Miðvikudagur, 30. 07. 08.
Ókum frá Smyrlabjörgum í miklum hita og blíðu, mikill mannfjöldi var við Jökulsárlón og einnig í Skaflafelli. Á Núpsstað hittum við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð, sem kynnti okkur fyrir Filippusi Hannessyni, 98 ára gömlum bónda á Núpsstað. Margrét, systir hans, er 104 ára og býr ein við Langholtsveg í Reykjavík.
Eftir að Margrét, þjóðminjavörður. hafði leitt okkur um hin einstæðu torfhús, sem standa á Núpsstað, bauð Filippus okkur kaffi og við ræddum málin.
Filippus fylgist vel með öllu. Hann taldi nær að nota fjármuni til annars en varðveita torfhúsin að Núpsstað, þótt honum þyki greinilega vænt um, af hve mikilli alúð Margrét og samstarfsfólk hennar hefur tekið að sér að viðhalda gömlu húsunum. Filippus vill ekki að húsin séu rifin til grunna til að hlaða á ný heldur sé fylgt þeirri aldalöngu hefð að halda húsunum við með viðgerðum, þar sem þeirra er þörf.
Veðrið var áfram gott, hlýindi mikil, hátt í 30 stig á sumum stöðum á leiðinni, og sól í heiði. Á hinn bóginn var töluvert rok á söndunum, án þess að sandurinn truflaði umferð.