23.11.2005 21:37

Miðvikudagur, 23. 11. 05.

Svaraði tveimur fyrirspurnum á alþingi um athugasemdir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og um löggæslu á vegum sérsveitar lögreglunnar á tveimur skemmtunum í Skagafirði. Síðari fyrirspurnin, frá Sigurjóni Þórðarsyni frjálslyndum, virtist byggjast á því, að einhverjir lögregluþjónar í Skagafirði hefðu orðið af yfirvinnugreiðslum vegna þess að sérsveitarmenn voru kallaðir frá Akureyri til að aðstoða við löggæslu í Skagafirði. Tilgangur Sigurjóns var að leitast við að sýna fram á, að dýrara hefði verið að kalla á menn frá Akureyri en að notast við heimamenn. Svar mitt leiddi það ekki í ljós. Þá þótti Jóni Bjarnasyni þinmanni vinstri/grænna það of ógnvekjandi, að sérsveitarmenn væru að sinna slíku verkefni. Ég velti því fyrir, hver hefði áttað sig á því, að þeir væru þarna vettvangi, nema vegna þess að einhver kaus að gera veður út af því.

Fréttastofa hljóðvarps ríkisins sá ástæðu til þess í dag að hringja í Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, til að hann gæti borið blak af athugasemd Ólafs Ragnars Grímssonar í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann svarar Staksteinum og skýrir lesendum blaðsins frá því hvers vegna íslensku forsetahjónin áttu brýnt erindi til Mónakó, þegar Albert varð fursti af Mónakó, og Ólafur Ragnar var þar einn þjóðhöfðingja. Svanur setur athugasemd Ólafs Ragnars í sögulegt samhengi með því meðal annars að segja frá því að fyrsti forsetinn, Sveinn Björnsson, hafi gagnrýnt Þjóðviljann á ríkisráðsfundi. Auk þess hafi Kristján Eldjárn hringt í ritstjóra Morgunblaðsins til að láta í ljós óánægju með skrif blaðsins. Ætli prófessorinn sé raunverulega þeirrar skoðunar, að þessi tvö dæmi eða afstaða Ásgeirs Ásgeirssonar á móti varnarleysi þjóðarinnar séu sambærileg við athugasemd Ólafs Ragnars? Eða rennur honum blóðið til skyldunnar vegna sérkennilegra viðhorfa sinna til hlutverks forseta Íslands, viðhorfa, sem hann leitast við að rökstyðja með dæmum á borð við þessi?