25.10.1999 0:00

Mánudagur 25.10.1999

Kom síðdegis 25. október til Parísar frá Róm og fór þá í skoðunarferð um Jeu de Paume safnið í hjarta Parísar, við Concorde-torgið, undir leiðsögn Errós, en sýning hans í safninu var opnuð þar daginn eftir. Var það ekki síður mikil menningarferð að fara um þessa glæisilegu sýningu með Erró en skoða minjarnar í Róm, þótt ólíku sé saman að jafnan, því að Erró dregur upp mynd af atburðum og lífi þessarar aldar með einstökum hætti en í Róm varð meira en 2000 ára saga ljóslifandi fyrir augum okkar. Erró hafði ég aðeins hitt lítillega áður og aldrei gefist tækifæri til að ræða við hann eða heyra hann sjálfan lýsa list sinni. Var því enn ánægjulegra en ella að fá að ganga með honum um glæsilega salina, þar sem verk hans njóta sín eins og best verður kosið. Hitt er ekki síður skemmtilegt að kynnast hinum sterka og íslenska persónuleika Errós og finna tengsl hans við hvern einstaka þátt í margbrotnum myndum sínum. Eftirminnilegust þykir mér myndin, sem hann málaði eftir för sína til Kambódíu, þar sem hann kynntist grimmdarverkum Pol Pots og lýsir óhugnanlegum áhrifum þeirra á sig. Um kvöldið kom Rut kona mín til Parísar beint úr ferðalagi til Kína með Kammersveit Reykjavíkur, þar sem þau höfðu meðal annars leikið á tónleikum fyrir um 2500 manns. Klukkan 19.00 þriðjudaginn 26. október fórum í Jeu de Paume, þar sem nokkur hundruð manns voru saman komin til að samfagna með Erró, þegar sýning hans var formlega opnuð. Meðal gesta var Catherine Trautmann, menningarmálaráðherra Frakklands, var hún rúmlega klukktíma að skoða sýninguna undir leiðsögn Errós. Lét hún eins og aðrir í ljós mikla hrifingu yfir listaverkunum. Daginn eftir sótti ég aðalráðstefnu UNESCO, sem var að hefjast í París. Síðdegis var síðan sameiginlegur fundur okkar frú Trautmann í menningarmálaráðuneytinu, sem André Malraux stofnaði undir de Gaulle fyrir réttum 40 árum. Stóð fundur okkar í rúma klukkustund og lögðum við þar á ráðin um samstarf þjóðanna í menningarmálum.