Dagbók: ágúst 2006

Fimmtudagur, 31. 08. 06. - 31.8.2006 21:22

Rétt fyrir hádegi var tekið við mig viðtal fyrir síðdegisútvarp Rásar 2 og snerist það að mestu um störf og starfshætti lögreglu. Einnig var ég spurður um, hvort ég ætlaði í framboð næsta vor og sagðist ég ætla að bjóða mig fram einu sinni enn og sækjast eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Var í Kastljósi þar sem Kristján Kristjánsson ræddi við mig um fangelsismál. Ég hafnaði því alfarið, að eitthvert ófremdarástand ríkti hér í fangelsismálum - þvert á móti hefði verið tekið skipulega á öllum þáttum fangelsismála og fyrir lægju skýrar hugmyndir um, hvernig standa ætti að endurnýjun húsakosts, þegar fjármunir fengjust. Rétt væri að fíklum í fangelsum hefði fjölgað og þar væru því miður nokkrir harðsvíraðir ungir menn. Markmið mitt væri, að ná fólki í þessum vanda í meðferð áður en kæmi að því, að dæma yrði það til fangavistar. Í samvinnu við nýjan lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu hefði ég lagt á ráðin um aðgerðahóp til að takast á við fíkniefnasala. Ég væri viss um, að enn væri unnt að ná betri árangri með nýjum starfsaðferðum lögreglu og tollgæslu. Þá hefði verið tekin ákvörðun um fíkniefnahund á Litla Hrauni, en hann kæmi frá Þorsteini Hraundal og myndi nánar skýrt frá því síðar. Loks hefði mér daginn áður verið kynnt ný skýrsla um uppbyggingu á Litla Hrauni, sem sýndi 100 milljón króna sparnað við framkvæmdir frá fyrri skýrslu. Undirbúa yrði allar framkvæmdir vel og af kostgæfni til að tryggja ýtrustu hagkvæmni - að loknum slíkum undirbúningi yrði að óska eftir fjármunum með nauðsynlegum þunga.

Miðvikudagur, 30. 08. 06. - 30.8.2006 23:06

Fréttablaðið birti á forsíðu frétt þess efnis, að ég hefði gert tillögu til forseta Íslands um uppreist æru fyrir Árna Johnsen og í fjarveru forseta hefðu handhafar forsetavalds samþykkt hana.

Tillagan er í samræmi við að minnsta kosti 30 ára lagaframkvæmd eins og fram kom í fréttatilkynningu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem út var gefin vegna áhuga fjölmiðla á málinu. Ef tillagan hefði ekki verið gerð, úr því að ósk lá fyrir frá Árna um uppreist æru, hefði mátt spyrja ráðuneytið, hvort Árni ætti ekki að njóta jafnræðis.

Vegna fyrirspurna fjölmiðlamanna gaf ráðuneytið út aðra tilkynningu um tíðni umsókna um uppreist æru, en þeim hefur fækkað undanfarin ár, enda skiptir hún í raun litlu, hreinsar til dæmis ekki sakarvottorð eins og sumir virðast halda.

Ég fékk nokkur tölvubréf vegna málsins og þar mátti enn greina óvild í garð Árna auk þess sem engu var líkara en bréfritarar teldu, að handhafar forsetavalds hefðu haft eitthvert val um að skrifa undir tillöguna.

Enn hefur vakið mér undrun, hve fljótt hrapað er að órökstuddri niðurstöðu, þegar um mál af þessum toga er að ræða. Í okkar þjóðfélagi bera einstaklingar skyldur og eiga rétt, hvort sem þeir heita Árni Johnsen eða eitthvað annað. Uppreist æru ræðst af rétti þess, sem um hana sækir - málið er ekki flóknara en það.

Þriðjudagur, 29. 08. 06. - 29.8.2006 22:26

Rætt var við mig í Spegli Rúv um fangelsismál og baráttu gegn fíkniefnum. Mér kom í hug þegar ég ræddi málið og svaraði spurningum um, hvað ég ætlaði að gera til að stemma stigu við fíknefnavandanum, eins og ekkert væri sjálfsagðara en að ég gripi til harðra aðgerða í því skyni, að í þessum sama Spegli hefur jafnan verið leitast við að gera það frekar tortryggilegt, þegar ég ræði um nauðsyn þess að efla löggæslu, hvort heldur ég mæli með því að styrkja sérsveitina, kynni hugmyndir um þjóðaröryggisdeild eða segjast ætla að beita mér fyrir umræðum um leyniþjónustu. Án þessara aðgerða eða annarra af sama toga verður þó ekki tekið á fíkniefnavandanum af meiri þunga af hálfu þeirra, sem starfa að því á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Vilji menn ekki afhenda lögreglunni góð tæki til að vinna störf sín, bitnar það á störfum hennar.

Ég minni á blaðamanninn, sem sagðist frekar vilja, að barnið dytti í brunninn en að byrgja hann með þjóðaröryggisdeild. Mér skilst, að hann sé nú farinn til starfa hjá íslensku friðargæslunni.

Þeir félagar á Bylgjunni síðdegis ræddu einnig við mig um þessi sömu mál. Þeirra viðhorf er allt annað en hjá þeim, sem stjórna umræðum í Speglinum. Það er líka miklu meira hlustað á þátt þeirra en Spegilinn.

Mánudagur, 28. 08. 06. - 28.8.2006 22:55

Regla er að komast á fundi og annað eftir sumarleyfi, til dæmis fór ég í fyrsta skipti eftir sumarlokun í hádegisverð í Skála alþingis.

Blaðið snýr sér til Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns frjálslyndra, Lúðvíks Bergvinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, og Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, í tilefni af þeim fréttum úr ræðu minni 24. ágúst, að ég vilji ræða stofnun leyniþjónustu og kanna pólitískan vilja. Fyrirsögnin er að sjálfsögðu málefnaleg: Þráhyggja og bull.

Mér finnst blaðamaðurinn, Höskuldur Kari Schram, gera svör þingmannanna kjánalegri um þetta alvarlega mál en efni standa til, þegar þau eru lesin. Lúðvík Bergvinsson segir meðal annars: „Það er kannski rétt að fara að taka þetta alvarlega en þá gerum við líka ríka kröfu til hans að hann útskýri hvað hann á við.“ Þetta er einmitt það, sem fyrir mér vakir.

Steingrímur J. segir: „Það er fráleitt að stofna einhverja leyniþjónustu sem heyrði bara undir einn pólitískan ráðherra og hefði það verkefni að njósna um fólk.“ Ég er sammála Steingrími J. um þetta enda mun tillaga mín ekki snúast um þá skipan, sem hann telur fráleita.

Engu er líkara en ritstjóri Blaðsins hafi gefið starfsmanni sínum fyrirmæli um að gera orð mín tortryggileg, mér finnst hins vegar ástæðulaust að láta slík fyrirmæli bitna á þeim, sem rætt er við um málið í Blaðinu.

Mér er í raun óskiljanlegt, hvers vegna blaðamenn vilja draga upp brenglaða mynd, þegar þessi mál ber á góma. Greingarstarf lögreglu beinist að öðru en hryðjuverkum, sé mönnum svo annt um, að ekkert sé gert til að styrkja varnir gegn þeim. Ég fékk til dæmis þetta bréf frá móður í dag undir fyrirsögninni: Leyniþjónusta - nýtt hlutverk.

„Mig langar að koma á framfæri við þig hugmynd.
Hvernig væri að einbeita sér að því að koma á fót kröftugum hópi manna sem vinnur að því einu að uppræta sölu á  fíkniefnum sem virðist blómstra hér á Íslandi.
Vissir þú að það er auðveldara fyrir ungling að fá keypt fíkniefni en bjór.
Ég er rasandi yfir því hvað þessi fíkniefnasala virðist fá að blómstra hér á landi.
Er ekki kominn tími til að taka á þessu vandamáli þ.e að uppræta söluaðilana af einhverri alvöru.
Ég er viss um þú ert sömu skoðunar og ég.
Við getum ekki bara talað um forvarnir endalaust, nú er tími til að hjóla í þá sem hagnast af neyslu annarra.“
 
Ég er vissulega sammála því, sem þarna kemur fram. Þær heimildir, sem almennt felast í lögum um leyniþjónustu, veita lögreglu öflugri tæki en nú til að takast á við fíkniefnasala og aðra skipulagða glæpastarfsemi. Hvers vegna skyldi Blaðið setja fyrirsögnina: Þráhyggja og bull á frétt um ráðstafanir til að styrkja löggæslu?

 

Sunnudagur, 27. 08. 06. - 27.8.2006 21:30

Var klukkan 11.00 í Snorrastofu í Reykholti og hitti þar Berg forstöðmann og kynnti mér starfsemi stofunnar en fyrir skömmu sýndi sveitarstjórn Borgarbyggðar mér þann heiður að kjósa mig í stjórn Snorrastofu. Starfsemi hennar hefur vaxið og dafnað undanfarin ár undir forystu Bergs og í góðu samstarfi við sr. Geir Waage, sóknarprest í Reykholti, og frumkvöðul að því að hefja staðinn til nýrrar virðingar með góðum stuðningi konu sinnar, Dagnýjar Emilsdóttur, sem stjórnar móttöku gesta á vegum Snorrastofu.

Vorum í fjölsóttri messu hjá sr. Geir kl. 14.00, síðan í kirkjukaffi og hlýddum síðan á fyrirlestur Guðrúnar Sveinbjörnsdóttur, forleifafræðings, um fornleifagröft til að rannsaka sögu kirkjubygginga í Reykholti, en hún telur, að nú sé komið niður á fyrstu kirkjuna eftir kristnitöku. Öll sæti í sal Snorrastofu voru setin undir fyrirlestri Guðrúnar.

Að loknum fyrirlestrinum leiddi Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður allan hópinn austur að nýendurgerðri, gömlu kirkjunni í Reykholti, sem nú er orðin hluti af húsaminjasafni Þjóðminjasafns. Hún bað mig að opna kirkjuna og síðan afhenti ég sr. Geir lykilinn að henni.´

Héldum af stað heima leið kl. 17. 30 og ókum í einstaklega falleu veðri um Uxahryggi og Þingvelli til Reykjavíkur.

Laugardagur, 26. 08. 06. - 26.8.2006 21:18

Fórum uppúr hádeginu í Borgarnes og skoðuðum tvær sýningar Landnámssetursins - um landnámið annars vegar og Egil Skallagrímsson hins vegar. Þótti okkur það allt vel gert. Fjöldi manns var í setrinu, þegar við komum en á þá var að hefjast aukasýning á Mr. Skallagrímsson, þar sem Benedikt Erlingsson er sagður fara á kostu, Við hittum Kjartan Ragnarsson, leikara og leikstjóra, annan stofnanda setursins í anddyri þess, þar sem hann aðstoðaði okkur við að fá heyrnartæki, áður en við héldum á sýninguna um Egil. Á leiðinni út hittum við Sigríði Margréti Guðmundsdóttur, fréttakonu á sjónvarpinu, hinn stofnanda setursins, en hún var á leið að skera blóm til skreytinga í veitingastað, sem þau hjón reka við hlið setursins. Af máli þeirra réðum við, að umsvifin hefðu verið mikil og góð, frá því að setrið var opnað í maí.

Ókum að Reykholti og hlýddum þar á orgel- og söngtónleika klukkan 17.00, þar sem þau komu fram Magnea Tómasdóttir söngkona og Guðmundur Sigurðsson organisti við góðar undirtektir.

Fimmtudagur, 24. 08. 06. - 24.8.2006 20:52

Var í hádeginu í Ársal Hótel Sögu á fundi Rótarýklúbbs Austurbæjar, þar sem ég flutti ræðu um varnarmálin. Lagði ég áherslu á hlut okkar Íslendinga sjálfra í öryggismálum en mér finnst hann gjarnan gleymast í umræðunum um varnarviðræðurnar við Bandaríkjamenn.

Hitti Anne-Francoise Hivert blaðakonu frá franska dagblaðinu Liberation, sem er hér til þess meðal annars að skrifa um öyggismálin. Hún virðist vel að sér um það, sem hér er efst á baugi.

Fyrr í sumar hitti ég blaðamann frá Le Monde, sem hingað kom. Virðast franskir fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á þeim þáttaskilum, sem eru að verða í samskiptum okkar og Bandaríkjanna. Ég hef ekki orðið var við neinn sambærilegan áhuga hjá bandarískum fjölmiðlum.

Miðvikudagur, 23. 08. 06. - 23.8.2006 20:19

Evrópunefnd kom saman til fundar í hádeginu.

Ég hef ekki áttað mig til fulls á því, fyrr en ég horfði á Kastljósið í kvöld, um hvað ágreiningurinn er einkum núna vegna Kárahnjúkastíflunnar. Þar hittust þeir og ræddu málið undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar: Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Guðmundur Páll Ólafsson, náttúruunnandi og rithöfundur.

Ágreiningurinn á lokadögum stíflugerðarinnar snýst um aðgang að lokaðri skýrslu Landsvirkjunar, sem er afhent af þeim, sem ber ábyrgð á gerð hennar, en ekki bókaverði Landsvirkjunar. Skýrslan hefur til dæmis verið afhent Guðmundi Páli. Spurningin er um það hvað felst í orðunum „lokuð skýrsla“. Friðrik sagði skýrsluna ekki trúnaðarmál en Guðmundur Páll taldi svo vera, enda hefði blaðamaður ekki fengið skýrsluna fyrr en klukkutíma, eftir að hann bað um hana.

Þá er deilt um það, hvers vegna Grímur Björnsson jarðfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) fær ekki að tjá sig opinberlega um niðurstöður sínar eftir lestur á skýrslum  hjá Landsvirkjun um gerð stíflunnar og rannsóknir vegna hennar. Grímur hefur setið stjórnarfund Landsvirkjunar og rætt við starfsmenn hennar og óháða matsmenn og sagt álit sitt. Friðrik segir OR ráða því, hvaða reglur gilda um málfrelsi starfsmanna hennar. Guðmundur Páll gefur til kynna, að OR sé beitt þrýstingi í málinu.

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 20. ágúst var sagt frá því, að Grímur Björnsson hefði veitt Morgunblaðinu vilyrði fyrir ýtarlegu viðtali þar sem hann ætlaði að tjá sig sem vísindamaður. Þegar taka átti viðtalið tjáði Grímur blaðamanni Morgunblaðsins að hann mætti ekki tjá sig um málefni samkeppnisaðila og því gæti hann ekki veitt umrætt viðtal.

Loks er deilt um það, hvort lýðræðisleg ákvörðun hafi verið tekin um Kárahnjúkastífluna. Friðrik segir svo vera, enda hafi alþingi samþykkt hana og ýmsar sveitarstjórnir. Guðmundur Páll segir það ekki til marks um lýðræði.

Guðmundur Páll talaði á þann veg, að líklegt væri, að stíflan brysti. Friðrik andmælti því og sagði málflutning Guðmundar Páls minna sig á hrakspárnar um, að Hvalfjarðargöngin yrðu ónothæf vegna leka og Búrfellsvirkjun gagnslaus vegna ísmyndunar.

Eftir að hafa hlustað á rökræður þeirra Friðriks og Guðmundar Páls er enginn vafi í mínum huga um, að Friðrik hafði miklu meira til síns máls en Guðmundur Páll. Kannski er ekki að marka mig, vegna þess að ég er fyrir löngu bólusettur gegn samsæriskenningum og heimsslitaspám.

Þriðjudagur, 22. 08. 06. - 22.8.2006 21:25

Fór í dag í leiðangur til Þingvalla með Pétri M. Jónassyni prófessor og Sigurði K. Oddssyni þjóðgarðsverði og ræddum við verndun þjóðgarðsins en ekki síst Þingvallavatns og lýsti Pétur miklum áhyggjum sínum af hættunni vegna mikillar umferðar um nýjan Gjábakkaveg og nálægðar hennar við vatnið.

Á leiðinni austur fórum við heim að Hrísbrú og þar kynnti Jesse Byock prófessor okkur merkar fornleifarannsóknir sínar.

Menntamálaráðuneytið birti í dag fréttatilkynningu um niðurstöðu úttektar á vegum OECD á íslenska háskólastiginu. Í frásögn Morgunblaðsins af úttektinni segir meðal annars:

„Í skýrslunni segir, að íslenska háskólakerfið hafi sýnt mikinn sveigjanleika og samkeppni milli háskóla hafi leitt til þess að komið hafi verið til móts við vaxandi eftirspurn en Ísland er nú í fjórða sæti innan OECD hvað varðar sókn í háskólamenntun.

Sérfræðingarnir segja, að stefna stjórnvalda hafi borið árangur og leitt til öflugrar háskólastarfsemi. Hins vegar megi benda á að frjálsræði geti orðið of mikið og komið niður á langtímamarkmiðum og góðri nýtingu fjármagns.

Farið er í skýrslunni lofsamlegum orðum um námslánakerfið á Íslandi og hvernig það hefur stuðlað að jafnrétti til náms. Þar segir þó, að mikilvægt sé að leggja áherslu á jafnræði nemenda, þ.e. að gæði þeirrar menntunar sem þeir njóta séu mikil og skili sér í tækifærum á vinnumarkaði.

Sérfræðingarnir segja, að Ísland standi framarlega í alþjóðavæðingu háskólamenntunar sem mikilvægt sé að viðhalda. Virkt alþjóðlegt rannskóknarsamstarf styðji við íslenska háskólamenntun. Mikilvægt sé að afla upplýsinga um hvernig menntun þeirra sem stunda nám erlendis skili sér til Íslands.“

Ég fagna þessum dómi OECD um þá háskólastefnu, sem ég hafði frumkvæði af að móta. Hún er í hrópandi mótsögn við neikvæð skrif Samfylkingarmanna um árangur í menntamálum, svo að ekki sé meira sagt.

Í kveðjuræðu sinni á flokksþingi framsóknarmanna sagði Halldór Ásgrímsson:

„Framlög ríkisins til fræðslumála eru áætluð 33,1 milljarður í fjárlögum 2006 og hafa aukist að raungildi um 12,3 milljarða frá árinu 1998 eða um 59%. Framlög ríkisins til fræðslumála samkvæmt fjárlögum 2006 nema um 3,2% af áætlaðri vergri landsframleiðslu. Árið 1998 nam þetta hlutfall 2,6%.

Framlög ríkisins til háskólastigsins eru áætluð um 16,7 milljarðar í fjárlögum 2006 og hafa aukist að raungildi um 7,4 milljarða króna frá árinu 1998 eða um 80% að raungildi.“

Sunnudagur, 20. 08. 06. - 20.8.2006 21:44

Einstaklega fallegur dagur í Fljótshlíðinni og naut ég hans við slátt fram að hádegi. Í fyrra sló ég síðasta slátt 13. ágúst, svo að þetta er kannski hinn síðasti á þessu sumri.

Þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson eru sammála um eitt núna - að flokksþing framsóknarmanna hafi verið þing hinna glötuðu tækifæra eins og Össur orðaði það á vefsíðu sinni og Ingibjörg Sólrún síðan í sjónvarpsfréttum í kvöld.

Á Ingibjörgu Sólrúnu var að skilja, að framsóknarmenn hefðu glatað tækifæri með því að kjósa ekki konu sem formann.  Össur er örugglega sannfærður um, að Samfylkingin hefði ekki glatað eins miklum stuðningi samkvæmt skoðnakönnunum, hefði karl verið kjörin formaður Samfylkingarinnar síðast.

Flokksþing eru jafnan upphaf tækifæra í lífi stjórnmálaflokks. Gildi þeirra ræðst af því, hvernig forystusveit og flokksmönnum tekst að vinna úr því, sem þingin ákveða.

Laugardagur, 19. 08. 06. - 19.8.2006 20:01

Fallegur menningarnætur dagur og tugþúsundir manna í borginni að njóta þess, sem í boði er.

Jón Sigurðsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins með um 54% atkvæða eftir baráttu við Siv Friðleifsdóttur. Guðni Ágústsson endurkjörinni varaformaður með um 60% eftir baráttu við Jónínu Bjartmarz. Sæunn Stefánsdóttir nær því sjálfkjörin ritari eftir að Kristnn H. Gunnarsson og Birkir J. Jónsson þingmenn drógu framboð til baka.

Eftir að hin nýja forystusveit hefur verið kjörin, leggja framsóknarmenn mikla áherslu á nauðsyn þess að ná sáttum í flokknum - það muni örugglega takast. Í kosningabaráttunni fyrir flokksþingið var  hvað eftir annað áréttað, að innan flokksins ríkti ekki ágreiningur um nein málefni.  Um hvað hafa framsóknarmenn deilt svona mikið? Hvaða mikla ágreiningi hefur nú verið ýtt til hliðar?

Ég óska nýrri forystusveit Framsóknarflokksins til hamingju með kjörið og alls góðs í mikilvægum störfum.

Föstudagur, 18. 08. 06. - 18.8.2006 19:44

Flokksþing framsóknarmanna var sett með kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar, fráfarandi formanns. Halldór gagnrýndi það, sem hann kallaði ofurtrú einhverra sjálfstæðismanna á Bandaríkin og mátti skilja, að hún hefði jafnvel verið skaðleg fyrir þjóðina í öryggis- og varnarmálum. Þegar litið er til baka og hugað að því, hver barðist hvað harðast fyrir nánum tengslum við Bandaríkin var það enginn annar en Jónas Jónsson frá Hriflu, stofnandi Framsóknarflokksins. Hann boðaði utanríkisstefnu kennda við Leifslínuna til að árétta mikilvægi tengslanna við Bandaríkin, ekki síst í öryggismálum.

Fimmtudagur 17. 08. 06. - 17.8.2006 10:52

Héldum kl. 07. 50 akandi frá Bayreuth og var klukkan um 11.30, þegar við skiluðum bílaleigubílnum á flugvellinum í Frankfurt am Main. Héldum af stað með Icelandair undir 14.30 og lentum 15. 20 í Keflavík.

Las í Morgunblaðinu að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, væri reiður yfir, að bæjarstjórn Akureyrar hefði ekki fengið svar um þá ósk sína, að þyrla yrði þar til taks, í skýrslu um þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslu Ísland og eflingu hennar. Skýrslan snýst um hvaða kröfu beri að gera til þyrla gæslunnar. Hvar einstakar þyrlur verða á hverjum tíma er önnur spurning, sem þessi starfshópur átti ekki að svara. Svarið við ósk bæjarstjórnar Akureyrar liggur einfaldlega ekki fyrir í þessari ágætu skýrslu, af því að höfundum hennar var ekki falið að gefa það. Staðarval fyrir þyrlur, svo að þær nýtist sem best á hverjum tíma, ræðst af mörgum þáttum, sem eðlilegt er, að séu ræddir, eftir að ákveðið er, hvaða gerð af þyrlum ætlunin er að reka.

Miðvikudagur, 16. 08. 06. - 16.8.2006 10:50

Fórum og sáum lokaþátt Niflungahringsins - Ragnarök - og stóð sýningin frá 16.00 til 22.35 með tveimur klukkustundarhléum. Það hefur verið einstakt að sjá þetta stórvirki Wagners hér í Bayreuth.

Þriðjudagur, 15. 08. 06. - 15.8.2006 20:42

Skoðuðum sýningu í Óperuhúsinu í Bayreuth í tilefni af því, að 130 ár eru liðin frá fyrstu uppfærslu Niflungahringsins. Þar er að finna frásagnir frá öllum uppfærslunum, sýnishorn af leikmyndum og búningum auk þess sem lýst er viðtökum við einstökum uppfærslum og fjallað sérstaklega um það, hvernig Hitler leitaðist við að nýta sér verk Wagners. Uppfærslan frá 1976 er sú, sem fengið hefur bestar viðtökur áheyrenda í Festspielhaus, en sagt er að lófatakið í lok Ragnaraka hafi varað í 90 mínútur og söngvarar og aðrir hafi verið kallaðir 100 sinnum fram. Þetta gerðist í lok sýningaferilsins, það er eftir að uppfærslan hafði runnið sitt fimm ára skeið - en í fyrstu var henni kuldalega tekið.

Mánudagur, 14. 09. 06 - 14.8.2006 20:36

Sáum Sigfried - Sigurð Fáfnisbana - í Festpielhaus frá 16.00 til 22. 10.

Sunnudagur 13. 08. 06. - 13.8.2006 16:15

Ókum til Nurnberg - um 80 km frá Bayreuth - og skoðuðum gamla bæinn þar.

Laugardagur, 12. 08. 06. - 12.8.2006 16:13

Vorum komin í Festspielhaus kl. 15.30 en þar hófst sýning á Valkyrjunum klukkan 16.00 og lauk um 21.45 með tveimur klukkustundar hléum.

Föstudagur, 11. 08. 06. - 11.8.2006 16:10

Klukkan 17.00 vorum við í Festspielhaus í Bayreuth og fórum þar með þeim hjónum Selmu Guðmundsdóttur og Árna Tómasi Ragnarssyni og fleiri vinum og hittum Wolfgang Wagner og konu hans Gudrun fyrir sýningu á Rínargullinu en þau hjón stjórna starfinu í Festspielhaus og hafa í mörg ár verið í vinahópi Árna Tómasar og Selmu. Wolfgang þurfti að hverfa af braut eftir um 20 mínútur til að taka á móti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem var að koma á sýninguna, sem hófst klukkan 18.00. 

Fimmtudagur, 10. 08. 06. - 10.8.2006 20:28

Skoðuðum hús Richards Wagners í Bayreuth.

Miðvikudagur, 09. 08. 06. - 9.8.2006 20:26

Héldum af stað kl. 07.25 með Icelandair til Frankfurt og ókum þaðan um klukkan 14.00 til Bayreuth, þangað sem við komum um kl. 18.00.

Mánudagur, 07. 08. 06. - 7.8.2006 20:52

Fréttir síðan á föstudag hafa að mestu snúist um hátíðir, umferð og störf lögreglu. Ég heyrði í fréttum sjónvarpsins í kvöld, að talið er, að um 50 þúsund manns hafi sótt hátíðir af ýmsu tagi alls staðar um land en athygli hefur mest beinst að hinum fjölmennustu. Banaslys varð í umferðinni rétt austan við Selfoss í nótt sem leið og setti skugga á hátíðina, sem virðist hafa farið fram innan hóflegra marka, þótt sagt hafi verið fíknefnabrotum og ölvunarlátum af ýmsu tagi.

Þetta er annamesta helgi lögreglu og hefur hún sífellt búið sig betur undir hana, þar á meðal með skýrum og ströngum kröfum til þeirra, sem bera ábyrgð á hátíðum. Lögregla stóð að þessu sinni eins og svo oft áður undir því trausti, sem hún nýtur.

Erfitt er að skilja málstað þeirra, sem leitast við að gera öryggiseftirlit lögreglu á svæðinu við Kárahnjúka tortryggilegt, en telja á hinn bóginn sjálfsagt og eðlilegt, að lögregla hafi eftirlit með þeim, sem sækja skipulagðar útihátíðir, spyrji þá, hvað þeir hafi meðferðis og noti hunda til leitar. Er síður ástæða til að hafa eftirlit með mannaferðum á lokuðum vinnusvæðum við Kárahnjúka og fara að óskum þeirra, sem ráða yfir slíkum svæðum og landi í nágrenni þeirra, en þeim, sem eru að fara á úthátíðir eða brjóta gegn lögum og reglum í umferðinni? Yrði það talið ámælisvert fyrir lögreglu við störf á útihátíðum, að hún beitti þá valdi, sem neituðu að fara að fyrirmælum hennar þar? Þykir ekki öllum sjálfsagt að reynt sé að hafa hendur í hári þess, sem ekur á 200 km hraða á bifhjóli? Hvers vegna á annað að gilda um þá, sem brjóta gegn lögum og reglu í nágrenni Kárahnjúka?

Laugardagur, 05. 08. 06. - 5.8.2006 18:46

Fór í reiðtúr umhverfis Þríhyrning í dag, þegar mér gafst tækifæri til að slást í för með Eggerti Pálssyni, bónda á Kirkjulæk, en hann tók að sér að leiða hóp hestamanna, sem hafði verið á ferð og ætlaði úr Fljótshlíðinni austan við Þríhyrning að Reynifelli og þaðan áfram austur yfir Rangárnar. Nauðsynlegt er að hafa kunnugan leiðsögumann á þessum slóðum, því að sé farið of austarlega við Þríhyrning má auðveldlega lenda í erfiðum mýrarpyttum en þeim hef ég kynnst í göngum með þeim Fljótshlíðarbændum undanfarin ár.

Ferðin að Reynifelli gekk að óskum og þar skildu leiðir, því að við Fljótshlíðingar héldum í áttina að Vatnsdal og þaðan um Tungu og Tumastaði í áttina að Kirkjulæk aftur og tók ferðin tæpar fimm stundir. Veðrið var eins og best verður á kosið til slíkrar ferðar. Eggert bóndi hafði áhyggjur af því, ef þoka hefði verið austan Þríhyrnings en hún getur orðið mjög þykk, eins og í fyrsta sinn sem ég var þar í göngum og sá varla handa minna skil. Við sluppum  við þokuna en fengum smá súld.

Eftir ferðir sem þessar er auðveldara en áður að átta sig á ferðalýsingum í Njálu og tengslum milli bæja á þeim tíma, þegar ferðast var ríðandi eða fótgangandi og engar girðingar  hindruðu menn í að fara stystu leið.

Ég heyrði í fréttum, að Ólafur Ásgeirsson, þjóðskjalavörður, andmælti þeim orðum Ragnars Aðalsteinssonar hrl., að Ólafur væri beittur þrýstingi til að hindra aðgang Ragnars að skjölum í þjóðskjalasafni. Hvaðan skyldi Ragnar hafa heimildir fyrir yfirlýsingum sínum í þá veru?

 

Föstudagur, 04. 08. 06. - 4.8.2006 22:04

Sérkennilegt er, að lesa og heyra skoðanir Ragnars Aðalsteinssonar hrl. á því, hvernig stjórnsýslu er háttað. Lögregla sinnir að hans mati öryggisgæslu við Kárahnjúka vegna „skipana að sunnan“ og þjóðskjalavörður er beittur „þrýstingi að ofan“ þegar hann svarar óskum Ragnars um aðgang að skjölum í Þjóðskjalasafninu á annan veg en Ragnar vill. Að þessar stöðugu samsæriskenningar hæstaréttarlögmannsins eigi erindi í fjölmiðla segir einnig nokkuð um, hve langt fréttamenn eru leiddir í gúrkutíðinni og það jafnvel sömu daga og endalaust er unnt að segja vega-,  flug- og veðurfréttir vegna verslunarmannahelgarinnar.

Að gefnu tilefni árétta ég þá skoðun mína, að eðlilegt sé að birta öll opinber gögn um kalda stríðið hér á landi og úr erlendum skjalasöfnum, sem unnt er lögum samkvæmt og þeim reglum, sem gilda um birtingu slíkra gagna. Alþingi hefur nú ályktað, að nefnd sérfróðra manna skuli koma að ákvörðunum um slíka birtingu í opinberum, íslenskum skjalasöfnum. Um meðferð opinberra skjala og skyldu til að skila þeim til Þjóðskjalasafns gilda lög og ber ráðuneytum að sjálfsögðu að fara að þeim lögum. Að reyna að gera lögbundin skil á skjölum til Þjóðskjalasafns totryggileg byggist á annarlegum sjónarmiðum og samsærisáráttu.

Í byrjun áttunda áratugarins lét Þjóðviljinn hvað eftir annað að því liggja, að í bandarískum skjalasöfnum væri að finna leyndarskjöl, sem sönnuðu landráðakenningar blaðsins á tímum kalda stríðsins. Ég ritaði langar greinar um þessar samsæriskenningar Þjóðviljans í Morgunblaðið og byggði á skjölum, sem bandaríska utanríkisráðuneytið birti í samræmi við bandarísk lög og reglur um slíka birtingu. Eftir að þessar greinar birtust dró úr dylgjum og samsæriskenningum Þjóðviljans um þennan þátt utanríkismálanna.

Ég er sannfærður um, að birting íslenskra skjala frá tímum kalda stríðsins muni þagga niður í samæriskenningasmiðunum og þar með hreinsa andrúmsloftið í umræðum um þetta skeið í Íslandssögunni. Að láta eins og ég sé einhver andstæðingur þess, að opinber gögn frá þessum tíma séu birt og rædd, er með öllu úr lausu lofti gripið og í raun fráleitt. Ég ætti kannski að leita réttar míns fyrir dómstólunum til að fá þessum áburði hnekkt?

Fimmtudagur, 03. 08. 06. - 3.8.2006 18:19

Rikke Hvilshöj, innflytjenda- og flóttamannaráðherra Danmerkur, var ásamt embættismönnum úr ráðuneyti sínu gestur minn í dag og fórum við í útlendingastofnun, síðan til Reykjanesbæjar og fræddumst um málefni hælisleitenda og aðlögun flóttamanna að nýju lífi. Þá fórum við í flugstöð Leifs Eiríkssonar og kynntumst Schengen- eftirtlitskerfinu þar. Ferðinni lukum við síðan í Fræðasetrinu í Sandgerði.

Miðvikudagur, 02. 08. 06. - 2.8.2006 21:58

Eins og jafnan á þessum árstíma verða töluverðar umræður um tekjur og skatta einstaklinga. Umræður um að skattskrár skuli vera opnar öllum um ákveðinn tíma eru einnig orðnar árvissar. Þær sporna kannski gegn því, að farið verði inn á sömu braut og Norðmenn hafa farið, viti ég rétt, að upplýsingar af þessu tagi séu aðgengilegar öllum, alltaf á netinu - telja má næsta víst, að ritstjóri Frjálsrar verslunar yrði því ekki meðmæltur.

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 1. ágúst sagði meðal annars: „Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, segir að með því að hafa álagningaskrárnar opinberar megi sannreyna að ákveðnir hópar taki mun meira til sín en aðrir. Hægt sé að taka á þessu með breytingum á skattkerfinu, menntakerfinu eða fara í auknar jöfnunaraðgerðir í velferðarkerfinu.“ Þá var þetta haft orðrétt eftir Ingibjörgu Sólrúnu: „En þessi ríkisstjórn, hún bara gerir það ekki, vegna þess að hún hefur ekki þá stefnu. Þess vegna er það ríkisstjórnin sem þarf að fara frá og ég ætla ekki að fara að tala hér fyrir neinum aðgerðum öðrum en þeim. Vegna þess að það er fullreynt eftir setu þessarar ríkisstjórnar í 11 ár að hún er ófær um það.“

Þetta er skrýtilegur boðskapur, þegar umræðurnar snúast einkum um það, hve tekjur margra eru háar og athygli beinist einkum að bönkunum og starfsmönnum þeirra, auk þess sem há laun lækna á landsbyggðinni hafa vakið athygli. Ef Ingibjörg Sólrún hefði bent á, að laun bankastjóra og bankastarfsmanna hefðu farið að hækka, eftir að þeir voru einkavæddir og þess vegna hefði ekki átt að selja þá úr ríkiseigu, væri heil brú í röksemdafærslunni um ábyrgð ríkisstjórnarinnar - en hún ber ekki ábyrgð á launagreiðslum einkarekinna banka frekar en annarra einkafyrirtækja.

Raunar má segja, að í þessu svari Ingibjargar Sólrúnar um, að hún ætli ekki að tala fyrir neinum aðgerðum, vegna þess að ríkisstjórn annarra flokka en hennar sé við völd, endurspegli hina algjöru uppgjöf, sem einkennir Samfylkinguna. Rökræður eru bannorð en sjálfstýringin sett gegn ríkisstjórninni eða í stefnu á Brussel og inn í Evrópusambandið - þar á sjálfstæðri efnahagsstjórn á að ljúka í eitt skipti fyrir öll með því að leggja niður krónuna og taka upp evru.

Þriðjudagur, 01. 08. 06. - 1.8.2006 21:34

Undarlegt er, að Ólafur Ragnar Grímsson skuli kjósa að minnast 10 ára setu sinnar í embætti forseta Íslands með því að leitast við að réttlæta ákvörðun sína um að grípa til 26. gr. stjórnarskrárinnar og fram fyrir hendur alþingis vegna fjölmiðlalaganna sumarið 2004 - og ekki aðeins leitast við að réttlæta þetta umdeilda embættisverk siit heldur ganga lengra og telja sig hafa skapað sér meira vald en stjórnarskráin heimilar, vegna ákvarðana ríkisstjórnar og alþingis í framhaldi af hinni umdeildu forsetasynjun. Þegar fjölmiðlafrumvarpið var rætt á alþingi, vissu þingmenn ekkert um afstöðu Ólafs Ragnars til málsins og hann færði ekki efnisleg sjónarmið fram 2. júni 2004, þegar hann tilkynnti synjun sína í beinni útsendingu en nú mætti halda, að hann hefði tekið efnislega afstöðu til málsins á þeim tíma.

Af viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, við orðum Ólafs Ragnars mætti helst ætla, að hann væri að kasta bjarghringi til hennar með þessum orðum sínum. Eins og öllum er ljóst rekur Samfylkinguna með Ingibjörgu Sólrúnu í brúnni nú fyrir veðri og vindum og enginn veit á hvaða skeri hún að lokum lendir - heldur er sú taug veik, ef hún ætlar að nýta afstöðu Ólafs Ragnars í fjölmiðlamálinu til að forða sér frá strandi.

Dorrit Moussaieff, forsetafrú, fékk í gær bréf undirritað af mér og embættismanni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um, að hún væri þann dag orðin íslenskur ríkisborgari. Í Fréttablaðinu í dag segir hún meðal annars af þessu tilefni: „Það á ekki að vera auðvelt að verða íslenskur ríkisborgari. Það er mjög nauðsynlegt að við veljum vandlega hver fær að verða Íslendingur. Við verðum að sjá til þess að fólkið sem hingað kemur gefi eitthvað til baka en lifi ekki af fólkinu sem hér er fyrir.“