Dagbók: maí 2011

Þriðjudagur 31. 05. 11. - 31.5.2011

Í morgun klukkan 08.15 sat ég fyrir svörum hjá Frey Eyjólfssyni í morgunútvarpi RÚV og má hlusta á samtal okkar hér. Við ræddum um bók mína Rosabaug yfir Íslandi og síðdegis ræddi ég hana síðan í þættinum Harmageddon á X-inu og má hlusta á þann þátt hér en fleira efni er að finna á krækjunni.

Þá birtist ítarleg umsögn um bókina í Vísbendingu í dag eftir Benedikt Jóhannesson ritstjóra.

Mánudagur 30. 05. 11. - 30.5.2011

Nú hafa vinstri grænir á þingi, það er þingmenn flokksins án tillits til klofnings innan þingflokksins og Þráinn Bertelsson, flutt tillögu á alþingi um úrsögn Íslands úr NATO. Hér á Evrópuvaktinni má fræðast um rökin fyrir tillögunni.

Tillagan minnir á kalda stríðið þegar Alþýðubandalagið, forveri VG, skipaði sér ávallt í sveit með þeim sem voru andvígir þátttöku Íslands í vestrænni samvinnu. Frá lyktum kalda stríðsins er óþekkt að nokkur stjórnarflokkur í Evrópu aðhyllist þá skoðun sem kemur fram í þessari tillögu vinstri grænna um úrsögn úr NATO.

Þessi tillaga er ögrun við Jóhönnu Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson sem bera beina ábyrgð á aðild Íslands að hernaðaraðgerðum NATO í Líbíu. Þær urðu kveikjan að þessari einstæðu tillögu vinstri grænna. Hafi tillagan verið flutt án vitundar Jóhönnu og Össurar jafngildir hún  yfirlýsingu um stjórnarslit. Hafi þau fallist á að tillagan yrði flutt eru þau marklaus út á við gagnvart ríkisstjórnum annarra NATO-ríkja.

Ríkisstjórn Jóhönnu hefur klofið þjóðina með ESB-aðildarumsókninni, hún hefur tapað tveimur atkvæðagreiðslum um Icesave, stjórnin hefur staðið að ógildum kosningum um stjórnlagaþing en ögrar nú hæstarétti með stjórnlagaráði, ríkisstjórnin stendur gegn stóriðjuframkvæmdum, hún hefur sett fiskveiðar og fiskvinnslu í uppnám, ríkisstjórnin hefur selt skuldir almennings í hendur erlendum vogunarsjóðum í stað þess að reisa skjaldborg um heimilin, ríkisstjórnin hefur lagt fram lagafrumvarp sem eyðileggur innviði stjórnarráðsins og nú krefst helmingur ríkisstjórnarinnar úrsagnar úr NATO. Hvenær skyldi stjórnarandstaðan ná vopnum sínum?

Sunnudagur 29. 05. 11. - 29.5.2011

Jóhanna Sigurðardóttir bauðst til að leggja niður nafn Samfylkingarinnar á fundi flokksstjórnar í dag ef það mætti verða til þess að ESB-aðildarsinnar í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki vildu ganga til samstarfs við sig. Það er til marks um ótrúlegt fréttamat RÚV á því sem gerðist á fundinum að ekki skyldi sagt frá þessum orðum í ræðu formanns Samfylkingarinnar. Pressan, Stöð 2 og mbl.is kveiktu á þessum fréttapunkti, sögðu frá honum og leituðu álits ESB-aðildarsinnans Þorsteins Pálssonar í Sjálfstæðisflokknum og þingmannsins Vigdísar Hauksdóttur í Framsóknaflokknum. Þau höfnuðu bæði hugmynd Jóhönnu. Um þetta má lesa á Evrópuvaktinni.

Fyrir viku efndu vinstri-grænir til flokksráðsfundar þar sem allt lék á reiðiskjálfi vegna óánægju með Steingrím J. Sigfússon sem þótti flytja lélega ræðu. Pólitískt fréttamat RÚV var þá á þann veg að mikill einhugur ríkti meðal vinstri-grænna. Þarna var augljóslega um einhliða áróður Steingríms J. og hans manna að ræða. Illdeilur voru síður en svo settar niður meðal vinstri-grænna á þessum fundi.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að pólitískar fréttir RÚV séu svo yfirborðslegar að þær séu beinlínis til þess fallnar að gefa ranga mynd af stjórnmálastöðunni í landinu. Fréttastofan er frekar eins og framlenging á upplýsingafulltrúum ráðherranna en að þar ríki áhugi eða geta til þess að setja stjórnmálaviðburði í samhengi.


Laugardagur 28. 05. 11. - 28.5.2011

Gestur minn á ÍNN 18. maí var Jóhannes B. Sigtryggsson, ritstjóri Handbókar um íslensku. Þáttinn má sjá hér.

Andrés Magnússon blaðamaður ritar um bók mína Rosabaug yfir Íslandi Í Morgunblaðið í dag. Hann gefur bókinni fjórar stjörnur af fimm og fagna ég þeim dómi. Þar segir í lokin:

Rosabaugur yfir Íslandi veitir heildstæða mynd af átökunum á árunum fyrir hrun.

Þar má á einum stað finna ótal heimildir um opinbera umræðu, þar sem margir létu glepjast, aðrir vildu glepjast og sumir höfðu þann starfa að glepja. Bókin er ómetanleg öllum þeim vilja skilja íslenskt samfélag á dögum bólunnar miklu, þann ofmetnað og ofstopa, sem átti drjúgan þátt í hruninu og gerði það miklu verra en ella. Hún er skyldulesning fyrir allir áhugamenn um íslensk þjóðmál, stjórnmál og ekki síst fjölmiðla.“

Þegar ég lít yfir ummæli um bókina þykir mér sérkennilegast að sjá uppnámið hjá Agli Helgasyni, álitsgjafa og þáttastjórnanda hjá RÚV. Hann stjórnar bæði þjóðmála- og bókmenntaþætti á hinum óhlutdræga ríkisfjölmiðli. Að vísu er skrúfað fyrir þættina í nokkra mánuði á ári. Væru þeir í loftinu núna er augljóst að bók mín nyti ekki sannmælis í RÚV, henni yrði annaðhvort úthýst úr þáttum Egils eða efni hennar afflutt.

Ástæðan fyrir reiði Egils er að ég vitna í ummæli hans í frásögn minni. Honum finnst það greinilega óþægilegt. Þá heldur hann því ranglega fram að ég uppnefni fólk í bókinni.

Óvild Egils í minn garð er ekkert nýnæmi. Hún minnir því á þá staðreynd að þrátt fyrir hrun bankanna og margvísleg umskipti í þjóðfélaginu sitjum við enn uppi með fjölmiðlamenn sem lögðu sitt af mörkum til þess ástands sem leiddi til hrunsins. Þar hefur ekkert breyst.

Klukkan 17.00 fór ég í Hörpu og hlýddi á Sinfóníuhljómsveit Íslands flytja 4. sinfóníu Gustavs Mahlers. Glæsilegir tónleikar.


Föstudagur 27. 05. 11. - 27.5.2011

Klukkan 08.30 efndi Aflinn, félag qi gong iðkenda, til 9. aðalfundar síns og var hann haldinn í Von, húsi SÁÁ í Efstaleiti.

Þeir hafa löngum verið sálufélagar í tilraunum sínum til að drepa umræðum um íslensk þjóðfélagsmál á dreif, Egill Helgason og Reynir Traustason. Bók mín Rosabaugur yfir Íslandi hefur ýtt þeim enn einu sinni af stað. Þeir eru illir yfir því að í þá sé vitnað. Þeir sitja hins vegar uppi með eigin orð eins og aðrir. Persónulegur skætingur í minn garð breytir engu um það. Spurningin er hvor þeirra kemst á lægsta planið.

Fimmtudagur 26. 05. 11. - 26.5.2011

Í dag fór ég í tvö fjölmiðlaviðtöl vegna bókar minnar Rosabaugur yfir Íslandi. Fyrst við Ingva Hrafn Jónsson á Hrafnaþingi hans á ÍNN og síðan við þá félaga Kristófer og Þorgeir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Eins og gefur að skilja hafði viðmælendum mínum ekki unnist tími til að lesa 432 síðna bókina sem kom út í gær. Kynni þeirra af efni hennar nægðu þó til að þeir áttuðu sig allir á því að tilgangur minn er ekki að halda einhverri skoðun að lesandanum heldur draga saman efni svo að hann geti sjálfur áttað sig á samhengi hlutanna.  Sýn á málið í heild vekur mönnum skilning á því hve afflutt eðli þess hefur verið.

Eiríkur Ingvarsson setur inn á fésbókarsíðu sína:

„Les Rosabaug eftir Björn Bjarnason. Góð lesning. Mjög hissa á að ekki sé umfjöllun í öllum fjölmiðlum um innihald bókarinnar. Er að öllum líkindum ekki kominn nægjanlega langt í bókinni til að skilja það...bókin er nánast eins og reyfari.“

Tilgangur minn er að auðvelda skilning á máli sem mótaði umræður, stjórnmál, viðskiptalíf og fjölmiðla frá 2002 til 2008. Margir þeirra sem hæst höfðu í fjölmiðlum þá og sitja þar enn hafa líklega ekki áhuga á að vekja athygli efni bókarinnar. Þeir vilja gefa aðra mynd af henni en við blasir þegar hún er lesin.

Egill Helgason er einn þessara fjölmiðlamanna. Hann segir meðal annars á vefsíðu sinni 26. maí:

„Klíkur hafa lengi verið ein ógæfa Íslands. Tvær klíkur börðust af mikilli heift á árunum fyrir hrun. Báðar voru ofboðslega frekar.

Í báðum klíkunum eru hrunvaldar og hrunverjar.

Þessi átök halda áfram, nú i bók eftir Björn Bjarnason. Nú skal enn gerð  tilraun til að koma að „réttum“ söguskilningi.

Vandinn er bara sá að það slettist á marga sem tóku lítinn eða engan þátt  í þessu stríði.“

Egill hefur greinilega ekki lesið bókina þegar hann setur þetta inn á síðu sína. Ég er ekki að koma að öðrum skilningi á Baugsmálinu en blasir við hverjum og einum við lestur opinberra gagna. Egill kemur við sögu í bókinni eins og hann hefur séð í nafnaskránni. Hann segir:

„Í bók Björns birtast ábyggilega ummæli eftir marga sem verða túlkuð í neyðarlegu ljósi. Jú, einhver sagði eitthvað einhvern tíma. Einhverjir verða ábyggilega uppnefndir.“

Það er dæmigert fyrir óvandaða umfjöllun fjölmiðlamanna eða álitsgjafa að lýsa Baugsmálinu sem klíku-átökum. Sú skoðun fellur að meginkenningu Baugsmanna um að lögregla hafi rekið erindi stjórnmálamanna þegar hún gerði húsleit hjá Baugi 28. ágúst 2002. Þessi kenning stenst ekki skoðun eins sjá má kynni menn sér Baugsmálið.

 

 

 

 

Miðvikudagur 25. 05. 11. - 25.5.2011

Í dag var bók minni Rosabaugur yfir Íslandi dreift í bókaverslanir. Þá hafa einnig birst tilvitnanir í hana á mbl.is, Pressunni og Eyjunni auk hefðbundins smælkis á dv.is. Ég hef ekki rekist á neitt efni á gamla Baugsmiðlinum visir.is. Ef til vill hef ég ekki skoðað hann nógu vel. Ég skrifaði pistil um tilurð bókarinnar hér á síðuna.

Á samfylkingarsíðunni Eyjunni hafa bloggarar tekið upp hanskann fyrir Samfylkinguna. Þeir láta eins og tengsl hennar við Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus hafi ekki verið nein þar sem þeir hafi ávallt verið sjálfstæðismenn. Þessi kenning stenst ekki skoðun og er fyrir mig enn ein staðfestingin á réttmætti þess að verja tíma og kröftum í að taka bókina um Baugsmálið saman.

Í hádeginu stjórnaði ég fundi í Háskóla Íslands á vegum Heimssýnar og Alþjóðamálastofnunar HÍ þar sem dr. Anthony Coughlan, fyrrverandi prófessor, frá Írlandi flutti fróðlegt erindi um Íra og evruna og lærdóm af reynslu þeirra fyrir okkur Íslendinga. Hann er eindreginn talsmaður þess að þjóðir ráði yfir eigin gjaldmiðli.

Fundurinn var vel sóttur. Mér kom á óvart að þarna voru nokkrir félagar í Evrópusamtökunum sem lásu fyrirfram samdar spurningar í því skyni að setja skoðanir fyrirlesarans í neikvætt ljós auk þess sem þau vildu minna fundarmenn á að hann væri ekki endilega í takt við meirihlutaskoðun meðal Íra. Þessi skipulagða hóphyggja ESB-aðildarsinna er líklega stunduð í þágu upplýstrar umræðu. Hún virkaði hlægileg ef ekki barnaleg á mig.

Þriðjudagur 24. 05. 11. - 24.5.2011

Ég sé á mbl.is að Icelandair býður farþegum sínum sem eru strandaglópar í London vegna lokunar flugvalla hér á landi í nótt að gista á hóteli. Ég heyrði hins vegar frá farþega sem var á vegum Iceland Express á Gatwick-flugvelli í London að engin slík þjónusta stæði þeim farþegum til boða.

Vegna áhuga míns á málum sem tengjast tilraunum Samfylkingarinnar til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið hef ég velt fyrir mér stöðu Leifsstöðvar og flugrekstrarfélags ríkisins Isavia ohf. ef til aðildar kæmi. Skrifaði ég leiðara um einn þátt málsins á Evrópuvaktina í dag. Sýnist mér að fjármálaráðuneytið sé þegar tekið til við að laga rekstur fríhafnarinnar að kröfum ESB með nýrri gjaldtöku. Þetta hefur leitt til tekjutaps ríkissjóðs eftir að ákveðið var að auka heimild til að flytja tollfrjálsan bjór til landsins í því skyni að bæta fjárhagsstöðu Isavia.

Í athugunum mínum hafði ég spurnir af því að Isavia hefði neitað að skapa aðstöðu til reykinga á flugvellinum fyrir áhafnir og farþega véla á vegum bandaríska hersins og þannig skorið á ný viðskipta- og þjónustutengsl sem voru í fæðingu. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti. Isavia hefur kannski ákveðið að fara að fordæmi Bloombergs, borgarstjóra í New York, og banna reykingar utan dyra á Keflavíkurflugvelli eins og hann hefur gert í stórborginni.

Sé þetta rétt og að um vélar á vegum Bandaríkjahers sé að ræða kann ástæðan fyrir því að þeim sé haldið frá Keflavíkurflugvelli að vera afstaða innan stjórnar Isavia sem smitast hafi af Jóni Gnarr borgarstjóra og andúð hans á öllu sem viðkemur hernaði.




Mánudagur 23. 05. 11. - 23.5.2011

Veðráttan og eldgosið er ekki beinlínis til þess fallið að koma manni í sumarskap. Myndir frá öskusvæðinu segja ekki nema hálfa söguna. Óþægindin af því að búa við þessar aðstæður komast aldrei til skila á sjónvarpsskjánum. Kristján Már Unnarsson gerði þó vissulega sitt besta til þess sýna þau í upphafi fréttatímans á Stöð 2 í kvöld þegar hann stóð í öskuroki á Kirkjubæjarklaustri.

Fyrir ári beindist athyglin að sveitinni undir Eyjafjöllum vegna öskufalls úr Eyjafjallajökli. Þá lá í loftinu að hoggið yrði skarð í byggðina þar, jafnvel bárust fréttir frá Þorvaldseyri um að þar kynnu menn að bregða búi. Nú er unnt að fara að bænum og skoða sýningu sem bændur hafa opnað þar til sýna ferðafólki hvað gerðist vorið 2010.

Ég hef hitt Íslending sem fór með útlendinga að Þorvaldseyri, horfði á kvikmynd sem þar er sýnd í skálanum um Eyjafjallajökulsgosið. Þótti þeim öllum að vel hefði til tekist og mælti viðmælandi minn með sýningunni. Vonandi tekst að vinna á jafn farsælan hátt úr því sem nú er að gerast vegna gossins í Grímsvötnum.

Bók mín Rosabaugur yfir Íslandi kemur út á miðvikudag og verður í stærstu bókabúðum næsta fimmtudag. Meira að segja Hagkaup tekur hana í sölu hjá sér. Nýir eigendur ráða nú fyrirtækinu. Í tíð fyrri eigenda beittu þeir  valdi sínu til að hindra dreifingu á rituðu máli sem þeim var ekki að skapi. 

Sunnudagur 22. 05. 11. - 22.5.2011

Fórum í dag í Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnaði kór skólans og Hamrahlíðarkórnum á Vorvítamíni kóranna, árlegri vorhátíð með söng, kaffi og skemmtiatriðum í hléi fyrir ung börn.

Í kvöld sáum við Les Slovaks, hóp fimm sjálfstæðra dansara frá Slóvakíu sem búa og starfa í Belgíu en sýndu að þessu sinni listir sínar í Borgarleikhúsinu við mikla hrifningu áhorfenda.


Laugardagur 21. 05. 11. - 21.5.2011

Flaug heim frá Brussel í dag um Kaupmannahöfn. Allir tímar stóðust hjá SAS og Icelandair.

Boðskapurinn frá ESB er nú sá að evran sé komin á lygnan sjó enda sé efnahagur evru-ríkjanna að styrkjast. Össur Skarphéðinsson talar á þann veg í viðtali við Pressuna í dag.

Þjóðverjar hafa sannfærst um að það sé betra fyrir þá að láta Grikki hafa meira fé og gefa þeim tvö ár til að búa lánardrottna undir afskriftir á  skuldum. Yrði gengið hart að Grikkjum núna stæðust þeir ekki þrýstingin og við það mundu þýskir bankar tapa miklu fé sem bitnaði að lokum á þýskum skattgreiðendur. Sú skoðun ræður nú að byrði Þjóðverja yrði minni með því að lengja í skuldaól Grikkja en herða hana.

Föstudagur 20. 05. 11. - 20.5.2011

Eftir fund í morgun á vegum ATA (Atlantic Treaty Association) hér í Brussel átti ég þess kost að kynna mér lauslega stöðuna innan ESB varðandi Ísland. Aðildarumsóknin er í hægagangi eins og öllum er ljóst. ESB mun ekki stöðva ferlið heldur hafa það í lággír til að átta sig sem best á stöðunni. ESB hefur aldrei kynnst því áður að ríki sæki um aðild án þess að ríkisstjórnin sé sammála um hvað í umsókninni felst.

Schengen-yfirlýsingar Ögmundar Jónassonar vekja undrun. Hið sama á við um tilburði Dana um að taka upp eitthvert eftirlit á landamærum sínum. Á það er bent að ESB er tollabandalag og þess vegna geti ríki innan ESB ekki tekið upp tolleftirlit á landamærum sínum. Æfingar Dana séu allar til heimabrúks því að ESB muni kæra dönsk stjórnvöld fyrir ESB-dómstólnum ef þau láti verða af því að framkvæma hótanir sínar um tollgæslu. Hún eigi ekkert skylt við Schengen heldur byggist afnám hennar á ESB-aðild Dana,

Þegar hugað er að yfirlýsingum Ögmundar um Schengen má láta þess getið að hann hefur ekki sótt einn einasta ráðherrafund um Schengen-málefni. Þá heldur innanríkisráðuneytið ekki úti neinum embættismanni sem sinnir Schengen-málefnum í Brussel. Reyndir embættismenn á sviði Schengen-málefna starfa ekki lengur í stjórnarráðinu. Þeir hurfu þaðan þegar dómsmálaráðuneytið sameinaðist samgönguráðuneytinu í innanríkisráðuneytinu.

Þegar ég varð dómsmálaráðherra taldi ég óhjákvæmilegt fyrir mig að skrifa sérstaka ritgerð um Schengen-málefni til að átta mig á þessum mikilvæga málaflokki. Í raun er það hlægileg einföldun í nútímastöðu Íslands að halda því fram að með úrsögn úr Schengen myndu íslensk stjórnvöld efla vörn gegn erlendum glæpagengjum.

Tvær leiðir eru inn í landið með Norrænu og um Keflavíkurflugvöll. Unnt er að fá lista yfir alla farþega sem fara um þessa tvo staði og bera þá saman við Schengen-gagnagrunna og fylgjast þannig með öllum sem til landsins koma. Þetta er miklu virkari vörn en að litið sé í vegabréf í sérstöku hliði.

Vilji Ögmundur Jónasson efla ytri varnir Íslands á þessu sviði á hann að efla greiningarstarf á farþegalistum og viðbrögð við því ef einhver grunsamlegur er á leið til landsins samkvæmt þessum listum og skránum sem fylgja Schengen-aðildinni. Aðgangur að þessum skrám lokast um leið og farið er úr Schengen.

Fimmtudagur 19. 05. 11. - 19.5.2011

Allan daginn sat ég á fundi ATA í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Fyrri hluta dags fluttu sérfræðingar bandalagsins erindi um stöðu þess og verkefni á líðandi stundu en seinni hlutann ræddum við í fulltrúaráði ATA (Atlantic Treaty Association) málefni félagsins, lagabreytingar og annað.

NATO hefur tekið stakkaskiptum á þeim 20 árum sem liðin eru frá lyktum kalda stríðsins. Verkefni í nafni bandalagsins eru nú í Júgóslavíu fyrrverandi, Afganistan, undan ströndum Sómalíu og í Líbýu. Alls staðar er beitt valdi til að ná markmiðum sem NATO-ríkin hafa sett sér í samstarfi við ríki utan bandalagsins en þetta samstarf tekur á sig ólíka mynd eftir því hvert verkefnið er.

Á tíma kalda stríðsins hefði valdbeiting af þessu tagi undir merkjum NATO verið óhugsandi. Þá lögðu menn áherslu á herstjórnarstefnu sem miðaði að því að viðbúnaðurinn væri svo mikill og ógnvekjandi að aldrei þyrfti að beita honum af því að enginn þyrði að leggja til atlögu við hann.

Miðvikudagur 18. 05. 11. - 18.5.2011

Nú fara ýmsir hamförum yfir því að gestum hafi verið boðið að sitja í sal Eldborgar í Hörpu þegar húsið var opnað formlega13. maí auk þess sem býsnast er yfir því að gestum hafi verið boðnar veitingar í lengra hléi af tveimur þetta kvöld. Mér þykir þetta skrýtin umræða. Auðvitað varð að opna húsið á formlegan hátt og bjóða til þess gestum eins og ávallt er gert við slík tækifæri. Fráleitt er að láta eins og þessi athöfn hafi einkennst af bruðli.

Á sínum tíma átti ég nokkrum sinnum í orðaskaki við menn innan Sjálfstæðisflokksins þegar ég beitti mér fyrir því að tekin yrði pólitísk ákvörðun um að ríkið kæmi að því að semja við þá sem tækju að sér að reisa húsið. Nú er hið glæsilega hús risið sem sannar á áþreifanlegan hátt að andstæðingar þess urðu einfaldlega undir í málinu. Menn verða að taka þeim ósigri án þess að verða sér til skammar.

Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem rifist er um hús. Eftir að Ráðhúsið við Tjörnina og Perlan risu var endalaust hamrað á því að um óráðsíu hefði verið að ræða og átti sá áróður þátt í að Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihluta í borginni árið 1994. Vafalaust hefur einnig verið fundið að  því hvernig staðið þessi hús voru formlega opnuð.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar þótti alltof stór árið 1987 og mikið var skammast yfir því hvernig staðið var að því að opna hana enda skammt til þingkosninga.

Hallgrímskirkja sat einnig undir mikill gagnrýni og þannig mátti áfram telja.

Þegar ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur 2002 til 2006 gagnrýndi ég að stórhýsi yrði reist sem höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. Til að fela kostnað við þá byggingu var margvíslegur blekkingarleikur stundaður.

Af þeim húsum sem ég hef hér nefnt tel ég þau öll standa fyrir sínu nema OR-húsið. Það er til marks um óráðsíu. Notagildi hinna húsanna er ótvírætt.


Þriðjudagur 17. 05. 11. - 17.5.2011

Í dag tók ég upp þátt minn á ÍNN sem verður sýndur annað kvöld klukkan 20.00. Að þessu sinni ræði ég við Jóhannes Bjarna Sigtryggsson, ritstjóra Handbókar um íslenskt mál, sem kom út hjá Forlaginu fyrir nokkrum vikum en er samin á Árnastofnun.

Þessi nýja bók á erindi til allra sem vilja vanda sig við ritstörf en undir þau felli ég allt frá skrifum á tölvu til ritunar bóka. Í handbókinni eru meðal annars ábendingar um ritun tölvubréfa en ekki er síður nauðsynlegt að setja þau á skipulegan hátt en annars konar bréf.

Þegar ég starfaði á Morgunblaðinu á sínum tíma hittumst við starfsmenn erlendu deildarinnar reglulega, einn okkar fór yfir blaðið og vakti máls á því sem hann taldi að betur mætti fara. Urðu umræður oft líflegar enda álitaefnin mörg. Saknaði ég þess oft að engin slík handbók væri fyrir hendi þar sem leita mætti svara við álitaefnum.

Meðal þess sem við Jóhannes Bjarni ræðum er spurningin um hvenær nota eigi stóran eða lítinn staf, t. d. þegar talað er um stofnanir. Eins og lesendur mínir sjá er ég vinur litla stafsins.

Ég mæli með þessari bók. Hún er kjörin, vilji menn gefa hagnýta gjöf til þeirra sem nú eru að ljúka prófum.

Mánudagur 16. 05. 11. - 16.5.2011

Af því litla sem ég heyrði af umræðum á alþingi í dag um skýrslu utanríkisráðherra sannfærðist ég enn frekar en áður um að Árni Þór Sigurðsson, hinn vinstri-græni formaður utanríkismálanefndar alþingis, er í senn ljósmóðir ESB-umsóknarinnar og dagmóðir hins tæplega tveggja ára króa.

Árni Þór var spurður um hlut alþingis við mótun samningsafstöðu Íslands og lét hann sér nægja að segja að afstaðan yrði „kynnt“ utanríkismálanefnd og hann þóttist greinilega mjög róttækur þegar hann sagði að meira að segja fagnefndir þingsins kynnu að fá að sjá samningsafstöðu á sínu verkefnasviði. Árna Þór þótti ekkert sjálfsagðra en að ríkisstjórnin tæki ákvörðun um samningsafstöðuna. Þingmönnum yrði hins vegar gefinn kostur á að kynna sér hana.

Árni Þór var fyrir nokkrum árum í fáeina mánuði fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel. Það dugði til að hann fékk ESB-vírusinn. Eftirmaður hans í þessari skrifstofu sambands evrópskra sveitarfélaga, Anna Margrét Guðjónsdóttir, ráðgjafi og varaþingmaður Samfylkingarinnar, var nýlega tilnefnd Evrópumaður ársins af Evrópusamtökum, það er þeim sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB hvað sem tautar og raular. Tilnefninguna fékk hún fyrir ötula baráttu í þágu aðildarmálstaðarins.

Bjarni Benediktsson spurði Árna Þór á alþingi í dag hvernig hann mundi greiða atkvæði ef gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarsamning. Árni Þór gat ekki svarað því með já eða nei. Að vinstri-grænir feli Árna Þór trúnaðarstarf á þingi sem gerir honum kleift að leika þann leik sem hann hefur gert í ESB-málinu sýnir að flokknum er ekki treystandi í málinu. Þingmenn hans gera allt sem þeir mega til að sitja í valdastólum. Árni Þór á allt undir því að ganga í augun á Össuri og þar með gengur hann eins langt og hann frekast getur við að samþykkja að traðkað sé á alþingi í ESB-ferlinu.

Sunnudagur 15. 05. 11. - 15.5.2011

Glöggur lesandi benti mér á rangfærslu á síðu minni í gær þegar ég sagði að lög hefðu verið samþykkt um að breyta stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð þrátt fyrir ógilda kosningu á fólkinu sem situr nú á fundum stjórnlagaráðs. Alþingi hefði alls ekki ákveðið þetta með lögum heldur þingsályktun sem minnihluti þingmanna hefði stutt þegar um hana voru greidd atkvæði.

Þá bar svo við í þessari atkvæðagreiðslu í alþingi að ekki var farið að hefðbundinni reglu við val á mönnum í nefndir og ráð. Reglan er sú að meirihluti og minnihluti eigi fulltrúa í þessum nefndum eða ráðum. Þarna var látið við það sitja að stjórnlagaráð yrði skipað þeim valdir voru í ógildri kosningu.

Lömbum fjölgar jafnt og þétt í Fljótshlíðinni og hafa ærnar mínar nú borið þremur. Ég tók þátt í því í dag að hleypa einni þeirra úr húsi hjá Ásgeiri Tómassyni á Kollabæ. Hann hefur fóðrað hana og hugsað um hana og síðan lambið af kostgæfni í vetur.

Laugardagur 14. 05. 11. - 14.5.2011

Fyrir hrun bankanna nægði að menn segðu orðið „útrás“ til að þagga niður í þeim sem töldust ekki haga sér innan ramma hins pólitíska rétttrúnaðar. Nú hrópa menn „bankahrun“ til að hræða sjálfstæðismenn frá því að gagnrýna hina ótrúlega skemmandi stjórnarhætti sem einkenna ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. Hið einkennilega er að þetta sýnist duga til að halda aftur af forystusveit sjálfstæðismanna. Hún nær ekki vopnum sínum gagnvart þessari skaðvænlegu ríkisstjórn.

Það er ekki eitt heldur allt sem stjórnarherrarnir telja sig hafa umboð kjósenda sinna til að eyðileggja. Kosning til stjórnlagaþings misheppnaðist vegna þess hvernig að henni var staðið af hálfu stjórnvalda. Þá er valinn sá kostur að hafa hæstarétt að engu með því að gera þá sem hlutu ógilda kosningu að stjórnlagaráði með lögum frá alþingi. Upplýsingaskylda stjórnvalda er þrengd með nýju frumvarpi. Vegið er að stjórnarráðinu og vald tekið frá alþingi og flutt til forsætisráðherra undir þeim formerkjum að dregið sé úr ráðherraræði. Gjaldeyrishöft eru hert með sífellt meiri hnýsni í einkahagi manna. Lagst er gegn því að vatn sé virkjað. Erlendir fjárfestar hundeltir. Ráðist er að útgerð, fiskveiðum og fiskvinnslu með aðför að kvótakerfinu. Fjárfesting er minni en nokkru sinni frá stofnun lýðveldis. Skattar eru markvisst hækkaðir til að þrengja að á öllum sviðum.

Ef eitthvað af þessu er gagnrýnt hefja stjórnarherrarnir sönginn um bankahrunið. Vissulega var það vont en verri eru afleiðingar þess undir forystu vinstri stjórnar sem drepur allt í dróma.


Föstudagur 13. 05. 11. - 13.5.2011 0:14

Hátíðin þegar Harpa var formlega opnuð í kvöld heppnaðist mjög vel. Flutt var tónlist af ýmsu tagi en mest klassísk. Í lokin sungu allir þátttakendur á sviði, um 400, og gestir í sal þjóðsönginn - ógleymanlegt. Ræður Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Jóns Gnarrs borgarstjóra voru góðar. Eina sem mér þótti ekki vel heppnað var kvikmynd um sögu byggingarinnar. Ef þetta var brot er of snemmt að fella dóm.

Við gerð kvikmyndarinnar ber höfundi að hafa í huga að ákvörðun um að opinberir aðilar stæðu að baki smíði tónlistarhúss var ekki tekin fyrr en í byrjun árs 1999. Fram til þess tíma var málið á herðum áhugamanna. Þeir leituðu eftri skuldbindingu ríkis og borgar. Hún lá ekki á lausu. Ríkisstjórnin tók hins vegar af skarið um stuðning við tónlistarhús í janúar 1999. Þá tók málið nýja stefnu og framkvæmd hennar sést í Hörpu í Reykjavík og Hofi á Akureyri.

Þegar London Symphony Orchestra gaf árið 1985 tónlistarhúsi í Reykjvík tónleika í London undir stjórn Vladimirs Ashkenazys var ekkert fast í hendi gagnvart íslenskum stjórnvöldum vegna hússins. Án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr gildi þessara tónleika skiptu þeir engu þegar kom að ákvörðunum árin 1995 til 1999 um hvort og hvernig ríkið ætti að koma að smíði tónlistarhúss.

Ég tók nokkrum sinnum þátt í umræðum um nýtt tónlistarhús á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Þar voru ýmsir, einkum í hópi yngri karla, andvígir smíði tónlistarhússins. Minnist ég harðra umræðna í menningarmálanefnd landsfundar flokksins. Í þingflokki sjálfstæðismanna og borgarstjórnarflokki (2002 til 2006) fundust einnig gagnrýndendur ef ekki beinir andstæðingar tónlistarhússins. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki lagt húsinu lið í ríkisstjórn og borgarstjórn hefði það ekki risið. Kvikmynd um Hörpu sem bregður ekki ljósi á þennan aðdraganda heldur hefst á undirskrift um samkomulag milli ríkis og borgar snemma árs 2002 segir ekki alla söguna. Í þessu máli gildir hið fornkveðna: Sá veldur miklu sem upphafinu veldur.

Þá er ekki unnt að gera heimildarmynd um smíði Hörpunnar og minnast ekki á hlut Björgólfs Guðmundssonar. Hann og samstarfsmenn hans lyftu tónlistarhúsinu á nýtt plan eftir að þeir völdust til að sinna framkvæmdum við húsið og ábyrgjast byggingartæknileg atriði ásamt listrænum. Björgúlfur réð Vladimir Ashkenazy sem listrænan ráðgjafa og og Ólaf Elíasson sem listrænan hönnuð á útliti hússins. Að gera „heimildarmynd“ um smíði Hörpu og láta þess ógetið hver kallaði Ashkenazy á vettvang eða Ólaf Elíasson segir alls ekki alla söguna.


Lesa meira

Fimmtudagur 12. 05. 11. - 12.5.2011

Í dag voru veittir styrkir úr rannsóknarstyrktarsjóði Bjarna Benediktssonar í fjórða sinn af fimm. Að þessu sinni hlaut Ólafur Rastrick sagnfræðistyrkinn til að skrifa um menningararf, stjórnmál og þjóðríkið 1928 til 1942. Bjarni Már Magnússon sem skrifar doktorsritgerð í Edinborg um úrlausn ágreiningsefna á landgrunni utan 200 mílna og Björg Thorarensen sem ætlar að skrifa um stjórnskipun, ríkisvald fengu lögfræðistyrkja. Athöfnin fór fram í Þjóðmenningarhúsinu og þar sögðu Kristín Benediktsdóttir lögfræðingur og Þór Whitehead sagnfræðingur frá rannsóknum sínum og Svanhildur Bogadóttir borgaraskjalavörður kynnti vefsíðuna um Bjarna Benediktsson en sífellt meira efni bætist á hana.

Framsóknarmenn hafa lagt fram tímabæra tillögu á alþingi um rannsókn á hlut þingmanna í tengslum við árásir á lögreglu og Alþingishúsið um áramótin 2008/09. Eins og við var að búast hrökk Álfheiður Ingadóttir vinstri-græn í varnargírinn og á vefsíðunni Eyjunni má lesa:

„Hún [Álfheiður] sagði valdastéttina hafa brugðist ókvæða við mótmælum fólks. „Fyrst varð hún hrædd, svo varð hún reið,“ sagði Álfheiður og nefndi sérstaklega Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra. Hún sagði ásakanir í sinn garð „þvætting og hreinar lygar kaldastríðskarlsins Björns Bjarnasonar og hans hirðar,“ sem ratað hefði af einhverjum ástæðum inn í fundargerðarbækur forsætisnefndar.“

Þessi vanstilling Álfheiðar er með nokkrum ólíkindum. Mér var sagt að hún hefði staðið við glugga í þinghúsinu þegar að því og lögreglunni var ráðist með farsíma við eyrað og sagt frá ferðum lögreglu. Þá gerði hún hróp að lögreglustöðinni við Hverfisgötu þegar á hana var ráðist. Hún varð sér áberandi til skammar á þeim vettvangi. Spurning er hvort athæfi hennar í þinghúsinu varðar við lög. Rannsókn að tillögu framsóknarmanna ætti að upplýsa það. Hvers vegna fagnar Álfheiður ekki að fá tækifæri til að hreinsa nafn sitt fyrir slíkri nefnd?

Að Álfheiður ráðist á mig vegna þessa framferðis síns á rætur að rekja til þess að ég hef aldrei legið á vitneskju minni um framgöngu hennar. Orð Álfheiðar í þingsalnum sýna hvers vegna hún sá ekki ástæðu til að finna að orðbragði Þráins Bertelssonar á dögunum. Hún hefur ekki frekar vald á tungu sinni en hann. Hvernig skyldu menn tala saman á þingflokksfundum VG, þegar Steingrímur J. étt'ann sjálfur bætist í hópinn?

Miðvikudagur 11. 05. 11. - 11.5.2011

Í dag setti ég inn á síðuna viðtal sem Karl Blöndal tók við mig um 60 ára afmæli varnarsamningsins og birtist í Morgunblaðinu 8. maí. Viðtalið má lesa hér.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun að landsdómur muni láta málið gegn Geir H. Haarde ganga lengra en góðu hófi gegnir til að sýna fram á að dómstóllinn megi sín nokkurs. Þessi skoðun fær byr undir báða vængi þegar litið er yfir ákæruna sem saksóknari málsins hefur nú birt. Þar eru áréttuð sömu flokkspólitísku sjónarmið sem einkenndu ályktun alþingis og leiddu til þess að landsdómaur var kallaður saman.

Öllu eru atriðin svo matskennd að um þau á að fjalla á pólitískum vettvangi og leggja í dóm kjósenda. Þau á ekki að flytja af saksóknara fyrir rétti.

Þriðjudagur 10. 05. 11. - 10.5.2011

Það virðist koma sérfræðingum í Evróvisjón á óvart að Vinir Sjonna skuli hafa komist áfram í Düsseldorf í kvöld, í tíunda sæti af 10. Ég óska þeim til hamingju með árangurinn. Sérfræðingarnir skulda okkur skýringu á því hvers vegna þeim kemur árangur þeirra svo á óvart.

Þráinn Bertelsson lét sér ekki nægja að demba fúkyrðum yfir Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, heldur afflutti hann nafn Þorgerðar til að hæðast að henni. Lægra verður ekki komist í opinberum málflutningi. Þess verður hins vegar ekki vart að nokkur í stjórnarliðinu á alþingi finni að framgöngu Þráins. Þingmennirnir þora líklega ekki að gagnrýna hann af ótta við að Þráinn segi skilið við ríkisstjórnina og felli hana með því. Þráinn yfirgaf Borgarahreyfinguna eftir að fundið var að framgöngu hans innan flokksins. Finni einhver stjórnarþingmanna að dónaskap Þráins, fellur ríkisstjórnin.



Mánudagur 09. 05. 11. - 9.5.2011

Þráinn Bertelsson ræður úrslitum um meirihluta ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eins og sannaðist í atkvæðagreiðslu á alþingi á dögunum. Hann má sín því mikils. Hann minnti á það í þann mund sem fundi í Þingvallanefnd lauk á dögunum og Þráinn kallaði tvo þingmenn Sjálfstæðisflokksins „fasistabeljur“ af því að nefndarmenn stóðu ekki einhuga að vali á fólki í nefnd til að fjalla um framtíð Þingvalla.

Að Þingvallanefnd framselji vald sitt á þann veg sem gert er með skipan þessarar nefndar er umdeilanlegt. Lögum samkvæmt ber Þingvallanefnd að fara með málefni þjóðgarðsins. Hún getur ekki falið öðrum að taka stefnumarkandi ákvarðanir um framtíð Þingvalla. Vegna forkastanlegrar framkomu Þráins er nefndin nú óstarfhæf undir formennsku Álfheiðar Ingadóttur.

Ólafur Ragnar Grímsson svarar Jóhönnu Sigurðardóttur fullum hálsi þegar hún krefst þess af honum að settar verði siðareglur um forsetaembættið. Þá vill hann ekki heldur sæta upplýsingaskyldu um samskipti sín við forsætisráðherra eða bréfaskipti sín við Jóhönnu eða aðra sem embættinu gegna. Ólafur Ragnar telur heiður og frelsi forsetaembættisins í húfi.

Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi sem kemur út fyrir lok maí-mánaðar segi ég meðal annars frá fjölmiðlamálinu og deilunum sem urðu vegna þess. Þar lék Ólafur Ragnar stórt hlutverk áður en yfir lauk. Ég vitna meðal annars í bók Guðjóns Friðrikssonar Sögu af forseta þar sem segir frá því að svo mikil leynd hafi hvílt yfir komu Guðna Ágústssonar, þáverandi landbúnaðarráðherra, í hádegisverð að Bessastöðum 19. júlí 2004 að hann fékk ekki að skrá nafn sitt í gestabókina á Bessastöðum. Hún er því ekki traust heimild um það hverjir ræða við Ólaf Ragnar, jafnvel þótt hann hitti viðkomandi á Bessastöðum. Að leyndarhyggja af þessu tagi sé nauðsynleg til að tryggja forseta Íslands frelsi til að sinna skyldum sínum er næsta langsótt og raunar stórundarlegt þegar að er gáð.

Sunnudagur 08. 05. 11. - 8.5.2011

Breska blaðið The Daily Telegraph flytur þær fréttir að á árinu 2012 ætli Evrópusambandið að verja um 40 milljörðum ísl. króna til að kosta um 1000 spunaliða til að halda frá ágæti sambandsins. Fréttin birtist um sama leyti og skýrt er frá því að Vísindavefur Háskóla Íslands ætli að taka að sér að miðla ESB-upplýsingum í þágu ESB en jafnan er tekið fram að um óhlutdrægar upplýsingar sé að ræða til að auðvelda að átta sig á köstum og göllum aðildar.

Fyrir nokkru auglýsti ESB-sendiráðið í Reykjavík eftir tilboðum í upplýsingamiðlun fyrir sambandið. Niðurstaða þess ferlis hefur ekki verið kynnt opinberlega.

Við því er að búast að á næstunni leggi ESB sig fram af meiri þunga en áður til að móta almenningsálit á Íslandi sér í hag. Einhliða áróður undir merki Háskóla Íslands í þagu ESB-aðildar er ekkert nýnæmi. Vísindavefur HÍ  glatar fjótt  trúverðugleika láti hann stjórnast af ESB-spuna,

Þegar skoðaður er texti á netinu er oft hvatt til þess að hann sé ekki prentaður nema af brýnni þörf. Þetta hvatningarframtak í þágu umhverfisverndar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsir marga styrki. Ráðuneytið krefst þess að fá umsókn sem fyllt er inn á netinu senda í venjulegum pósti, það er nauðsynlegt er að prenta hana út, gjarnan í tvíriti, og koma í ráðuneytið. Ef menn vilja fara sjálfir með bréf í ráðuneytið um helgi, finnst enginn póstkassi hjá því.

Spyrja má: Hvers vegna viðurkennir ráðuneytið ekki umsóknir á rafrænu formi? Samræmist það umhverfisstefnu vinstri-grænna að hvetja til svo mikillar prentunar til að þjóna kröfum ráðuneytisins?

Laugardagur 07. 05. 11. - 7.5.2011

Efnt var til Öskjuhlíðardags i dag og stofnað til samstarfs Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og skógræktarmanna um um velferð hlíðarinnar. Vonandi hefst umhyggjan á því að hreinsa draslið úr Öskjuhlíðinni við hlið Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni. Sóðaskapurinn er öllum samstarfsaðilum um hlíðina til skammar.

Á dögunum sagði ég hér á síðunni að orð Álfheiðar Ingadóttur um að þingflokkur vinstri-grænna styddi „framlagningu“ frumvarps Jóhönnu Sigurðardóttur um breytingar á stjórnarráðslögunum  jafngilti andstöðu við efni frumvarpsins. Samfylkingarmenn á Eyjunni töldu þetta þverstæðu. Svo er ekki því að á alþingi er eitt samþykkja að mál sé lagt fram og annað að samþykkja efni þess.

Eyjumenn ættu að rýna í laugardagsviðtal Björns Inga Hrafnssonar við Ögmund Jónasson, innanrikisráðherra, á Eyjunni í dag. Þar segir Ögmundur:

„Þessar hugmyndir stjórnarráðsfrumvarpsins eru byggðar á skýrslu sem upprunalega var unnin af Gunnari Helga Kristinssyni, prófesssor við Háskóla Íslands. Þegar skýrsla hans kom fyrst fram síðastliðið vor gagnrýndi ég hana harðlega opinberlega í blaðaskrifum og hef einnig gert það inn á við. Fannst mér gæta of mikillar píramídahugsunar og miðstýring væri of mikil fyrir minn smekk. En síðan hafa þessar hugmyndir verið að þróast í rétta átt og er það vel.“

Ögmundur segist hafa samþykkt framlagningu frumvarpsins með fyrirvara í ríkisstjórn og telur að það eigi eftir að „þroskast“, þegar Björn Ingi spyr um stuðning hans við það. Þá telur hann að sú gagnrýni eigi við rök að styðjast að frumvarpið „stórauki völd og áhrif forsætisráðherrans“.

Átti þeir Eyjumenn sig ekki á að í þessari afstöðu Ögmundar felst andstaða við efni frumvarps Jóhönnu og þar með ekki stuðningur við það, skilja þeir ekki hvernig kaupin gerast á alþingi.

Hitt er síðan með miklum ólíkindum ef þingmenn sem telja framkvæmdavaldið of sterkt gagnvart löggjafarvaldinu ætla að kyngja því að ákvörðun um fjölda og verkaskiptingu ráðuneyta sé tekin úr höndum alþingis og færð til forsætisráðherra.

Föstudagur 06. 05. 11. - 6.5.2011

Ég las á vefsíðu að Jóhanna Sigurðardóttir segðist hafa rætt efni hins nýja frumvarps um breytingu á stjórnarráðslögunum við einhverja fyrrverandi forsætisráðherra. Átti staðhæfingin að styðja þann málstað hennar að rústa skipulagi stjórnarráðsins sem hefur dugað vel í rúm 40 ár. Þeir sem ræddu þetta á netinu bentu á að fjórir forverar Jóhönnu í embætti forsætisráðherra væru nú á lífi: Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Geir H, Haarde. Veltu menn því síðan fyrir hver eða hverjir úr hópi þessara fjórmenninga hefðu setið á hljóðskrafi með Jóhönnu um breytingar á stjórnarráðinu.

Ég hef setið með þessum mönnum í ríkisstjórn og í tíð Halldórs Ásgrímssonar var okkur ráðherrum Árna Magnússyni og mér falið að íhuga tillögur um breytingar á stjórnarráðinu, sem við gerðum. Að í þeim umræðum kæmu fram sjónarmið sem nálguðust það sem birtist í frumvarpi Jóhönnu er fjarri sanni. Ég leyfi mér að draga í efa að nokkur þessara fjögurra fyrrverandi forsætisráðherra hafi látið hrun bankakerfisins hafa þau áhrif á sig að þeim þætti brýnasta viðfangsefni forsætisráðherra að kollvarpa skipan stjórnarráðsins og sölsa undir sig meira vald.

Ég vona að þingmenn gangi á eftir því við Jóhönnu við hvaða fyrrverandi forsætisráðherra hún hefur rætt til að styrkjast í þeirri trú að hún sé á réttri braut við að eyðileggja stjórnarráðið.

Stuðningsmenn Samfylkingarinnar á vefsíðunni Eyjunni  tóku það óstinnt upp að ég hefði sagt Álfheiði Ingadóttur skýra frá því á þingi að vinstri-grænir styddu ekki stjórnarráðsfrumvarp Jóhönnu, því að hún hefði einmitt sagt að þingflokkurinn styddi „framlagningu“ frumvarpsins. Þessi skoðun Eyjumanna sýnir aðeins að þeir eru með öllu ókunnugir því hvernig stjórnarþingmenn standa að málum. Styðji þingflokkur framlagningu máls vill hann ekki standa gegn því að það sé lagt fram til umræðu. Með orðalaginu er sagt að þingflokkurinn hafi ekki tekið afstöðu til efnis frumvarpsins og styðji það í raun ekki.


Fimmtudagur 05. 05. 11. - 5.5.2011

Í gær ræddi ég við Friðþór Eydal, sem var blaðafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli en er nú starfsamaður ISAVIA, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um varnarliðið í tilefni af 60 ára afmæli varnarsamningsins sem er í dag. Friðþór er manna fróðastur um sögu varnarsamstarfsins eins og má sjá hér.

Í tilefni af afmæli varnarsamningsins höfðum við í stjórn Varðbergs boðað til hádegisverðarfundar í dag, þar sem James J. Townsend, aðstoðarráðherra varnarmála frá Bandaríkjunum, ætlaði að ræða um varnarsamstarfið í 60 ár. Vegna óveðurs í Washington í gær missti hann af vél Icelandair í Boston og urðum við að aflýsa fundinum. Í tilefni af tímamótunum var rætt við mig í Fréttablaðinu eins og lesa má hér.

Í morgun fór ég og leiddi qi gong æfingu í Sjálandsskóla í Garðabæ, þar sem einn félagi okkar hratt af stað æfingahópi sem eflist jafnt og þétt. Sannar þetta aðeins hve æfingakerfið höfðar til margra.

Klukkan 18.15 var ég síðan í Rótary-klúbbi Árbæjar og kynnti qi gong fyrir klúbbfélögum.

Miðvikudagur 04. 05. 11. - 4.5.2011

Tímamót: fyrstu tónleikar í Hörpu, ógleymanleg stund.

Strax og ég varð menntamálaráðherra 23. apríl 1995 spurðu fjölmiðlar mig hvenær ég ætlaði að taka af skarið um byggingu tónlistarhúss, ég sagðist mundu gera það fyrir lok kjörtímabilsins vorið 1999. Það gekk í ársbyrjun 1999 voru áformin um tónlistarhúsið kynnt og menningarhús úti á landbyggðinni. Hof var vígt á Akureyri í ágúst 2010.

Mér kom þetta í hug þegar ég sat og hlustaði á Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimirs Ashkenazys í tónlistarhúsinu Hörpunni í kvöld. Fjarlægur draumur orðinn að veruleika, húsið risið og Ashkenazy að stjórna 9. sinfóníu Beethovens.

Hér á síðunni má lesa þessa færslu frá árinu 1996:

„Í hádegi fimmtudagsins 4. júlí átti ég þess kost að hitta Vladimir Ashkenazy með Stefáni Pétri Eggertssyni, formanni nefndar, sem kannar kosti og galla nýs tónlistarhúss. Fórum við yfir stöðu málsins en eins og menn hafa séð í blöðum er Ashkenazy mikill áhugamaður um, að í smíði þessa húss verði ráðist og telur raunar hina mestu hneisu, að það skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu.“

Á þessum fundi benti Ashkenazy okkur Stefáni Pétri á að leita samstarfs við bandaríska hljómburðar sérfræðinga hjá fyrirtækinu Artec í New York, þeir hönnuðu bestu salina. Þetta gekk eftir og Stefán Pétur hefur fylgt málinu til enda. Hljómburðurinn er frábær eins og Ashkenazy spáði. Við ákváðum einnig þennan dag í júlí 1996 að Ashkenazy mundi stjórna 9. sinfóníunni á fyrstu tónleikum í húsinu. Það gekk eftir.

Hinn 9. október árið 2000 hitti ég Artec menn í skrifstofu þeirra í New York. Þeir sögðu mér að reynsla þeirra kenndi þeim að það tæki um 13 ár frá ákvörðun um byggingu tónlistarhúss eins og við Íslendingar vildum reisa að fenginni ráðgjöf þeirra, þar til húsið kæmist í gagnið. Frá því að  ríkisstjórnin tók ákvörðun um að ráðast í smíði tónlistarhússins 5. janúar 1999 til 4. maí 2011 eru 12 ár og fjórir mánuðir, árin eru hins vegar tæplega 15 síðan við Stefán Pétur hittum Ashkenazy og gengum af hans fundi staðráðnir í að tómlistarhúsið skyldi rísa.

Dagsins í dag verður minnst sem upphafsdags nýrra tíma í tónlistar- og menningarsögu þjóðarinnar.

Þriðjudagur 03. 05. 11. - 3.5.2011

Íslensku blöðin voru farin í prentun sunnudagskvöldið 1. maí þegar fréttinn um að Osama bin Laden hefði verið myrtur barst. Þegar þau komu út í dag vakti meiri athygli á forsíðum þeirra að bjarndýr hefði verið verið skotið á Hornströndum en að bin Laden væri fallinn. Kastljósið var einnig helgað því í kvöld hvort réttmætt hefði verið að fella bjarndýrið. Svo draga einhverjir í efa að heimssýn norðurslóðamanna sé önnur en þeirra sem búa á meginlandi Evrópu, þar sem hvorki má selja selafurðir né hvalkjöt.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur varpað fram þeirri kenningu að keppi hvalurinn ekki við manninn við fæðuöflun stundi hann sérstæða matvælaframleiðslu sem styrki rökin fyrir því að hann sé veiddur, ekki síst á tímum hækkandi matvælaverðs og umræðna um fæðuöryggi.

Ég skrapp austur í Fljótshlíð og skynjaði í fyrsta sinn vorkomuna á þessu ári. Á leiðinni sá ég meira að segja lítil lömb spóka sig í túnjaðri við þjóðveginn.

Mánudagur 02. 05. 11. - 2.5.2011

Skaðvaldurinn Osama bin Laden, leiðtogi Al-kaída hryðjuverkasamtakanna, var drepinn í gær í víggirtri húsaþyrpingu skammt frá stórum herskóla nokkra tugi kílómetra frá Islamabad, höfuðborg Pakistans. Sérsveitarmenn bandaríska flotans réðust í þyrlum inn á hið víggirta svæði. Féll Osama bin Laden þegar lífverðir hans snerust gegn sérsveitarmönnunum. Obama, Bandaríkjaforseti, heimilaði aðgerðina föstudaginn 29. apríl, eftir að sannað þótti að tilgáta CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, um þennan felustað bin Ladens væri rétt. Fögnuður braust út í Bandaríkjunum að kvöldi 1. maí, þegar Obama ávarpaði þjóðina og sagði henni tíðindin af örlögum bin Ladens.

Það var löngu orðið tímabært að hafa hendur í hári þessa illvirkja. Má segja að hann hafi nú hlotið makleg málagjöld. Víða um heim en þó einkum í Bandaríkjunum og Pakistan hafa stjórnvöld hert öryggisráðstafanir ef einhverjum fylgismönnum bin Ladens skyldi koma til hugar að hefna hans með því að vinna ódæðisverk á saklausum borgurum.

Ég vek athygli á því að fimmtudaginn 5. maí klukkan 12.15 boðar Varðberg til hádegisverðarfundar að hótel Sögu (norðurenda) þar sem James J. Townsend, aðstoðarráðherra varnarmála í Bandaríkjunum, flytur ræðu í tilefni af 60 ára afmæli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Fundurinn er öllum opinn og kostar málsverðurinn 2.500 kr.


Sunnudagur 01. 05. 11 - 1.5.2011

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, flutti 1. maí ræðu á Akureyri þar sem hann mælti með aðild að ESB til að skapa stöðugleika. Engu líkara en hann átti sig á því að með þessum boðskap ýtir hann undir sundrungu - ekki aðeins meðal þjóðarinnar heldur einnig innan eigin samtaka. Þótt forystumenn ASÍ séu gengnir í ESB á hið sama ekki við um umbjóðendur þeirra.

ASÍ tekur þátt í Evrópusamtökum verkalýðsfélaga sem hafa lagst gegn tillögum Merkel og Sarkozys um leiðir til að bjarga evrunni. Tillögurnar hafa verið samþykktar þrátt fyrir mótmælin. Fyrir verkalýðssamtök innan ESB boða þær illt að mati verkalýðsleiðtoga þar - engu að síður mælir forseti ASÍ með því að Ísland gangist undir þessar reglur með aðild að ESB.  Ætli forystumenn ASÍ séu hættir að fylgjast með því sem er að gerast innan ESB? Eða er þeim alveg sama?

Um svipað leyti og forseti ASÍ ýtti undir sundurlyndi með tali um ESB-aðild á Akureyri stóð Jóhanna Sigurðardóttir á sviðinu í Iðnó og ýtti undir sundrungu með því að ráðast útgerðarmenn. Ný könnun Viðskiptablaðsins sýnir að stjórnendur fyrirtækja telja sjávarútveginn mikilvægustu atvinnugreinina. Forsætisráðherra telur mestu skipta að vega að þeirri grein í 1. maí ræðu sinni.

Þau Jóhanna og Gylfi eru bæði í Samfylkingunni og telja sig kynna stefnu hennar í ræðum sínum. Ætli vandi þjóðarinnar felist ekki í þessari stefnu frekar en nokkru öðru á stjórnmálasviðinu.