Dagbók: júlí 2008

Fimmtudagur, 31. 07. 08. - 31.7.2008 19:14

Hiti var mikill í Fljótshlíðinni og nóg að gera við frágang á nýbyggingu okkar í stað útihúsa, sem fuku í miklu roki í september 2006. Allt var komið í réttar skorður, þegar gestir komu í afmæli Rutar síðdegis og við nýttum húsakostinn í fyrsta skipti.

Miðvikudagur, 30. 07. 08. - 30.7.2008 19:07

Ókum frá Smyrlabjörgum í miklum hita og blíðu, mikill mannfjöldi var við Jökulsárlón og einnig í Skaflafelli. Á Núpsstað hittum við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð, sem kynnti okkur fyrir Filippusi Hannessyni, 98 ára gömlum bónda á Núpsstað. Margrét, systir hans, er 104 ára og býr ein við Langholtsveg í Reykjavík.

Eftir að Margrét, þjóðminjavörður. hafði leitt okkur um hin einstæðu torfhús, sem standa á Núpsstað, bauð Filippus okkur kaffi og við ræddum málin.

Filippus fylgist vel með öllu. Hann taldi nær að nota fjármuni til annars en varðveita torfhúsin að Núpsstað, þótt honum þyki greinilega vænt um, af hve mikilli alúð Margrét og samstarfsfólk hennar hefur tekið að sér að viðhalda gömlu húsunum. Filippus vill ekki að húsin séu rifin til grunna til að hlaða á ný heldur sé fylgt þeirri aldalöngu hefð að halda húsunum við með viðgerðum, þar sem þeirra er þörf.

Veðrið var áfram gott, hlýindi mikil, hátt í 30 stig á sumum stöðum á leiðinni, og sól í heiði. Á hinn bóginn var töluvert rok á söndunum, án þess að sandurinn truflaði umferð.

Þriðjudagur, 29. 07. 08. - 29.7.2008 18:07

Fórum í Kálfafellsstaðarkirkju í Suðursveit og tókum þar þátt Ólafsmessu. Kirkja á Kálfafellsstað var árið 1050 kennd við Ólaf helga Haraldsson, Noregskonung. Þetta breyttist við siðaskipti en árið 1717 keypti prestur á staðnum, séra Jakob tveggja álna trétsyttu af Ólafi helga og setti upp í kirkjunni og var styttan þar til 1888, þegar hún var gefin Forngripasafninu og er hún nú í Þjóðminjasafni en mynd af styttunni blasir við gestum í kirkjunni.

Klukkan 14.00 hófst helgistund í kirkjunni, þar sem séra Einar G. Jónsson sóknarprestur prédikaði og minntist Ólafs helga. Að lokinni helgistundinni las Þorbjörg Arnórsdóttir, sem fer með forstöðu Þorbergssafns á Hala, úr bók Kristjáns Eldjárns Hundrað ár í Þjóðminjasafni um kirkju Ólafi helga og sagnir tengdar henni um, að ógæfa kunni að hvíla á prestum á Kálfafellsstað, séu þeir þar lengur en 20 ár, án þess að sýna Ólafi helga virðingu og Völvuleiðinu undir Hellaklettum skammt fyrir neðan Kálfafellsstað.

Eftir stutt hlé var efnt til tónleika í kirkjunni, þar sem Rut, kona mín, og Richard Simm léku lög á fiðlu og píanó. Hljómburður er einstaklega góður í kirkjunni, sem var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni.

Kirkjan var nær fullsetin og að lokinni athöfn þar var haldið að Völvuleiðinu, þar sem Fjölnir Steinþórsson frá Hala, flutti okkur fróðleik um leiðið og tengdi frásögn sína tveimur fjölum úr stórviði, sem rak á fjöru Kálfafellsstaðar og dugði til að reisa þar prestssetur. Taldi hann rekann og nýtingu hans tengjast völvunni og virðingu fyrir leiði hennar en umhirða þess er í höndum prestsins. Sagan hermir, að þarna hvíli Gunnhildur, systir Ólafs helga. Veðurblíðan var einstök og stundin við leiðið eftirminnileg.

Síðan var okkur öllum boðið í Þórbergssetur, þar sem kaffiveitingar voru í boði. Séra Haraldur M. Kristjánsson í Vík, prófastur Skaftfellinga flutti ávarp og Fjölnir Steinþórsdóttir sagði frá draumi, sem tengdist Gunnhildi, konungssystur.

Á sínum tíma er talið, að 35 kirkjur hafi verið helgaðar Ólafi helga hér á landi en nú séu þær um 13, sem eftir standa. Á hinn bóginn er nýnæmi eftir siðaskipti á sextándu öld, að efnt skuli til Ólafsmessu í lúterskri kirkju . Færeyingar halda merki Ólafs helga hátt á loft með Ólafsvökunni.

Framtak sr. Einars og safnaðar hans var íbúum í Suðursveit til mikils sóma. Færi vel á því, að eftirgerð líkneskisins af Ólafi helga, sem nú er í Þjóðminjasafni, fengi veglegan sess í Kálfafellsstaðarkirkju. Sr. Einar hefur nú setið 19 ár á staðnum. Hann fæddist á staðnum, þegar afi hans var þar prestur.

Mánudagur, 28. 07. 08. - 28.7.2008 17:59

Ókum austur að Smyrlabjörgum, þar vel var á móti okkur tekið á hinu stóra og myndarlega hóteli, sem þar er.

Sunnudagur, 27. 07. 08. - 27.7.2008 22:13

Við Gunnar Eyjólfsson fórum saman í dag í Reykholt í Borgarfirði til messu í tilefni af kirkjudegi, þar sem herra Sigurbjörn Einarsson biskup prédikaði. Stundin verður öllum ógleymanleg vegna hátíðleika messunnar og þess viðburðar að heyra herra Sigurbjörn flytja svo snjalla prédikun 97 ára að aldri.

Ég fagna því, að Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn og formaður skipulagsráðs, skuli boða viðræður við stjórnendur Listaháskóla Íslands með það fyrir augum að tryggja, að skólinn rísi við Laugaveg á grundvelli verðlaunatillögunnar, sem kynnt hefur verið.

Sé óánægja með Gordon Brown jafnmegn meðal þingmanna Verkamannaflokksins og fréttir herma, leita þeir frekar að nýjum manni í hans stað en óska eftir kosningum. Þeir taka ekki þá áhættu að tapa þingsætum sínum vegna óvinsælda forsætisráðherrans. Brown hótar þeim kannski að rjúfa þing, haldi þeir sig ekki á mottunni.

Jack Straw, dómsmálaráðherra Breta, ber til baka, að hann sækist eftir leiðtogasæti Verkamannaflokksins. Verði hann valinn, þrátt fyrir þau orð, yrði hann aðeins til að brúa bil til yngri kynslóðar innan flokksins.

Laugardagur, 26. 07. 08. - 26.7.2008 23:01

Sérfróðir um kvikmyndir um leðurblökumanninn telja nýjustu myndina um hann Rökkuriddarann - The Dark Knight þá bestu um þessa einstöku hetju réttlætisins og stríð hennar við illu öflin, sem holdgervast í Jókernum. Ég dreg þennan dóm ekki í efa. því að myndin er mögnuð í öllu tilliti.

Jónas Kristjánsson er áfram með títuprjón á lofti.

Hann skammar Jónínu Ben. fyrir að segja Voltaire (1694-1778) hafa verið uppi á 16. öld í stað hinnar 18. Er verri villa, að ruglast á öldum varðandi Voltaire í blaðagrein um ágæti detox í Póllandi á líðandi stundu, en segja fólki í ferðahandbók um París, að það sé á leið í hveitibúð, þegar um er að ræða hunangsbúð, Maison du Miel?

Hinn 11. júlí sl. voru 10 ár liðin, frá því að umferð hófst um Hvalfjarðargöngin. Af því tilefni rifjaði Morgunblaðið upp hrakspár um göngin þar á meðal þessa eftir Jónas Kristjánsson í leiðara DV 27. febrúar 1996:

„Fólk tuðar gegn göngunum í hornum sínum, en notar ekki samtakamátt til að koma í veg fyrir, að göngin verði að einni helstu martröð þjóðarbúsins á næstu árum.“

Ég skrifaði í dag pistil um Listaháskóla Íslands við Laugaveginn. Verði skólinn reistur þarna blæs hann nýju lífi í miðborgina. Þegar ákveðið var, að Háskólinn í Reykjavík fengi aðsetur við Nauthólsvík í Vatnsmýrinni, taldi Dagur B. Eggertsson, að HR væri að tengjast miðborginni. Sú firra var notuð til að réttlæta byggingu á þessum viðkvæma stað og flaug ákvörðunin í gegnum borgarkerfið á örskotshraða - nú virðast menn ætla að taka sér góðan tíma til að ræða listaháskólann við Laugaveginn, af því að þar víkja tvö gömul hús fyrir skólanum samkvæmt verðlaunatillögu.

 

 

Föstudagur, 25. 07. 08. - 25.7.2008 21:36

Fyrir nokkur rakti ég hér á síðunni hvað G. Valdimar Valdimarsson segir um Evrópumál og i 24 stundir ritaði ég grein til að benda á, hvernig Helga Vala Helgadóttir fjallar um Evrópumál. Þau eru málsvarar þess, að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Í gær komst ég svo að orði hér á síðunni, að Barack Obama hefði sniðgengið Brussel á ferð sinni um Evrópu. Fyrir mér vakti það eitt að nefna þessa staðreynd og ekkert meira. Árni Snævarr í Brussel segir af þessu tilefni: „Væntanlega er þetta sneið til Evrópusinna; les: ESB skiptir ekki máli.“ (!) Þetta sé auk þess til marks um „ofstæki“ mitt sem „einangrunarsinna“.

Ég spyr enn: Hvers á Evrópuumræðan að gjalda með slíkri viðkvæmni málsvara aðildar Íslands að Evrópusambandinu? Að segja það dæmi um „ofstæki“ að nefnt sé, að Obama heimsæki ekki Brussel er í raun dæmalaust. Með því að kalla mig einangrunarsinna er seilst lengra en góðu hófi gegnir, ef tekið er mið af skoðunum mínum og störfum.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar fréttir um sýnilega löggæslu í miðborg Reykjavíkur. Einn af þráðunum, sem hann spinnur, er, að ég hafi móðgað forvera Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra í Reykjavík, með því að segja hann eina borgarstjórann í minni dómsmálaráðherratíð, sem hafi óskað eftir sérstökum fundi með mér um löggæslumál. Spuni Kolbeins breytir ekki þessari skoðun minni.

Með rannsóknarblaðamennsku hefur Fréttablaðið komist að því, að þess sé ekki getið í ferilskrá minni á vefsíðu alþingis, að ég hafi setið í borgarstjórn frá 2002 til 2006. Rannsóknarblaðamaðurinn ætti að upplýsa, hvers vegna sjálft alþingi kýs að halda þessu leyndu. Allt minnir þetta mig dálítið á málflutning R-listans, þegar Kolbeinn sat í borgarstjórnarflokki hans.

Fimmtudagur, 24. 07. 08. - 24.7.2008 21:47

Setti inn á vefsíðu mína útskrift af samtali okkar Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi í gær.

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var sagt, að milljón manns hefðu verið í Tiergarten í Berlín í dag til að hlusta á Barack Obama, verðandi forsetaframbjóðanda demókrata, flytja ræðu um samskipti Evrópu og Bandaríkjanna og önnur alþjóðamál á heimsreisu sinni. BBC sagði, að um 200 þúsund manns hefðu verið í garðinum og hlustað á Obama, þar sem hann stóð við Siegessäule, Sigursúluna, og sneri að Brandenborgarhliðinu í austri.

Þráttað var um, hvar í Berlín Obama ætti að standa, hvort væri við hæfi, að hann yrði við sjálft Brandenborgarhliðið, þar sem þeir John F. Kennedy og Ronald Reagan stóðu og fluttu eftirminnilegar ræður - báðir Bandaríkjaforsetar. Sigursúlan í Tiergarten varð fyrir valinu til að árétta, að Obama hefur hvorki verið formlega tilnefndur frambjóðandi né náð kjöri.

Athygli vekur, að Obama leggur höfuðáherslu á heimsókn til Berlínar, sniðgengur Brussel. höfuðborg Evrópusambandsins, og drepur rétt niður fæti í París og London.

Miðvikudagur, 23. 07. 08. - 23.7.2008 20:47

Sigmar Guðmundsson ræddi við mig í Kastljósi í kvöld og snerist samtal okkar að mestu um lögreglumál en einnig var minnst á evruna og Paul Ramses, frá Kenya, en ég sagði niðurstöðu í máli hans að vænta hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í ágúst.

Látið er í fjölmiðlum eins og einhver hægagangur sé á máli Pauls Ramses hjá ráðuneytinu. Það á ekki við nein rök að styðjast. Málið barst ráðuneytinu 9. júlí með kæru lögmanns Pauls, hún fór til umsagnar útlendingastofnunar daginn eftir, fimm dögum síðar barst umsögn stofnunarinnar og daginn eftir, 16. júlí, var hún send lögmanninum til umsagnar. Þetta er hefðbundið ferli stjórnsýslukæru en hraðinn er meiri á málinu en venjulega. Að fengnum þessum gögnum tekur ráðuneytið ákvörðun um næstu skref.

Þriðjudagur, 22. 07. 08. - 22.7.2008 14:59

Í gær velti ég fyrir mér hér í dagbókinni, hvað málsvarar evruaðildar Íslands segðu um þau ummæli seðlabankastjóra Evrópu, að hann gerði ekkert með hag einstakra landa, hann yrði að líta á stóru myndina.

G. Valdimar Valdimarsson bregst við á eftirfarandi hátt á bloggsíðu sinni:

„Á móti má spyrja Björn hvað hefur breyst síðan hann lagði til að semja um evruaðild án þess að ganga í Evrópusambandið?   Það er ótrúlegur hringlandaháttur í öllum málflutningi Sjálfstæðismanna þegar Evrópumál eru annarsvegar.   Meinti Björn eitthvað með útspilinu um daginn, eða var verið að drepa málinu á dreif eins og þeir gera sem eru rökþrota?  Það má líka spyrja Björn að því í framhaldi af þessar spurningu hér að ofan, hvaða álit hann hefur á útspili forsætisráðherra um að taka frekar upp dollar en evru?  Hann gerir lítið úr formanni sínum í þessum pistli og hittir sjálfan sig og Geir fyrir.   Skýtur sig og sinn helsta samherja í fótinn.  

Þetta er íhaldið í dag.“
 
G. Valdimar er einn þeirra, sem talar hæst um nauðsyn Evrópuumræðu. Spyrja má: Hver nennir eða leggur sig fram um að taka þátt í umræðu á þeim grunni, sem hann leggur? Ég hef sýnt, að lög heimila samninga Evrópusambandsins við þriðju ríki um evru. Þessi niðurstaða liggur fyrir staðfest af sendiherra sambandsins gagnvart Íslandi, Percy Westerlund. Hið sama á að sjálfsögðu við um dollar og evru, þeir, sem ákveða gengi þessara gjaldmiðla, láta ekki hagsmuni einstakra landsvæða ráða ferðinni heldur stóru myndina. Hvar hef ég lagt til að Ísland taki upp evru? Hið eina, sem ég hef sagt um það efni, er, að unnt sé að taka upp evru, án þess að ganga í Evrópusambandið.

 

Mánudagur, 21. 07. 08. - 21.7.2008 22:06

Í blaðinu The Irish Times birti föstudaginn 18. júlí samtal við Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra Evrópu, og hófst hún á þennan hátt:

„THE EUROPEAN Central Bank (ECB) will not change the course of its monetary policy to assist those euro area members such as Ireland, Spain or Portugal that are currently experiencing economic difficulties, the president of the ECB, Jean-Claude Trichet, has told The Irish Times. Paul Tansey Economics Editor reports.

"The ECB has to care for the superior interest of the euro area," Mr Trichet said, adding: "Our monetary policy must be optimal at the level of the whole euro area - exactly like the Fed [ the US central bank] would not look at what is in the interest of Missouri, California or Texas."“
Seðlabankastjórinn líkir sem sé Írlandi, Spáni og Portúgal við Missouri, Kaliforníu og Texas í Bandaríkjunum og segir bandaríska seðlabankann aldrei mundu haga ákvörðunum sínum með hagsmuni þessara ríkja innan Bandaríkjanna að leiðarljósi - hið sama eigi við evrópska seðlabankann, hann verði að hafa háleitari markmið en huga að hagsmunum einstakra þjóðríkja.
 
Hvað skyldu málsvarar íslenskrar evruaðildar segja um þessa afstöðu?
 
Ég skrifaði í dag pistil um sýnilega löggæslu.

 

 

Sunnudagur, 20. 07. 08. - 20.7.2008 21:16

Um kvölmatarleytið var umferðin svo mikil að austan á Suðurlandsvegi, að röðin var tæpir 30 km, eða frá gatnamótunum í Svínahrauni inn í Þrengslin að hringtorginu inn í Breiðholtið.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, andmælir því, að Tryggvi Þór Herbertsson sé tímabundið ráðinn efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, þar sem Tryggvi Þór vilji ekki Ísland í Evrópusambandið! Auk þess sé hann hallur undir Sjálfstæðisflokkinn! Er nokkur furða, þótt Ingvar Gíslason, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forveri Valgerðar í forystu framsóknarmanna í Norðurlandi eystra, skrifi örvæntingarfullt opið bréf í Morgunblaðið um örlög Framsóknarflokksins?

Á sínum tíma þótti undarlegt, að Jónas Kristjánsson teldi sig vera að fjalla um hveiti í Frakklandi, þegar málið snerist um hunang. Þá var hann að skrifa leiðbeiningar fyrir ferðamenn. Nú skrifar hann á eigin bloggsíðu og er enn við sama heygarðshornið, þegar hann segir mig hafa greitt Microsoft af skattfé fyrir að íslenska forrit. Þetta er alrangt og enn eitt dæmið dæmalaust óvönduð vinnubrögð. 

Laugardagur, 19. 07. 08. - 19.7.2008 21:06

24 stundir birtu grein eftir mig, þar sem ég svara Helgu Völu Helgadóttur, sem hneykslast á því, að ég sé haldi fast í skoðun, þótt sjálfur Percy Westerlund sjá meinbugi á framkvæmd hennar.

Föstudagur, 18. 07. 08. - 18.7.2008 21:57

Við Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, hittumst að hans ósk í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í dag og ræddum um löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna einlægum áhuga borgarstjóra á löggæslumálum. Síðan ég tók við dómsmálaráðherraembætti hefur enginn borgarstjóri óskað eftir fundi með mér um þessi mál og þetta er annar fundur okkar Ólafs.

Samfylkingarfólk, nú síðast Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar í borgarstjórn, nálgast öryggismál og löggæslu eins og eiithvert þrætuepli milli ríkis og sveitarfélaga. Væntir hann þess í raun að ná einhverjum árangri með þeirri aðferð? Eða er hann aðeins að reyna að slá keilur á kostnað annarra stjórnmálamanna?

Frá mínum sjónarhóli er einkennilegt að fylgjast með þessum æfingum Dags B. í ljósi þess, að á alþingi hefur þingflokksformaður Samfylkingarinnar. samstarfsflokks í ríkisstjórn, gert sér far um að gera allar umbætur mínar í lögreglumálum tortryggilegar með einkennilegri og órökstuddri gagnrýni á embætti ríkislögreglustjóra. Dagur B. hefur tekið undir þau órökstuddu sjónarmið, að almenn löggæsla hafi goldið fyrir eflingu sérsveitar og tilkomu greiningardeildar, honum þykir sér sæma að vega að embætti ríkislögreglustjóra. Til hvers? Ekki eykur það löggæslu í miðborg Reykjavíkur.

Við borgarstjóri staðfestum að sjálfsögðu, að öryggi borgaranna er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga og hvor um sig hefur eigin hlutverki að gegna. Við viljum efla samstarf ríkis og Reykjavíkurborgar á þessu sviði.

Löggæsla er ekki sama og öryggisgæsla einkaaðila. Á hinn bóginn má spyrja: Hvers vegna skyldu sveitarfélög ekki huga að samningum við einkaaðila á þessu sviði, eins og þeir, sem í sveitarfélögunum búa? Að láta sem svo, að með viðskiptum við öryggisfyrirtæki séu tugir þúsunda Íslendinga að kaupa sér falskt öryggi, er auðvitað rugl. Hvers vegna skyldu þessi fyrirtæki veita sveitarfélögum falska þjónustu?

Fréttir hafa birst, meðal annars á forsíðu Morgunblaðsins, um, að aðeins 14 lögreglumenn hafi verið á vakt að kvöldi 12. júlí og aðfaranótt hins 13. Ég skýrði borgarstjóra frá því, að þetta væri ekki rétt - þegar mest var þessa nótt, hefðu 44 lögreglumenn verið á vakt. Leiðrétti ég hinar röngu fréttir á fundinum með borgarstjóra.

Fimmtudagur, 17. 07. 08. - 17.7.2008 23:05

Var klukkan 20.00 á Þingvöllum og flutti þar gönguerindi um starfið í þjóðgarðinum, færðslu og framkvæmdir, fyrir fjölmennan hóp fólks í yndislegri kvöldkyrrð. Lukum við göngu okkar með helgistund hjá séra Kristjáni Vali Ingólfssyni, Þingvallapresti.

Miðvikudagur, 16. 07. 08. - 16.7.2008 18:19

Ég hef ekki þekkingu til að fjalla um áhrif þess fyrir Íslendinga, að hér yrði tekin upp evra, þótt ég hafi bent á þá staðreynd, að unnt er að semja um evrumál við Evrópusambandið án aðildar að því. Þegar þessi grein í The Irish Independent er lesin, kunna að renna tvær grímur á einhverja um réttmæti þess að innleiða evru á Íslandi. Þar segir meðal annars um evrulandið Írland:

„If a Martian economist landed in Ireland, he'd see straight away that Ireland is caught in a currency arrangement which will make our recession much deeper than necessary. This is an economic fact, not a political slogan. The euro is now part of the problem, not part of the solution.“

Percy Westerlund, sendiherra Erópusambandsins gagnvart Íslandi, með búsetu í Ósló, viðurkennir í samtali við sjónvarpið í kvöld, að lögheimildir séu fyrir hendi til að semja við þriðja ríki um evru, en ekki eigi við sömu rök um Ísland og þau ríki, sem við hefur verið samið til þessa. Til þess að breyta því þurfi pólitíska ákvörðun. Allt er þetta rétt, sem sendiherrann segir og hann fer að fyrirmælum sínum frá Brussel. Þessum fyrirmælum verður aðeins breytt með póltískum ákvörðunum í höfuðborgum Evrópusambandsríkja.

Sjónvarpið bar undir sendiherrann efni þessarar greinar minnar í Morgunblaðínu í dag.

Þriðjudagur, 15. 07. 08. - 15.7.2008 5:56

Þorsteinn Pálsson segir í leiðara Fréttablaðsins í dag:

„Fyrir rúmu ári skilaði Evrópunefnd þáverandi ríkisstjórnar undir forystu dómsmálaráðherra áliti um stöðu Íslands í Evrópu. Helstu pólitísku tíðindin við útkomu þeirrar skýrslu fólust í formlegu bandalagi Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs með undirritun sameiginlegrar bókunar um afstöðu flokkanna til þessa stærsta álitaefnis í utanríkispólitík samtímans.

Yfirlýsing dómsmálaráðherra nú hefur að sama skapi verulegt pólitísk gildi. Hún verður ekki skilin á annan veg en að bandalagið við VG sé úr sögunni. Það opnar fyrir frekari þróun þessarar umræðu. Jónas Haralz og Einar Benediktsson hafa nýverið fært fram sterk rök fyrir því að það verði gert í víðtækara samhengi en lýtur að efnahags- og peningaumræðunni.“

Ég verð að hryggja Þorstein með því, að hugleiðingar mínar um lögheimildir Evrópusambandsins til að semja við þriðju ríki um evruna, breyta engu um sameiginlega niðurstöðu mína og fulltrúa vinstri/grænna í Evrópunefndinni - hún snerist einfaldlega ekki um evruna eða íslensku krónuna heldur afstöðuna til aðildar að Evrópusambandinu. Ég er þeirrar skoðunar, að ekki þurfi aðild vilji menn semja við Evrópusambandið um samstarf í peninga- og gjaldeyrismálum.

Leiðari Morgunblaðsins í dag ber fyrirsögnina: Ófær „evruleið“. Ég sendi blaðinu grein, sem ég vona að það birtist þar á morgun. Hún ber fyrirsögnina: Ekki lokað vegna ófærðar.

Björg Eva Erlendsdóttir, fréttastjóri á 24 stundum, ritar leiðara í dag undir fyrirsögninni: Eigin fjölmiðlar. Hann hefst á þessum orðum:

„Fjölmiðlar eru ekki hátt skrifaðir hjá Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Það er sjálfsagt ein af ástæðum þess að hann lætur þá oft róa og kýs að tjá sig eingöngu á sínum eigin miðli, bjorn.is.“

Allar athugasemdir mínar vegna framgöngu fjölmiðla byggjast á dæmum, sem ég birti á vefsíðu minni. Ég læt enga fjölmiðla róa, legg mig þvert á móti fram um að svara öllum tilmælum, sem ég fæ frá fjölmiðlamönnum. Ég kýs frekar að gera það við tölvuna en í síma. Það er öruggasta leiðin, til að rétt sé eftir mér haft. Lýsi ég fréttnæmri skoðun á vefsíðu minni, hef ég almennt ekki neinu við málið að bæta og segi það við fjölmiðlamenn.

Lesa meira

Mánudagur, 14. 07. 08. - 14.7.2008 9:30

Í pistli hér á síðunni 17. júní 2008 segir:

„18. Í nýjasta hefti Þjóðmála rita ég grein um um Evrópuumræðurnar hér á landi um þessar mundir. Þar vek ég máls á því, að staða íslensku krónunnar hafi kveikt nýjan áhuga á auknu Evrópusamstarfi Íslendinga og jafnvel aðild að Evrópusambandinu. Lausleg athugun leiðir í ljós, að lögfræðilega er ekkert, sem banni stjórnendum Evrópusambandsins, að semja við ríki utan sambandsins um evru-málefni. Það hefur verið gert við Vatíkanið, San Marino, Monakó og Andorra, svo að dæmi séu nefnd. Sé lögmætið fyrir hendi innan Evrópusambandsins, byggist niðurstaða viðfangsefna á pólitískum vilja.“

Þegar ég segi hið sama með öðrum orðum á sama stað 12. júlí, ætlar allt vitlaust að verða. Hvað veldur?

Í hausthefti Þjóðmála 2007 ritaði ég grein undir fyrirsögninni: Evran ekki lengur ESB-gulrót. Þar segir meðal annars:

„Vaxandi togstreitu gætir milli hagsmuna fyrirtækja, sem hafa haslað sér völl erlendis, og þeirra, sem standa vörð um krónuna . . .

Fyrir stjórnvöld er spurningin þessi: Ætla þau að láta viðskiptalífið og fyrirtæki, sem starfa að mestu erlendis leiða umræðurnar um gjaldmiðilinn eða hafa þar sjálf forystu?“

Í samtali við Egil Helgason í Silfri Egils hinn 3. febrúar 2008 sagði ég:

„Það hafa komið menn hér sem segja að það sé hægt [að taka hana upp utan ESB]. Hér var einhver sérfræðingur á vegum seðlabanka Evrópu fyrir einu eða tveimur árum og flutti erindi og sagði, það er brot á EES-samningnum ef þið takið einhliða upp evruna. Og þá spyr maður sig ef það er brot á EES-samningnum að taka upp einhliða evru er þá unnt með einhverju samkomulagi á grundvelli EES-samningsins að ná einhverri niðurstöðu um tengingu við evruna ef samningurinn gerir ráð fyrir því að við þurfum að taka eitthvað tillit til evrópskra stofnana í því efni. Þetta verða menn að skoða og menn verða að komast einhvern veginn í gegnum umræðurnar.“

Lesa meira

Sunnudagur, 13. 07. 08. - 13.7.2008 18:11

„Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf (það er við Evrópusambandið), það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin.“

Ofangreind orð um Evruleið í pistli mínum frá því í gær eru hiklaust túlkuð þannig af fréttastofu hljóðvarps ríkisins í kvöldfréttum, að ég sé að leggja til einhliða upptöku evru á Íslandi. Það stendur hvergi í pistli mínum. Þvert á móti ræði ég, hvort með evruaðild megi skjóta þriðju stoðinni undir samstarf Íslands og Evrópusambandsins - það yrði ekki gert einhliða af Íslands hálfu heldur á grundvelli samninga við Evrópusambandið. Ég tel, að lögheimildir séu fyrir hendi innan sambandsins til viðræðna við okkur um slíkt samstarf.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hljóp upp til handa og fóta vegna þessarar rangtúlkunar fréttastofunnar og taldi sig fá uppreisn æru vegna gamalla ummæla sinna um einhliðaa upptöku evru. Seinheppni einkennir mest stjórnmálastarf framsóknarmanna um þessar mundir.

Ég hringdi í fréttamanninn og taldi, að rangfærslan yrði leiðrétt í lok frétta. Það var ekki gert. Leiðréttingin kom hins vegar í fréttum kl. 22.00. Aðrir ljósvakamiðlar sögðu frá efni málsins, án þess að afflytja á þann veg, sem gert var í hljóðvarpinu.

Ég átta mig ekki hvort Andrés Jónsson, sem heldur úti vefsíðu í tenglsum við eyjan.is er virkur þátttakandi í stjórnmálum eða ekki. Af ýmsu má þó ráða, að hann telji sig áhrifamann innan Samfylkingarinnar eða hafa þar einhver ítök. Hann virðist mjög ósáttur við, að sjálfstæðismenn taki frumkvæði og er líklega á móti ríkisstjórnarsamstarfinu.

Laugardagur 12. 07. 08. - 12.7.2008 21:29

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, var í viðtali á sjónvarpsstöðinni France 3 og bauð hljóðmanni gott kvöld, án þess að undir væri tekið. Lét forsetinn orð falla um dónalega framkomu við sig. Hljóðmaðurinn sýndi forsetanum óvirðingu, af því að forsetinn vill banna auglýsingar í ríkissjónvarpsstöðvum. 300 starfsmenn stöðvarinnar efndu til mótmælastöðu, þegar forsetinn kom til hennar.

Jesse Jackson, blökkumannaleiðtogi meðal demókrata, heyrðist hvisla í lok þáttar á Fox sjónvarpsstöðinni, að réttast væri að „skera undan“ Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata fyrir að tala niður til blökkumanna!

Fréttamaður hljóðvarps ríkisins var fyrir fram dóms- og kirkjumálaráðuneytið og sagði fréttir af mótmælum vegna Pauls Ramses, Kenýamanns. Fréttamaðurinn kvaddi viðmælenda sinn meðal mótmælenda með orðunum: Gangi ykkur vel!

Fréttakona sjónvarps ríkisins var að ræða við Steingrím J. Sigfússon, formann vinstri grænna, um mál Pauls Ramses í Kastljósi. Hún lauk samtalinu eftir gagnrýni Steingríms J. á afgreiðslu málsins með því að segja: Flott.

Föstudagur, 11. 07. 08. - 11.7.2008 22:44

Fréttir af vaxandi spennu í Mið-Austurlöndum og við Persaflóa vegna ögrandi tilrauna Írana með eldflaugar, sem geta flutt kjarnorkusprengjur til árása á Ísrael, sýna, að allt getur gerst, jafnvel eitthvað, sem veldur spennu langt út fyrir svæðið.

Yfirmenn bandaríska hersins minna á, að hann standi nú í ströngu á tveimur vigstöðvum, í Afganistan og Írak, og það mundi reyna mjög á þolrifin. ef þriðja víglínan kæmi til sögunnar með hernaði gegn Íran.

Tiltölulega skammt er síðan Ísraelar gerðu leiftur-loftárás á skotmörk í Sýrlandi og gjöreyðilögðu þar kjarnorkuvopnahreiður, sem var í mótun undir handarjaðri Norður-Kóreumanna.

 

 

Fimmtudagur, 10. 07. 08. - 10.7.2008 19:15

Fór síðdegis í gestastofu vegna tónlistar- og ráðstefnuhússins, sem er að rísa við austurhöfnina í Reykjavík. Gestastofa er á 4. hæð húss við Lækjartorg og úr henni má sjá yfir hinar miklu framkvæmdir í austurhöfninni og innan dyra er að finna sýningu um gang þessara miklu framkvæmda. Mun sýningin breytast í takt við framvindu byggingarframkvæmda.

Í kynningarbæklingi vegna sýningarinnar segir: „Gestastofa sem þessi er nýlunda því ekki hefur áður verið boðið upp á samskonar á Íslandi en tíðkast hins vegar víðsvegar um heiminn þegar um meirihátta framkvæmdir er að ræða.“

Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður eignarhaldsfélagsins Portus, sem reisir tónlistar- og ráðstefnuhúsið, opnaði sýninguna. Hún skiptist í tvennt, annars vegar eru vinnuferli framkvæmdanna gerð skil og hins vegar er sagt frá því, hvernig lokaverkið, það er tónlistar- og ræapstefnuhúsið, verður. Í gestastofunni er einnig unnt að efna til funda og tónleika með sætum fyrir 70 manns.

Gestastofan er í húsi við Lækjartorg, sem ætlunin er að hverfi til að opna fyrir tengingu á milli hins gamla miðbæjar og þess nýja, sem verður við höfnina.

Að mínu áliti á að stefna að því, að héraðsdómur Reykjavíkur fái nýtt aðsetur og hverfi frá Lækjartorgi. Reisa þarf nýtt hús fyrir héraðsdóm og embætti ríkissaksóknara og héraðssaksóknara, auk þess sem þar yrði litið til aðstöðu fyrir millidómstig, komi það til sögunnar.

Miðvikudagur, 09. 07. 08. - 9.7.2008 19:46

Sjónvarpið sýndi mynd um hálsbönd á sauðfé. Þau gera kleift, að fylgjast með ferðum áa og lamba. Sem sauðfjáreigandi hef ég áhuga á þessum búnaði. Eitt af lömbum mínum týndi líklega móður sinni. Ég gæti fundið lambið með þessari tækni. Hitt var ekki síður merkilegt í hljóðvarpinu, að norski sauðfjárstofninn er orðinn svo kynbættur, að hann þekkir ekki hættuna af úlfum og er því auðtekinn bráð.

Síðdegis var ég um borð í bresku freigátunni Exeter, þar sem fagnað var ferðum skipalestanna til Murmansk í síðari heimsstyrjöldinni. Ráðstefna verður um þær á morgun og föstudag í Háskóla Íslands.

Margir undrast, að Árni Johnsen hafi verið kallaður til viðtals í Kastljósi í gærkvöldi vegna dómsdagsgreinar um réttarvörslukerfið í Morgunblaðinu sl. sunnudag. Óli Björn Kárason ræðir greinina hér og hef ég engu við hana að bæta.

Ég nefndi þessa grein Árna sl. sunnudag vegna undrunar minnar yfir því, að Jóhannes, kaupmaður í Bónus, teldi almenning ætla að grípa til vopna gegn okkur Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra.

Baldur Guðmundsson, blaðamaður á DV, vitnar í þessa veffærslu mína í grein í blaði sínu 8. júlí, án þess að segja frá á réttan hátt, nema Baugsritstjórar hafi gripið í taumana.

Baldur gefur til kynna, að Jóhannes í Bónus, eigandi DV, hafi veist að mér og ríkislögreglustjóra vegna Baugsmálsins. Blaðamaðurinn lætur að engu getið, að Jóhannes í Bónus boðaði, að almenningur mundi grípa til vopna og gera út af við okkur ríkislögreglustjóra. Hvers vegna sleppir Baldur þessu? Er þetta ekki í raun fréttnæmast? Kannski ekki frá Baugshóli?

Jóhannes í Bónus gekk lengra í stóryrðum en Árni Johnsen. Skyldi Jóhannes fá einkaviðtal í Kastljósi?

 

 

Þriðjudagur, 08. 07. 08. - 8.7.2008 22:20

Í fyrsta sinn síðan 3. júlí, þegar málið, sem kennt er við Paul Ramses frá Kenýa, kom til opinberrar umræðu, var það rætt á stjórnmálavettvangi í dag. Í morgun fór ég yfir staðreyndir málsins á fundi ríkisstjórnarinnar. Síðdegis sátu fulltrúar útlendingastofnunar og ráðuneytisins fund allsherjarnefndar alþingis.

Í gær skýrði Katrín Theodórsdóttir lögfræðingur frá því, að hún mundi kæra ákvörðun útlendingastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Kæran barst ekki í dag. Ég sagði hins vegar við fjölmiðlamenn eftir ríkisstjórnarfundinn, að innan ráðuneytisins yrði farið yfir málið frá upphafi til enda. Ég sagði einnig, þegar um var spurt, að ég hefði ekki komið að ákvörðun útlendingastofnunar og ekki vitað um hana, áður en hún var tekin. Þegar ég var spurður á þann veg, hvort ég hefði staðið að henni, sagðist ég ekki svara spurningum í viðtengingahætti.

Um nokkurra daga skeið hefur verið ráðist að mér, eins og ég hefði tekið þessa ákvörðun útlendingastofnunar. Er það jafnrakalaust og svo margt annað, sem um þetta mál hefur verið sagt á opinberum vettvangi. Ég hef ekki sagt neitt efnislega um málið og geri ekki, fyrr en í úrskurði ráðuneytisins, verði hans óskað. Ég kaus jafnframt að segja almennt sem minnst um málið að öðru leyti, þar til ég hefði haft tækifæri til að kynna sjónarmið mín á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Nú hefur málið bæði verið rætt í ríkisstjórn og allsherjarnefnd alþingis og hafa stjórnmálamenn fengið vitneskju um gang þess og einnig hefur þeim gefist færi á að ræða aðra þætti eins og Dublinreglurnar, en ég hallast að því að nota það orð framvegis um það, sem ýmist er nefnt Dyflinnarsamkomulagið eða Dublinsamkomulagið.

Meginregla þessara reglna er, að þeim, sem biður um hæli, skuli vísað til þess lands, þar sem hann kom fyrst inn á Schengensvæðið, hitt er er „derogation“ samkvæmt reglunum, að dvalarríki lands fjalli um hælisbeiðni. Ég skil ekki enn, að Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópufræðimaður í háskólanum á Bifröst, skuli halda fast við að framkvæma eigi þessar reglur með vísan til þess, sem er „derogation“. Er það kenning hans að reka eigi alþjóðasamninga á undanþáguákvæðum? Það kann að falla að þeirri skoðun hans, að Íslendingar fái einskonar undanþágu-aðild að Evrópusambandinu, en stenst einfaldlega ekki, þegar grannt er skoðað.

Jónas Kristjánsson hefur ritað um þetta mál af alkunnri óvild í garð þeirra, sem halda uppi lögum og rétti í landinu.

Lesa meira

Mánudagur, 07. 07. 08. - 7.7.2008 22:02

Líklega hef ég verið of jákvæður í svörum mínum við spurningum blaðamanna um þá ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladótturm utanríkisráðherra, að sendifulltrúi Íslands í Róm skyldi vekja máls á stöðu Pauls Ramses við ítölsk yfirvöld, því að hvergi hef ég heyrt eða séð neitt haft eftir mér um þetta framtak.

Í stuttu máli fagnaði ég því. Ég tók einnig fram, að Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, hefði fram á þetta ár farið með Schengenmálefni sem einn af framkvæmdastjórnarmönnum ESB og varaforseti framkvæmdastjórnarinnar. Hann hefði því yfirburðaþekkingu á þessu sviði og þar á meðal á framkvæmd Dublinsamningsins. Auk þess þekkti hann til hér á landi og rödd Íslands ætti örugglega hljómgrunn hjá honum.

Enginn kunnáttumaður í evrópskum útlendingamálum undrast, að ríki fari að Dublinarsamningnum. Ég hef áður bent á það hér á síðunni, að Grikkir standa frammi fyrir miklum vanda í þessu efni, því að hertar aðgerðir gegn ólöglegum innflytjendum í vesturhluta Miðjarðarhafs hefur leitt til mikillar fjölgunar þeirra í Grikklandi og á Kýpur.

Sunnudagur, 06. 07. 08. - 6.7.2008 21:07

Á visir.is í dag má lesa:

„Þá segir Jóhannes (í Bónus)  í samtali við Vísi að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hljóti að vera knúnir til að segja af sér embættum sínum. Það sé forkastanlegt hvernig þeir hafi hagað sér. „Svo eru þessir menn að tala um að það þurfi að koma upp vopnuðu liði. Framkoma þessara manna við fólkið í landinu er á þann veg að það getur orðið til þess að fólk grípi til vopna gagnvart þeim. Þannig að það er kannski ekki skrítið að þeir vilji efla vopnaburð," segir Jóhannes. “

Hver var að tala um vopnað lið? Hvorki Haraldur Johannessen né ég. Þennan hugarburð ber Jóhannes á borð, um leið og hann lætur í veðri vaka, að við Haraldur verðum beittir vopnavaldi af almenningi - væntanlega vegna Baugsmálsins. Er líklega einsdæmi, að áhrifamaður í viðskiptalífinu, og þótt víðar væri leitað, skuli tala á þennan veg. Fyrir síðustu þingkosningar notaði Jóhannes auð sinn til að auglýsa andúð sína á mér með hvatningu um að strika nafn mitt af framboðslista sjálfstæðismanna í Reykjavík suður. Nú telur hann sig tala í nafni almennings um vopnaburð gegn okkur ríkislögreglustjóra.

Það sýnir líklega, hve mikið mark menn taka á hótun Jóhannesar, að þessi hún þykir ekki fréttnæm utan þessa vefmiðils Baugs. Á hinn bóginn er víða vitnað til heitinga Árna Johnsens, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í garð réttarvörslukerfisins í tilefni af Baugsmálinu, en þær birtust í dag í Morgunblaðinu - hótar hann þó ekki að sýna neinum í tvo heimana með vopnavaldi.

Ég lýsi undrun minni og harma dæmalausan málflutning þeirra beggja, Jóhannesar og Árna.

Laugardagur, 05. 07. 08. - 5.7.2008 20:40

Ómar Valdimarsson, áður um árabil alþjóðastarfsmaður í Afríku, nú fréttamaður á Stöð 2, sagði frá því í kvöldfréttum, að pólitískir flóttamenn þekktust ekki frá Kenýa, fyrir utan einn, sem hefði afhjúpað stórfellt opinbert hneykslismál og búið í Bretlandi síðan 2005. Starfsmenn alþjóðlegra hjálparstofnana og fjölmiðlamenn í Kenýa teldu „af og frá“, að nokkur þyrfti að óttast um líf sitt vegna þátttöku í kosningunum í landinu 3. janúar sl., eftir að stjórnmálafriður varð í landinu fyrr á þessu ári og stjórnarsandstaða úr sögunni með samstarfi stærstu stjórnmálaflokka landsins,

Jónas H. Haralz og Einar Benediktsson rita grein í Morgunblaðið í dag um nauðsyn þess, að Ísland undirbúi inngöngu í Ervrópusambandið. Okkur, sem þekkjum þá báða vel og af góðu einu, kemur þessi skoðun þeirra ekki á óvart, hún er gamalkunn. Nú færa þeir gjaldmiðilsrök fyrir máli sínu og viðhorf í öryggismálum, eftir að Bandaríkjaher er af landi brott. Ber að fagna því, að menn með jafnmikla reynslu leggi sitt af mörkum til málefnalegra umræðna um brýn álitaefni líðandi stundar.

Guðmundur Magnússon minnir á, að umræðan um evruna og Ísland snýst ekki um tæknileg úrlausnarefni heldur pólitík. Stefán Már Stefánsson, prófessor, sem er manna best að sér um samningsbundið samstarf okkar við Evrópusambandið (ESB) og Evrópurétt, og Guðmundur Magnússon, hagfræðiprófessor, sem átti stóran þátt í aðild Íslands að EFTA um 1970, hafa talið unnt að semja við ESB um aðild Íslands að evrópska myntsamstarfinu. Þá eru dæmi um, að ESB hefur heimilað ríkjum utan ESB að nota evru: San Marínó, Vatíkanið, Mónakó og Andorra. Þetta er gert á grundvelli stofnsamnings ESB og sannar, að lögmæti til slíkra samninga er fyrir hendi.  Það er því ástæða til að taka undir þau orð Guðmundar, að málið snýr frekar að póltík en lögfræði.

Föstudagur, 04. 07. 08. - 4.7.2008 21:39

80 til 100 manns komu saman fyrir utan dóms- og kirkjumálaráðuneytið í hádeginu í dag til að mótmæla þeirri ákvörðun útlendingastofnunar að vísa Paul Ramses frá Kenýa úr landi. Útlendingastofnun hefur sett atvikalýsingu málsins inn á vefsíðu sína og ættu allir áhugamenn um það að kynna sér það, sem þar segir.

Sérkennilegt er, hve langt Eiríkur Bergmann Einarsson, fræðimaður við Háskólann á Bifröst, gengur í viðleitni sinni við að tala niður Dublin- eða Dyflinarsamninginn, sem gerður er undir merkjum Schengen-samstarfsins.

Sú kenning Eiríks, að túlka beri ákvæði samningsins með vísan til undanþáguákvæðis í honum, stenst að sjálfsögðu ekki. Samingurinn er gerður í því skyni að auðvelda meðferð mála hælisleitenda með þeirri meginreglu, að um mál þeirra skuli fjallað í Schengen-landinu, þar sem þeir eru skráðir inn á Schengen-svæðið. Þetta er einföld og skýr regla og við framkvæmd samningsins hafa öll aðildarríki hans lagt höfuðáherslu á þetta atriði. Grikkir hafa kveinkað sér undan skyldu móttökuríkis undanfarið vegna þess, að um land þeirra fara nú rúmlega 100.000 hælisleitendur á ári.

Íslensk stjórnvöld hafa framkvæmt Dyflinarsamninginn á sama hátt og önnur aðildarríki hans. Ég sé ekki, að Eiríkur Bergmann færi nokkur málefnarök fyrir því, að íslensk stjórnvöld skuli upp á sitt einsdæmi breyta framkvæmd þessa samnings.

Haukur Guðmundsson, settur forstjóri útlendingastofnunar, sat fyrir svörum hjá Sigmari í Katljósi. Besti vitnisburður um, að Haukur hafi staðið sig vel, sést á því, að eindregnir andstæðingar niðurstöðu Hauks og samstarfsfólks hans meðal bloggara telja Sigmar ekki hafa verið nógu harðan í spurningum sínum! Þessu fólki er því miður ekki annt um, að rök fyrir niðurstöðunni séu skýrð, heldur vilja reka það með vísan til tilfinninga. Ákvarðanir innan stjórnsýslunnar byggjast á þeim ramma, sem þeim eru settar í lögum og reglum.

Fimmtudagur, 03. 07. 08. - 3.7.2008 8:38

Við vorum í kirkjunni að Breiðabólstað í Fljótshlíð klukkan um 11.00 vegna jarðarfara nágranna okkar, Jóns Ólafssonar á Kirkjulæk. Hann lést langt um aldur fram eftir skammvinn en erfið veikindi.

Þegar við ókum að Breiðabólstað um klukkan 10.30 var þangað stöðugur straumur bíla og var þeim lagt út á tún fyrir neðan kirkjuna. Nokkur hundruð manna fylgdust með athöfninni í bílum sínum en henni var útvarpað. Við stóðum í anddyri kirkjunnar. Talið er, að um 800 manns hafi verið við jarðarförina.

Jón var meðal þeirra fyrstu, sem við kynntumst, þegar við tókum að búa um okkur í næsta nágrenni hans í Fljótshlíðinni. Hann kom að því með Viðari í Hlíðarbóli að aðstoða mig við að setja túnþökur á blettinn okkar, hlóð upp gamlar bæjardyr og fjósvegg.

Jóni var svo sannarlega margt til lista lagt. Hann opnaði kaffihúsið Langbrók rétt fyrir neðan okkur og hlóð síðan Meyjarhof og bjó til gosbrunn í kaffihússins. Í fyrra fór ég með starfsfólki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á þessar slóðir. Þegar andlátsfrétt Jóns barst rifjuðum við upp, hve skemmtilegt var að hitta Jón í hofinu, þar sem hann sagði sögur, fór með vísur og tók lagið. Hann var svo sannarlega hrókur alls fagnaðar og mikill gleðigjafi.

Séra Hjálmar Jónsson jarðsöng og kórar sungu en Jón var ötull þátttakandi í tónlistarlífinu í Rangárþingi og víðar. Eftir athöfnina var boðið til hádegisverðar, hangikjöt, í félagsheimilinu Goðalandi. Mörg hundruð manns þáðu boðið.

Nokkrar umræður hafa verið í dag vegna úrskurðar útlendingastofnunar um brottvísun manns frá Kenýa frá landinu. Ég hef fengið tölvubréf vegna þessa. Ég ætla ekki að svara hverjum og einum heldur birta almennt svar hér á vefsíðunni.

Lesa meira

Miðvikudagur, 02. 07. 08. - 2.7.2008 22:10

Sigmar var nokkuð aðgangsharður við Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, í Kastljósi kvöldsins og sakaði hana og Samfylkinguna um tvískinnung í umhverfismálum. Þórunn varðist hins vegar fimlega og Sigmar kom hvergi að tómum kofa hjá henni, þótt augljóst væri, að hún teldi Björgvin G. Sigurðsson, samflokksmann sinn og samráðherra, betur hafa sleppt því að taka skóflustungu að nýju álveri í Helguvík.

Þórunn sagði réttilega, að hún ynni að sínum málum í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og margt væri á döfinni í sínu ráðuneyti til að framfylgja því, sem þar kæmi fram.

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins var vitnað í Björgvin G. Sigurðsson um nauðsyn þess, að sjálfstæðismenn tækju innan flokks síns afstöðu til Evrópusambandsins, sem væri Björgvini að skapi.

Björgvin starfar ekki síður en Þórunn Sveinbjarnardóttir í ríkisstjórn, sem hefur meðal annars mótað sér skýra stefnu í Evrópumálum. Um þá stefnu sömdu forystumenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við myndun þessarar ríkisstjórnar og hún gildir fyrir flokkana, á meðan þeir eiga samstarf.

Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn gefa ekki yfirlýsingar um nauðsyn þess, að Samfylking breyti um stefnu í umhverfismálum eða Evrópumálum. Þeir virða þá stefnu, sem samstarfsflokkur þeirra hefur mótað og þann sáttmála, sem síðan hefur verið gerður um samstarf flokkanna.

Sjálfstæðismenn ræða Evrópumál í sinn hóp, hvað sem skoðunum Björgvins G. Sigurðssonar líður. Þingflokkur okkar sjálfstæðismanna hélt nýlega sérstakan fund um Evrópumálin og þar var samstaða þingmanna flokksins áréttuð.

Engum sjálfstæðismanni dettur í hug að krefjast þess, að Björgvin ræði um umhverfismál og stóriðju við Þórunni Sveinbjarnardóttur, þótt allir sjái, að þess kunni að vera þörf.

Þriðjudagur, 01. 07. 08. - 1.7.2008 20:42

Á fundi ríkisstjórnarinnar lagði ég fram skýrslu um hættumat frá greiningardeild ríkislögreglustjóra. Svaraði síðan spurningum um málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og í Speglinum á RÚV.

Inntak skýrslunnar sýnir, að áfram verður að leggja áherslu á að efla og styrkja metnaðarfulla löggæslu, sem hefur tök á að bregðast við nýjum og erfiðari aðstæðum en áður.

Klukkan 16.00 var ég á háskólatorgi Háskóla Íslands á Melunum, þar sem því var fagnað, að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands hafa frá og með deginum í dag runnið saman í nýja stofnun undir merkjum Háskóla Íslands með 13.000 nemendum og um 2000 manna starfsliði á fimm fræðasviðum.

Fyrir utan ánægju af því að taka þátt í þessari sögulegu athöfn var skemmtilegt að hitta marga samstarfsmenn, frá því að ég gegndi embætti menntamálaráðherra.

Á dögunum hittumst við nokkrir áhugamenn um fjölmiðlun og netið til að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Eitt af því, sem við vorum sammála um, var að vefsíðan eyjan.is væri komin í lægð. Nú hefur verið skýrt frá því, að Pétur Gunnarsson, stofnandi síðunnar og ritstjóri sé að láta af störfum við síðuna.

Guðmundur Magnússon hefur reynslu af því að halda úti vefsíðu. Hann hefur þetta að segja í tilefni af ritstjóraskiptum á eyjan.is.