12.5.2011

Fimmtudagur 12. 05. 11.

Í dag voru veittir styrkir úr rannsóknarstyrktarsjóði Bjarna Benediktssonar í fjórða sinn af fimm. Að þessu sinni hlaut Ólafur Rastrick sagnfræðistyrkinn til að skrifa um menningararf, stjórnmál og þjóðríkið 1928 til 1942. Bjarni Már Magnússon sem skrifar doktorsritgerð í Edinborg um úrlausn ágreiningsefna á landgrunni utan 200 mílna og Björg Thorarensen sem ætlar að skrifa um stjórnskipun, ríkisvald fengu lögfræðistyrkja. Athöfnin fór fram í Þjóðmenningarhúsinu og þar sögðu Kristín Benediktsdóttir lögfræðingur og Þór Whitehead sagnfræðingur frá rannsóknum sínum og Svanhildur Bogadóttir borgaraskjalavörður kynnti vefsíðuna um Bjarna Benediktsson en sífellt meira efni bætist á hana.

Framsóknarmenn hafa lagt fram tímabæra tillögu á alþingi um rannsókn á hlut þingmanna í tengslum við árásir á lögreglu og Alþingishúsið um áramótin 2008/09. Eins og við var að búast hrökk Álfheiður Ingadóttir vinstri-græn í varnargírinn og á vefsíðunni Eyjunni má lesa:

„Hún [Álfheiður] sagði valdastéttina hafa brugðist ókvæða við mótmælum fólks. „Fyrst varð hún hrædd, svo varð hún reið,“ sagði Álfheiður og nefndi sérstaklega Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra. Hún sagði ásakanir í sinn garð „þvætting og hreinar lygar kaldastríðskarlsins Björns Bjarnasonar og hans hirðar,“ sem ratað hefði af einhverjum ástæðum inn í fundargerðarbækur forsætisnefndar.“

Þessi vanstilling Álfheiðar er með nokkrum ólíkindum. Mér var sagt að hún hefði staðið við glugga í þinghúsinu þegar að því og lögreglunni var ráðist með farsíma við eyrað og sagt frá ferðum lögreglu. Þá gerði hún hróp að lögreglustöðinni við Hverfisgötu þegar á hana var ráðist. Hún varð sér áberandi til skammar á þeim vettvangi. Spurning er hvort athæfi hennar í þinghúsinu varðar við lög. Rannsókn að tillögu framsóknarmanna ætti að upplýsa það. Hvers vegna fagnar Álfheiður ekki að fá tækifæri til að hreinsa nafn sitt fyrir slíkri nefnd?

Að Álfheiður ráðist á mig vegna þessa framferðis síns á rætur að rekja til þess að ég hef aldrei legið á vitneskju minni um framgöngu hennar. Orð Álfheiðar í þingsalnum sýna hvers vegna hún sá ekki ástæðu til að finna að orðbragði Þráins Bertelssonar á dögunum. Hún hefur ekki frekar vald á tungu sinni en hann. Hvernig skyldu menn tala saman á þingflokksfundum VG, þegar Steingrímur J. étt'ann sjálfur bætist í hópinn?