Dagbók: september 2011

Föstudagur 30. 09. 11 - 30.9.2011

KONTRA sjónvarpsrásin í Grikklandi tók viðtal við mig í gegnum Skype í kvöld og ræddi um bankahrunið hér á landi og vildi samanburð við Grikkland. Stóri munurinn er auðvitað sá að Íslendingar ákváðu að lánardrottnar bankanna  sætu uppi með áhættu sína en skattgreiðendur tækju ekki að sér að „greiða skuldir óreiðumanna“ eins og staðan er í Grikklandi auk þess sem gríska ríkið er stórskuldugt en hið íslenska var nær skuldlaust. Hinn mikli munurinn felst í því að Íslendingar ráða yfir eigin mynt og geta lækkað gengi. Grikkir eru hins vegar með evruna og eru þrautpíndir með lækkun launa og hækkun skatta til að bjarga henni. Þeir hafa verið sviptir fjárræði eins og sést nú þegar reynt er að verjast því að fulltrúar þríeykisins, ESB, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabanka Evrópu fái að komast inn í grískar stjórnarbyggingar í Aþenu.

Ástæðan fyrir því að haft var samband við mig er meðal annars bók mín Rosabaugur yfir Íslandi og gagnrýni á hvernig fjölmiðlar gengu fram fyrir hrunið hér á landi, það er Baugsmiðlarnir. Nafn grísku sjónvarpsrásinnar gefur til kynna að henni sé haldið úti til að vega að ráðandi öflum í Grikklandi. Þykir þeim sem að stöðinni standa greinilega merkilegt að ráðherra á Íslandi hafi lent í útistöðum við fjármálafursta á þann veg sem gerðist hér þegar Baugsmenn kusu að gera mig að einum af höfuðandstæðingum sínum.

Í aðdraganda sjónvarpssamtalsins skýrði ég hinum gríska viðmælanda mínum meðal annars frá hinni furðulegu staðreynd að mér hefði verið stefnt fyrir dóm vegna ritvillu sem ég hefði leiðrétt með afsökun. Málaferli af slíku tilefni eru þess eðlis að þeim ætti ekki að ljúka fyrr en í mannréttindadómstólnum í Strassborg til að draga rækilega athygli sem flestra að því hve langt fésýslumenn og lögfræðingar þeirra eru reiðubúnir að ganga í krafti fjármagnsins.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir Ólafur Þ. Stephensen að það sé „fullkomlega galið“ hjá mér að tengja athugasemdir ríkisendurskoðanda við innkaup fyrir lögregluna við launadeilu lögreglumanna.  Athugasemdir ríkisendurskoðanda kunna að eiga rétt á sér. Ég gagnrýni hann ekki fyrir skýrslu hans enda hef ég ekki kynnt mér hana. Hins vegar er ámælisvert að hann opinberi niðurstöðu sína þegar kemur sér verst fyrir lögreglumenn í kjaradeilu þeirra auk þess að hann fari út fyrir umboð sitt með því lýsa ríkislögreglustjóra sem lögbrjóti.

Fimmtudagur 29. 09. 11 - 29.9.2011

Miðað við veðurspána voru síðustu forvöð í dag að ganga um Öskjuhlíðina áður en sterkir vindar feyktu haustlaufunum af trjánum. Ég velti því fyrir hvort væri fegurra að ganga um skóginn í hlíðinni og í Fossvogskirkjugarði á vorin þegar gróðurinn er að lifna eða á degi eins og í dag þegar haustlitirnir og einstök birtan skapa sérstaka litadýrð í laufguðum trjánum. Á morgun kann þetta allt að hafa annan blæ.


Miðvikudagur 28. 09. 11 - 28.9.2011

Í dag ritaði ég pistil þar sem ég lýsi þeirri skoðun að ómaklega sé vegið að lögreglunni í launamálum og vegna kaupa á búnaði á óeirðabúnaði á neyðarstundu auk þess sem ríkisendurskoðandi hafi farið út fyrir starfssvið sitt þegar hann lýsti yfir að yfirstjórn lögreglunnar hefði framið lögbrot.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er í Mexíkó þegar rætt er við hann um málefni lögreglunnar á þessari örlagastundu í málefnum hennar. Ráðherrann er þar til að deila við menn um einkaframkvæmdir í vegagerð. Með því að stofna innanríkisráðuneyti voru of margir ólíkir málaflokkar settir undir einn ráðherra. Þetta dregur úr skilvirkni við stjórn mála innan stjórnarráðsins og leiðir að lokum aðeins til lakari stjórnarhátta.

Í sjónvarpsfréttum klukkan 22.00 var sagt frá hugmyndum um einkaframkvæmd til að efla þyrlukost landhelgisgæslunnar til frambúðar. Þar kom fram að ekki þýddi að ræða þessa leið við Ögmund Jónasson, hann væri á móti henni af hugmyndafræðilegri ástæðu.

Hin hugmyndafræðilega andstaða vinstri-grænna við öll nútímaleg viðhorf til opinberra stjórnahátta veldur vandræðum á sífellt fleiri sviðum.


Þriðjudagur 27. 09. 11 - 27.9.2011

Fjórar forystukonur Samfylkingarinnar hafa gengið fram fyrir skjöldu í dag og veist að einstaklingum og samtökum þeirra. Þetta endurspeglar vaxandi taugaveiklun í röðum Samfylkingarinnar þar sem þingmönnum verður æ betur ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir hefur enga stjórn á málum.

Ráðherrarnir Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Júlíusdóttir sætta sig ekki við að á fundi Samtaka atvinnulífsins fundu menn að aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Jóhanna sagði að fundarmenn notaði orðið „snautlegt“ um það sem fram fór á fundinum. Katrín hafði þetta að segja: „Það hlýtur að hvarfla að manni hvort menn séu orðnir svo blindaðir af flokkapólitík að menn sjái ekki raunveruleikann, og þegar ég segi blindaðir af flokkapólitík þá hefur auðvitað margt breyst. Samtök atvinnulífsins eiga ekki lengur bein handbendi inni í ríkisstjórn eins og þeir áttu áratugum saman.“

Þessi viðbrögð ráðherranna bera ekki vott um mikið jafnaðargeð og svo virðist sem þráðurinn í Jóhönnu styttist með hverju mótlæti sem hún verður fyrir. Nú hefur hún fundið það út með Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta alþingis, að setja beri þing klukkan 10.30 á laugardagsmorgni af því að séu þingfundir á laugardögum hefjist þeir á þeim tíma. Þetta er hins vegar nýmæli í sögu þinsetninga.

Þegar Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, fann að þessari tímasetningu og sagði hana til marks um ótta við almenning fékk hún reiðibréf frá Ástu Ragnheiði. Það er ekki nóg með að Samfylkingin og spunalið hennar taki andköf yfir því ef þingmenn tala oftar á þingi en þeim þykir góðu hófi gegna, þeir mega ekki heldur átölulaust lýsa skoðun sinni utan þingsalarins.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákveður lögregla skuli ekki standa heiðursvörð við setningu. Þetta verður Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, tilefni til reiðilesturs í síðdegisútvarpi rásar 2. Þar sagði hún að lögreglan ætlaði ekki ætla að standa heiðursvörð við þingsetningu Alþingis á laugardag vegna óánægju með launakjör sín.

Landssamband lögreglumanna sendi frá sér yfirlýsingu vegna orða Ólínu þar sem sagði að þau væru „til þess ætluð að skaða virðingu lögreglumanna og sett fram af þekkingarleysi hennar á tildrögum þess að lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tók ákvörðun um að heiðursvörður lögreglumanna yrði ekki staðinn við þingsetningu 1. október nk. Sú ákvörðun tengist kjarabaráttu lögreglumanna ekki á nokkurn hátt og er samtökum lögreglumanna algerlega óviðkomandi“.

Er Ólína hvött til þess að kynna sér staðreyndir málsins og biðja lögreglumenn afsökunar á ummælum sínum.

 

Mánudagur 26. 09. 11 - 26.9.2011

Í dag skrifaði ég pistil þar sem ég segi meðal annars frá stefnu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á hendur mér vegna ritvillu sem hefur verið leiðrétt með afsökun.

Umræður um bók mína Rosabaug yfir Íslandi hafa vaknað að nýju vegna stefnu Jóns Ásgeirs. Hún á jafnmikið erindi til lesenda nú og í vor þegar hún seldist mest bóka hjá Eymundsson. Það er fróðlegt fyrir fólk að lesa bókina með það í huga að Baugsmenn hafa farið í saumana á textanum og aðeins fundið eina prentvillu til að gera að stórmáli.

Hvað sem segja má um stefnu Jóns Ásgeirs er ekki síður forvitnilegt að fylgjast með skrifum Ólafs Arnarsonar, dálkahöfundar á Pressunni. sem er greinilega ráðinn til að snúa út úr því sem ég skrifa auk þess að hafa núna fundið út að Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og eigandi Útgáfufélagsins Uglu, sem gefur út bók mína hafi skrifað nafnlaust bréf sem kom við sögu Baugsmálsins. Jakob hefur mótmælt þessari ásökun Ólafs og segir hana úr lausu lofti gripna.

Fram hefur komið að ýmsir þeirra sem stóðu í stórræðum fyrir hrun og um er fjallað nú hafa ráðið sér almannatengla til að bregðast við því sem um þá er sagt opinberlega. Almennt fara menn ekki leynt með að þeir ráði sér sérfróða menn til slíkra starfa enda ekkert við það að athuga.

Hitt væri í anda Baugsmanna að ráða sér slíka málsvara á laun. Þeim kann að þykja það líklegra til árangurs en að menn viti að viðkomandi sé á launaskrá hjá þeim. Þetta væri einnig í stíl Baugsmanna. Jón Ásgeir átti til dæmis Fréttablaðið í tæpt ár án þess að frá því væri skýrt eða við því gengist. Þá var blaðinu beitt til að koma höggi á þá sem Jón Ásgeir taldi sér andstæða og tók Reynir Traustason, núverandi ritstjóri DV, þátt í þeirri „blaðamennsku“. Hann grípur nú til títuprjóna sinna til að gleðja Baugsmenn með árásum á þá sem þeir telja sér til óþurftar.  Allt gerist þetta fyrir opnum tjöldum og er augljóst þeim sem vilja sjá það. Forvitnilegt væri að vita hvað gerist á bakvið tjöldin.

Sunnudagur 25. 09. 11 - 25.9.2011

Sjónvarpið vann góðverk með því að gera samtíma-heimildarmynd um stjórnlagaþing/stjórnlagaráð og sýna hana strax. Hefði það verið gert seinna hefðu líklega margir talið að um skáldskap væri að ræða svo furðuleg er þessi saga öll og ber mikinn vott um ranga forgangsröðun við stjórn þjóðarinnar á örlagatímum í sögu hennar.

Hneykslismálin í frönskum stjórnmálum taka á sig ýmsar myndir. Hér má lesa um eitt þeirra.Laugardagur 24. 09. 11 - 24.9.2011

Skrapp til Þingvalla í dag og hreyfst af haustlitunum.

Í Sunnudagsmogganum birtist grein í dag um fjölmiðla og þróun þeirra með vísan til hrunsins og þess sem gerst hefur eftir það. Greinin er til marks um hve grunnt blaðamenn kafa þegar þeir fjalla um alvarleg mál. Saga undanfarinna ára sýnir að íslenskri blaðamennsku hefur hrakað. Einföldun er að setja það í samhengi við eignarhald á fjölmiðlum. Eigendur skrifa ekki blöðin þótt þeir eigi að sjálfsögðu síðasta orðið um hverjir starfa á blöðunum.

Saga Baugsmálsins er  öðrum þræði sorgarsaga íslenskrar blaðamennsku. Hún sýnir blaðamenn ekki í góðu ljósi. Sumir þeirra sem þá þjónuðu eigendum Baugsmiðlanna á forkastanlegan hátt starfa enn við blaðamennsku. Þeir þurfa ekki síður að gera upp við fortíðina en fjármálamenn eða stjórnmálamenn. Þá er greinilegt að hér skrifa menn enn í blöð eða netmiðla á þann veg að ganga erinda fjármálamanna án þess að viðurkenna að þeir séu fjölmiðlafulltrúar þeirra.

Föstudagur 23. 09. 11 - 23.9.2011

Í dag var varðskipið Þór afhent Landhelgisgæslu Íslands við hátíðlega athöfn kl. 11:45 að staðartíma (kl. 14:45 að íslenskum tíma) í Asmar skipasmíðastöð sjóhersins í Chile. Við athöfnina flutti Georg Kr. Lárusson, forstjóri landhelgisgæslunnar, ávarp og ræddi þann mikilvæga áfanga sem náðst hefur með smíði varðskipsins. Hún hófst fyrir fjórum árum, í október 2007.  Andrés Fonzo, flotaforingi og forstjóri Asmar skipasmíðastöðvarinna, afhenti skipið og við svo búið gengu Sigurður Steinar Ketilsson skipherra og áhöfn um borð. Dró skipherra íslenska fánann að húni, staðinn var heiðursvörður og islenski þjóðsöngurinn leikinn. Afhending skipsins tafðist um eitt ár eftir jarðskjálfta í Chile í febrúar 2010. Þess er vænst að það komið hingað til lands 27. október.

Skipið veldur byltingu í störfum Landhelgisgæslu Íslands og stenst öllum gæsluskipum á Norður-Atlantshafi snúning. Hér á síðunni má lesa um ýmsa þætti úr sögu skipsins um aðdraganda að smíði þess og þegar lagður var að því kjölur um páskana 2008 en þá fór ég til Chile og heimsótti þá Asmar-menn. Hér má sjá mynd af skipinu sem landhelgisgæslan birti í dag:
Þór

Fimmtudagur 22. 09. 11 - 22.9.2011

Í dag tók Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður að sér að verða verjandi minn í málinu sem Jón Ásgeir Jóhannesson hefur höfðað gegn mér vegna leiðréttrar ritvillu í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Að átta sig á réttarágreiningi í málinu kann að reynast erfitt þar sem ég hef dregið til baka og leiðrétt í 2. prentun bókarinnar þá villu sem Jón Ásgeir telur meiðandi fyrir sig. Auk þess hef ég beðist afsökunar á ritvillunni. Þrátt fyrir þetta hefur Jón Ásgeir stefnt mér og krefst einnar milljón kr. í bætur.

Viðtal mitt við Davíð Þorláksson, nýkjörinn formann ungra sjálfstæðismanna, á ÍNN er komið inn á netið og má skoða það hér.

Miðvikudagur 21. 09. 11 - 21.9.2011

Í dag ræddi ég við Davíð Þorláksson, nýkjörinn formann Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS), í þætti mínum á ÍNN. Hann má sjá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Davíð lýsir stefnu og starfi SUS sem eru fjölmennustu stjórnmálasamtök ungs fólks í landinu. Í samtali okkar kemur fram að í raun sé tæplega unnt að tala um ungliðasamtök í öðrum stjórnmálaflokkum.

Axel Jóhann Axelsson skrifar á blogg sitt 21. september:

„Jón Ásgeir, leiðtogi Baugsgengisins, hefur stefnt Birni Bjarnasyni vegna meiðyrða, þar sem sú villa slæddist inn í fyrstu prentun bókar Björns um Baugsmálið fyrsta, að Jón Ásgeir hefði fengið dóm fyrir fjárdrátt, þegar staðreynd málsins er sú að hann var dæmdur fyrir bókhaldsbrot.

Í huga almennings í landinu stendur Jón Ásgeir fyrir ímynd hins eina og sanna útrásargangsters og engin leið að sverta mannorð hans með ritvillum um þau brot sem hann hefur þegar verið dæmdur fyrir, enda reikna allir með að hann muni fá mun fleiri og þyngri dóma vegna athafna sinna í aðdraganda banka- og efnahagshrunsins, sem Rannsóknarnefnd Alþingis sagði eigendur og stjórnendur bankanna fyrst og fremst ábyrga fyrir.

Þessi kæra Jóns Ásgeirs uppfyllir hins vegar hluta af þeim spádómi Evu Joly að útrásargengin myndu beita öllum brögðum til að leiða athyglina frá gerðum sínum og ráðast með öllum tiltækum ráðum að þeim sem um þá fjölluðu og eins þá rannsakendur sem með mál þeirra fara og munu væntanlega sækja þá til saka fyrir dómstólum. Einnig sagði Eva fyrir um það, að allir helstu og dýrustu lögfræðingar landsins og jafnvel þó víðar væri leitað, yrðu notaðir af útrásargengjunum í baráttunni gegn réttvísinni. Sú spá hefur einnig ræst.

Kæran mun ekki skaða Björn Bjarnason, en sýnir hins vegar enn og aftur hvern mann Jón Ásgeir hefur að geyma.“


Þriðjudagur 20. 09. 11 - 20.9.2011

 

Í umræðum um þingsályktunartillögu frá ríkisstjórninni um lausn landhelgisdeilunnar við Breta 9. mars 1961 sagði dómsmálaráðherra í ræðustól þingsins:  „Ég þarf að leiðrétta hér nokkrar prentvillur.“  Þingmaður kallar fram í: „Jafnvel prentvillupúkinn er á móti ykkur!“ Dómsmálaráðherra: „Eins og fleiri púkar!“

Nú eru rúmir þrír mánuðir síðan ég glímdi við villupúkann í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi og birti opinbera yfirlýsingu með afsökun til að afmá orðið „fjárdrátt“ og setja í staðinn „meiri háttar bókhaldsbrot“ í lýsingu á því fyrir hvað Jón Ásgeir Jóhannesson hlaut skilorðsbundinn þriggja mánaða fangelsisdóm í Baugsmálinu.

Þrátt fyrir yfirlýsingu mína og leiðréttingu sem hlaut mikla kynningu og rataði jafnframt inn í 2. prentun bókarinnar hótaði Jón Ásgeir mér strax með meiðyrðamáli og nokkru síðar sagði Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, að stefna hefði verið samin og hún yrði birt mér eftir réttarhlé. Ég fékk hana afhenta í dag.

Eins og rakið er í Rosabaugi töldu Baugsmenn mig vanhæfan sem ráðherra, þeir vildu að ég yrði rekinn úr embætti, þeir beittu sér gegn mér í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins, þeir hvöttu kjósendur til að strika yfir nafn mitt á kjördag. Það hefði verið stílbrot ef þeir hefðu látið hjá líða að stefna mér fyrir villu sem hefur þegar verið leiðrétt með afsökun.

Fyrir 3. prentun bókarinnar skrifa ég eftirmála um viðbrögðin við henni. Þau sýna að lengi lifir í gömlum glæðum. Er ástæða til að velta fyrir sér hvort svo sé aðeins þegar skrifað er á opinberum vettvangi um Baugsmenn eða einnig þegar kemur að íslensku viðskiptalífi. Þar gerist því miður allt á bakvið tjöldin um þessar mundir.  

Mánudagur 19. 09. 11 - 19.9.2011

Öflugasta atvinnusköpun ríkisstjórnarinnar felst í því að opna glufu í lögum til að fjölga ráðherrum og aðstoðarmönnum þeirra. Það virðist inngróið í vinstrisinnaða stjórnmálamenn að bera vantraust til embættismanna og þess vegna verði þeir að hlaða í kringum sig heilum sæg af já-bræðrum til að hrinda stefnu sinni í framkvæmd. Þetta gerði Steingrímur J. á eftirminnilegan hátt með því að ráða þá Indriða H. Þorláksson og Svavar Gestsson til starfa undir merkjum fjármálaráðuneytisins, annan til að eyðileggja skattkerfið og hinn til að gera Icesave-samninga. Hvoru tveggja þjóðinni til mikillar óþurftar.

Það er ekki nóg með að unnt sé að fjölga ráðherrum og aðstoðarmönnum þeirra vegna nýrra laga um stjórnarráðið heldur hefur einnig verið samþykkt á alþingi að fjölga megi borgarfulltrúum í Reykjavík úr 15 í 31. Til hvers í ósköpunum? Þakka má fyrir að salur þinghússins sé ekki stærri. Ef svo væri hefði Jóhanna & co. flutt tillögu um að fjölga þingmönnum.

Mér blöskrar að með nýjum stjórnarráðslögum skuli aukið vald flutt til forsætisráðherra, sérstaklega nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir situr í embættinu. Verri forsætisráðherra hefur þjóðin ekki kynnst. Jóhanna kemur varla í sjónvarp án þess að segja einhverja vitleysu. Það eitt dygði til þess í öðrum löndum að þingflokkur á bakvið forsætisráðherra gerði ráðstafanir til að halda eigin virðingu með því að falla frá stuðningi við hinn ósannsögula forsætisráðherra. Ég fjallaði um þetta á Evrópuvaktinni í dag eins og hér má sjá.

Sá í dag kínversku myndina Red Cliff sem sýnd er á kvikmyndahátíð í Kringlunni. Mér leikur jafnan hugur á að vita hvernig Kínverjar fella saman íhugun, athugun á náttúruöflunum og hernaðarlist. Það er svo sannarlega gert í þessari mynd, hinni dýrustu sem gerð hefur verið í Asíu. Að ég hafi séð fjölmennari bardagasenur á hvíta tjaldinu dreg ég í efa.

Sunnudagur 18. 09.11 - 18.9.2011

Í dag var réttað í Fljótshlíðinni í ágætu veðri þótt það mætti vera lygnara. Ég held að fjalladrottningin mín hafi ekki skilað sér. Hún ætlar líklega enn að leika þann gráa leik að halda sér til fjalla eins lengi og henni sjálfri sýnist.

Leitirnar í gær hafa leikið mig of hart, þótt um tíma sækti að mér þreyta í réttunum. Reyndist mér síður en svo um of að hlusta á Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar leika í Eldborg Hörpu undir stjórn Gustavos Dudamel. Hann er nú að hætta sem aðalstjórnandi hljómsveitarinnar og fer af því tilefni í tónleikaferð til Norðurlandanna. Harpa laðaði hann og hljómsveitina hingað. Er enginn vafi á því að fleiri stórhljómsveitir munu sigla í kjölfar hennar.


Laugardagur 17. 09. 11 - 17.9.2011

Við Fljótshlíðingar smöluðum í dag norður af Þríhyrningi og í kringum hann. Veðrið var einstaklega gott. Um tíma héldum við að það yrði of heitt til að unnt yrði að þoka safninu áfram. Mér sýnist fénu sem kemur af fjalli fækka ár frá ári.  Haldið var af stað um 07.30 og réttum tólf tímum síðar þvoði ég af mér ferðarykið eða öskuna hér heima. Setan á hestinum var löng og dálítið ströng, sérstaklega þar sem ég hafði ekki farið á hestbak í nokkur misseri þar til í gær þegar við ferjuðum hestana upp að Reynifelli fyrir vestan Þríhyrning. Allt gekk þetta að óskum.

Undanfarna tvo daga hef ég undrast boðskapinn sem á að flytja í nýrri heimildarmynd um Halldór Kiljan Laxness og sagt var frá í Kastljósi að því er virðist öðrum þræði til að ala enn á ósannindum um samskipti föður míns og Laxness, að minnsta kosti þegar myndin er kynnt fyrir Íslendingum. Hér kveður Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson sér hljóðs um málið.

Eitt er að fjölskylda Halldórs Laxness ákveði að gera heimildarmynd um hann fyrir útlendinga í von um að ýta undir sölu á bókum hans á alþjóðamarkaði. Ástæðulaust er að agnúast út í það svo framarlega sem ekki er ráðist ómaklega að öðrum til að upphefja skáldið, hvað þá ef það er gert á fölskum forsendum. Annað er að Kastljós hins óhlutdræga RÚV skuli leggja lykkju á leið sína til að segja frá hinni ófullgerðu heimildarmynd og leggja þar mest upp úr ósannindum um að Bjarni Benediktsson hafi með aðstoð bandarískra yfirvalda getað bundið enda á áhuga Bandaríkjamanna á því að kaupa bækur Laxness.Föstudagur 16. 09. 11 - 16.9.2011 22:16

Í dag fórum við Fljótshlíðingar með hesta upp að Reynifelli fyrir vestan Þríhyrning og bjuggum okkur undir smalið á morgun,

Í gær vitnaði ég í Laxness, þriðja bindi ævisögu Halldórs Kiljans Laxness, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson til að sýna að fullyrðingar í Kastljósi um að íslensk stjórnvöld hafi spillt fyrir sölu bóka Laxness í Bandaríkjunum á fimmta áratugnum af því að þau hafi óttast Atómsstöðina sem kom út árið 1948 standist ekki. Málið snerist um höfundarlaun Laxness í Bandaríkjunum, hvort hann hefði greitt af þeim skatt, hvort hann hefði farið að gjaldeyrislögum, hvort hann nýtti fjármunina til að kosta pólitíska baráttu í þágu kommúnista eða andstæðinga Bandaríkjanna á Íslandi.

Ýmsir hafa brugðist við því sem ég sagði í bloggi eða annars staðar á netinu. Viðbrögðin staðfesta að á netinu sé oft ótrúlega mikil vitleysa sögð með algjöru virðingarleysi fyrir sannleikanum eða vegna fordóma og fyrirlitningar á einstaklingum. Þá sá ég að Andri Snær Magnason rithöfundur líkti afskiptum íslenskra stjórnvalda af gjaldeyriseign Laxness við stjórnarhætti Stalíns. Bjálfaleg samanburðarfræði af þeim toga var gjarnan stunduð í kalda stríðinu þegar menn vildu telja fólki trú um að allt væri í raun betra í Sovétríkjunum en Bandaríkjunum.

Halldór Guðmundsson hefur skrifað ævisögu Laxness. Hann segir einnig frá því sem ég lýsti hér á síðunni í gær með því að vitna í ævisöguna sem Hannes Hólmsteinn skrifaði. Ástæðan fyrir því að ég valdi bók Hannesar í stað bókar Halldórs er sú að Hannes segir nákvæmar frá atriðum þessa máls en Halldór.

Hvorki Hannes Hólmsteinn né Halldór Guðmundsson nefna Atómsstöðina í tengslum við þetta mál eins og virðist gert í nýrri heimildarmynd um Laxness ef marka má það sem fram kom í Kastljósi. Að Laxness ritaði Atómsstöðina til að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína á þessum árum dregur enginn í efa. Kristján Albertsson, rithöfundur og menningarmaður, minntist oft á Atómsstöðina við mig og þótti argasta hneyksli að hún þætti hæf til útflutnings. Hann hafði örugglega rétt fyrir sér að bókin yki ekki á hróður Laxness meðal annarra þjóða. Að íslensk stjórnvöld hafi haft einhverja skoðun á þessari bók og sölu hennar hér eða erlendis er hugarburður.


Lesa meira

Fimmtudagur 15. 09. 11 - 15.9.2011 15:29

Flutti í kvöld ræðu um Rosabauginn í Rótarý-klúbbi Rangæinga á Hvolsvelli og tók þátt í líflegum umræðum við klúbbfélaga.

Í Kastljósi miðvikudaginn 14. september var sagt frá heimildarmynd sem unnið er að um Halldór Laxness til kynningar á honum fyrir útlendinga. Þar er sú skýring fundin á því að bækur Halldórs hættu að seljast í Bandaríkjunum undir lok fimmta áratugarins að íslensk stjórnvöld, það er Bjarni Benediktsson, faðir minn, hafi óttast svo Atómstöðina sem kom út 1948 að hann hafi á gengið á fund sendiherra Bandaríkjanna í Reykjavík og beðið hann um aðstoð „við að eyðileggja mannorð“ Halldórs í Bandaríkjunum. Það hafi tekist á þann veg að bækur hann seldust ekki meira þar.

Þessi söguskýring er með ólíkindum þótt hún sé ekki ný. Að íslensk stjórnvöld og bandarísk ráði því hvort Bandaríkjamenn hætti að lesa einhvern höfund er fráleitt.  Hitt er einnig mikil einföldun á því sem gerðist á þessum árum og snerti afskipti íslenskra stjórnvalda af umsvifum Halldórs í Bandaríkjunum. Afskiptin lutu að fjármálum og skattamálum eins og ítarlega er rakið í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Laxness. Þar segir meðal annars frá því á blaðsíðu 34 að í samtali föður míns, sem þá var utanríkisráðherra, og Williams Trimbles, sendifulltrúa Bandaríkjanna, sumarið 1947 hafi Laxness borið á góma en bók hans Sjálfstætt fólk kom út í Bandaríkjunum árið 1946 hjá Book-of-the-Month Club og seldist í mörg hundruð þúsund eintökum. 

Halldór Laxness gegndi á þessum árum lykilhlutverki sem baráttumaður fyrir kommúnista og gegn Bandaríkjunum.  Vildi utanríkisráðherra vita hve há höfundarlaun Laxness hefði fengið í Bandaríkjunum, það fé rynni hugsanlega til að kosta margvíslega baráttu kommúnista á Íslandi. Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi fyrirspurn um þetta í fjármálaráðuneytið haustið 1947. Hinn 21. febrúar 1948 sagði Trimble síðan í skeyti til yfirboðara sinna: „Athugið að orðstír Laxness myndi skaðast verulega, ef við komum því til skila, að hann sé að reyna að komast undan tekjuskatti. Þar af leiðandi er mælt með frekari rannsókn á þeim höfundarlaunum, sem hann hefur væntanlega fengið fyrir Sjálfstætt fólk.“


 

Lesa meira

Miðvikudagur 14. 09. 11 - 14.9.2011

Við lögðum af stað frá hótelinu í St. Pétursborg klukkan 05.15 í morgun að staðartíma (01.15 að ísl. tíma) áleiðis til flugvallarins við Helsinki. Pétur Óli fararstjóri vill aka af stað á undan öðrum langferðabílum til að hafa forskot á landamærunum. Það heppnaðist, afgreiðsla Rússanna er hæg og enginn veit í raun hve langan tíma það tekur að komast í gegnum þrjú hlið þeirra. Klukkan var um 08.30 að Rússatíma við landamærin 07.30 að finnskum tíma. Það tók okkur að minnsta kosti klukkustund að fá leyfi til að aka yfir að finnsku landamærunum og ganga inn á Schengen-svæðið.

Vegna þess hve vel ferðin gekk frá St. Pétursborg til Helsinki (alls um sex tímar) höfðum við tíma til skoðunarferðar um miðborg Helsinki áður við fórum til innritunar á flugvellinum klukkan 13.00 og Icelandair-vélin lagði þéttsetin af stað á áætlun 15.20 og lenti 15.50 að íslenskum tíma á Keflavíkurflugvelli. Þegar við flugum inn yfir landið hjá Egilsstöðum sagði flugstjórinn að í syðri sæist Vatnajökull og í norðri Herðubreið - Eyjafjallajökull í suðri og Eyjafjörður í norðri og fyrir lendingu var flogið útsýnisflug yfir Reykjavík.

Veðrið á Keflavíkurflugvelli, sól og hlýindi, var miklu betra en í Helsinki, rok og rigning.

Þriðjudagur 13. 09. 11 - 13.9.2011

Lokadagur í St. Pétursborg. Fórum á eigin vegum víða um borgina og skoðuðum hin glæsilegu mannvirki. Söfnin sem við ætluðum að kynna okkur reyndust lokuð á þriðjudegi.

Ég mæli eindregið með ferð til St. Pétursborgar og þá ekki síst þegar notið er leiðsagnar snillings á borð við Pétur Óla Pétursson.

Mánudagur 12. 09. 11 - 12.9.2011

Skoðuðum minnismerki og safn til minningar um 900 daga umsátrið um Leningrad. Ókum síðan út með ströndinni að Peterhof, einni af sumarhöllum Péturs mikla, þar sem hann fékk útrás fyrir hrifningu sína af gosbrunnum.

Sunnudagur 11. 09. 11 - 11.9.2011

Hermitage-safnið í St. Pétursborg er eitt þriggja höfuðsafna heims við hliðina á Louvre í París og British Museum í London. Hermitage-safnið er fremst á meðal jafningja að því leyti að það sameinar umgjörð og gripi á einstakan hátt. Að ganga um hallirnar sem mynda safnið er ævintýri líkast, dýrgripirnir sem sýndir eru setja síðan punktinn yfir i-ið.

Hermitage, hvers vegna þetta nafn á safni? Katrín II. Rússakeisaraynja vildi hafa næði og geta verið ein með sjálfri sér eða kannski einhverjum af 54 elskuhugum sínum. Hermit er sá sem leitar einveru, hermitage er franska orðið yfir tvílyft hús þar sem ekki er unnt að komast á efri hæðina nema í lyftu og eigandinn stjórnar því hver fer inn í lyftuna og kemst því upp á efri hæðina. Þannig hús lét Katrín II. reisa við hliðina á Vetrarhöllinni sem forveri hennar, Elísabet I., gerði að rússneskri keisarahöll.

Hið undarlega er að allir þessi dýrgripir og byggingarnar skuli hafa lifað kommúnismann og 900 daga umsátur Hitlers um borgina. Ný bók um umsátrið, reist á nýjum gögnum eftir hrun Sovétríkjanna, sýnir að hörmungar borgarbúa hafi jafnvel verið verri en áður var vitað.

Í Hermitage-safninu eru nú málverk sem Sovétmenn hirtu á sínum tíma við ósigur Hitlers. Ekki heyrðust staðfestar fréttir um listaverkin fyrr en eftir fall Sovétríkjanna 1991. Þegar farið er um sýningarsalina sem geyma þessar myndir má hvorki taka ljósmynd né video-mynd. Óljóst er um eignarréttinn á myndunum og talið er að myndir af þeim kunni að ýta undir deilur um hann.

 

Laugardagur 10. 09. 11 - 10.9.2011

Pétursborg er jafnvel mikilfenglegri en ég hafði gert mér í hugarlund, stafar það meðal annars af því að háhýsi eru bönnuð í borginni. Ekkert hús má vera hærra en Vetrarhöllin sem stendur við Nevu og var reist á sautjándu. Höllina má rekja aftur til Péturs mikla, sem hóf að reisa Pétursborg árið 1703, þótt Katrín II mikla keisaraynja í Rússlandi hafi gert Vetrarhöllina að rússneskri keisarahöll árið 1762.

Ég fór aldrei hingað til St. Pétursborgar á Sovétímanum. Að heimsækja borgina núna og hlýða á lýsingar af sögu hennar sýnir að bylting Leníns í henni árið 1917 og afleiðingar hennar til ársins 1991 var ekki annað hörmuleg tilraun sem misheppnaðist. Hún eyðilagði þó ekki borgina frekar en 900 daga umsátur Hitlers um hana í síðari heimsstyrjöldinni. Á aðalgötunni er skilti sem minnir á umsátur Hitlers, þar segir að heyri borgarbúar í sprengvélum eigi þeir að fara yfir á hinn helming götunnar, þar sé minni hætta á að skotið verði á þá vegna þess að hús veiti þeim skjól.

 

Föstudagur 09. 09. 11 - 9.9.2011

Flugum til Helsinki og ókum þaðan til St. Pétursborgar. Einn ferðafélaga sagði að stjórnin yrði fallinn þegar við kæmum aftur til baka. Ég dró það í efa en þegar ég skoðaði visir.is í kvöld á hótelinu hér sé ég að þetta getur vel verið rétt miðað við niðurstöðu nýjustu skoðanakönnunar.

Fimmtudagur 08. 09. 11 - 8.9.2011

Stundum fer mikil hneykslunarbylgja um allan álitsgjafaheim Bandaríkjanna og bylgjuhæðin verður oft svo mikil að flæðir um heim allan. Þetta gerðist til dæmis þegar Dan Quayle, varaforsetaefni repúblíkana í Bandaríkjunum, reyndist árið 1992 ekki kunna að rita fleirtöluna af orðinu potato. Hefur þetta fylgt honum allar götur síðan. Þá gera spyrjendur sér oft leik að því að spyrja næsta óreynt fólk að því hver sé leiðtogi hins eða þessa ríkisins.

Gerald R. Ford, forseti Bandaríkjanna, tók árið 1976 þátt í kappræðum við Jimmy Carter, forsetaefni demókrata, mánuði fyrir forsetakosningar. Ford svaraði spurningu frá Max Frankel, blaðamanni The New York Times, og sagði: „Það eru engin sovésk yfirráð í Austur-Evrópu." Hvað sem síðar varð í álfunni voru ummælin fráleit á þeim tíma sem þau féllu. Bandarískir fjölmiðlar endurbirtu þessa setningu Fords hvað eftir annað, dögum saman. Þótt almenningur hefði í fyrstu talið Ford sigurvegara kappræðnanna snerist afstaðan brátt algjörlega honum í óhag.

Hér er þetta rifjað upp til að minna á hinn almenna doða og gagnrýnisleysi sem setur almennt svip á íslenska fjölmiðlun og þó sérstaklega þá álitsgjafa sem gaspra mest og hæst.

Annar stjórnarflokkurinn, vinstri-grænir, ályktar um að opinber rannsókn skuli fara fram á embættisfærslu utanríkisráðherra vegna aðildar Íslands að hernaðarátökum á vegum NATO í Líbíu. Forsætisráðherra tekur upp þykkjuna fyrir utanríkisráðherrann, flokksbróður sinn, og segir hann hafa farið í einu og öllu eftir ályktun alþingis um hernaðinn. Fréttamaður RÚV hlustar á þetta og RÚV sendir þetta út eins og ekkert hafi í skorist, þótt alþingi hafi ekki samþykkt neina ályktun um málið. Það er ekki fyrr en eftir að Morgunblaðið hefur í leiðara hneykslast á ræfildómi fréttastofu RÚV í málinu að reynt er að bera í bætifláka fyrir hann með vesældarlegri frétt. Hvernig halda menn að fjölmiðlar í Bandaríkjunum hefðu tekið á málum ef Barack Obama hefði sýnt sömu vanþekkingu í stórmáli innan eigin ríkisstjórnar og Jóhanna Sigurðardóttir gerði? Hvað halda menn að Obama hefði gert? Jóhanna hefur að sjálfsögðu ekki tjáð sig um málið í fjölmiðlum. Greinilega hefur verið ákveðið að þegja um það eins og mannsmorð á stjórnarheimilinu.

Viðtal mitt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson á ÍNN er komið inn á netið og það má sjá hér.


Miðvikudagur 07. 09. 11 - 7.9.2011

Í dag ræddi ég við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Hann skefur ekki utan af því þegar hann ræðir um ríkisstjórnina og samstarfshætti stjórnarflokkanna. Hann telur að Samfylkingunni sé sama þótt allt sé hér á hinn versta veg í efnahagsmálum, það styrki aðeins málstað hennar um að þjóðinni vegni betur innan ESB. Vinstri-grænir líti hins vegar á það sem pólitískt markmið í sjálfu sér að allir hafi það jafn slæmt. Hann sagði ríksstjórnina hina verstu í Íslandssögunni.

Atlaga stjórnarmeirihlutans að stjórnarráðinu heldur áfram. Þingmenn hans samþykkja að afsala þinginu valdi til að ákveða fjölda ráðuneyta og skiptingu verkefna milli þeirra. Þá er ætlunin að 23 pólitískir aðstoðarmenn fylgi ráðherrum samkvæmt frumvarpinu. Ég hef grun að öllum tölum um kostnað við að framkvæma þessar breytingar sé vísvitandi haldið leyndum. Eitt er víst að þarna eru ekki gerðar neinar sparnaðarkröfur á sama tíma og saumað er að öllum þjónustustofnunum sem snúa að almenningi.

Áður en níu daga þingið í september hófst var ákveðið að aðeins skyldi halda einn fund í hverri þingnefnd á meðan þingið sæti. Eftir að stjórnarráðsfrumvarpið féll í allsherjarnefnd vegna andstöðu Þráins Bertelssonar var ákveðið að boða annan fund í nefndinni til að drusla málinu í gegn, enda óskamál Jóhönnu. Hvaða verði keypti hún afgreiðslu málsins? Að fundir ríkisstjórnarinnar yrðu hljóðritaðir. Spyrja má hvort þeim ráðherrum sé sjálfrátt sem samþykkja þessa vitleysu. Þegar Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sem átti samleið með Þráni í samningunum við Jóhönnu er spurður hvort þessi krafa þeirra um hljóðritun þýði ekki að óformlegir ríkisstjórnarfundir taki við af hinum formlegu, hljóðrituðu fundum, svarar hann: Þetta segja þeir alltaf! Auðvitað segja menn þetta alltaf af því að svona verður það og spurning hvort ekki verði einnig hætt að skrá afgreiðslur ríkisstjórnarinnar jafnskipulega og gert hefur verið.

Þessi meðferð þingmeirihlutans á stjórnarráðinu er til skammar. Það er fráleitt að kenna þessa eyðileggingu á góðum og skipulegum stjórnarháttum við nauðsynlegar umbætur vegna bankahrunsins. Það er í ætt við þau pólitísku ósannindi að innleiðing skattkerfis í anda gamla Alþýðubandalagsins hafi verið nauðsynleg til að sigrast á erfiðleikum bankahrunsins eða óhjákvæmilegt hafi verið að draga Geir H. Haarde fyrir landsdóm. Um það hneyksli fjalla ég í nýjum pistli hér á síðunni.

Þriðjudagur 06. 09. 11 - 6.9.2011

Í The New York Times í dag er löng grein um að annað hvort brotni evru-svæðið eða breytist í Bandaríki Evrópu. Það sé ekki unnt að búa við sameiginlega mynt í 17 ríkjum og ætla að fylgja sameiginlegri peningastefnu án þess að hafa einnig stjórn á fjármálastefnunni, það er ráða sköttum og útgjöldum ríkisins. Blaðamennirnir segja að Bandaríki Evrópu séu markmið ráðamanna ESB í Brussel og margra forystumanna í ESB-ríkjunum. Af ótta við almenningsálitið þori menn hins vegar ekki að ræða þetta markmið opinberlega.

Dálkahöfundurinn Charlemagne í The Economist fjallar um þetta í síðasta hefti vikuritsins. Hann minnir á aðferð Jeans Monnets „föður ESB“, baktjaldamakkið á milli embættismanna sem skrifuðu minnisblöð og tillögur fyrir stjórnmálamenn og gripu tækifærið á örlagastundum til að stíga nýtt skref innan ramma Evrópuverkefnisins, það er verkefnið að koma á fót Bandaríkjum Evrópu. Charlemagne telur að ekki verði lengra komist á braut Monnets. Nú verði baktjaldamakkinu að ljúka og leggja verði spilin á borðið og gefa almenningi færi á að segja álit sitt.

Skuldakreppan á evru-svæðinu snertir buddu skattgreiðenda og þeir eru ekki allir sáttir við að greiða skuldir óreiðuríkja frekar en Íslendingar vildu greiða Icesave-skuld einkabanka. Stjórnmálamenn sem ganga á hlut umbjóðenda sinna ná ekki endurkjöri. Einmitt þess vegna þora þeir ekki að leggja tillögu um Bandaríki Evrópu fram án umbúðanna sem notaðar eru til að fela hið raunverulega markmið „skref-fyrir-skref“ aðferðinni sem þau tala um Angela Merkel, Wolfgang Schäuble og Nicolas Sarkozy. Nú standa þau hins vegar fyrir framan vegg sem ekki verður brotinn nema með aðstoð kjósenda.


Mánudagur 05. 09. 11 - 5.9.2011

Ég sagði í síðustu viku frá lygum Pressunnar um styrk til Evrópuvaktarinnar þar sem því var ranglega haldið fram að hann kæmi frá Evrópusambandinu. Alþingi veitti styrkinn. Nú hefur sama lygin verið endurtekin á vefsíðu Evrópusamtakanna og skrifaði ég um það á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Eitt er að Pressan fjalli um þetta mál á þann hátt sem menn kjósa. Björn Ingi Hrafnsson eigandi síðunnar hefur ekki séð ástæðu til að biðja okkur Styrmi Gunnarsson afsökunar á rangfærslunum um okkur. Það er greinilegt að eitthvert ritstjórnarlegt markmið er að baki þessum áburði, líklegt er að á Pressunni þyki það þjóna ESB-málstað sínum að halda þessum rangfærslum áfram.

Evrópusamtökin slá gjarnan um sig sem málsvari hins eina og sanna sem sagt er hér á landi um Evrópusambandið og ágæti þess. Þrátt fyrir þetta kjósa ritstjórar vefsíðu samtakanna að endurtaka lygi Pressunnar eins og ekkert hafi í skorist.

Að þessir talsmenn ESB-aðildar skuli velja þennan óskiljanleg veg ósanninda vegna þessara styrkja alþingis sýnir að þeim er alveg sama um hvað er rétt eða rangt, tilgangurinn helgar meðalið. Þetta dæmalausa mál hefur orðið til þess að ég sé ekki nokkra ástæðu til að trúa neinu af því sem birt er á Pressunni um ESB-málefni og því síður á vefsíðu Evrópusamtakanna - að minnsta kosti ekki á meðan þeir sem að þessum skrifum standa sjá ekki að sér og biðjist afsökunar á lyginni.

Sunnudagur 04. 09. 11 - 4.9.2011

Veðrið var óvenjulega milt og gott í Fljótshlíðinni í dag. Á leiðinni að austan undir kvöldmat benti umferðin til þess að Herjólfur hefði nýlega komið frá Vestmannaeyjum. Við það verður allt líflegra á vegunum.

Ólafur Ragnar Grímsson var stóryrtur í RÚV í dag gegn þeim stóðu að Icesave-samningunum, fyrrverandi samflokksmönnum sínum og samstarfsmönnum: Svavari Gestssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Hann taldi það hafa verið hina mestu fásinnu að semja um Icesave eins og þeir gerðu. Þá réðst hann einnig að Hollendingum og Bretum og hvatti ESB til að efna til rannsóknar á því hvernig staðið hefði á hörkunni sem Íslendingum hefði verið sýnt í málinu.

Mér þótti eins og Ólafur Ragnar beitti þarna smjörklípuaðferðinni, hann vildi draga athygli frá ummælum sínum um söluna á Grímsstöðum á Fjöllum til kínverska auðkýfingsins. Þau einkenndust af fljótræði og dómgreinarleysi eins og ég vakti máls á hér.


Laugardagur 03. 09. 11 - 3.9.2011

Það verður skýrara en áður að á Pressunni taka menn ekki á heilum sér vegna þess að vefsíðan Evrópuvaktin sem við Styrmir Gunnarsson skrifum hafi fengið styrk frá alþingi til að stuðla að upplýstri umræðu um Evrópusambandið og íslensk málefni í því sanhengi.

Í gær laug Pressan því að Evrópusambandið stæði á bakvið þessa styrki alþingis. Þessi ósannindi voru liður í viðleitni Pressunar til að koma þeim stimpli á okkur að við séum hræsnarar. Við berðumst gegn ESB-aðild en þægjum styrki frá ESB.

Pressan birtir 3. sept mynd af okkur Styrmi með frétt sem ætlað að gefa til kynna að eitthvað sé undarlegt við styrkveitingu til okkar úr því að stofnanir Háskóla Íslands fékk ekki styrk. Af fréttinni og myndum með henni mætti helst ráða við Styrmir hefðum úthlutað styrkjunum. Það gerðu hins vegar fyrrverandi rektorar íslenskra háskóla.

Eigi þessi frétt Pressunnar að jafngilda leiðréttingu á ósannindunum um uppruna úthlutunarfjárins og styrksins til Evrópuvaktarinnar er hún gjörsamlega misheppnuð. Það er ekki mikill metnaður í vefmiðli á borð við Pressuna sem fer með ósannindi um fólk en hefur ekki þrek til að leiðrétta þau og hafa það sem sannara reynist.

Ég hélt að Björn Ingi Hrafnsson, eigandi Pressunnar og Eyjunnar , hefði meiri metnað en að starfsmenn hans leiðrétti ekki þegar þeim verða á á mistök eða fara beinlínis með rangt mál.

Föstudagur 02. 09. 11 - 2.9.2011


Vefsíða, Evrópuvaktin, sem við Styrmir Gunnarsson höfum haldið úti síðan í apríl 2010 fékk styrk nú í vikunni frá alþingi ásamt Já Íslandi og Heimssýn.  Á hverjum degi frá upphafi síðunnar hafa þar birst nýjar fréttir tengdar ESB-málefnum,  Þá bregður svo við að nafnlausir menn á vefsíðunni Pressunni auk Egils Helgasonar á Eyjunni taka til við að agnúast út í styrkveitinguna.

Á Pressunni er beinlínis farið með rangt mál til að höfundur geti klínt því á okkur Styrmi að við séum hræsnarar. Því er einfaldlega logið að styrkurinn sé veittur af Evrópusambandinu. Egill skrifar af sínu alkunna yfirlæti og gefur til kynna að ekki geti orðið upplýst umræðu um ESB hér á landi úr því að við fengum þennan styrk. Satt að segja finnst mér hvoru tveggja lykta af öfund - að minnsta kosti er það með öllu ómálefnalegt. Hér mál lesa það sem ég hafði um málið að segja á Evrópuvaktinni.

Fyrir utan hin dæmalausu ósannindi á Pressunni, sem hinir ólíklegustu menn fagna ef marka má fésbókarviðbrögð, er því hampað þar að ég sé einhver óvildarmaður Evrópusambandsins. Þetta er alrangt. Ég er hlyntur Evrópusambandinu og tel það á margan hátt hafa orðið til góðs. Ég barðist fyrir EES-samningnum við sambandið og hef varið Schengensamstarfið. Ég hef einnig lagt mat á framtíð ESB án þess að leggja til þess á nokkurn hátt eins og hér má sjá.

Af minni hálfu er ekkert vandamál að eiga góð samskipti við ESB og þiggja þaðan styrki lægju þeir á lausu og væri þeim úthlutað með skýrum málefnalegum rökum á grundvelli opinberra reglna.

Ég er á hinn bóginn eindregið andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu, í henni felist afsal meiri hagsmuna fyrir minni. Þeir sem lesa skrif mín um aðildarviðræðurnar við ESB fara ekki í grafgötur um skoðanir mínar. Þær mundu ekki breytast gerðist hið óvænta að ESB vildi leggja starfi mínu lið á einhvern hátt. Ég tel engar líkur á að það gerist og ítreka hneykslan mína á skrifum Pressunnar um styrkina frá alþingi.

Fimmtudagur 01. 09. 11 - 1.9.2011

Ég lýsti þeirri skoðun í leiðara á Evrópuvaktinni í dag að það hefði orðið meiri skaði af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðadóttur en bankahruninu. Með því er ég síður en svo að gera lítið úr tjóninu vegna hrunsins. Ákvarðanir sem ríkisstjórn og alþingi tóku fyrstu dagana í október 2008 skiptu sköpum um að skotið var grundvelli undir uppbyggingu eftir hrunið. Vandinn var fjárhagslegur og viðráðanlegur á þeim grunni sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde lagði. Komið var í veg fyrir að Íslendingar sætu uppi með hina rosalegu skuldabagga bankanna.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur tekið svo margar rangar ákvarðanir að ég hef ekki tölu á þeim. Dómgreindarleysið sem einkenndi framgöngu hennar í Icesave-málinu allt frá því Steingrímur J. skipaði flokksbróður sinn Svavar Gestsson formann viðræðunefndarinnar við Breta og Hollendinga er skýrt dæmi um illa ígrundað fljótræðu sem hefði reynst þjóðinni dýrkeypt ef Svavars-samningurinn hefði náð fram að ganga.

Sem betur fór tókst að skjóta þjóðinni undan Icesave-samningunum. Það hefur hins vegar ekki tekist að bjarga þjóðinni undan öllum óhæfuverkum ríkisstjórnarinnar. Andstaðan við hana hefur ekki verið nægilega markviss á alþingi og með ólíkindum er hve þingmenn annarra flokka en stjórnarflokkanna eru fúsir til að leggja ríkisstjórninni lið þegar líf hennar er í hættu. Er það vegna þess að þingmenn þora ekki að horfast í augu við kjósendur í kosningum?