Þriðjudagur 7.9.1999
Um kvöldið lauk Kvikmyndahátíð í Reykjavík með forsýningu á myndinni Eyes Wide Shut eftir Stanley Kubrick, en þar leika þau hjónin Tom Cruise og Nicole Kidman aðalhlutverk. Eftir að hafa séð myndina er ég undrandi á því, að kynnendur hennar skuli leggja áherslu á að um óvenjulega djarfa mynd sé að ræða og einnig er gert veður út af því, að krafa hafi verið gerð um að klippa senur úr myndinni í Bandaríkjunum. Vissulega eru sum atriði í djarfari kantinum en miðað við annað, sem er sýnt, virkar þessi kynning eins og auglýsingabrella. Myndin er áleitin eftir að henni lýkur vegna þess sérstaka andrúmsloft sem ríkir í henni, þar sem skilin milli draums og veruleika eru óskýr.