Þriðjudagur 17.6.1997
Að morgni 17. júní var athöfn á Austurvelli í glaðasólskini. Frá því að R-listinn tók við stjórn Reykjavíkurborgar hef ég alltaf undrast, að formaður þjóðhátíðarnefndar, Steinunn Óskarsdóttir, skuli nota þær mínútur, sem hún hefur til umráða til að kynna hátíðarhöldin til þess að flytja flokkspólitískar ræður, að þessu sinni meðal annars um vanda kvenna í stjórnmálum, þegar Kvennalistinn er að líða undir lok. Rík hefð er fyrir því, að á þessari hátíðarstundu komi forsætisráðherra fram sem hinn pólitíski talsmaður allrar þjóðarinnar og því er það enn einkennilegra en ella að hlusta á hinar flokkspólitísku úlistanir formanns hátíðarnefndarinnar. Skorti greinilega eitthvað á við undirbúning hátíðarinnar á Austurvelli, því að þess var aldrei getið, hver kom fram sem fjallkona eða hver orti ljóðið, sem hún flutti. Þá batt kynnir ekki heldur enda á athöfnina á Austurvelli og vissi forseti Íslands greinilega ekki, hvenær til þess var ætlast, að hann stæði upp og gengi til Dómkirkju. Að lokinni messu var athöfn á vegum Lýðveldissjóðs í Alþingishúsinu, þar sem tilkynnt var um styrkveitingar hans og viðurkenningar.