Dagbók: júní 1997

Sunnudagur 29.6.1997 - 29.6.1997 0:00

Síðdegis sunnudaginn 29. júní ávarpaði ég setningarfund ráðstefnu NORDunet um Internetið.

Sunnudagur 29.6.1997 - 29.6.1997 0:00

Að kvöldi sunnudags 29. júní fór ég í Borgarleikhúsið og sá leikrit hópsins Augnablik, sem heitir Tristan og Ísól. Enn vakti það athygli mína, að sviðsetningin var þannig, að áhorfendur sátu ekki í salnum heldur á sviðinu með leikendum. Þykir leikendum ekki fært að setja verk á svið með hefðbundnum hætti í Borgarleikhúsinu?

Laugardagur 28.6.1997 - 28.6.1997 0:00

Laugardaginn 28. júní átti ég allan fyrir mig og má segja, að hann hafi verið langþráður.

Föstudagur 27.6.1997 - 27.6.1997 0:00

Að morgni föstudagsins 27. júní tók ég þátt í hringborðsumræðum í sal borgarstjórnar Reykjavíkur, þar sem rætt var um stöðu tungumála í Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Kom til orðaskipta milli mín og dansks þingmanns, sem taldi það til marks um lítinn áhuga Íslendinga á norrænum tungum, að hann þyrfti að tala ensku við leigubílstjóra, barþjóna og hótelstarfsmenn. Ég sagði þessa niðurstöðu ekki reista á mjög vísindalegum grunni og las úr grein, sem ég hafði klippt úr dönsku blaði, þar sem fram kemur að nútímadanska sé borin fram með þeim hætti, að enginn utan Danmerkur skilji hana. Svíar og Norðmenn kysu meira að segja að ræða við Dani á ensku. Dró ég þá ályktun að vandi Dana væri frekar heimatilbúinn en unnt væri að kenna íslenska skólakerfinu um hann.

Miðvikudagur 25.6.1997 - 25.6.1997 0:00

Síðdegis miðvikudaginn 25. júní afhenti ég skírteini í útflutningsfræðslu, sem Útflutningsráð og fleiri standa að, og felst í því að fulltrúar fyrirtækja læra að markaðssetja vöru sína erlendis. Var þetta í þriðja sinn, sem ég afendi þessi skírteini. Vex áhugi á þessu góða framtaki ár frá ári.

Sunnudagur 22.6.1997 - 22.6.1997 0:00

Sunnudag 22. júní fram á þriðjudag 24. júní var ég á ráðstefnu menntamálaráðherra aðildarríkja Evrópusráðsins í Kristiansand í Noregi og ræddum við þar um menntamál við aldahvörf.

Þriðjudagur 17.6.1997 - 17.6.1997 0:00

Að morgni 17. júní var athöfn á Austurvelli í glaðasólskini. Frá því að R-listinn tók við stjórn Reykjavíkurborgar hef ég alltaf undrast, að formaður þjóðhátíðarnefndar, Steinunn Óskarsdóttir, skuli nota þær mínútur, sem hún hefur til umráða til að kynna hátíðarhöldin til þess að flytja flokkspólitískar ræður, að þessu sinni meðal annars um vanda kvenna í stjórnmálum, þegar Kvennalistinn er að líða undir lok. Rík hefð er fyrir því, að á þessari hátíðarstundu komi forsætisráðherra fram sem hinn pólitíski talsmaður allrar þjóðarinnar og því er það enn einkennilegra en ella að hlusta á hinar flokkspólitísku úlistanir formanns hátíðarnefndarinnar. Skorti greinilega eitthvað á við undirbúning hátíðarinnar á Austurvelli, því að þess var aldrei getið, hver kom fram sem fjallkona eða hver orti ljóðið, sem hún flutti. Þá batt kynnir ekki heldur enda á athöfnina á Austurvelli og vissi forseti Íslands greinilega ekki, hvenær til þess var ætlast, að hann stæði upp og gengi til Dómkirkju. Að lokinni messu var athöfn á vegum Lýðveldissjóðs í Alþingishúsinu, þar sem tilkynnt var um styrkveitingar hans og viðurkenningar.

Miðvikudagur 11.6.1997 - 11.6.1997 0:00

Síðdegis miðvikudaginn 11. júní tók ég þátt í athöfn á vegum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, þegar hann afhenti menningarstyrki í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn, sem fór fram í Sigurjónssafni. Að kvöldi miðvikudagsins fór ég á markalausan knattspyrnulandsleik Litháens og Íslands.

Þriðjudagur 10.6.1997 - 10.6.1997 0:00

Þriðjudaginn 10. júní kynnti ég þá ákvörðun eftir ríkisstjórnarfund, að Háskólinn á Akureyri gæti í haust hafið kennslu í iðjuþjálfun. Var með því komið í höfn áralöngu baráttumáli iðjuþjálfa. Sama dag sendi menntamálaráðuneytið einnig frá sér tvær fréttatilkynningar, annars vegar um tónlistarhús og hins vegar vegna birtingar á niðurstöðum TIMSS-könnunarinnar um kunnáttu 3. og 4. bekkjar nemenda í stærðfræði og náttúrufræði. Hafa orðið töluverðar umræður um bæði málin.

Laugardagur 7.6.1997 - 7.6.1997 0:00

Síðdegis laugardaginn 7. júní opnaði ég sýninguna Sögn í sjón í Listasafni Íslands.

Föstudagur 6.6.1997 - 6.6.1997 0:00

Að kvöldi föstudagsins 6. júní fórum við Rut á fyrri hluta Bítlatónleika í Háskólabíói, sá ég í blaðadómi, að seinni hlutinn hefði verið mun skemmtilegri!

Fimmtudagur 5.6.1997 - 5.6.1997 0:00

Að kvöldi fimmtudagsins 5. júní fór ég á Laugardalsvöll og afhenti verðlaun vegna tveggja keppnisgreina á Smáþjóðaleikunum.

Þriðjudagur 3.6.1997 - 3.6.1997 0:00

Síðdegis þriðjudaginn 3. júní eftir að ég hafði verið með smáþjóðaleikaráðherrunum á Þingvöllum og áður en ég bauð þeim í kvöldverð að Hótel Holti fór ég á Ingólfstorg til að taka þátt í fjölmennri móttökuhátíð fyrir Everest-faranna okkar og flytja þeim stutt ávarp .