Dagbók: október 2003

Fimmtudagur, 30. 10. 03 - 30.10.2003 0:00

Fór síðdegis í Viðskiptaháskólann á Bifröst, þar sem ég flutti erindi klukkan 16.00 og svaraði síðan fyrirspurnum.

Miðvikudagur, 29. 10. 03 - 29.10.2003 0:00

Svaraði tveimur fyrirspurnum á alþingi. Sat síðan þingflokksfund og borgarstjórnarflokksfund en klukkan 18.00 var hátíðleg athöfn á fimmtu hæð Apóteksins, þar sem afhent voru verðlaun fyrir vefsíðugerð árið 2003 og naut ég þess óvænta og ánægjulega heiðurs að fá verðlaun fyrir besta einstaklingsvefinn.

Þriðjudagur, 28. 10. 03 - 28.10.2003 0:00

Fórum í heimsókn til sýslumannsins á Akureyri, heimsóttum lögreglustöðina og fór til laganema við Háskólann á Akureyri og ávarpaði ég þá. Síðan hittum við dómara við héraðsdóminn á Akureyri.

Eftir hádegi ókum við til Ólafsfjarðar og hittum sýslumann og lögreglumenn þar auk þess að kynna okkur starf þeirra, sem þar vinna að því að skanna alþingistíðindi inn á vefinn. Á leiðinni í gegnum Dalvík hittum við lögreglumanninn, sem var þar á vakt.

Komum til baka til Reykjavíkur með fimm-vélinni.

Mánudagur, 27. 10. 03 - 27.10.2003 0:00

Um kvöldmatarleytið héldum við Þorsteinn Davíðsson fljúgandi norður á Akureyri og efndum hittum forystumenn Varðar, félags ungra sjálstæðismanna.

Föstudagur, 24. 10. 03 - 24.10.2003 0:00

Klukkan 16.30 var boðið til hófs í nýjum húsakynnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við Skuggasund til að sýna hina góðu starfsaðstöðu, sem þar hefur verið sköpuð, og fagna flutnngum á þennan nýja stað.

Fimmtudagur 23. 10. 03 - 23.10.2003 0:00

Fór klukkan 10.00 í heimsókn til sýslumannsins í Reykjavík og kynnti mér starfsemi hjá honum.

Klukkan 13.30 heimsótti í skrifstofu Landssambands lögreglumanna og átti fund með forystumönnum þess,

Miðvikudagur 22. 10. 03 - 23.10.2003 0:00

Tók klukkan 16.30 þátt í kynningarfundi í Bústaðakirkju á kirkjulegu starfi í prófastdæminu Reykjavík vestur.

Sunnudagur, 19. 10. 03 - 19.10.2003 0:00

Fórum klukkan 11.00 i messu í Dómkirkjunni í tilefni af kirkjuþingi.

Klukkan 14.00 var kirkjuþing sett í Grensáskirkju og flutti ég þar ræðu.

Föstudagur, 17. 10. 03 - 17.10.2003 0:00

Sótti á hádegi fund sýslumanna á Selfossi og flutti þar ræðu.

Fimmtudagur 16. 10. 03 - 16.10.2003 0:00

Flutti fjögur mál á alþingi fyrir hádegi en tók þátt í borgarstjórnarfundi síðdegis og lét þar einkum að mér kveða vegna þess hve illa er staðið að varðveislu fornminja við Aðalstræti.

Laugardagur 11. 10. 03 - 11.10.2003 0:00

Héldum af stað með Austrian Airlines til Vínarborgar klukkan 08.30 og græddum einn tíma á leiðinni þangað - vorum þar á flugvellinum frá rúmlega níu til ellefu, þegar farið var um borð í SAS-vél til Kaupmannahafnar og þaðan heim með Icelandair, sem lenti rúmlega 15.00 en síðan héldum við austur að Kvoslæk og vorum þar fram á sunnudag.

Föstudagur, 10. 10. 03 - 10.10.2003 0:00

Dómsmálaráðherrafund Evrópuráðsins lauk um hádegisbil en síðdegis gafst fundarmönnum tækifæri til skoðunarferðar um Sófíu. Kom mér á óvart hve kalt var í lofti og mikill vindur var svo sunnarlega en borgin stendur hátt og í skjóli harra fjalla, sem voru snæviþakin efst. Við fórum um verslunargötur og á markaði, þar sem allt var á iðandi lífi og unnt að kaupa nauðþurftir á lágu verði, enda ríkidæmi ekki mikið meðal almennings, þótt aðrir bærust mikið á í glæsibílum.

Fimmtudagur, 09. 10. 03 - 9.10.2003 0:00

Klukkan 09. 15 hófst á Hótel Kempinski í Sófíu dómsmálaráðherrafundur Evrópuráðsins og var þar fjallað um hryðjuberk og ráð til að draga úr hættu á þeim.

Miðvikudagur, 08. 10. 03 - 8.10.2003 0:00

Klukkan 07.45 flugum við til Kaupmannahafnar, þaðan til Frankfurt með SAS og síðan með Bulgarian Air til Sófíu, höfuðborgar Búlgaríu, en þar lentum við um klukkan 21.30 að staðartíma.

Þriðjudagur 07. 10. 03 - 7.10.2003 0:00

Klukkan 15.30 fór ég í Biskupsstofu og hitti biskup ásamt samstarfsfólki hans.

Sunnudagur, 05. 10. 03 - 5.10.2003 0:00

Klukkan 10.00 hittumst við nokkrir qi gong iðkendur og unnum að því fram eftir degi undir leiðsögn Gunnars Eyjólfssonar að ganga frá efni á kennslumyndband um qi gong iðkun.

Laugardagur, 04. 10. 03. - 4.10.2003 0:00

Klukkan 15.00 buðum við borgarfulltrúar sjálfstæðismanna forystumönnum hverfafélaganna í kynnisferð um Reykjavík og var ég fararstjóri í annarri rútunni og veitti leiðsögn með öðrum borgarfulltrúum, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Kjartani Magnússyni og Jórunni Frímannsdóttur. Ökuferðin tók tæpa tvo tíma og síðan var hóf í Valhöll.

Föstudagur, 03. 10. 03 - 3.10.2003 0:00

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2004 var til fyrstu umræðu á alþingi og eftir að hafa hlýtt á ræður þar fram eftir degi fór ég til Keflavíkur, þar sem ég tók þátt í því klukkan 16.00 að opna viðbyggingu við lögreglustöðina ásamt með Jóni Eysteinssyni sýslumanni og hans mönnum.

Fimmtudagur, 02. 10. 03 - 2.10.2003 0:00

Borgarstjórn kom saman klukkan 14.00 og sat að störfum til 19.30. Ingibjörg Sólrún réðst að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni með ómerkilegum dylgjum um að hann gengi erinda stórverktaka, en á síðasta borgarstjórnarfundi sakaði hún mig um ósannindi, án þess að hafa nokkuð til síns máls annað en eigin ímyndun. Er það mat þeirra, sem sitja fundi borgarstjórnar, að Ingibjörg Sólrún sjái sér þann kost vænstan til að draga að sér athygli þar með því að ganga fram af fólki með ómerkilegum málflutningi. Tryggi það henni helst leið inn í fjölmiðla.

Klukkan rétt fyrir 20.00 flutti Davíð Oddsson 17. stefnuræðu sína á alþingi og hina að síðustu í þessari lotu sem forsætisráðherra. Lauk þingfundum rétt um klukkan 22.00.

Miðvikudagur, 01. 10. 03 - 1.10.2003 0:00

Klukkan 13.30 var alþingi sett. Var það allt með hefðbundnu sniði, nema forseti Íslands kaus að flytja langa ræðu um Ísland og þróunaraðstoð og tengdi hana framboði Íslands til öryggisráðsins. (Utanríkisráðherra taldi engin tengsl þar á milli í viðtölum við fjölmiðla daginn eftir.)