Dagbók: september 1999
Fimmtudagur 30.9.1999
Klukkan 08.15 fundur á vegum félaga tæknifræðinga og verkfræðinga um Tækniháskóla atvinnulífsins. Var ég meðal þriggja frummælenda. Klukkan 14.00 blaðamannafundur í Ásmundarsafni á vegum Vöku-Helgafells, þar sem kynnt var bókin Þjóðsögur við sjó. Klukkan 16.00 hátíðleg athöfn á vegum Landsteina að Hótel Loftleiðum þegar ritað er undir mikilvægan samning á vegum fyrirtækisins við Adidas, Baug og Navision Software, sem þýðir 300 m. kr. viðskipti.
Miðvikudagur 29.9.1999
Þingflokkur sjálfstæðismanna kemur saman til að undirbúa þingstörfin og taka afstöðu til fjölmargra frumvarpa, þar á meðal þriggja frá mér: breytingar á grunnskólalögum vegna valfrelsis í samræmdum prófum, breytingar á framhaldsskólalögum til að skilgreina meðal annars einstakar námsbrautir betur og samræmd próf á framhaldsskólastsigi og endurflutt frumvarp til úvarpslaga.
Þriðjudagur 28.9.1999
Snúið frá S-Afríku.
Föstudagur 17.9.1999
Haldið til Suður-Afríku.
Fimmtudagur 16.9.1999
Blaðamannafundur dómnefndar um fræðslumiðstöð á Þingvöllum, þar sem skýrt var frá niðurstöðum í samkeppni.
Þriðjudagur 14.9.1999
Klukkan 9.50 var ráðherrum og fleirum stefnt til Bessastaða til að taka þar formlega á móti Lennart Meri, forseta Eistlands, við upphaf opinberrar heimsóknar hans.
Sunnudagur 12.9.1999
Fór á landsleik Íslands og Makedóníu í Kaplakrika um kvöldið. Glæsilegur sigur okkar manna, sem ekki var hnekkt í leiknum í Makedóníu.
Laugardagur 11.9.1999
Um hádegisbilið lauk dómnefnd í samkeppni arkitekta vegna fræðslumiðstöðvar við Hakið á Þingvöllum störfum, en ég var formaður hennar. Nefndin hafði skamman tíma til að dæma 31 tillögu en komst að einróma niðurstöðu og verður hún kynnt fimmtudaginn 16. september.
Föstudagur 10.9.1999
Klukkan 16.00 var Listaháskóli Íslands settur að Kjarvalsstöðum.
Miðvikudagur 8.9.1999
Klukkan 18.00 var leikur á Laugardalsvelli, þar sem landslið Íslands og Úkraínu kepptu og hinir síðarnefndu sigruðu með einu marki úr vítaspyrnu.
Þriðjudagur 7.9.1999
Um kvöldið lauk Kvikmyndahátíð í Reykjavík með forsýningu á myndinni Eyes Wide Shut eftir Stanley Kubrick, en þar leika þau hjónin Tom Cruise og Nicole Kidman aðalhlutverk. Eftir að hafa séð myndina er ég undrandi á því, að kynnendur hennar skuli leggja áherslu á að um óvenjulega djarfa mynd sé að ræða og einnig er gert veður út af því, að krafa hafi verið gerð um að klippa senur úr myndinni í Bandaríkjunum. Vissulega eru sum atriði í djarfari kantinum en miðað við annað, sem er sýnt, virkar þessi kynning eins og auglýsingabrella. Myndin er áleitin eftir að henni lýkur vegna þess sérstaka andrúmsloft sem ríkir í henni, þar sem skilin milli draums og veruleika eru óskýr.
Mánudagur 6.9.1999
Klukkan 15.20 kom Walter Schwimmer, nýr framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, í heimsókn í ráðuneytið. Hann tók við störfum 1. september, en áður var hann austurrískur þingmaður og minnist ég hans frá þeim árum, þegar ég sat á þingi Evrópuráðsins. Klukkan 17.00 fór ég í Nýja garð, þar sem Tungumálastofnun Háskóla Íslands var opnuð. Þessi nýjung í starfi skólans minnir á þá staðreynd, að tungumálakunnátta er nauðsynleg í öllum greinum eins og tölvukunnátta. Klukkan 18.00 var athöfn í Skólabæ í tilefni af því að framhaldsnám er að hefjast í sálarfræði við Háskóla Íslands.
Föstudagur 4.9.1999
Síðdegis fórum við Árni Johnsen alþingismaður saman á hina miklu sjávarútvegssýningu í Kópavogi, þar sem þúsundir manna fræddust um hið nýjast í tækni og hátækni við sjósókn. Síðan fórum við í Gerðarsafn, þar sem sýning á textílverkum var að hefjast í tilefni af 25 ára afmæli félags textíllistamanna. Um kvöldið kom það í minn hlut að setja hátíð á Broadway til að hylla íslenska dægurtónlist 20. aldarinnar. Var glæsilega að öllu staðið af Ólafi Laufdal, Agli Eðvarðssyni og Gunnari Þórðarsyni. Miðað við hve stemmning var mikil og góð þetta fyrsta kvöld hátíðarinnar er þess að vænta, að hún verði vinsæl.
Föstudagur 3.9.1999
Klukkan 15.00 var Háskóli Íslands formlega settur með háskólahátíð, þar sem meðal annars kom í minn hlut að flytja ávarp.
Föstudagur 3.9.1999
Klukkan 15.00 var Háskóli Íslands formlega settur með háskólahátíð, þar sem meðal annars kom í minn hlut að flytja ávarp.