17.8.2006 10:52

Fimmtudagur 17. 08. 06.

Héldum kl. 07. 50 akandi frá Bayreuth og var klukkan um 11.30, þegar við skiluðum bílaleigubílnum á flugvellinum í Frankfurt am Main. Héldum af stað með Icelandair undir 14.30 og lentum 15. 20 í Keflavík.

Las í Morgunblaðinu að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, væri reiður yfir, að bæjarstjórn Akureyrar hefði ekki fengið svar um þá ósk sína, að þyrla yrði þar til taks, í skýrslu um þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslu Ísland og eflingu hennar. Skýrslan snýst um hvaða kröfu beri að gera til þyrla gæslunnar. Hvar einstakar þyrlur verða á hverjum tíma er önnur spurning, sem þessi starfshópur átti ekki að svara. Svarið við ósk bæjarstjórnar Akureyrar liggur einfaldlega ekki fyrir í þessari ágætu skýrslu, af því að höfundum hennar var ekki falið að gefa það. Staðarval fyrir þyrlur, svo að þær nýtist sem best á hverjum tíma, ræðst af mörgum þáttum, sem eðlilegt er, að séu ræddir, eftir að ákveðið er, hvaða gerð af þyrlum ætlunin er að reka.