16.9.2011 22:16

Föstudagur 16. 09. 11

Í dag fórum við Fljótshlíðingar með hesta upp að Reynifelli fyrir vestan Þríhyrning og bjuggum okkur undir smalið á morgun,

Í gær vitnaði ég í Laxness, þriðja bindi ævisögu Halldórs Kiljans Laxness, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson til að sýna að fullyrðingar í Kastljósi um að íslensk stjórnvöld hafi spillt fyrir sölu bóka Laxness í Bandaríkjunum á fimmta áratugnum af því að þau hafi óttast Atómsstöðina sem kom út árið 1948 standist ekki. Málið snerist um höfundarlaun Laxness í Bandaríkjunum, hvort hann hefði greitt af þeim skatt, hvort hann hefði farið að gjaldeyrislögum, hvort hann nýtti fjármunina til að kosta pólitíska baráttu í þágu kommúnista eða andstæðinga Bandaríkjanna á Íslandi.

Ýmsir hafa brugðist við því sem ég sagði í bloggi eða annars staðar á netinu. Viðbrögðin staðfesta að á netinu sé oft ótrúlega mikil vitleysa sögð með algjöru virðingarleysi fyrir sannleikanum eða vegna fordóma og fyrirlitningar á einstaklingum. Þá sá ég að Andri Snær Magnason rithöfundur líkti afskiptum íslenskra stjórnvalda af gjaldeyriseign Laxness við stjórnarhætti Stalíns. Bjálfaleg samanburðarfræði af þeim toga var gjarnan stunduð í kalda stríðinu þegar menn vildu telja fólki trú um að allt væri í raun betra í Sovétríkjunum en Bandaríkjunum.

Halldór Guðmundsson hefur skrifað ævisögu Laxness. Hann segir einnig frá því sem ég lýsti hér á síðunni í gær með því að vitna í ævisöguna sem Hannes Hólmsteinn skrifaði. Ástæðan fyrir því að ég valdi bók Hannesar í stað bókar Halldórs er sú að Hannes segir nákvæmar frá atriðum þessa máls en Halldór.

Hvorki Hannes Hólmsteinn né Halldór Guðmundsson nefna Atómsstöðina í tengslum við þetta mál eins og virðist gert í nýrri heimildarmynd um Laxness ef marka má það sem fram kom í Kastljósi. Að Laxness ritaði Atómsstöðina til að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína á þessum árum dregur enginn í efa. Kristján Albertsson, rithöfundur og menningarmaður, minntist oft á Atómsstöðina við mig og þótti argasta hneyksli að hún þætti hæf til útflutnings. Hann hafði örugglega rétt fyrir sér að bókin yki ekki á hróður Laxness meðal annarra þjóða. Að íslensk stjórnvöld hafi haft einhverja skoðun á þessari bók og sölu hennar hér eða erlendis er hugarburður.


Í bók Hannesar Hólmsteins Laxness er á bls. 397 sagt frá því að á árinu 1975 fékk ég það hlutverk sem embættismaður í forsætisráðuneytinu að ræða við Halldór Laxness um hvort hann vildi verða fulltrúi Íslands í Bandaríkjunum árið 1976 þegar minnst var 200 ára byltingarafmælis þeirra og flytja erindi um íslenskar bókmenntir. Hitti ég Laxness í Gljúfrasteini 8. maí 1975 og tók hann erindinu vel. Þegar ég hafði síðan samband við hann i síma 29. október 1975 til að fá endanlegt svar hans: „Þá var komið annað hljóð í hann. Laxness taldi litlar líkur á því, að hann gæti farið vestur. Hann hefði verið kynntur vestra með útgáfunni á Sjálfstæðu fólki, sem hefði selst vel. Síðan hefði hann gleymst. Hann sæi sér ekki mikinn hag í því að ferðast um, þar sem enginn hefði áhuga á að lesa bækur hans. Öðru máli gegndi um lönd, þar sem hann ætti stóra lesendahópa. Fór Laxness hvergi,“ segir Hannes Hólmsteinn og vitnar í frásagnir mínar sem liggja fyrir í stjórnarráðsskjölum.