar á áætlun kl. 18. 15 og 19.40 tók ég SAS-vél áfram til Brussel - þar þarf maður að ganga lengstar vegalengdir á öllum flugvöllum - því miður var taskan mín ekki með vélinni, sem mér þótti skrýtið, þar sem hingað til hefur mátt ganga að því sem vísu, að þjónusta á Kastrup að þessi leyti sé örugg - þegar ég var að skrá töskuna sem týnda var nokkur hópur manna úr sömu vél sömu erinda, þar á meðal annar ferðalangur frá Íslandi.

Í Berlingske Tidende las ég frásögn af deilum tveggja Pakistana í nýrri borgarstjórn Kaupmannahafnar, sem blaðið segir, að eigi upptök  í flokkadráttum í Pakistan, en meirihluti Ritt Bjerregaard og félaga í borgarstjórninni byggist á því, að Pakistani sagði skilið við Venstre-flokkinn til stuðnings við Ritt og stóð til. að hann fengi háa túnaðarstöðu, en þá reis 19 ára Pakistani í flokki Ritt til mótmæla og var þá hinn sviptur tignarstöðunni, án þess að hann félli frá stuðningi sínum við Ritt og félaga, þannig að meirihluti hefur verið myndaður í borgarstjórn Kaupmannahafnar.

Þriðjudagur, 29. 11. 05. - 29.11.2005 20:51

Flutti framsöguræður fyrir þremur frumvörpum á þingi 1) um réttarvernd hugverkaréttinda, 2) um nýskipan vegna kosninga til kirkjuþings og 3) um breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga til að herða ákvæði þeirra gegn heimilisofbeldi.

Frumvörpin hlutu almennt góðar viðtökur þingmanna og voru síðan afgreidd til allsherjarnefndar í atkvæðagreiðslu undir klukkan 20.00. Hér ég þá komið öllum frumvörpum, sem ég ætla að flytja á haustþinginu, til nefndar.

Var klukkan rúmlega 17.00 í Iðnó við afhendingu Íslensku vefverðlaunanna 2005 en síðan mín hafði verið tilnefnd til verðlauna sem besti einstaklingsvefurinn. Úr hópi þeirra fimm, sem þá tilnefningu hlutu, fékk http://arni.hamstur.is/ fyrstu verðlaun og óska ég eigandanum til hamingju, um leið og ég þakka þeim, sem tilnefndu síðuna mína, sem hlaut þessi verðlaun árið 2003.

Horfði á Ólaf Ragnar Grímsson ræða bókina um Kristján Eldjárn Völundarhús valdsins í Kastljósi í gærkvöldi við Kristján Kristjánsson. Ólafur Ragnar lagði allt öðru vísu út af bókinni en Guðni Th. Jóhannesson, höfundur hennar, sem einnig var í þættinum og áréttaði enn, að Kristján Eldjárn hefði forðast það eins og heitan eldinn að blanda sér í stjórnmálaátök. Var engu líkara en Ólafi Ragnari væri mest í mun að túlka bókina sem svo, að ekkert væri sjálfsagðara en forseti Íslands léti að sér kveða á stjórnmálavettvangi -  þá túlkun tel ég alls ekki vera í anda Kristjáns Eldjárns, eins og ég kynntist honum á sínum tíma, en samtöl okkar um þessi mál ber aðeins á góma í bókinni.

Mánudagur, 27. 11. 05. - 28.11.2005 20:39

Flugum heim frá París í dag - á Charles de Gaulle flugvelli hitti ég Margeir St. Ingólfsson, sem setti síðuna mína inn í Eplica-kerfið og hefur aðstoðað mig á alla lund við þróun hennar. Hann sagði mér, að síðan hefði hlotið tilnefningu í annað sinn til Íslensku vefverðlaunina, en hún hlaut fyrstu verðlaun sem besti einstaklingsvefurinn 29. október 2003 og er nú tilnefnd í annað sinn í þeim flokki. Verðlaunin er kynnt á þennan hátt á vefsíðunni http://www.vefverdlaun.is/

Íslensku vefverðlaunin eru árlega veitt vefum sem taldir eru skara fram úr á sínu sviði. Tekið er á móti tilnefningum almennings á vefnum og dómnefnd skipuð fimm fulltrúum, Vefakademían, fer yfir tilnefningarnar og velur úr þá vefi sem hún telur besta.

Verðlaunin hafa undanfarin ár verið veitt í samstarfi Vefsýnar og ÍMARK en nú verður sú breyting á að verðlaunin eru veitt af ÍMARK og nokkrum aðilum í grasrót vefiðnaðarins, væntanlegum vísi að samtökum vefiðnaðarins. Þetta er í fimmta skipti sem verðlaunin eru veitt og í ár eru það ISNIC, Íslandsbanki, KB Banki og Landsbankinn sem styðja verðlaunin með glæsilegum framlögum.

Söfnun tilnefninga til Íslensku vefverðlaunanna fór fram á þessum vef frá 9. til 16. nóvember og verðlaunin verða svo afhent á lokaðri hátíð í IÐNÓ þriðjudaginn 29. nóvember að viðstaddri Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Líkt og áður eru verðlaun veitt í fimm flokkum:

  • Besti íslenski vefurinn
  • Besti fyrirtækisvefurinn
  • Besti afþreyingarvefurinn
  • Besta útlits- og viðmótshönnunin
  • Besti einstaklingsvefurinn
  • Til verðlauna fyrir besta einstaklingsvefinn hafa þessir verið tilnefndir:
  • Við sjáum hvernig fer á morgun, en ég sé, að Margeir St. Ingólfsson hefur einnig komið að gerð vefjarins www.sigurjon.com.

Laugardagur, 26. 11. 05. - 26.11.2005 19:12

Hafi snjókornin í París í gær flokkast sem snjókoma, væri líklega unnt að kalla úrkomuna hér í morgun fannfergi. Það var þó lítið, sem festist á götunum, ég sá aðeins snjóföl, þegar ég ók með strætisvagni í gegnum garðinn fyrir framan Louvre-safnið á leiðinni af hægri bakkanum yfir á þann vinstri.

Síðdegis vorum við á málþingi um Sturlungu í sendiráðsbústaðnum, en hún hófst með ræðu Tómasar Inga Olrichs sendiherra, en þar lofaði hann sérstaklega hve mjög Regis Boyer prófessor hefði lagt sig fram um að kynna íslenskar bókmenntir með þýðingum sínum á frönsku, en hann hefur nýlokið við að þýða Sturlungu. Regis Boyer flutti erindi um Sturlungu, þá ræddi Patrick Guelpa, prófessor í Lille, um Guðmund biskup góða, en prófessorinn hefur nýlokið við að þýða Lilju á frönsku, loks flutti Einar Már Jónsson prófessor erindi um Þórð kakala.

Rúmlega 100 manns sátu málþingið og þágu veitingar sendiherrahjónanna að því loknu, en þá gafst tækifæri til hitta marga, sem vinna að því að kynna íslenska menningu í Frakklandi.

Föstudagur, 25. 11. 05. - 25.11.2005 9:00

Flugum til Parísar, sé í fréttum, að rætt er um snjókomu í borginni, en það féllu nokkur korn síðdegis. Mér finnst þægilegra að ganga í þessum kulda um götur borgarinnar en í 30 stiga sumarhita.

Þegar ég fór í með jarðlestinni, fékk ég ekki þá tilfinningu, að öryggisgæsla eða eftirlit væri meira en áður. Fréttir eru hættar að berast af úthverfaupphlaupum og ástandið talið komið í eðlilegt horf, úr því að ekki er kveikt í fleiri bílum en um 100 á nóttu.

Föstudagur, 24. 11. 05. - 25.11.2005 8:58

Fimmtudagur, 24. 11. 05. - 24.11.2005 21:48

Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið fer fram í dag og er henni ekki lokið, þegar þetta er skrifað. Ég hef bæði fylgst með henni í þingsalnum og einnig utan hans, en nú er hægt að hlusta á umræður á þingi, hvar sem maður hefur aðgang að tölvu og mjög víða í sjónvarpi. Er það mikil breyting frá því, að ég settist á þing árið 1991 og rætt var um, hvort verja ætti mörg hundruð milljónum króna, ef ég man rétt, í að setja á stofn sérstakt útvarp frá alþingi. Nú er í senn unnt að hlusta á og sjá allt, sem gerist í ræðustól alþingis, hvar sem maður er staddur við tölvu, þess vegna er þess gjarnan látið getið í ræðustólnum, að sá, sem þar stendur, vænti þess, að á sig sé hlustað af öðrum þingmönnum en þeim, sem einmitt eru í þingsalnum þá stundina.

Í umræðum gerist það stundum, að ræðumaður taki smá rispu, þegar hann sér ráðherra eða þingmann birtast í salnum og beini orðum sínum sérstaklega til hans, þótt það falli ekki endilega að því, sem hann var að segja, þegar hann kom auga á þann, sem í salinn gekk. Hitt er þó algengara, að í ræðum stjórnarandstæðinga sé fundið að því, að þessi eða hinn ráðherrann sé ekki í þingsalnum eða þinghúsinu og oft gera menn hlé á ræðu sinni á meðan úr er bætt fyrir tilstilli forseta.

Í upphafi umræðnanna um fjárlögin kvörtuðu stjórnarandstæðingar undan því, að ráðherrar væru ekki nógu margir viðstaddir til að hlusta á umræður eða taka þátt í þeim. Pétur H. Blöndal vakti hins vegar máls á því, að í þessu tali um viðveru ráðherra fælist alltof mikil undirgefni við framkvæmdavaldið, ríkisstjórnin hefði lagt fram og kynnt frumvarp sitt, nú væri verið að ræða álit þingnefndar og skoðanir þingmanna á þessum tillögum ríkisstjórnarinnar og það gæti vel gerst, án þess að kallað væri á ráðherra.

Miðvikudagur, 23. 11. 05. - 23.11.2005 21:37

Svaraði tveimur fyrirspurnum á alþingi um athugasemdir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og um löggæslu á vegum sérsveitar lögreglunnar á tveimur skemmtunum í Skagafirði. Síðari fyrirspurnin, frá Sigurjóni Þórðarsyni frjálslyndum, virtist byggjast á því, að einhverjir lögregluþjónar í Skagafirði hefðu orðið af yfirvinnugreiðslum vegna þess að sérsveitarmenn voru kallaðir frá Akureyri til að aðstoða við löggæslu í Skagafirði. Tilgangur Sigurjóns var að leitast við að sýna fram á, að dýrara hefði verið að kalla á menn frá Akureyri en að notast við heimamenn. Svar mitt leiddi það ekki í ljós. Þá þótti Jóni Bjarnasyni þinmanni vinstri/grænna það of ógnvekjandi, að sérsveitarmenn væru að sinna slíku verkefni. Ég velti því fyrir, hver hefði áttað sig á því, að þeir væru þarna vettvangi, nema vegna þess að einhver kaus að gera veður út af því.

Fréttastofa hljóðvarps ríkisins sá ástæðu til þess í dag að hringja í Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, til að hann gæti borið blak af athugasemd Ólafs Ragnars Grímssonar í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann svarar Staksteinum og skýrir lesendum blaðsins frá því hvers vegna íslensku forsetahjónin áttu brýnt erindi til Mónakó, þegar Albert varð fursti af Mónakó, og Ólafur Ragnar var þar einn þjóðhöfðingja. Svanur setur athugasemd Ólafs Ragnars í sögulegt samhengi með því meðal annars að segja frá því að fyrsti forsetinn, Sveinn Björnsson, hafi gagnrýnt Þjóðviljann á ríkisráðsfundi. Auk þess hafi Kristján Eldjárn hringt í ritstjóra Morgunblaðsins til að láta í ljós óánægju með skrif blaðsins. Ætli prófessorinn sé raunverulega þeirrar skoðunar, að þessi tvö dæmi eða afstaða Ásgeirs Ásgeirssonar á móti varnarleysi þjóðarinnar séu sambærileg við athugasemd Ólafs Ragnars? Eða rennur honum blóðið til skyldunnar vegna sérkennilegra viðhorfa sinna til hlutverks forseta Íslands, viðhorfa, sem hann leitast við að rökstyðja með dæmum á borð við þessi?

Þriðjudagur, 22. 11. 05 - 22.11.2005 22:07

Var á vel sóttum fundi Heimdallar í kvöld og ræddi varnarmálin. Að lokinni stuttri framsöguræðu svaraði ég spurningum fundarmanna í um það bil eina klukkustund og bar þar margt á góma.

Ég lýsti þeirri skoðun, að mér þætti undarlegt, að þessa daga væri rætt um varnarmálin eins og eitthvað stórmerkilegt væri að gerast, því að í raun væru menn í sömu stöðu og verið hefði síðan kalda stríðinu lauk, það er að ræða samstarfið við Bandaríkjamenn með það í huga, að hér yrðu sýnilegar varnir í ljósi breyttra aðstæðna og  þess, að við værum tilbúnir til að taka meiri kostnað vegna reksturs Keflavíkurflugvallar á okkar herðar.

Ég gæti ekki tekið undir með þeim, sem teldu, að um einhver þáttaskil væri að ræða í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna, vandinn væri sá, að vegna mismunandi sjónarmiða ólíkra ráðuneyta og stofnana í Washington gætu menn ekki leitt málið til lykta - ég teldi óbreytt ástand hins vegar ekki til vandræða fyrir okkur nema vegna þess, að óvissa ríkti um nokkra þætti í starfseminni á Keflavíkurflugvelli og væri brýnt að binda enda á hana.

 Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir meðal annars:

„Morgunblaðið hefur marglýst þeirri skoðun sinni, að við Íslendingar eigum að stórauka pólitísk samskipti okkar við Þjóðverja. Það er augljóst, að fjarlægðin á milli okkar og Bandaríkjamanna er að aukast. Við eigum jafnvel í vissum erfiðleikum með að fá Bandaríkjamenn til þess að standa við skuldbindingar sínar við okkur í öryggismálum.“

Ég er ekki andvígur góðum samskiptum við Þjóðverja nema síður sé en að láta eins og þau geti á einhvern hátt komið í stað samstarfs við Bandaríkin í varnarmálum er fráleitt. Hvernig er unnt að rökstyðja það, að fjarlægð okkar og Bandaríkjamanna sé að aukast? Fjarlægðin hefur aldrei verið minni, hvað sem líður varnarsamstarfinu. Bandarísk fjárfesting hefur aldrei verið meiri hér eða umsvif í efnahagslífinu auk þess sem bandarískum ferðamönnum hefur fjölgað, svo að ekki sé minnst á bandarísk menningaráhrif - Morgunblaðsmenn þurfa ekki annað en lesa kvikmyndaauglýsingar, sjónvarpsdagskrá, kvikmyndaumsagnir og slúðurdálka eigin blaðs til að sjá, að þetta með aukna fjarlægð er fásinna. Bandaríkjamenn vilja halda áfram varnarsamsamstarfinu við okkur.  Sú vitleysa var gerð fyrir um það bil tíu árum að setja tímamörk í fyrirkomulagsbókanir um umsvifin á Keflavíkurflugvelli í stað þess að halda samstarfinu áfram á sama hátt og áður, að taka sameiginlega mið af breyttum aðstæðum í öryggismálum og laga sig að þeim - við höfum oft staðið frammi fyrir því áður að þurfa að rökræða við Bandaríkjamenn um varnarmál og skipan mála á Keflavíkurflugvelli.

 

Mánudagur, 21. 11. 05. - 21.11.2005 21:06

Dagskrárliður þingsins - óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra, sem var á dagskrá í upphafi þings í dag - var að ég held hugsaður til að unnt yrði að koma ráðherrum í opna skjöldu með spurningum um málefni líðandi stundar. Þessi liður er á dagskránni á 2ja vikna fresti og stendur í 30 mínútur. Hann er hins vegar orðinn heldur máttlaus vegna þess að í upphafi næstum hvers þingfundar er verið að ræða einhver málefni líðandi stundar annað hvort utan dagskrár eða undir dagskrárheitum eins og stjórn þingisins eða fundarstjórn forseta, en undir þessum liðum hefur tíðkast að fara um víðan völl og ræða hvaðeina, sem á þingmönnum hvílir, með ósk um að einhver ráðherranna bregðist við og svari eða láti í ljós skoðun sína.

Oft er talað um að framkvæmdarvaldið, það er ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar séu of fyrirferðarmiklir á þingi og frumvörp þeirra eða jafnvel duttlungar setji of mikinn svip á þingstörfin. Ef einhverjir ýta undir þessa mynd af þingstörfum eru það einmitt stjórnarandstöðuþingmenn, sem helst vilja ekki halda ræðu í þinginu nema einhver ráðherra sitji og hlusti á hana, eða finnst þeir ekki geta gengið til almennra þingstarfa, án þess að hafa gert atlögu að einhverjum ráðherranna og leyft honum að láta ljós sitt skína í upphafi þingfundar. 

Þá gerist það alltaf reglulega að einhver forystumaður úr stjórnarandstöðunni, að þessu sinni Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, stendur upp til að ræða störf þingsins og kvartar undan skorti á stjórnarfrumvörpum og telur það jafnvel til marks um óeiningu á stjórnarheimilinu, ef frumvörp ríkisstjórnarinnar hvolfast ekki yfir þingheim á fyrstu vikum þinghaldsins, sem almennt eru helgaðar úrvinnslu fjárlagafrumvarpsins.

Ráðherrar svara einnig fyrirspurnum þingmanna, sem eru undirbúnar á þingskjölum og er annað hvort beðið um munnlegt eða skriflegt svar ráðherra. Á haustþinginu hafa hrannast upp fyrirspurnir en samkvæmt starfsáætlun þingsins á að svara þeim síðdegis á miðvikudögum. Nú hefur orðið að lengja fundartíma á miðvikudögum og halda aukafund á föstudögum til að grynnka á spurningalistanum. Ég ætlaði að svara fjórum fyrirspurnum sl. miðvikudag en gat aðeins svarað tveimur, því að annar fyrirspyrjanda var ekki í þingsalnum, þegar röðin kom að spurningu hennar, og hinn fyrirspyrjandinn hafði gleymt spurningu sinni í skrifstofu sinni handan Austurvallar!

Sunnudagur, 20. 11. 05. - 20.11.2005 22:30

Fékk í dag í hendur nýja bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings Völundarhús valdsins, sem byggist á dagbókum og minnisblöðum Kristjáns Eldjárns forseta Íslands og segir frá afskiptum hans af stjórnarmyndunum á árunum 1968 til 1980. Þessi bók á vonandi eftir að beina athygli manna að öðrum þáttum í störfum forseta Íslands en þeim, sem snerta synjunarvald hans samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar og leiða mönnum fyrir sjónir, að embætti forseta Íslands stendur hvorki né fellur með þeirri grein stjórnarskrárinnar, sem Kristján taldi raunar fráleitt, að forsetinn beitti nokkru sinni. Í forsetatíð Ólafs Ragnar Grímssonar, sem ekki hefur komið að neinni stjórnarmyndun, hefur verið látið eins og án synjunarvaldsins væri forsetaembættið einskis virði. Þetta er reginfirra og í 60 ár gátu forsetar setið og notið virðingar þjóðarinnar, án þess að ganga gegn vilja alþingis og í berhögg við þingræðisregluna. 

Las viðtal við Ólaf Börk Þorvaldsson hæstaréttardómara í Morgunblaðinu í dag og fagna því, að honum hafi gefist tækifæri til að segja sína hlið á því mikla þrætuefni, sem skipan hans í hæstarétt hefur orðið. Það er með ólíkindum, hvernig vegið hefur verið að þessu vali mínu á reyndum dómara, þótt ungur sé að árum, og lögfræðingi með meistarapróf í Evrópurétti í hæstarétt. Þessar árásir eru ómaklegar gagnvart Ólafi Berki og þær breyta ekki neinu um ákvörðun mína, sem byggðist á skýrum málefnalegum sjónarmiðum. 

Laugardagur, 19. 11. 05. - 19.11.2005 21:38

Var austur í Fljótshlíð og stofnaði þar félagið Fljótshlíðingar ehf. með nágrannabændum og öðrum til að sinna framfaramálum í sveitinni og rekstri fasteignar í eigu þess.

Guðmundur Magnússon, fulltrúi ritstjóra, dregur taum Jóns Ólafssonar í Skífunni í Fréttablaðinu í dag með því að skrifa hæðnislega um leiðréttingar á rangfærslum Jóns um menn og málefni. Eitt af því furðulega, sem nefnt hefur verið til sögunnar vegna útkomu bókar Einars Kárasonar um Jón, er ræða Davíðs Oddssonar til heiðurs Þórarni Eldjárn fimmtugum, en Jón Ólafsson, sem ekki var í afmælinu, hefur látið orð falla á þann veg, að hún hafi snúist að mestu um sig. Þórarinn hefur leiðrétt þessa rangfærslu um ræðu Davíðs, þar hafi að vísu verið minnst á Jón Ólafsson en sá hafi verið Indíafari en ekki kaupsýslumaður.  Þótt Jón Ólafsson í Skífunni hafi um tíma verið aðalræðismaður Indónesíu á Íslandi, hefur engum dottið í hug að nefna hann Indíufara. Guðmundur nefnir Davíð konung í athugasemd sinni og þá Þórarinn Eldjárn, Hannes Hólmstein og Baldur Hermannsson, sem ritaði um framgöngu Jóns í Kastljósi í Morgunblaðið, hirðmenn.