Dagbók: október 1999
Sunnudagur 31.10.1999
Fór að Skógum undir Eyjafjöllum og tók þar þátt í þingi Félags framhaldsskólanema, flutti ræðu og svaraði fyrirspurnum.
Laugardagur 30.10.1999
Klukkan 10.00 ávarpaði ég ráðstefnu kennara í Reykjavík og Reykjanesi um áhrif tölvu- og upplýsingatækni á störf kennara. Klukkan 11.00 tók ég á móti frönskum grunnskólanemendum og kennurum í alþingishúsinu ásamt nemendum og kennurum frá Hveragerði. Voru Frakkarnir þátttakendur í nemendaskiptum á milli landanna og komu í alþingshúsið í tilefni af því, að 2500. franski nemandinn var í hópnum. Klukkan 13.30 tók ég þátt í umræðum á þingi Iðnnemasambands Íslands.
Fimmtudagur 28.10.1999
flutti ég ræðu á aðalráðstefnu UNESCO.
Mánudagur 25.10.1999
Kom síðdegis 25. október til Parísar frá Róm og fór þá í skoðunarferð um Jeu de Paume safnið í hjarta Parísar, við Concorde-torgið, undir leiðsögn Errós, en sýning hans í safninu var opnuð þar daginn eftir. Var það ekki síður mikil menningarferð að fara um þessa glæisilegu sýningu með Erró en skoða minjarnar í Róm, þótt ólíku sé saman að jafnan, því að Erró dregur upp mynd af atburðum og lífi þessarar aldar með einstökum hætti en í Róm varð meira en 2000 ára saga ljóslifandi fyrir augum okkar. Erró hafði ég aðeins hitt lítillega áður og aldrei gefist tækifæri til að ræða við hann eða heyra hann sjálfan lýsa list sinni. Var því enn ánægjulegra en ella að fá að ganga með honum um glæsilega salina, þar sem verk hans njóta sín eins og best verður kosið. Hitt er ekki síður skemmtilegt að kynnast hinum sterka og íslenska persónuleika Errós og finna tengsl hans við hvern einstaka þátt í margbrotnum myndum sínum. Eftirminnilegust þykir mér myndin, sem hann málaði eftir för sína til Kambódíu, þar sem hann kynntist grimmdarverkum Pol Pots og lýsir óhugnanlegum áhrifum þeirra á sig. Um kvöldið kom Rut kona mín til Parísar beint úr ferðalagi til Kína með Kammersveit Reykjavíkur, þar sem þau höfðu meðal annars leikið á tónleikum fyrir um 2500 manns. Klukkan 19.00 þriðjudaginn 26. október fórum í Jeu de Paume, þar sem nokkur hundruð manns voru saman komin til að samfagna með Erró, þegar sýning hans var formlega opnuð. Meðal gesta var Catherine Trautmann, menningarmálaráðherra Frakklands, var hún rúmlega klukktíma að skoða sýninguna undir leiðsögn Errós. Lét hún eins og aðrir í ljós mikla hrifingu yfir listaverkunum. Daginn eftir sótti ég aðalráðstefnu UNESCO, sem var að hefjast í París. Síðdegis var síðan sameiginlegur fundur okkar frú Trautmann í menningarmálaráðuneytinu, sem André Malraux stofnaði undir de Gaulle fyrir réttum 40 árum. Stóð fundur okkar í rúma klukkustund og lögðum við þar á ráðin um samstarf þjóðanna í menningarmálum.
Fimmtudagur 21.10.1999
Sótti ráðstefnu Evrópuráðsins í Róm um upplýsingarækni og menningu. Flutti ég ræðuvið upphaf ráðstefnunnar og síðan að nýju þegar fjallað var um sérstök verkefni á sviði menningarmála, þar sem upplýsingatækni er nýtt. Var mjög fróðlegt að hlýða á umræður á þessari ráðstefnu og taka þátt í þeim. Þar eins og áður sóttu hins vegar að mér efasemdir um það, hve miklar vonir stjórnvöld geta gert sér um að þau hafi svör við öllum spurningum sem vakna vegna nýju tækninnar eða hve miklu þau geta stjórnað með samþykktum og reglum. Er reglustjórnar viðhorfið ríkt meðal Evrópumanna og þekkjum við það héðan úr umræðum um mörg mál. Tími gafst til þess að skoða grafhýsi undir Péturskirkjunni. Séra Jakob í kaþólska söfnuðinum hér á landi var í Róm og hafði ég beðið hann að athuga, hvort ég gæti fengið sérstaka leiðsögn um þær minjar, sem hafa fundið undir Péturskirkjunni. Fórum við í ógleymanlega pílagrímsferð að gröf Péturs postula undir leiðsögn bandarísks djákna síðdegis laugardaginn 23. október. Er of langt mál að segja frá henni hér. Var einstakt að fá leyfi til þessarar ferðar, því að unnið er að uppgreftri á þessum sögufræga stað og svæðið í raun lokað. Þá gafst einnig tóm til þess síðdegis sunnudaginn 24. október að fara í nákvæma skoðunarferð um Forum Romanum með sérfræðingi í öllu, sem lýtur að rústunum þar. Sú ferð um sögu Rómaveldis verður einnig ógleymanleg.
Miðvikudagur 20.10.1999
Svaraði fyrirspurnum á alþingi, sem báðar snertu málefni Ríkisútvarpsins. Er athyglisvert að flestar fyrirspurnir til mín á þessu hausti snerta málefni RÚV. Að þessu sinni snerust þær um dreifikerfið og hvort hugmyndir væru um að breyta RÚV í hlutafélag. Lýsti ég þar áhuga stjórnenda RÚV á því að hlutafélagavæðast í eigu ríkisins og vinnu sem hefði verið unnin á vegum menntamálaráðuneytisins í samræmi við þennan áhuga. Ég sagði, að þessar breytingar næðu ekki fram að ganga nema um þær væru víðtæk pólitísk samstaða. Innan Framsóknarflokksins eru skiptar skoðanir um málið, því að ungir menn í flokknum vilja hlutafélag í eigu ríkisins en flokksþing framsóknarmanna hefur ályktað á annan veg. Ég sá í Degi, að útvarpsráðsmaður Samfylkingarinnar. Mörður Árnason, telur að breyta þurfi rekstrarfyrirkomulagi og nefndi hann sjálfseignarstofnun. Ég er þeirrar skoðunar, að vilji menn á annað borð fara inn á þessa braut sé hlutafélag mun skynsamlegri kostur fyrir svo stóra stofnun í samkeppnisrekstri en sjálfseignarskipulag. Tók þátt í umræðum utan dagskrár um kjarnorkuvopn og Ísland . Taldi það til marks um að mér hefði tekist bærilega að koma skoðunum mínum til skila, þegar Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, fór á gamlar nótur og kenndi mig við kaldastríðið. Hitti þátttakendur í tungumálanámskeiði á vegum Evrópskrar miðstöðvar um tungumál, sem starfar á vegum Evrópuráðsins og er með aðsetur í Graz í Austurríki.
Þriðjudagur 19.10.1999
Flutti tvö mál á alþingi. Annars vegar frv. um breytingar á grunnskólalögum um breytingar á samræmdum prófum og hins vegar frv. um breytingar á framhaldsskólalögum. Bendi ég áhugamönnum um þessi frumvörp á hinn aðgengilega vef alþingis www.althingi.is en með því að fara inn á þingdaginn 20. október geta þeir lesið þær ræður, sem voru fluttar um þessi tvö frumvörp.
Laugardagur 16.10.1999
Klukkan 10.45 flaug ég til Egilsstaða. Í hádeginu efndi ég til fundar með forvígismönnum Gunnarsstofnunar, sem hefur aðsetur á Skriðuklaustri. Klukkan 14 hófst 20 ára afmælishátíð Menntaskólans á Egilsstöðum í Valaskjálf. Að loknum ávörpum og skemmtiatriðum nemenda var boðið í kaffi í skólahúsinu, síðan var opnuð sýning á andlitsmyndum Kjarvals á Austfirðingum í Safnastofnun Austurlands. Þá átti ég fund um framtíð Eiða en þar standa mannvirki ónotuð eftir að ákveðið var, að starfsemi Menntaskólans á Egilsstöðum var sameinuð á einum stað. Tók ég flugvél heim klukkan 19.25.
Föstudagur 15.10.1999
Klukkan 20 flutti ég ræðu og opnaði kynningarsýningu á vegum Hönnunarsafns Íslands, sem er að hefja starf sitt í Garðabæ.
Fimmtudagur 14.10.1999
Klukkan 11.00 hélt ég til Akureyrar. Þar tók ég þátt í umræðum á aðalfundi Útvegsmannafélags Norðurlands um menntamál. Voru þar kynntar hugmyndir um að einkavæða nám stýrimanna og vélstjóra í samræmi við ályktun á síðasta aðalfundi LÍU. Þá fór ég í Menntaskólann á Akureyri og hitti forvígismenn hans. Ég leit inn í Listasafn Akureyrar og ræddi við Hannes Sigurðsson, nýráðinn forstöðumann. Loks var ég viðstaddur þegar Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, rituðu undir samstarfssamning um skrifstofu ÍSÍ á Akureyri. Tók ég flugvél klukkan 18.10 og var kominn á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum í Borgarleikhúsinu klukkan 20.
Miðvikudagur 13.10.1999
Dagskrá alþingis gerir ráð fyrir því að síðdegis á miðvikudögum svari ráðherrar fyrirspurnum. Ég svaraði að þessu sinni fyrirspurn um símenntun og fjarkennslu frá Svanfríði Jónasdóttur. Klukkan 17.00 fór ég í dægurmálaútvarp rásar 2 hjá RÚV og ræddi við Leif Hauksson, einkum um RÚV. Gat ég þar leiðrétt þann misskilning, að ég væri talsmaður þess að RÚV færi að senda út efni á annarri rás. Sagðist ég ekki sjá neina ástæðu fyrir ríkið til að standa að íþróttarás í sjónvarpi, það væri verkefni, sem einkaaðilar gætu sinnt.
Þriðjudagur 12.10.1999
Að kvöldi þriðjudagsins stóð Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, fyrir opnum fundi í hátíðarsal Háskóla Íslands um rannsóknir og kennslu við HÍ. Var hann vel sóttur og umræður málefnalegar en ég tók þar þátt í pallborðsumræðum.
Mánudagur 11.10.1999
Annan hvorn mánudag eru svonefndar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á dagskrá alþingis. Þá geta þingmenn spurt ráðherra um hvaðeina, sem þeir telja, að eðlilegt sé að þeir svari. Eru 30 mínútur ætlaðar í þennan lið á dagskrá þingsins og hefst hann klukkan 15.00 að loknum þingflokksfundum. Þennan mánudag spurði Svanfríður Jónasdóttir mig um menningarhús og Ísólfur Gylfi Pálmason um Fræðslunet Suðurlands. Menntamálaráðuneytið efnir að minnsta kosti tvisvar sinnum á skólaárinu til samsráðsfundar með skólameisturum. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í Reykholti í Borgarfirði. Fór ég þangað síðdegis, tók þátt í umræðum og kvöldverði.
Föstudagur 8.10.1999
Klukkan 13.00 ráðstefna um konur og lýðræði sett í Borgarleikhúsinu. Klukkan 15.30 fyrsta skóflustunga að nemendagörðum við Sjómannaskólahúsið, 20 ára afmæli BÍSN.
Mánudagur 4.10.1999
Stefnuræða forsætisráðherra. Þriðjudagur 5. október Klukkan 11.30 ritað undir samning við Háskóla Íslands í Ráðherrabústaðnum.
Sunnudagur 3.10.1999
Fórum um kvöldið í Hafnarborg og hlýddum á Tríó Reykjavíkur á fyrstu tónleikum vetrarins.
Laugardagur 2.10.1999
Klukkan 11.00 Menntaskólinn við Sund 30 ára, afmælishátíð þar sem ég flutti ávarp. Klukkan 16.30 litum við inn á 75 ára afmælissýningu Félags ísl. gullsmiða, sem verið var að opna í Ráðhúsinu. Klukkan 17.00 setti ég kínverska kvikmyndahátíð í Háskólabíói og horfði síðan á kvikmyndina Ópíumstríðið. Klukkan 20.30 fórum við í Tjarnarbíói á mögnuðu dansleiksýninguna ber hjá hópnum Dansleikhús með Ekka.
Föstudagur 1.10.1999
Alþingi sett klukkan 13.30 - messa í Dómkirkjunni, hin fyrsta eftir gagngera viðgerð á henni, sem ekki er lokið. Bekkir hafa meðal annars verið styttir þannig að unnt er að ganga inn í þá frá útvegg kirkjunnar. Um þetta hafði staðið áralöng deila milli safnaðarnefndar og húsafriðunarnefndar. Heimilaði ég að lokum, að bekkirnir yrðu styttir. Sé ég ekki annað en allt sé þetta til bóta í kirkjunni. Klukkan 17.00 haldið upp á 35 ára afmæli Tækniskóla Íslands í Salnum í Kópavogi, þar sem ég flutti ávarp. Klukkan 20.30 fórum við á frumsýningu á hinu áhrifamikla leikriti Fedra í Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins.