Dagbók: janúar 2015

Laugardagur 31. 01. 15 - 31.1.2015 16:00

Í tilkynningu sem hefur verið sett á vefsíðu sveitarfélagsins Rangárþings eystra á Hvolsvelli segir:

Rangárþing eystra hefur samið við 365 miðla um uppsetningu á háhraða nettengingu í sveitafélaginu. Íbúar eru hvattir til að kynna sér málið og að skrá áhuga sinn á að nýta sér þessa þjónusta á heimasíðu þeirra.“

Þá er áhugasömum bent á að hafa samband við fulltrúa sveitarstjórnar í starfshópi um bætt samskipti.

Í tilkynningunni er þeim sem áhuga hafa bent á að fara inn á síðuna lofthradi.is og skrá sig en á síðunni segir meðal annars:

„Á 365 Lofthraða er hægt að ná allt að 30 Mb/s hraða. 365 Lofthraði er lokað fastanet en ekki farnet eins og 3G/4G og því mun færri notendur á hvern sendi heldur en á 3G/4G. Með því næst stöðugur hár hraði.“

Af þessu má ráða að 365 sé þarna að bjóða aðgang að lokuðu neti í keppni við símafyrirtæki sem bjóða 3G/4G. Ekki kemur fram hvaða búnað menn þurfa að hafa til að tengjast þessu neti.

Hvað sem tæknilegri hlið málsins varðar er nýmæli að sjá að sveitarfélag hafi samið um fjarskipti við 365. Hvar hefur þessi nýja þjónusta verið kynnt? Er hér um tilraunaverkefni að ræða?

Tilkynningin á vefsíðu Rangárþings eystra sýnir svo að ekki verður um villst að 365 þróast frá fjölmiðlarekstri í fjarskiptastarfsemi.


Föstudagur 30. 01. 15 - 30.1.2015 22:40

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor birtir snarpa ádeilugrein í Morgunblaðinu í dag og má lesa hana hér.

Greinin snýst um bók sem Gísli Pálsson, mannfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, ritstýrir ásamt Bandaríkjamanni. Hún heitir Gambling Debt. Iceland‘s Rise and Fall in the Global Economy.

„Í henni er hvellur reiðitónn, sem fer illa í vísindariti, en rómverski sagnritarinn Tacitus sagði forðum, að segja ætti sögur „sine ira et studio“, án reiði og ákafa,“ segir Hannes Hólmsteinn og bendir síðan á ýmsa vankanta og villur í bókinni sem hefur að geyma ritgerðir eftir nokkra fræðimenn.

Efnistökunum lýsir Hannes Hólmsteinn þannig:

„Aðferðin í þessari bók er einföld. Hún er að hrúga saman ýmsum hugmyndum, sem höfundum er í nöp við, og kalla einu nafni orsök, en lýsa síðan bankahruninu sem afleiðingu þessara hugmynda.“

Nikos Kotzias, nýr utanríkisráðherra Grikklands, er undir smásjá fjölmiðla víða um Evrópu og er rifjað upp að hann hafi á sínum tíma verið félagi í Kommúnistaflokki Grikklands. Af störfum hans sem prófessor í háskólanum í Piraeus álykta margir blaðamenn að hann sé hallur undir Rússa, hann hafi til dæmis tekið þar  á móti Alexander Dugin, stór-rússneskum þjóðernissinna.

Fyrir fund utanríkisráðherra ESB-ríkjanna fimmtudaginn 29. desember var látið í veðri vaka að Grikkir mundu ekki styðja áform ríkjanna um að refsa Rússum. Þegar Kotzias kom til Brussel sagðist hann ekki ætla að bera blak af Rússum heldur hefði hann viljað fá tíma til að kynna sér gögn fundarins – innan ESB yrðu menn að sætta sig við að fulltrúar smáþjóða vildu búa sig undir fundi og hafa sína skoðun á viðfangsefnum þeirra.

Það segir sína sögu að þessi sjálfsagða afstaða utanríkisráðherrans þyki fréttaefni.

 

 

 

 

 

Fimmtudagur 29. 01. 15 - 29.1.2015 18:00

Viðtal mitt á ÍNN við Magnús Lyngdal Magnússon, skrifstofustjóra Miðstöðvar framhaldsnáms í Háskóla Íslands, frá 21. janúar er komið á netið og má sjá það hér.

Nú eru tvö ár liðin frá því að Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra, sló viðræðunum við ESB á frest án þess að bera málið undir alþingi. Hann lét nægja hinn 14. janúar 2013 að ræða málið í ráðherranefnd um Evrópumál og leggja fram minnisblað í ríkisstjórn sem síðan sendi frá sér fréttatilkynningu sem lesa má hér. 

Þessi leikur í glímu Össurar við ESB og andstöðu við ESB-aðild meðal Íslendinga dugði ekki til að tryggja ESB-flokkunum stuðning í þingkosningunum í apríl 2013. Þeir hlutu illa útreið og við tók stjórn flokka sem vilja ekki inn í ESB. Fyrir ríkisstjórn flokkanna hefur bögglast að stíga skrefið, sem Össur tók, til fulls og draga ESB-umsóknina til baka.

Að ekki hafi tekist að koma Íslandi af þessu gráa svæði gagnvart ESB er þeim mun einkennilegra fyrir þá sök að undanfarin tvö ár hefur öll framvinda mála innan ESB verið á þann veg að minni áhugi er nú en nokkru sinni fyrr í tvo áratugi á að stækka ESB frekar.

Innan sambandsins eiga menn fullt í fangi með að móta sameiginlega afstöðu til stórmála sem upp koma. Þrjú skulu nefnd: (1) leiðin út úr skuldakreppu evru-ríkjanna, (2) afstaðan til Rússlands og (3)  framtíð Breta innan ESB.

Til að eyða óvissu eftir þingkosningar og stjórnarmyndun í Grikklandi hamra ráðamenn innan ESB á einni setningu: orð skulu standa. Yfirlýsingarnar staðfesta enn einu sinni að EES-samningur Íslands og ESB stendur þótt ESB-umsóknin verði dregin til baka.

Gríska ríkisstjórnin ætlar að nýta umboðið sem hún fékk til hins ýtrasta gagnvart ESB. Íslenska ríkisstjórnin hefur sýnt alltof mikið hik við að nýta umboðið sem hún fékk gagnvart ESB.

Miðvikudagur 28. 01. 15 - 28.1.2015 18:50

Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt á ÍNN viðtal mitt við dr. Janus Guðlaugsson, lektor við Háskóla Íslands. Í september varði hann doktorsritgerð sína við háskólann í íþrótta- og heilsufræði. Hann hefur rannsakað áhrif þol- og styrkleikaæfinga á öldrun. Í samtali okkar kemur fram að aldrei er of seint að hefja þessar æfingar til að auka eigin lífsgæði og draga úr líkum á ótímabærri hrörnun. Hið undarlega er raunar að ekki skuli gert skipulagt átak á þessu sviði til að minnka álag á heilbrigðiskerfið.

Eins og lesendur síðu minnar vita hef ég í rúm 20 ár lagt stund á qi gong með góðum hópi fólks sem æfir eftir kerfi sem Gunnar Eyjólfsson hannaði og lýst er í bókinni Gunnarsæfingarnar sem kom út í fyrra.

Qigong nýtur vinsælda víðar eins og sjá má hér. Þarna segir frá Ingu Björk Sveinsdóttur sem leiðir qigong tvisvar í viku hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík, hóf hún að gera það haustið 2013. Hún segir: „Það er ekki nóg að lifa lengi, menn þurfa líka að lifa vel. Í Qigong beitum við heilunaraðferðum sem virka, við beitum hugarorkunni, önduninni, hreyfingu og hugleiðslu. […]Ég kynntist þessu kerfi fyrst þegar vinur minn gaf mér bók eftir meistarann Chunyi Lin, sem skóp kerfið sem ég nota, hann kallar þetta kerfi Spring Forest Qigong.

Þá segir á vefsíðunni Lifðu núna:

 „Qigong er gott og fyrirbyggjandi fyrir alla. Það er sérstaklega hentugt fyrir eldra fólk, vegna þess að það þarf enga sérstaka fimi til að stunda það“, segir Inga Björk,en Qigong bætti hennar líf í alla staði. Hún segist alltaf hafa verið virk í skapandi starfi af ýmsu tagi, jafnvel pínulítið ofvirk. Hún hafi haft mikið að gera, verið með stórt heimili, séð um öll boð sjálf með tilheyrandi áhyggjum og þreytu. Eftir að hún fór að stunda Qigong fann hún fljótt mikinn mun á orkunni og þreyta, kvef og pestir eru ekki lengur til í hennar orðabók.“

Eins og sjá má af þessu eru qigong-æfingar til mikils gagns en eins og kemur fram í samtali okkar Janusar er gott að leggja stund á fleira til að efla þol og styrk á efri árum.

Þriðjudagur 27. 01. 15 - 27.1.2015 21:00

Jón Ólafsson, prófessor við háskólann á Bifröst, var formaður samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Á dv.is má í dag lesa hugleiðingu hans um gildi siðareglna en það ráðist af vilja þeirra sem þurfa að lúta þeim að gera það. Þá segir prófessorinn:

„Ef svo hefði verið um innanríkisráðherra hefði hún að sjálfsögðu getað nýtt sér siðareglur ráðherra, gildar eða ógildar. Ef samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna hefði verið starfandi hefði nú líka getað leitað ráða hjá henni, en eitt hlutverk nefndarinnar var að gefa starfsmönnum stjórnsýslunnar og ráðherrum ráð þegar þeir stæðu frammi fyrir siðferðilegum álitamálum.

Forsætisráðherra kaus hins vegar að skipa nefndina ekki eftir að hann tók við embætti og nú hefur verið lagt fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að hún verði lögð niður.“

Í þessum orðum er litið fram hjá því að innanríkisráðherrann var í þeirri ótrúlegu aðstöðu að við hlið hennar var aðstoðarmaður sem sagði ráðherranum ekki sannleikann. Ráðherrann var í góðri trú um að ekkert ólöglegt hefði verið gert innan veggja ráðuneytisins í lekamálinu.

Þegar sannleikurinn kom í tók ráðherrann snarlega af skarið, rak aðstoðarmanninn og sagði síðan af sér.  Ráðherrann fyrrverandi tók síðan mið af því sem fram kom í athugun sem umboðsmaður alþingis hóf, ritaði umboðsmanni bréf, viðurkenndi mistök sín og auðveldaði þannig umboðsmanni að ljúka athugun sinni en í niðurstöðunni seildist hann langt eftir lögfræðilegum rökum.

Í áliti umboðsmanns er vikið að skyldu ráðherra til að leita sér ráðgjafar. Umboðsmaður minnist hins vegar ekki á nefndina þar sem Jón Ólafsson var formaður áður en hún hvarf úr sögunni.

Ég hef sagt margsinnis að með því að eyðileggja dómsmálaráðuneytið var unnið skemmdarverk á stjórnarráðinu. Skal þetta enn áréttað, þetta skemmdarverk er miklu alvarlegra en að ekki sé skipað í nefnd að nýju. Þetta mál segir mér að með brotthvarfi dómsmálaráðuneytisins hafi horfið þekking og reynsla í nánasta samstarfsliði ráðherrans.

 

Mánudagur 26. 01. 15 - 26.1.2015 20:25

Á ruv,is segir í dag:

„Alexis Tsipras, [leiðtogi róttækra grískra vinstrimanna] tók formlega við embætti forsætisráðherra nú síðdegis, eftir stórsigur vinstriflokksins Syriza í grísku þingkosningum í gær. „Það eru bjartir tímar framundan, tímar vonar,“ sagði hann þegar forsetinn, Karolos Papoulias, sór hann í embætti.

Tsipras er yngsti maðurinn til að gegna embætti forsætisráðherra í Grikklandi í eina og hálfa öld. Tsipras fór fram á að athöfnin yrði borgaraleg. Hann sór embættiseið sinn því ekki við biblíuna eins og hingað til hefur tíðkast og þáði ekki blessun kardinála.“

Í Biblíunni segir:

Hebreabréfið 6:16-19

„Menn sverja eið við þann sem æðri er, eiðurinn er þeim staðfesting og bindur enda á öll andmæli. Með því nú að Guð vildi sýna þeim sem fyrirheitið var ætlað enn skýrar hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði. Það er óhugsandi að Guð fari með lygi og því er þetta tvennt sem er óraskanlegt mikil uppörvun fyrir okkur sem höfum leitað athvarfs í þeirri sælu von sem við eigum. Þessi von er eins og akkeri fyrir sálina, traust og öruggt, og nær alla leið inn fyrir fortjaldið“

 

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:

„Þess má geta að hugtakið „drengskaparheit“ hefur ákveðna þýðingu í réttarfari þar sem það er notað yfir sérstaka staðfestingu vitnis á framburði þess fyrir dómi. Sú staðfesting er fólgin í því að vitnið leggur við drengskap sinn að hafa sagt satt og rétt frá fyrir dóminum. Drengskaparheit hefur í þessu sambandi sömu þýðingu og eiður að lögum. Eiður er notaður ef vitnið lýsir því yfir að það trúi á guð en annars drengskaparheit.“

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir:

„Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni.“

Hefði fréttastofa ríkisútvarpsins ekki átt að segja að Alexis Tsipras hefði unnið drengskaparheit að grísku stjórnarskránni? Og forseti Grikklands hefði sett hann í embætti?

Sunnudagur 25. 01. 15 - 25.1.2015 20:45

Allt benti til að Syriza, bandalag róttækra vinstrisinna, systurflokkur VG, ynni stórsigur í þingkosningunum í Grikklandi í dag, þegar fjórðungur atkvæði höfðu verið talin. Flokkurinn fengi 35,4% atkvæða en Nýi lýðræðisflokkurinn (mið-hægriflokkur) 29%, Antonis Samaras forsætisráðherra er formaður þess flokks.

Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, hefur lofað að ná hagstæðum samningum við þríeykið, ESB, Seðlabanka evrunnar (SE) og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), neyðarlánveitanda Grikkja sem þeir skulda um 240 milljarða evra. Í upphafi var Tsipras andvígur aðild Grikkja að evru-samstarfinu en hefur stig af stigi mildað afstöðu sína til hennar enda telur meirihluti Grikkja of hættulegt að kasta evrunni fyrir róða.

Framvinda stefnu Syriza gagnvart evrunni og ESB minnir á hvernig VG hefur þróað stefnu sína gagnvart ESB. Af því að VG telur þann kost bestan fyrir sig að vera samstarfshæfur flokkur fyrir ESB-aðildarflokkinn, Samfylkinguna, hafa forystumenn VG valið svipaða stefnu í ESB-málum og Framsóknarflokkurinn gerði í varnarmálum fram til 1978: að vera opinn í báða enda.

Alexis Tsipras vill ekki verða hornreka innan ESB og þess vegna er ekki ólíklegt að hann hagi sér líkt og Steingrímur J. Sigfússon gerði að loknum kosningum í apríl 2009 þegar hann kúventi og gekk á bak orða sinna varðandi ESB-umsóknina. Þau brigð urðu síðan hluti af blekkingarleiknum um að unnt væri að fara í könnunarleiðangur til Brussel.

Undir stjórn Tsipras og Syriza verður stofnað til pólitískrar ESB-leiksýningar. Því verður til dæmis hampað að Grikkir fái ekki notið loforðs SE um kaup á ríkisskuldabréfum fari þeir ekki að skilmálum þríeykisins með t. d. lengri lánstíma.

Minnast má þess að Steingrímur J. var alfarið á móti AGS-samningum utan stjórnar en uppveðraðist við skjall AGS-manna og hældi sér af því að á fundi AGS í Washington hefðu menn sagt að senda ætti hann til að bjarga Grikkjum.

Laugardagur 24. 01. 15 - 24.1.2015 19:15

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um álit umboðsmanns alþingis (UA) á samtölum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Stefáns Eiríkssonar, innanríkisráðherrans og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.  Hugleiðingu mína má lesa hér. UA seilist næsta langt til að komast að lögfræðilegri niðurstöðu um álitaefnið og auðveldaði Hanna Birna honum það með því að viðurkenna mistök í bréfi til hans.

Einkennilegt er ef Hönnu Birnu er nú talið það til lasts að hafa játað á sig mistök. Þetta er efnislega hið sama og hún sagði í bréfi til sjálfstæðismanna 8. janúar 2015, sama dag og hún sendi UA bréfið. Við sjálfstæðismenn sagði Hanna Birna:

„Ég vildi óska að ég hefði fyrr en ég gerði áttað mig á því hversu erfitt málið yrði; vildi óska að ég hefði gert minna af því að útskýra atburðarás og grípa til varna í máli sem ég gat ekki útskýrt; og vildi óska að ég hefði aldrei rætt málið eða átt nokkur samskipti við fyrrverandi lögreglustjóra vegna þess, þrátt fyrir skýringar hans um að hann færi ekki með stjórn málsins. Því hef ég þegar komið til umboðsmanns Alþingis með bréfi í dag.“

Í tíð minni sem ráðherra las ég mörg álit UA meðal annars um málefni sem varðaði embættisfærslu mína. Ég latti fólk aldrei til að leita álits UA enda er verkefni hans að lýsa inn í skúmaskot stjórnsýslunnar og benda á það sem má betur fara. Þetta tilvik sem hér um ræðir er svo sérstakt að vonandi á aldrei eftir að koma til þess aftur að ríkissaksóknari sjái ástæðu til að gefa fyrirmæli um rannsókn á ráðuneyti lögreglumála.

Ég var ekki alltaf sammála niðurstöðu UA. Hann gekk til dæmis lengra en góðu hófi gegndi þegar hann bjó til nýja reglu í áliti sínu vegna skipunar Ólafs Barkar Þorvaldssonar í embætti hæstaréttardómara og taldi mig hafa brotið hana! Þegar Ólafur Börkur sótti um dómaraembætti tóku þeir sem sátu fyrir í hæstarétti sig saman um reyna að binda hendur veitingarvaldsins með forgangsröðun í áliti sínu.

Vegna álits UA í því máli kröfðust margir afsagnar minnar sem ráðherra.

Föstudagur 23. 01. 15 - 23.1.2015 19:30

Í dag eru liðin rétt 20 ár frá því að fyrsta færslan sem varðveitt er hér á vefsíðunni var sett á hana, það var hinn 23. janúar 1995 eins og sjá má hér. Í þessi 20 ár hefur síðan verið snar þáttur í daglegu lífi mínu. Hún geymir gífurlegt magn upplýsinga um það sem á daga mína hefur drifið í einkalífi og opinberu lífi. Þá er hér að finna viðhorf mitt til manna og málefna á líðandi stundu.

Þetta er þó aðeins brot af því sem ég hef skrifað á þessum árum. Í tæp fimm ár höfum við Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, haldið úti vefsíðunni Evrópuvaktinni og þar hef ég skrifað mikið um málefni líðandi stundar. Þá hef ég í 10 ár verið fastur dálkahöfundur hjá tímaritinu Þjóðmálum en enga af þeim greinum sem ég hef skrifað þar um stjórnmál eða bækur er að finna hér á síðunni.

Ég hef rætt við Borgarskjalasafnið um varðveislu síðunnar þegar fram líða stundir. Hún hefur frá síðla árs 2002 verið vistuð hjá Hugsmiðjunni sem hannaði hana í núverandi búning í tengslum við prófkjör vegna alþingiskosninganna vorið 2003. Samstarfið við Hugsmiðjuna hefur verið farsælt og snurðulaust í allan þann tíma sem síðan er liðinn. Ég átti einnig mikið undir öðrum kunnáttumönnum við gerð og varðveislu vefsíðu fyrir þann tíma og er sú saga rakinn hér á síðunni til dæmis hér, 

Miðvikudaginn 21. janúar kom fjöldi manna saman í Valhöll til að minnast þess að á gamlársdag voru liðin 50 ár frá andláti Ólafs Thors, hins mikla foringja flokksins. Hér má sjá myndband frá fundinum þar sem Davíð Oddsson, fyrrv. flokksformaður, flutti skemmtilega ræðu en Bjarni Benediktsson flokksformaður stjórnaði fundinum og minntist einnig forvera síns.

Ég var 20 ára þegar Ólafur Thors lést og kynntist nánu samstarfi og vináttu hans og föður míns. Er birta og gleði yfir þeirri minningu. Nú má kynnast skjölum þeirra beggja á Borgarskjalasafni og er ekki að efa að þegar fram líða stundir munu menn átta sig æ  betur á hve margar örlagaríkustu ákvarðanir um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna má rekja til samstarfs þeirra og baráttukjarks.

 

Fimmtudagur 22. 01. 15 - 22.1.2015 19:00

Tveir fyrirlestrar í röð Miðaldastofu um landnám Íslands voru fluttir síðdegis í dag í Háskóla Íslands.

Sveinbjörn Rafnsson, doktor í sagnfræði og prófessor emeritus, kallaði fyrirlestur sinn: Að trúa landnámu.

Marion Lerner, menningar- og þýðingafræðingur, lektor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, kallaði sinn fyrirlestur: Pólitísk goðsögn í framkvæmd. Íslensk ferðafélög og landnám í upphafi 20. aldar.

Eins og jafnan þegar Miðaldastofa við Háskóla Íslands efnir til fyrirlestra sótti þessa fjöldi áheyrenda. Bæði vörpuðu Sveinbjörn og Marion íhugunarverðu ljósi á viðfangsefni sitt. Sveinbjörn færir sterk rök fyrir að Landanámabók hafi verið skrifuð til að árétta stöðu lýðveldis eða þjóðveldis á Íslandi gagnvart ásælni konunga á 11. öld. Marion setur uppruna Ferðafélags Íslands í nýtt samhengi með því að kenna það við nýtt landnám. Hún kallar það „landnám inn á við“, það er viðleitni til að auðvelda landsmönnum að kynnast eigin landi.

Morgunblaðiðhefur í vikunni birt fróðlegar frásagnir um flutning Íslendinga til Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar eftir hrun. Viðmælendurnir telja lífsgæði meiri í þessum löndum en á Íslandi meðal annars vegna þess hve umræðan sé neikvæð hér.

Án þess að styðjast við fræðilega rannsóknarniðurstöðu held ég að umræðan sé neikvæðari hér á landi en annars staðar vegna þess hve fjölmiðlar birta mikið af „fréttum“ um óorðna hluti, það er alls konar hrakspár aðila sem sjá sér hag af hræðsluáróðri í von um að afla málstað sínum fylgis með honum.

Þessa áráttu fjölmiðlamanna hér má rekja til þess hve háðir þeir eru efni sem miðlað er til þeirra af hagmunamiðlurum í stað þess að hafa þekkingu,vilja eða getu til að greina það sem raunverulega hefur gerst og leggja það til grundvallar. Hyrfu hrakspárfréttir úr fjölmiðlum yrði strax mun bjartara yfir umræðum.

 

 

 

Miðvikudagur 21. 01. 15 - 21.1.2015 21:40

Í dag birtist á ÍNN viðtal mitt við Magnús Lyngdal Magnússon, skrifstofustjóra miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands, um meistara- og doktorsnám við skólann. Á árinu 2014 voru 82 doktorsvarnir við skólann og voru margir útlendingar í þeim hópi. Næst má sjá samtal okkar klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Auðvelt er að skilja að nýjasta kvikmynd Clints Eastwoods, American Sniper, veki heitar tilfinningar og deilur í Bandaríkjunum. Sagan er átakanleg og höfðar sterkt til samtímans enda nýtur kvikmyndin mikilla vinsælda meðal áhorfenda í Bandaríkjunum en sætir gagnrýni þeirra sem vilja ekki að Bandaríkjamenn eigi stríðshetjur.

Vinstrisinninn Michael Moore segir leyniskyttur hugleysingja. Sarah Palin, fyrrv. frambjóðandi repúblíkana sem varaforseti, fagnar því að Eastwood skuli heiðra bandaríska herinn og liðsmenn hans.

Clint Eastwood hefur gert nokkrar kvikmyndir sem lýsa ævi einstaklinga sem öðlast sérstöðu. Þessi mynd er í þeim flokki og viðfangsefnið er sérstætt því að söguhetjan Chris Kyle er sú leyniskytta innan bandaríska hersins sem fellt hefur flesta með vopni sínu.

Myndin hefur verið tilnefnd sem ein af bestu myndunum við úthlutun Óskars-verðlaunanna og Bradley Cooper hefur hlotið tilnefningu sem besti karleikarinn – hann bætti við sig 20 kílóum til að falla betur inn í hlutverkið sem Chris Kyle.

Þriðjudagur 20. 01. 15 - 20.1.2015 21:15

Það er sérkennilegt að stjórnendur ríkisútvarpsins skuli ekki átta sig á hve hættulegt er fyrir áhorf á 19.00 fréttir sjónvarps og Kastljósið að hringla með tímasetningar þessara dagskráratriða. Festa í sýningartíma er lykilatriði til að halda í áhorfendur. Sé þess ekki gætt fjarar undan því sem látið er víkja fyrir öðru efni eins og handbolta um þessar mundir.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrv. hæstaréttardómari, skrifar grein í Morgunblaðið í dag og varar við áformum um að skilja embætti sérstaks saksóknara eftir í svo mikilli fjárþröng að hann geti ekki lokið málum sem sæta þar rannsókn. Áður hafði Morgunblaðið haft uppi sömu varnaðarorð í leiðara sínum.

Það yrði meirihluta alþingis og stjórnarmeirihlutanum sérstaklega til mikils álitshnekkis ef sérstökum saksóknara yrði gert ókleift að ljúka verkefnum sínum á sómasamlegan hátt. Menn kunna að hafa ólíkar skoðanir á nauðsyn þess að stofna embættið á sínum tíma, um það var hins vegar víðtæk samstaða á alþingi haustið 2008. Þá er ekki óeðlilegt að ýmsir séu sárir eftir að embættið hefur starfað í sex ár og glímt við mál án nokkurs fordæmis og án þess að feta troðnar slóðir.

Hér á síðunni hef ég oft minnt á rökin fyrir tillögu minni um að stofna embætti sérstaks saksóknara. Var unnið að skipulagi þess þegar ég lét af embætti dómsmálaráðherra 1. febrúar 2009. Að embættinu verði ekki gert kleift að ljúka því sem fyrir það er lagt í lögum er í hróplegri andstöðu við tilganginn með stofnun þess.

Að skilja við rannsókn á sakarefnum vegna bankahrunsins án þess að öllum steinum verði velt er í andstöðu við vilja alþingis haustið 2008. Alþingismenn sem vilja svipta embætti sérstaks saksóknara nauðsynlegum fjárveitingum verða að gera grein fyrir ástæðum þess. Geri þeir það ekki nú taka spurningarnar á sig nýjan svip þegar fram líða stundir, engum til góðs.

 

 

 

 

Mánudagur 19. 01. 15 - 19.1.2015 21:15

Í fréttum af málum á vorþinginu sem hefst á morgun er talið að einhverjar umræður verði um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands en frumvarp um þær var lagt fram 3. desember sl. Í inngangi athugasemda við frumvarpið segir:

 „Ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands tóku gildi í september 2011. Á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku laganna hefur fengist reynsla af ýmsum þeirra fjölmörgu breytinga sem lögin fólu í sér. Tilgangur og markmið þess lagafrumvarps sem hér er lagt fram er annars vegar að bæta úr ágöllum sem fram hafa komið. Þar á meðal er lagt til að almenn heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stjórnvalda sem undir hann heyra, nema á annan veg sé mælt í lögum, verði endurvakin en slík lagaheimild féll niður við endurskoðun laganna árið 2011 án þess þó að séð verði að það hafi verið sérstakt markmið við endurskoðun laganna enda ekkert fjallað um breytinguna í athugasemdum við frumvarp til laganna. Verður talið nauðsynlegt að í lögum sé slíkt ákvæði vegna túlkunar Hæstaréttar á 2. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. nánari umfjöllun í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins. Hins vegar eru m.a. lagðar til breytingar sem miða að því að auka sveigjanleika framkvæmdarvaldsins til að skipuleggja störf sín eins og best er talið á hverjum tíma, og til að bæta upplýsingagjöf og faglega stjórnsýslu innan Stjórnarráðsins. Jafnframt eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða siðareglur sem miða að því að efla innleiðingu og eftirfylgni með þeim innan Stjórnarráðsins.
    Frumvarpið er samið í forsætisráðuneytinu að höfðu samráði við önnur ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Þá var haft samráð við samtök stéttarfélaga starfsmanna ríkisins um efni b-liðar 10. gr. og er nánar vikið að afstöðu samtakanna í athugasemdum við greinina.“

Miðað við hvernig vegið var að stjórnarráðinu af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er sérkennilegt hve metnaðarlitlar þessar breytingar á stjórnarráðslögunum eru hjá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sýnist tilgangurinn einkum að lögfesta heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana (Fiskistofu) án þess að leita samþykkis alþingis um aðsetrið.

Ef grannt er skoðað má komast að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um að hafa tvo ráðherra í einu ráðuneyti styðjist í besta falli við mjög óljósan lagabókstaf ef þá nokkurn og er einkennilegt að ekki skuli tekið á þessu álitamáli í frumvarpinu. Enn sérkennilegra er þó að ekki skuli gengið til þess að koma á fót dómsmálaráðuneyti að nýju. Yfirlýsingar ráðherra hafa hnigið í þá átt að þeir telji skynsamlegt að endurreisa dómsmálaráðuneytið – engin merki um það sjást hins vegar í frumvarpinu.

Sunnudagur 18. 01. 14 - 18.1.2015 16:00

Miðvikudaginn 14. janúar ræddi ég við Jón G. Friðjónsson prófessor í þætti mínum á ÍNN í tilefni af útgáfu hinnar miklu bókar hans með málsháttum og orðskviðum Orð að sönnu. Sjá má þáttinn hér. 

Í gær var óperettan Káta ekkjan  í uppfærslu Metropolitan-óperunnar sýnd beint frá New York í Kringlubíói í Reykjavík. Í kynningu kom fram að um 16.000 manns sáu þessa sýningu í kvikmyndahúsum í fjölmörgum löndum víða um heim. 

Vinsældir þessara útsendinga frá Metropolitan aukast jafnt og þétt enda er einstaklega vel að verki staðið. Upptaka frá sýningunni á laugardag verður endursýnd í Kringlubíói klukkan 18.00 á miðvikudag.

Meðal þeirra flytjenda sem sáust í nærmynd var flautuleikarinn Stefán Ragnar Höskuldsson, hér má sjá viðtal við hann í Landanum í sjónvarpinu frá því í október 2013.

Stefán Ragnar var ráðinn fyrsti flautuleikari Metropolitan-óperunnar árið 2008 en þá hafði hann verið annar flautuleikari þar í fjögur ár. Hefur þetta verið sagt „eftirsóttasta flautuleikarastarf í heimi“.

Stefán Ragnar var valinn úr hópi um 100 manns sem léku prufuspil til að fá starfið. Umsækjendur voru miklu fleiri. Að fá fastráðningu er eins og að vinna ólympíugull, sagði Stefán Ragnar í samtali við Morgunblaðið hinn 8. desember 2008.

Stefán Ragnar er ættaður frá Neskaupstað. Hann nam flautuleik hjá Bernharði Wilkinson i Reykjavík. Var í frásögur fært að Höskuldur faðir Stefáns Ragnars ók honum að austan í spilatíma til Reykjavíkur.  

 

Laugardagur 17. 01. 15 - 17.1.2015 17:00

Fyrir nokkrum vikum birtist grein í einu sérkennilegasta blaði sem gefið er út í landinu Reykjavík vikublaði eftir rannsóknarblaðamanninn Atla Þór Fanndal þar sem upplýst var að í bandarískum skjölum frá 1974 kæmi fram að við Styrmir Gunnarsson hefðum ekið með Fred Irving, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna, til Keflavíkurflugvallar og rætt við hann um úrslit þingkosninganna sem fram fóru í júlí 1974 og pólitískar hræringar í kjölfar þeirra. Við Styrmir störfuðum þá báðir sem blaðamenn, hann á Morgunblaðinu og ég á Vísi.

Í kosningunum 1974 urðu þáttaskil í utanríkismálum, þá féll vinstri stjórnin sem hafði á stefnskrá sinni að reka Bandaríkjamenn úr Keflavíkurstöðinni. Sjálfstæðisflokkurinn vann einn sinn besta kosningasigur og stjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna undir forsæti Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sneri strax við blaðinu í varnarmálum í október 1974 með samkomulagi um þau mál við Bandaríkjastjórn.

Var þá betur staðið að framkvæmd stefnubreytingar í utanríkismálum að kosningum loknum en nú þegar stjórnarflokkarnir aftengja ekki hina ömurlegu ESB-umsókn sem knúin var í gegn á alþingi sumarið 2009 með blekkingum og hótunum eins og sjá má hér. 

Ætlan rannsóknarblaðamannsins Atla Þórs var að sverta okkur Styrmi í huga lesenda sinna og bregða upp mynd af okkur sem einhverjum uppljóstrurum ef ekki njósnurum vegna samstals okkar við sendiherrann í þessari ökuferð. Ímyndunarafl rannsóknarblaðamannsins eða óvildarhugur ræður ferð og afvegaleiðir hann.

Í Morgunblaðinu í dag birtir Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor vikulega fróðleiksmola úr sögu og samtíð og segir að í Wikileaks-skjölunum megi lesa að bandaríska sendiráðið í Reykjavík hafi árið 2007 valið Jón Guðna Kristjánsson, fréttamann ríkisútvarpsins, til að fara í „fræðsluferð um Afganistan“ til Washington og Brussel „Jón Guðni væri virtur fréttamaður, og Spegillinn, sem hann hefði umsjón með, væri einn áhrifamesti fréttaþáttur landsins,“ segir í pistli Hannesar Hólmsteins. Í skjölunum vitna sendiráðsmenn í ýmis sjónarmið Jóns Guðna sem Hannes segir að saki sendiráðið um „uppspuna“ þegar þetta beri á góma. Hannes spyr: „Hver hefur rétt fyrir sér?“ og segir síðan í lokin: „En fróðlegast kann þó að vera, að bandaríska sendiráðið skyldi hafa slíkt dálæti á umsjónarmanni Spegilsins, sem gárungarnir kalla Hljóðviljann.“

Hvaða samsæri skyldi Atli Þór Fanndal sjá í tengslum umsjónarmanns Spegilsins og bandaríska sendiráðsins?


Föstudagur 16. 01. 15 - 16.1.2015 19:10

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir í Morgunblaðinu í dag:

„Þegar aðild Íslands að Schengen varð að veruleika á sínum tíma má segja að aðildin hafi verið seld okkur í lögreglunni, á þann veg að eftirlitið sem áður var á landamærunum færðist inn fyrir landamærin og þetta yrði gert með þeim hætti að lögreglan væri efld, fjölgað yrði í lögreglunni og fjárveitingar til hennar auknar. Þau fyrirheit hafa aldrei gengið eftir. Sú efling sem átti að verða í löggæslunni við það að vegabréfaeftirlitið var lagt af innan Schengen-svæðisins hefur aldrei orðið að veruleika.“

Frá því að Ísland varð aðili að Schengen-samstarfinu hefur verið lögð meiri áhersla en áður á landamæraeftirlit sem reist er á greiningu. Heimildir til þess að safna upplýsingum sem reistar eru á farþegaskrám hafa aukist og aðgangur að Schengen-gagnagrunnum eykur gildi greininga af þessu tagi. Á hinn bóginn er ekki unnt að sinna þessu eftirliti nema til þess sé ráðinn og þjálfaður mannafli. Í því efni hvílir mestur þungi á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum en 98% þeirra sem koma til landsins fara um Keflavíkurflugvöll.

„Lögreglumenn eru ekki síður þreyttir á því að þurfa sí og æ að vera að réttlæta kaup á nauðsynlegum búnaði fyrir misvitrum mönnum, sem vitna í tölvuleiki til þess að fá einhverja innsýn í mál, sem verið er að fjalla um hverju sinni,“ sagði Snorri einnig við Morgunblaðið  og vitnaði til furðulegra ummæla þingmanns pírata.

Þá vekur Snorri Magnússon athygli á þeirri staðreynd að lögreglan hér fær ekki upplýsingar frá lögreglunni á hinum löndunum á Norðurlöndum, sem varða öryggismál Íslands og Íslendinga, vegna þess að lögreglan hér á landi býr ekki við löggjöf um varðveislu gagna sem stenst kröfur embætta á borð við PST í Noregi, PET í Danmörku eða MI5 í Bretlandi.

Nú eru sagðar fréttir af forvirkum aðgerðum lögreglunnar í Belgíu til að uppræta hryðjuverkagreni en í þeim hafa meðal annars fundist gögn sem sýna að hryðjuverkamennirnir hafi haft áform um að myrða lögreglumenn til að grafa undan öryggiskennd almennings og skapa sem mesta hræðslu í landinu.

Unnt er að grafa undan trausti í garð lögreglu á ýmsan hátt. Neyðarleg ummæli svo að ekki sé talað um viðleitni til að veikja úrræði lögreglu til að tryggja eigið öryggi og þar með annarra samrýmist ekki frumskyldu þeirra sem bjóða sig fram til að gæta hagsmuna almennings.

 

 

 

Fimmtudagur 15. 01. 15 - 15.1.2015 20:30

Að þeir sem vilja að Ísland gangi í ESB haldi fast í sjónarmið sitt um að ekki megi afturkalla aðildarumsóknina frá 2009 nema greitt sé þjóðaratkvæði um afturköllunina verður talið meðal einkennilegustu afstöðu til mikilvægs utanríkismáls þegar fram líða stundir.

Aðildarumsóknin var reist á þeim misskilningi að árið 2009 yrði tekið á móti Íslandi í Brussel eins og á móti EFTA-ríkjum árið 1992. Með vísan til þess töldu stuðningsmenn umsóknarinnar að aðildarviðræður tækju aðeins fáeina mánuði. Sá sem kvað fastast að orði um það efni var frambjóðandi Samfylkingarinnar í þingkosningunum 2009 og prófessor í Evrópumálum við Háskóla Íslands. Ráðgjöf hans reyndist reist á sandi.

ESB batt enda á viðræðurnar í mars 2011 þegar fulltrúar sambandsins neituðu að afhenda skýrslu um sjávarútvegsmál nema Íslendingar féllu frá kröfum í sjávarútvegsmálum. Ríkisstjórn Íslands ákvað að bíða fram í desember 2012 í von um að ESB félli frá þessu skilyrði sínu. Biðin reyndist árangurslaus og í janúar 2013 sló utanríkisráðherrann sem sótti um aðild viðræðunum á frest.

ESB-flokkarnir töpuðu þingkosningunum 2013. Ný ríkisstjórn afmunstraði viðræðunefnd Íslands. Snemma árs 2014 fékk ríkisstjórnin skýrslu í hendur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands þar sem hörmungarsaga viðræðnanna er rakin.

Hinn 1. nóvember 2014 settist ný framkvæmdastjórn ESB að völdum. Forseti hennar afnam stöðu stækkunarstjóra en lagði áherslu á að rætt yrði við ríkisstjórnir Balkanríkja í von um að fyrirheit um hugsanlega aðild festi lýðræði í sessi. Hann sagði að engu ríki yrði hleypt inn í ESB fyrr en í fyrsta lagi eftir 2019.

Utanríkisráðherra segir að hann ætli að kynna alþingi tillögu sem leiði til þess að Ísland sé ekki ESB-umsóknarríki.

Að haft sé í heitingum við ríkisstjórnina þegar hún leggur drög að ákvörðun um svo sjálfsagðan hlut er sérkennilega ómálefnalegt. Ástæðan fyrir að umsóknarsinnar ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki efni málsins er einföld: þeir vita að málefnastaða þeirra í þágu aðildarviðræðna er orðin að engu.  

Miðvikudagur 14. 01. 15 - 14.1.2015 19:10

Í dag ræddi ég á ÍNN við Jón G. Friðjónsson prófessor um bók hans Orð að sönnu þar sem birtir eru málshættir og orðskviðir með skýringum. Þátturinn verður sýndur klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Viðtal mitt við Pétur Óla Pétursson í St. Pétursborg er komið á netið og má sjá það hér.

Í dag lýsti ég á Evrópuvaktinni undrun minni á umræðunum um utanríkismál í landinu um þessar mundir eða skort á þeim og má lesa það hér.

Eins og sjá má á textanum botna ég ekkert í þeim sem halda í þá skoðun að aðildin að Schengen sé undirrót þess vanda sem að steðjar hér og veldur ótta margra við útlendinga. Þessi skoðun er einföldun á flóknu viðfangsefni sem verður ekki auðveldara viðfangs með úrsögn úr Schengen.

Ítarlega var kannað hvort aðild að Schengen bryti í bága við stjórnarskrána og var það álit sérfróðra manna að svo væri ekki. Íslendingar ættu ekki aðild að Europol, Evrópulögreglunni, væru þeir ekki í Schengen-samstarfinu, ekki heldur að Eurojust eða öðru slíku samstarfi, þeir hefðu ekki heldur aðgang að gagnagrunnum Schengen-ríkjanna. Segi menn rangt til nafns eða gefi upp rangan fæðingardag við skráningu í flug eða nota fölsuð skilríki gildir hið sama hvort sem ríki eru utan eða innan Schengen að þeir geta villt á sér heimildir. Það fer eftir árvekni við eftirlit hvort mönnum tekst að svindla - eftirlit er unnt að stórauka í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að sjálfsögðu var það pólitísk ákvörðun að ganga í Schengen og það er einnig pólitísk ákvörðun að slíta samstarfinu. Er einhver stjórnmálaflokkur með það á stefnuskrá sinni.

 

 

Þriðjudagur 13. 01. 15 - 13.1.2015 19:15

Miklar umræður fara nú víða fram um hvort herða verði eftirlitsheimildir stjórnvalda í Evrópu til að tryggja betur öryggi borgaranna. Almennt er varað við að ganga eins langt og Bandaríkjamenn gerðu með The Patriotic Act nokkrum vikum eftir hryðjuverkaárásina 11. september 2001. Á hinn bóginn er bent á að síðan hafi tekist að bægja hryðjuverkum frá Bandaríkjunum fyrir utan ódæðið í Boston árið 2013.

Rætt var við mig í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag og vildu þeir félagar heyra skoðanir mínar á heimildum íslenskra stjórnvalda til að greina hættu og gera áhættumat. Ég benti á greiningardeild ríkislögreglustjóra en minnti á að hér starfaði ekki leyniþjónusta og því væri ekki um forvirkar rannsóknarheimildir að ræða en margir teldu þær duga best til að hindra hryðjuverk. Þá gætu íslensk stjórnvöld ekki tekið þátt í samstarfi ríkja á þessu sviði. Allt skipti þetta máli og ekki óeðlilegt að þeir sem bæru ábyrgð á öryggi almennings teldu sig ekki standa nægilega vel að vígi hefðu þeir ekki þau tæki sem aðrir teldu duga best.

Ég vakti einnig máls á því að um helgina hefðu innanríkisráðherrar nokkurra Evrópulanda komið saman í París og sammælst um að knýja ESB-þingið til að afgreiða svonefnda PNR-löggjöf, sjá hér.

Hér á landi er lögreglu heimilt að greina allar farþegaskrár og í því felst virkari landamæravarsla en að skoða vegabréf í lansamærahliði. Þetta er mikilvægt greiningarstarf sem skilar árangri í baráttu við skipulagða glæpahópa og hryðjuverkamenn. Hafa ber í huga að um 98% þeirra sem koma til landsins fara um Keflavíkurflugvöll og flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að haldið sé uppi virku eftirlits- og greiningarstarfi þar skiptir sköpum í öryggisgæslu lögreglu.

Mánudagur 12. 01. 15 - 12.1.2015 19:30

Tónninn í málflutningi franskra stjórnmálamanna og blaða vegna hryðjuverkanna í síðustu viku hefur breyst eftir hinar fjölmennu samstöðugöngu í París og Frakklandi öllu um helgina. Eins og sjá má hér fer ekki á milli mála að helstu áhrifamenn á sviði stjórnmála og álitsgjafar í fjölmiðlum telja um stríð við hryðjuverkamenn að ræða. Spurningin sé hve mikla hörku ríkisvaldið eigi að sýna og hve miklar heimildir eigi að veita yfirvöldum til að hafa eftirlit með einstaklingum – hvort ganga eigi eins langt og Bandaríkjamenn gerðu fáeinum vikum eftir 11. september 2001 þegar lögin sem nefnd eru Patriotic Act voru samþykkt.

Of snemmt er að segja hver verður niðurstaða hinna pólitísku umræðna í Frakklandi, hitt er ljóst að þar gildir hæsta öryggisstig áfram og á morgun verða 10.000 hermenn sendir úr búðum sínum til að gæta öryggis borgaranna, ekki síst gyðinga. Þeir hafa um nokkurt skeið óttast um öryggi sitt í Frakklandi og ekki minnkar óttinn við að fjórir gíslar voru myrtir með köldu blóði af hryðjuverkamanni í gyðingaverslun í París föstudaginn 9. janúar.

Frakkar eru stoltir af að á 48 stundum tókst að undirbúa komu tæplega 50 ríkisoddvita til landsins til að taka þátt í göngunni miklu. Talað er um að á þessum skamma tíma hafi við hinar erfiðustu aðstæður verið undirbúinn tvöfaldur G-20 leiðtogafundur eins og það er orðað. Þegar á hólminn var komið hafi síðan allt gengið eins og í sögu.

François Hollande Frakklandsforseti er af stuðningsmönnum sínum og öðrum talinn stjarna dagsins, athygli hafi beinst að hverri hreyfingu hans og hann komið, séð og sigrað án þess að segja eitt orð opinberlega allan daginn. Þetta er vissulega vel af sér vikið og verður örugglega til þess að auka virðingu Frakka fyrir forseta sínum enda gat hann ekki sigið lægra í skoðanakönnunum.

Við Íslendingar þekkjum það úr forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar að einn sögulegur atburður sem vekur þjóðarathygli og aðdáun getur gert gæfumuninn fyrir þjóðkjörinn forseta sem tapað hefur áliti og glutrað niður fylgi sínu.

Sunnudagur 11. 01. 15 - 11.1.2015 19:20

Le Monde segir að í dag hafi um fjórar milljónir Frakka farið út á götur og torg til að verja frelsi sitt eftir hryðjuverkin á miðvikudag, fimmtudag og föstudag sem urðu 17 saklausum einstaklingum að bana auk þess sem þrír hryðjuverkamenn féllu í átökum við lögreglu. Var magnað að fylgjast með framvindu göngunnar í París þar sem á fimmta tug forseta, forsætisráðherra og annarra ráðamanna frá öðrum ríkjum slógust í för með François Hollande Frakklandsforseta, ríkisstjórn Frakklands og fulltrúum stjórnarandstöðunnar.

Á mbl.is er skýrt frá því að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra hafi verið boðið að taka þátt í göngunni í París. Hann hafi ekki haft tök á að þiggja boðið, aðstoðarmaður hans segist ekki vita hvað kom í veg fyrir för hans til Parísar. Hér má sjá lista yfir erlenda ráðamenn sem voru í París í dag.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig umræður þróast í Frakklandi og hvort í raun takist að sameina þjóðina eins og forsetinn hefur boðað frá því að hann ávarpaði hana fyrst eftir árásina á Charlie Hebdo miðvikudaginn 7. janúar.

Athyglisvert er hve virkur forsetinn hefur verið frá fyrstu stundu eftir hryðjuverkið. Hann fór strax að ritstjórnarskrifstofu vikublaðsins eftir árásina og í dag gekk hann til þeirra starfsmanna þess sem lifðu af árásina og faðmaði þá og aðstandendur hinna látnu starfsmanna blaðsins. Frankfurter Allgemeine Zeitung segir að hinum óvinsæla Frakklandsforseta hafi tekist að skapa samstöðu með þjóðinni og það styrki hann í sessi.

Laugardagur 10. 01. 15 - 10.1.2015 23:30

Í vefblaðinu Kjarnanum segir frá því í dag að Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrv. dómari við hæstarétt, vilji að Ólöf Nordal innanríkisráðherra, sem fer með dómsmál í ríkisstjórninni, höfði mál á hendur Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Hæstaréttar. Þetta hafi komið fram í Vikulokunum á rás 1 í dag.

Í fljótu bragði hefði mátt ætla að fréttastofa ríkisútvarpsins teldi ummæli Jóns Steinars fréttnæm. Í stað þess þótti fréttamönnunum tíðindum sæta að Jón Steinar vildi að alþingi afnæmi lagagrein sem gerði refsivert að draga opinberlega dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags hér á landi, eins og sagði í fréttum ríkisútvarpsins.

Í Kjarnanum er vitnað í Jón Steinar sem sagði:

 „Það sem kemur mér kannski meira á óvart er að fjölmiðlarnir hafi ekki staðið sig betur. Vegna þess að mér finnst þetta vera tíðindi[…]Þetta eru alla vega frásagnir af atburðum í opinberu lífi um misnotkun á valdi þar sem síst skyldi[…]Það sem ég lýsi í bókinni eru auðvitað freklegt brot gegn starsskyldum hæstaréttardómara. Mér fannst það alveg skelfilegt fyrir mig og ég vona að öllum finnist það.“

Jón Steinar hlýtur að telja það enn frekari staðfestingu á orðum sínum að fréttastofan metur fréttnæmara að hann taki undir með pírötum um að heimila beri guðlast en að hann vilji að innanríkisráðherra höfði mál á hendur forseta hæstaréttar.

 

 

Föstudagur 09. 01. 15 - 9.1.2015 23:45

Hryðjuverkamennirnir í Frakklandi voru felldir í dag og nú tekur við uppgjörið við það sem gerðist og hvernig það gat gerst. Á sunnudaginn koma leiðtogar ESB-ríkja til Parísar til að sýna samstöðu með Frökkum. Boðað hefur verið að ræða eigi öryggisaðgerðir gegn hryðjuverkum á næsta fundi leiðtogaráðs ESB.

Íslensk yfirvöld hafa aðgang að sameiginlegum lögregluaðgerðum Evrópulanda í gegnum Europol en þau standa hins vegar utan við öflugasta samstarfið í baráttunni, það er leyniþjónustusamstarfið, engin lög gilda um það hér á landi. Fyrir liggur skýrsla um aðgerðir á þessu sviði til að Ísland verði gjaldgengt í þessu samstarfi. Á hinn bóginn hefur ekki verið nægur pólitískur vilji til að grípa til nauðsynlegra aðgerða.

Öll gögn um það sem skynsamlegast er að gera vilji stjórnvöld styrkja innviði til að takast á við hryðjuverkahættuna liggja fyrir hjá opinberum aðilum. Embætti ríkislögreglustjóra hefur gert grein fyrir sjónarmiðum sínum og mörgum stjórnmálamönnum er ljóst hvernig unnt er að taka á málinu. Umræðurnar fara hins vegar út og suður og hætta fljótt að snúast um efni málsins.

Til marks um óvænta stefnu umræðna er að nú skuli tekið til við að ræða afnám ákvæðis í almennum hegningarlögum um guðlast. Afnám þess er sjálfstætt úrlausnarefni án tillits til þess að hryðjuverkamenn myrða 12 manns á ritstjórnarskrifstofu vikublaðs í París til að verja heiður Múhameðs spámanns.

Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því að í kjaradeilu sinni hafi læknar stuðst við öfluga almannatengla til að styrkja samningsstöðu sína gagnvart ríkisvaldinu og má jafnframt ráða af fréttinni að í kjaradeilum leggi aðilar vaxandi áherslu á áróður gagnvart þeim sem standa utan deilunnar til að styrkja stöðu sína við samningaborðið.

Fréttastofa ríkisútvarpsins flutti svo mikið af læknafréttum og hrakspám um það sem í vændum væri að boðskapur almannatenglanna fældi fólk frá að hlusta á fréttatímana. Þarna sannaðist enn að fréttamennska færist sífellt meira frá sjálfstæðri fréttaöflun sem reist er á áhuga og dugnaði fréttamannsins til matreiðslu hans á hráefni sem er forunnið af almannatenglum eða undir handarjaðri þeirra. Fréttastofa ríkisútvarpsins flytur meira af boðskap til neytenda en raunverulegar fréttir.


Fimmtudagur 08. 01. 15 - 8.1.2015 19:00

Franska blaðið Le Monde gaf í dag úr sérstakt blað um hryðjuverkið sem framið var í París í gær þegar ráðist var inn í ritstjórnarskrifstofur vikublaðsins Charlie Hebdo sem segir fréttir með skopmyndum. Ellefu voru drepnir á ritstjórninni og einn fyrir utan húsið.

Dominique de Villepin, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, segir í grein í Le Monde að þetta sé mannskæðasta hryðjuverkaáras í Frakklandi í tæpar tvær aldir og bætir við:

„Stríðsandinn er gildra. Hann er drifkraftur sem leiðir okkur hvern dag sem líður í átt að stjórnlausu stríði. Okkur er skylt að sporna við stríðsandanum í nafni lýðræðislegra gilda okkar. Eini sigurinn sem ofstækismennirnir gætu unnið væri að sannfæra okkur um að við séum í allsherjarstríði.“

Hann segir að til að forðast að lenda í blindgötu valdbeitingar beri að gera þrennt:

Í fyrsta lagi að hindra að launmorðingjar leiki lausum hala, auka verði styrk lögreglu og eftirlitsaðila og efla samstarf við aðrar þjóðir. Um sé að ræða alþjóðlegt viðfangsefni. Stöðva verði allt fjárstreymi til öfgasinnaðra íslamista í Frakklandi, einkum frá Mið-Austurlöndum.

Í öðru lagi verði að hafa hemil á hræðslunni. Það beri að forðast að grípa til sömu úrræða og Bandaríkjamenn gerðu með lögunum sem nefnd eru Patriot Act og dregið hafi úr virðingu Bandaríkjanna út á við vegna pyntinga og ólögmætra fangelsana. Sjálfir búi Frakkar við dýrkeypta reynslu vegna stríðsins í Alsír. Nái hræðslan völdum sé lýðræðið í hættu.

Í þriðja lagi verði að forðast höfnunina. Spenna og fáleikar aukist dag frá degi í samskiptum manna, særð þjóð missi blóð. Umræður og deilur sýni að vandinn felist ekki endilega í að bjarga þjóðinni vegna hættu frá öðrum heldur að bjarga henni frá sjálfri sér og sjálfseyðingarhvötinni.

Á þessum erfiðu tímum hafi sérhver maður skyldu að gegna. Ganga verði fram af ábyrgð, festu og einhuga, sýna í verki hug lýðveldissinna sem trúi á skoðanaskipti, afl menningar og mennta og friðarins.

Þessi orð bera með sér hina miklu alvöru sem einkennir boðskap ráðandi afla í Frakklandi sólarhring eftir voðaverkið. Stóra spurningin er hvort þessi alvara ráði að lokum eða óttinn sem yrði vatn á myllu hinna sem ala á stríðsandanum.

 

 

 

Miðvikudagur  07. 01. 15 - 7.1.2015 19:50

Í dag ræddi ég í þætti mínum á ÍNN við Pétur Óla Pétursson sem býr í St. Pétursborg í Rússlandi. Pétur Óli hefur verið leiðsögumaður þúsunda Íslendinga sem lagt hafa leið sína til Rússlands á undanförnum árum en hann hefur búið í Rússlandi frá 1995. Þátturinn er sýndur klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 annað kvöld.

Hinn 17. desember ræddi ég við Þorgrím Þráinsson rithöfund á ÍNN og má sjá hann hér. 

Fréttir herma að Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, velti fyrir sér framboði í embætti forseta Íslands ef Ólafur Ragnar Grímsson gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Jón Gnarr styrkti sig í dag í væntanlegri baráttu við Ástþór Magnússon um forsetaembættið. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, rituðu undir samstarfssamning á milli borgarinnar og háskólans um að koma á fót friðarsetri. Sameiginlega skipa stofnendur setursins Jón Gnarr sem formann ráðgjafanefndar þess. Dagur B. sagði mikinn feng að formennsku Jóns Gnarrs, hann hefði náð að vekja mikla athygli á málefnum friðar sem borgarstjóri. „Það er bissness í friði,“ sagði Jón Gnarr við athöfnina.

Í frjálsa vef-alfræðiritinu Wikipedia segir meðal annars um Ástþór Magnússon:

„Ástþór var upphafsmaður að stofnun Friðar 2000 1994 með þátttöku meira en 100 erlendra friðarsamtaka og yfir 1000 einstaklinga árið 1995. Ástþór hefur hlotið tvenn mannúðarverðlaun, Gandhi verðlaunin og Heilaga Gullkrossinn frá Grísku rétttrúnaðarkirkjunni en það var UNESCO í Grikklandi sem tilnefndi Ástþór til verðlaunanna.

Athyglisvert er að Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands taki á þennan hátt afstöðu með Jóni Gnarr í friðarmálum en gangi fram hjá Ástþóri Magnússyni.

 

Þriðjudagur 06. 01. 15 - 6.1.2015 19:00

Ég var í hópi þeirra sem ákváðu í dag að leggja ekki á Hellisheiðina vegna viðvörunar veðurfræðinga. Undir kvöld les ég á visir.is  að Stefán Þormar Guðmundsson, vertinn á Litlu kaffistofunni,  sé ósáttur við að veðurfræðingar segi fólki hvort fært sé yfir Hellisheiðina eða ekki, vegagerðarmenn eigi að gera það. Í því felist „forræðishyggja“ að „segja hvenær eigi að ferðast og hvenær eigi ekki að ferðast“.

Veðurfræðingar skipti sér  alltof oft af því hvort fólk eigi að vera á ferðinni, fólk eigi að ráða því sjálft hvort það fari af stað eða ekki. „Með þessu að veðurfræðingar eru að segja svona eru þeir að gera hálfa þjóðina að einnota guðsgeldingum í ferðalögum, þeir bara hreyfa sig ekki,“ segir vertinn í Litlu kaffistofunni. Þá sé hitt ótækt að veðurfræðingar vari við veðrum sem ekki láti sjá sig.

Stefán segist alltaf hafa komist í vinnuna í þau 23 ár sem hann hafi rekið Litlu kaffistofuna, óháð veðri og vindum. „Ég kemst með því að stoppa þegar ég sé ekki en sumir keyra þó þeir sjái ekki neitt og þeir eru alltaf út af veginum eða aftan á næsta bíl en það er ekki við veðurfræðingana að sakast,“ er haft eftir honum á visir.is.

Um þær mundir sem ég skrifa þetta 18.30 sé ég á korti vegagerðarinnar að Þrengslin eru lokuð en bílum er ekið yfir Hellisheiði. Ég er þó ósköp feginn að hafa getað frestað ferð minni.

Ps.  klukkan 19.10 mátti lesa á mbl.is:

Búið er að loka Þrengsl­un­um en þar sitja marg­ir öku­menn fast­ir. Búið er að kalla út björg­un­ar­sveit­ir þeim til aðstoðar.

Veg­in­um um Hell­is­heiði verður að öll­um lík­ind­um lokað fljót­lega en þar er orðið þung­fært og lítið skyggni. Þeir bíl­ar sem aka um heiðina þessa stund­ina sil­ast áfram að sögn lög­regl­unn­ar á Suður­landi.

Upp­fært kl. 19.57

Búið er að loka Hell­is­heiðinni og veg­in­um um Sand­skeið.


Mánudagur 05. 01. 14 - 5.1.2015 19:10

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur dyggilega sagt frá öllu varðandi verkfall lækna, ekki síst hvers megi vænta vegna verkfallsaðgerðanna. Þetta eru þó ekki fréttir heldur spár, vafalaust kynntar til að knýja á um niðurstöðu. Í fréttum klukkan 08.00 í morgun var greint frá því að fundað hefði verið um lausn kjaradeilunnar til klukkan 03.00 eftir miðnætti og haldið yrði áfram síðdegis í dag. Ræddi fréttamaður við formann læknafélags og spurði með þeim orðum að nú væru „blikur á lofti“ þar sem samningur kynni að vera í sjónmáli.

Með góðum vilja mátti skilja orð fréttamannsins á þann veg að ætlunin væri að lýsa jákvæðri þróun í kjaradeilunni, orðavalið benti þó til algjörs þekkingarskorts. Þegar sagt er: „Mér líst ekki á blikuna“ þýðir það: Mér þykir ástandið ískyggilegt. Blika er ský eða skýjamóða. Þegar þetta er skrifað eftir 18.00-fréttir ríkisútvarpsins er ljóst að forystumenn viðræðunefnda ríkisins og lækna telja hægt hafa miðað í viðræðunum í dag. Kannski voru í raun blikur á lofti fyrir fundinn eða þær eru á honum?

George Papandreou, þáverandi forsætisráðherra Grikklands, sagði leiðtogum ESB-ríkjanna frá áformum um að láta grísku þjóðina greiða atkvæði um hvort hún sætti sig við skilyrði neyðarlánanna til Grikklands, Þau voru veitt til að bjarga bönkunum en hvíla nú eins og mara á Grikkjum. Papandreou var ýtt frá völdum. Valinn var maður handgenginn Brusselmönnum til að leiða ríkisstjórn Grikklands.

Stjórnarkreppuna á Grikklandi nú má rekja til þess að Brusselmenn vildu mann með „kunnuglegt andlit“ sem forseta Grikklands. Grískir þingmenn vildu hins vegar ekki slíkan mann og kusu frekar þingrof og  kosningar. Baráttan vegna þeirra er ekki fyrr hafin en mestu valdamenn innan ESB, Angela Merkel og Wolfgang Schäuble, kanslari og fjármálaráðherra Þýskalands, gefa til kynna að Grikkir fari einfaldlega af evru-svæðinu vilji þeir breyta skilmálum neyðarlánanna. Eftir að þjarmað hefur verið í Grikkjum í nokkur ár til bjargar evrunni skal þeim vísað út á kaldan klaka segi þeir hingað og ekki lengra og krefjist síðan minnkunar byrða vegna bankanna.

Um árabil hafa forkólfar Samfylkingar og ESB-aðildar Íslands haldið því fram að til þess að losna við gjaldeyrishöft verði Íslendingar að leggja á sig harðræði fyrir evruna. Reynsla Grikkja er ekki einu sinni blika á lofti í augum þessa fólks.

Sunnudagur 04. 01. 15 - 4.1.2015 17:40

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, er reyndasti stjórnmálamaður Evrópu og einn hinn áhrifamesti. Hann og Angela Merkel Þýskalandskanslari hafa nú þremur vikum fyrir kjördag blandað sér beint í þingkosningabaráttuna í Grikklandi. Þau vita að meirihluti Grikkja vill halda í evruna, um 75% Grikkja eru þeirrar skoðunar í könnun sem birt var í dag. Merkel og Schäuble láta óbeint þau boð berast að komist stjórn til valda í Aþenu að kosningum loknum sem sætti sig ekki við samningana um neyðarlánin til Grikkja og aðhaldsstefnuna í ríkisfjármálum skuli Grikkir segja skilið við evruna.

Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, bandalags róttækra vinstri flokka í Grikklandi, vill hverfa frá aðhaldsstefnunni og afskrifa stóran hluta grísku ríkisskuldanna vegna neyðarlánanna í þágu evrunnar. Hann er hins vegar hlynntur aðild að evru-samstarfinu. Tsipras veit sem er að ólíklegt er að hann og flokkur hans haldi forystusæti í könnunum og síðan í kosingum sannfærist kjósendur um að hann ætli að rjúfa evrusamstarfið. Það kemur í ljós næstu daga hver verða áhrif fréttanna frá Þýskalandi. Ef til vill eiga óvinsældir Schäubles og Merkel í Grikklandi eftir að styrkja stöðu Tsipras, hvað sem evrunni líður.

Hinir áhrifamiklu ráðamenn Þýskalands töluðu líklega á annan veg ef þeir vissu að grískir kjósendur hefðu lítið dálæti á evrunni. Afstaða þeirra minnir nokkuð á afstöðu ráðamanna innan ESB gagnvart Íslendingum á tíma hinna misheppnuðu ESB-aðildarviðræðna.

Um tíma töldu Brusselmenn að meirihluti Íslendinga vildi aðild að ESB og höguðu áróðri sínum í samræmi við það. Síðar sannfærðust þeir um að meirihluti Íslendinga vildi ljúka ESB-viðræðunum og greiða þjóðaratkvæði um einhverja óljósa niðurstöðu. Þá töluðu Brusselmenn í takt við þá skoðun. Loks kom í ljós að meirihluti Íslendinga sagðist ekki vilja afturkalla ESB-aðildarumsóknina nema um það yrði greitt þjóðaratkvæði. Nú halda Brusselmenn lífi í þeirri einkennilegu skoðun.

Brusselmenn hika ekki við að hlutast til um stjórnmál í Grikklandi. Þetta hafa þeir einnig gert hér á landi, ekki síst á tíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Sendiherra ESB gagnvart Íslandi blandaði sér beint í kosningabaráttuna í apríl 2009 og komst upp með það átölulaust af utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni og ráðuneyti hans. Til skamms tíma og kannski enn líta Brusselmenn  á utanríkisráðuneyti Íslands sem bandamann sinn í ESB-málum og svo undrast menn að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra haldi að sér höndum í samskiptum við ESB.

 

 

 

Laugardagur 03. 01. 15 - 3.1.2015 19:40

Björn Valur Gíslason, varaformaður VG (vinstri-grænna), sagði á vefsíðu sinni á nýársdag: „Framsóknarflokkurinn hefur yfirtekið DV. Svo einfalt er það.“

Varaformaður VG kemst að þessari niðurstöðu af því að nýir eigendur DV hafa ráðið Kolbrúnu Bergþórsdóttur, blaðamann á Morgunblaðinu, og Eggert Skúlason, almannatengil, blaða- og fréttamann, sem ritstjóra blaðsins. Hörður Ægisson hefur verið ráðinn viðskiptaritstjóri DV. Hann kemur af Morgunblaðinu.

Að kvöldi nýársdags sagði í frétt á dv.is:

 „Ein­ar Kára­son, ein­hver dáðasti og virt­asti rit­höf­und­ur okk­ar Íslend­inga, er geng­inn til liðs við DV. Mun hann sjá um fast­an dálk á einni opnu í helgar­blaði DV á nýju ári og hef­ur frjáls efnis­tök.“

Þeir sem fylgst hafa með stjórnmálaskrifum Einars Kárasonar rithöfundar vita að hann hefur jafnan rétt Samfylkingunni hjálparhönd á ögurstundu þá stóð hann með Baugsmönnum á tíma Baugsmálsins.

Valur Grettisson hefur verið ráðinn blaðamaður á DV. Hann starfaði á 365 miðlum en vék þaðan í einni af sparnaðarrispunni. Fyrir sveitarstjórnarkosningarinnar vorið 2014 stjórnaði Valur kosningabaráttu Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Jóhann Hauksson, fyrrv. upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, er fréttastjóri. Hann sinnti ýmsum fjölmiðlaverkefnum fyrir Baugsmenn á tíma Baugsmálsins, var þá ekki allt sem sýndist.

Ingi Freyr Vilhjálmsson er ritstjórnarfulltrúi. Hann sendi í fyrra frá sér bók og rekur allar seinni tíma hörmungar Íslendinga til þess að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn mynduðu ríkisstjórn á árinu 1995  

Líklegri en kenning varaformanns VG um að DV muni þjóna Framsóknarflokknum er hin um að nú hafi verið stigið skref til að sameina miðla og brjóta upp fyrirtækið 365 miðla. Til verði fjarskiptafyrirtæki annars vegar og fjölmiðlafyrirtæki hins vegar: að DV, Fréttablaðið,vefsíðurnar Pressan/Eyjan og visir.is auk ljósvakamiðla 365 miðla renni saman í eitt fyrirtæki. Sameining ritstjórna og samhliða hagræðing er ekki fjarlægur ásetningur þeirra sem stjórna breytingum á DV á bakvið tjöldin.

Björn Valur Gíslason kveikir villuljós með tali sínu um framsóknarhollustu hins nýja DV. Hann þarf örugglega ekki að hafa pólitískar áhyggjur. Sá sem ætti að gæta sín er Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins. Þeir sem ráða ferðinni við smíði hins nýja fjölmiðlaveldis hafa áður haft hann sem peð í fjölmiðla-leikfléttu.

Föstudagur 02. 01. 15 - 2.1.2015 19:15

Landhelgisgæsla Íslands hefur í sex ár tekið tímabundið þátt í verkefnum á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópu. Hlutverk Frontex er að gæta ytri landamæra Schengen-svæðisins þar sem Ísland er meðal aðildarlanda og eiga íslensk stjórnvöld fulltrúa í stjórn Frontex. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Varsjá.

Landhelgisgæslan hefur sent gæsluvélina Sif og varðskip til þátttöku í verkefnum Frontex en þau hafa breyst í tímans rás eftir því hvernig tilraunum manna til að laumast inn á Schengen-svæðið hefur verið háttað. Um tíma var varðskip til dæmi við störf á milli Kanarí-eyja og Afríku.

Nú er varðskipið Týr við gæslustörf á Miðjarðarhafi og frá því að skipið lét úr höfn hér á landi hinn 20. nóvember sl. hefur það tekið þátt í fjórum aðgerðum þar sem um 2.000 manns hefur verið bjargað.

Um þessar mundir er Týr á leið til suður-ítalska hafnarbæjarins Corigliano með flutningaskipið Ezadeen í togi. Áhöfn skipsins yfirgaf það og skildi um 450 vegalaust fólk eftir um borð í því þar af 40 til 60 börn. Talið er að flestir séu Sýrlendingar á flótta frá borgarastríðinu í landi þeirra, fólk sem greitt hafi glæpamönnum fyrir að koma sér til Evrópu.

Þetta er nýjasta aðferðin sem glæpamenn nota við að smygla fólki: að safna því hundruðum saman um borð í skip á úreldingarstigi, sigla með það á haf út og skilja þar eftir bjargarlaust. Einhver um borð í Ezadeen kunni á talstöð og gat sent neyðarkall áður en skipið sigldi eða rak í strand – það varð vélarvana vegna olíuleysis eftir að Týr kom að því.

Týr og Landhelgisgæsla Íslands kemst í heimsfréttir vegna björgunar Ezadeen og mynd tekin úr varðskipinu af skipinu í togi birtist í fjölmiðlum um heim allan.

Það hefur hvílt gæfa yfir störfum varðskipsmannanna á Miðjarðarhafi en þeir takast þar á við verkefni sem er einkenni hinnar miklu neyðar sem skapast hefur í Mið-Austurlöndum og í Afríku vegna stríðsátaka. Ráðamenn innan Evrópusambandsins og Frontex-ríkjanna verða finna önnur úrræði en þau að halda úti vösku björgunarliði á Miðjarðarhafi til að skapa lífvænlegar aðstæður í heimabyggðum þess fólks sem leitar á náðir glæpamanna í von um skjól.

 

Fimmtudagur 01. 01. 15 - nýársdagur - 1.1.2015 15:30

Gleðilegt ár 2015!

Í áramótaávarpi sínu sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra:

„Enn eru í landinu höft á flutningi fjármagns. Stærsta hindrunin í afnámi hafta eru svokölluð slitabú hinna föllnu banka en þau hafa þegar starfað lengur en æskilegt getur talist. Framan af nutu slitabúin skattleysis þrátt fyrir að vera að flestu leyti rekin eins og fyrirtæki. En með skattlagningu búanna er það efnahagslega svigrúm sem er óhjákvæmilegur liður í afnámi hafta nú loks byrjað að myndast.

Það er nauðsynlegt að þessi fyrirtæki leggi sitt af mörkum til samfélagsins.

Víða erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum, hafa fjármálafyrirtæki, sem í flestum tilvikum var haldið gangandi með aðgangi að ríkiskassa landanna verið látin greiða himinháar sektir ofan á endurgreiðslu lána til að bæta samfélögunum það tjón sem hlotist hafði af framgöngu þeirra.“

Þetta er allt annar tónn í afstöðu til slitabúa bankanna en á valdatíma Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Víglundur Þorsteinsson hefur barist fyrir afhendingu skjala sem sýna að skömmu eftir að Steingrímur J. varð fjármálaráðherra á útmánuðum 2009 lögðust stjórnvöld flöt fyrir erlendum kröfuhöfum og bættu hlut þeirra umfram það sem ákveðið var í neyðarlögunum frá október 2008. Þetta gerðu Steingrímur J. og félagar í sama anda og einkenndi hina hörmulegu Icesave-samninga sem þjóðin hafnaði að lokum og síðan reyndust reistir á röngum lagaskilningi.

Um leið og farið var að óskum kröfuhafa og slitastjórnum veitt svigrúm sem jafna má við sjálftöku þeirra sem í þeim sitja prédikuðu stjórnarherrarnir að ekki væri unnt að aflétta höftunum nema með því að ganga í Evrópusambandið. Það var auðvitað blekking eins og allt annað sem ESB-aðildarsinnar hafa sagt til að fegra málstað sinn.

Margt illt gerði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í skjóli orðanna „en hér varð hrun“, undanslátturinn gagnvart erlendu kröfuhöfunum er þó líklega svartasti bletturinn. Einkennilegt er hve núverandi stjórnarsinnar hlífa Samfylkingunni og VG vegna þessa ömurlega þáttar í embættisverkum ráðherra þeirra. Takist ríkisstjórninni áformin sem forsætisráðherra boðaði í hinum tilvitnuðu orðum hér að ofan verður árið 2015 enn til rétta hlut þjóðarinnar fyrir tilstilli hennar.