Mánudagur 05. 01. 14
Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur dyggilega sagt frá öllu varðandi verkfall lækna, ekki síst hvers megi vænta vegna verkfallsaðgerðanna. Þetta eru þó ekki fréttir heldur spár, vafalaust kynntar til að knýja á um niðurstöðu. Í fréttum klukkan 08.00 í morgun var greint frá því að fundað hefði verið um lausn kjaradeilunnar til klukkan 03.00 eftir miðnætti og haldið yrði áfram síðdegis í dag. Ræddi fréttamaður við formann læknafélags og spurði með þeim orðum að nú væru „blikur á lofti“ þar sem samningur kynni að vera í sjónmáli.
Með góðum vilja mátti skilja orð fréttamannsins á þann veg að ætlunin væri að lýsa jákvæðri þróun í kjaradeilunni, orðavalið benti þó til algjörs þekkingarskorts. Þegar sagt er: „Mér líst ekki á blikuna“ þýðir það: Mér þykir ástandið ískyggilegt. Blika er ský eða skýjamóða. Þegar þetta er skrifað eftir 18.00-fréttir ríkisútvarpsins er ljóst að forystumenn viðræðunefnda ríkisins og lækna telja hægt hafa miðað í viðræðunum í dag. Kannski voru í raun blikur á lofti fyrir fundinn eða þær eru á honum?
George Papandreou, þáverandi forsætisráðherra Grikklands, sagði leiðtogum ESB-ríkjanna frá áformum um að láta grísku þjóðina greiða atkvæði um hvort hún sætti sig við skilyrði neyðarlánanna til Grikklands, Þau voru veitt til að bjarga bönkunum en hvíla nú eins og mara á Grikkjum. Papandreou var ýtt frá völdum. Valinn var maður handgenginn Brusselmönnum til að leiða ríkisstjórn Grikklands.
Stjórnarkreppuna á Grikklandi nú má rekja til þess að Brusselmenn vildu mann með „kunnuglegt andlit“ sem forseta Grikklands. Grískir þingmenn vildu hins vegar ekki slíkan mann og kusu frekar þingrof og kosningar. Baráttan vegna þeirra er ekki fyrr hafin en mestu valdamenn innan ESB, Angela Merkel og Wolfgang Schäuble, kanslari og fjármálaráðherra Þýskalands, gefa til kynna að Grikkir fari einfaldlega af evru-svæðinu vilji þeir breyta skilmálum neyðarlánanna. Eftir að þjarmað hefur verið í Grikkjum í nokkur ár til bjargar evrunni skal þeim vísað út á kaldan klaka segi þeir hingað og ekki lengra og krefjist síðan minnkunar byrða vegna bankanna.
Um árabil hafa forkólfar Samfylkingar og ESB-aðildar Íslands haldið því fram að til þess að losna við gjaldeyrishöft verði Íslendingar að leggja á sig harðræði fyrir evruna. Reynsla Grikkja er ekki einu sinni blika á lofti í augum þessa fólks.