Dagbók: janúar 2012

Þriðjudagur 31.01.12 - 31.1.2012

Nú er viðtal mitt  á ÍNN við Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóra HBGranda, komið á netið og má sjá það hér.

Ég skrifaði í dag pistil á Evrópuvaktina um hina furðulegu framgöngu Steingríms J. Sigfússonar gagnvart þingmönnum vegna ferðar hans til Brussel. Má lesa pistilinn hér.

Mér blöskraði í dag þegar Egill Helgason fullyrti ranglega á vefsíðu sinni að Evrópuvaktin nyti stuðnings frá Evrópusambandinu. Setti ég athugasemd á síðu Egils og leiðrétti hann rangfærslu sína; Evrópuvaktin fékk styrk frá alþingi. Það er einkennilegt hve ósannindin um uppruna styrksins til Evrópuvaktarinnar eru lífsseig. Þeim sem hallast að ESB-aðild þykir greinilega nokkru skipta að halda þessu að lesendum sínum á netinu.

Ég sé á síðu Egils að hann leggur sig fram um að rétta hlut Hallgríms vinar síns Helgasonar vegna umtals um framgöngu hans fyrir hrun þegar Hallgrímur gekk erinda Baugsmanna. Ekki er vinargreiði við Hallgrím að rifja þetta upp nema öll sagan sé sögð en Egill lætur undir höfuð leggjast að benda á hve langt Hallgrímur gekk við að rakka niður ákæruvaldið og grafa undan trausti til embættis ríkislögreglustjóra.  

Mánudagur 30. 01. 12 - 30.1.2012


Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina vegna þess hve ESB-aðildarsinnar kveinka sér mikið undan því sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði um ferðir til Brussel á þingi 24. janúar. Pistilinn má lesa hér.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag vegna fyrirspurna sem hann fékk frá hæstaréttarlögmann í Morgunblaðsgrein laugardaginn 28. janúar en þær snerust um lánasviptingar tengdar  Glitni og Vafningi. Þennan sama laugardag skrifaði Hallgrímur Helgason rithöfundur grein um Bjarna og þessar sömu fjármálasviptingar í DV.

Bjarni hefur oft svarað fyrir sig vegna þessa áburðar áður en augljóst er að andstæðingar hans og Sjálfstæðisflokksins trúa ekki orðum hans eða telja sér henta að gera það ekki.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hallgrímur Helgason fer inn í eigin blekkingarheim þegar sjálfstæðismenn eiga í hlut. Eftir bankahrunið skrifaði hann sig frá stuðningi við Baugsmenn á uppgangs- og útrásartíma þeirra og leitaðist við að játa villu síns vegar varðandi Baugsmiðlanna og Baugsmálið. Hið sama má segja um skjallbandalagsbræður hans Illuga Jökulsson og Egil Helgason sem báðir hömpuðu grein Hallgríms í DV.

Í viðtali við Smuguna, málgagn VG, segist Hallgrímur hafa skrifað greinina í DV eftir að meirihluti þingmanna ákvað að vísa tillögu Bjarna Benediktssonar um landsdómsmálið ekki frá heldur taka hana til efnislegrar umræðu. Rithöfundurinn kaus sem sagt frekar ritskoðun  á alþingi en efnislegar umræður og tók sér fyrir hendur að lesa ákæruskjal frá sérstökum saksóknara með allt öðrum gleraugum en hann las slík skjöl á tíma Baugsmálsins þegar hann átti varla nógu neyðarleg orð til að lýsa skömm sinni á ríkislögreglustjóra og mönnum hans fyrir ákæruna á hendur Baugsmönnum.

Framganga Hallgríms Helgasonar er aðeins vísir að því sem koma skal úr herbúðum hans og manna hans þegar nær dregur kosningum.  Með Jóhann Hauksson í stjórnarráðinu en ekki í laumuspili með Baugsmönnum á hinum ýmsu fjölmiðlum. Má sjá að gamla fótgönguliði Baugsmanna er stillt upp til nýrrar orrustu.


Sunnudagur 29. 01. 12 - 29.1.2012

Tvær greinar í erlendum blöðum vöktu athygli mína í dag. Annars vegar í The New York Times þar sem birt er forsíðufrétt um hvernig ráðgjafar Mitts Romneys tókst að snúa prófkjörsbaráttu hans við Newt Gingrich skjólstæðingi sínum í vil, hins vegar í Le Monde þar sem sagt er frá viðbrögðum meðal þingmanna og stjórnmálamanna við fréttum af því að Nicolas Sarkozy tapi í forsetakosningunum 22. apríl nk.

Í viðtalsþættinum Meet the Press í dag lýstu álitsgjafar undrun yfir því að ráðgjafar Romneys hefðu rætt við NYT um störf sín fyrir Romney á þann hátt sem þarna er gert og raunar látið eins og verk þeirra frekar en lýðhylli frambjóðandans sjálfs skipti engu. Í þættinum voru birtar tölur um hve miklu fé Romney og Gingrich hefðu notað til auglýsinga, ef ég man rétt eyddi Romney 15 milljónum dollara en Gingrich 4 milljónum. Álitsgjafarnir voru sammála um að þessi harða prófkjörsbarátta hefði farið út fyrir öll skynsamleg mörk og skaðaði repúblíkana.

Fréttin í NYT minnir á efni kvikmyndarinnar Ides of March sem George Clooney leikstýrir og segir frá hlutverki ráðgjafa forsetaframbjóðenda og hve sterkri stöðu þeir geta náð gagnvart frambjóðanda sínum.

Ef greinarnar í hinum erlendu blöðum eru staðfærðar hér lýsa þær helst ástandinu innan Samfylkingarinnar. Jóhanna Sigurðardóttir er í höndum ráðgjafa eða nefndar þar sem allir nefndarmenn velta fyrir sér hvað verði um þá þegar hún hættir, að hverjum þeir eigi að halla sér innan flokksins eða í stjórnkerfinu. Þessum mönnum tókst að afstýra því að flokkstjórnarfundi í gær að uppgjörið við Jóhönnu hæfist með boðun aukalandsfundar. Þeir létu hana þess í stað segja að hún kynni að gefa kost á sér að nýju sem formaður og nú yrði að herða baráttuna gegn íhaldinu!

Laugardagur 28. 01. 12 - 28.1.2012

Fór í ráðhúsið þar sem 100 ára afmæli ÍSÍ var haldið hátíðlegt með virðulegri athöfn. Vilhjálmur Einarsson varð fyrstur tilnefndur í heiðurshöll ÍSÍ. Ólafur Ragnar Grímsson hafði látið taka upp ávarp sitt og var það flutt af myndbandi, þar sagðist hann vera hinum megin á hnettinum, heyrði ég rétt. Ekkert er sagt um ferðalag hans á vefsíðu forsetaembættisins.

Jóhanna Sigurðardóttir flutti enn einn reiðilesturinn á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar. Að þessu sinni beindi hún spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum en ekki köttunum meðal VG eða sagðist tilbúin að leggja niður Samfylkinguna til að sameina ESB-aðildarsinna í nýjum flokki. Í tilefni af ræðu Jóhönnu skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina og má lesa hann hér.

Ég sé á netinu að DV ræðir við Steingrím J. Sigfússon sem heldur uppteknum sið og barmar sér undan ráðherraönnum og þakkar fjölskyldu sinni fyrir að sýna því skilning hvað hann geti lítið sinnt henni. Það er með ólíkindum að stjórnmálamaður sé alltaf að kveinka sér undan önnum við störf sín til að kalla fram samúð almennings. Það má ekki gleyma því að Steingrímur J. bauð sig fram til þessara starfa.

Jón Frímann öfgafyllsti ESB-aðildarsinninn í netheimum réttlætir 220 m. kr. stuðning stækkunardeildar ESB við kynningarstarf hér á landi með því að Morgunblaðið og Bændablaðið séu á móti aðild og andstæðingar aðildar hafi varið einum milljarði króna í „beinharðan áróður og blekkingar varðandi Evrópusambandið nú þegar“. Ekki er nóg með að Jón Frímann fari rangt með allar tölur heldur er hann illa máli farinn eins og þessi setning sýnir: „Enda eru andstæðingar Evrópusambandsins á Íslandi vel fjáðir á milli handana.“

Föstudagur 27. 01. 12 - 27.1.2012

Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina í tilefni af því að Jóhann Hauksson er orðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að berjast gegn frjálshyggjunni og koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda. Aldrei hefur upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar gengið til starfa með skýr flokkspólitísk markmið enda starfar Jóhann ekki lengur í forsætisráðuneytinu en Jóhanna situr þar. Margt bendir til þess að Jóhann sé einmitt ráðinn í því skyni að búa í haginn fyrir Samfylkinguna í komandi þingkosningum sem þeir sem standa í kringum Jóhönnu og ráða ferð hennar á síðustu metrum hennar í stjórnmálum telja að geti orðið hvenær sem er á næstunni.

Hallgrímur Helgason rithöfundur skellir sér í pólitísku laugina í DV  í dag með grein til að dylgja um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokkinn. Hallgrímur fer líklega í sama gírinn og á tíma Baugsmálsins þegar hann vann að framgangi mála í þágu Baugs og Samfylkingarinnar og barði á formanni Sjálfstæðisflokksins.

Þegar ég skrifaði pistil minn hafði Illugi Jökulsson hampað grein Hallgríms. Með þekkingu mína á gangi áróðurs á tíma Baugsmálsins íhugaði ég að spá því að Egill Helgason, umræðustjórnandi RÚV, mundi einnig benda lesendum vefsíðu sinnar á grein Hallgríms. Ég gerð það ekki, hins vegar kom ábendingin á síðu Egils eins og við mátti búast. Ferillinn innan þessa skjallbandalags andstæðinga Sjálfstæðisflokksins er öllum ljós sem fylgjast með stjórnmálum og fjölmiðlun.

Fimmtudagur 26. 01. 12 - 26.1.2012

Í hádeginu efndi Varðberg til fundar í ráðstefnusal Þjóðminjasafnsins þar sem Ellisif Tinna Víðisdóttir og Margrét Cela ræddu um öryggismál á norðurslóðum, hernaðarleg og borgaraleg og hvernig um svæðið er fjallað og þróunina þar á fræðilegum forsendum. Fundurinn var vel sóttur og heppnaður.

Frönsk kvikmyndavika hófst í Háskólabíói í kvöld með myndinni The Artist, frábærri kvikmynd sem fékk flest Golden Globe verðlaunin á dögunum og hefur fengið flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna. Allt er það verðskuldað. Það er djörf hugmynd að gera þögla svart hvíta mynd nú á dögum. Framtakið sannar aðeins hve góðar myndir má gera með þessari tækni og hve kröfuhörð myndavélin er.

Mynd Clints Eastwoods J. Edgar fær ólíka dóma í blöðunum í Morgunblaðinu fékk hún fjórar stjörnur en aðeins tvær í Fréttablaðinu. Ég er nær Morgunblaðinu þótt ég geti fallist á það með Fréttablaðinu að gerfin á söguhetjunum þegar árin færðust yfir þær voru illa gerð og Robert Kennedy og Richard Nixon hefðu mátt vera meira sannfærandi, sérstaklega Kennedy.

Miðvikudagur 25. 01. 12 - 25.1.2012

Í dag ræddi ég við Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóra HBGranda, á ÍNN. Við ræddum um tilraunir ríkisstjórnarinnar til að breyta kvótalögunum. Niðurstaðan varð sú að tækist henni ekki að knýja fram breytingu á þinginu í vor næði hún ekki þessu markmiði sínu. Saga þessa máls í meðförum stjórnarinnar er með miklum ólíkindum en sjón er sögu ríkari, þátturinn verður sýndur næst kl. 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Ég sé á mbl.is að Steingrímur J. Sigfússon er kominn til Brussel innan við fjórum vikum eftir að hann tekur við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og er tekinn til við að brosa á myndum með Stefan Füle stækkunarstjóra. Það lofar ekki góðu að Steingrímur J. leiti sátta við ESB og lýsi ánægju yfir viðtökunum. Reynslan af samningum á hans ábyrgð er á þann veg að honum er ekki unnt að treysta til að standa vörð um íslenska hagsmuni.

Jón Bjarnason fékk aldrei að fara til Brussel sem ráðherra. Hann þótti ekki nógu diplómatískur fyrir ESB. Nú er annað uppi á teningnum, ríkisstjórnin hefur eignast ráðherra sem hún treystir til að ræða sjávarútvegs- og landbúnaðarmál við ESB án þess að móðga Füle og félaga.

Þriðjudagur 24. 01. 12 - 24.1.2012

Í dag ræddu þingmenn umdeilt mál vegna ESB-aðildarumsóknarinnar, IPA-styrkina. Þeir eru veittir til að kosta aðlögun að ESB. Ríkisstjórnin hefur heitið því að ekki komi til neinnar aðlögunar nema já verði sagt í þjóðaratkvæðagreiðslu um skjal sem liggi fyrir að loknum viðræðum. Ég skrifaði um málið á Evrópuvaktina í morgun eins og lesa má hér.

Því miður hafa fréttir af umræðunum verið svo óljósar í dag að ógjörningur er að átta sig á því hvað fram kom. Áhugi fréttastofu RÚV á málinu í fréttum klukkan 18.00 var of takmarkaður til að þar yrði nokkru ljósi brugðið á málflutninginn. Í fréttatímanum var hins vegar lesið úr smáauglýsingum í Bændablaðinu. Var það skrýtið fréttamat svo að ekki sé meira sagt.

„Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir styrkjum upp á 596 milljónir króna frá Evrópusambandinu fyrir afmörkuð verkefni. Gerð er krafa um að IPA-aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem henni er ætlað að styðja en verkefni vegna styrkjanna eru boðin út á EES-svæðinu. Alþingi þarf hins vegar að samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um rammasamning milli ríkisstjórnarinnar og framkvæmdastjórnar ESB ef afgreiða á styrkina.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, spurði utanríkisráðherra í dag hvað yrði um þá styrki sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ef svo færi að þingið felldi tillögu vegna þeirra.

„Ef þessi rammasamningur yrði felldur, við héldum að sjálfsögðu áfram með umsóknina, þá þyrfti að leggja til fé til að standa straum af ákveðnum breytingum eins og háttvirtur þingmaður veit. Við undirbúning nýrrar tollskrár, hugsanlega skattkerfishugbúnaði. Þá er það rétt hjá háttvirtum þingmanni að það myndi lenda á íslenskum skattgreiðendum," sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á Alþingi. thorbjorn@stod2.is


Mánudagur 23. 01. 12 - 23.1.2012

Myndin Edgar sem Clint Eastwood leikstýrir og framleiðir bætir enn einu meistaraverkinu í safn hans. Leonardo DiCaprio á stórleik í myndinni og raunar allir sem bera hana uppi.

Edgar J. Hoover varð goðsögn í lifanda lífi sem forstjóri FBI, bandarísku alríkislögreglunnar. Um þessa mynd má segja hið sama og um Thatcher-myndina að sjónarhornið er annað en þegar litið er á persónurnar utan frá. Eastwood leggur áherslu á að leita skýringar á manneskjunni á bakvið goðsögnina.

Í vikulokin var allt í uppnámi innan stjórnarflokkanna og menn höfðu í heitingum hver við annan innan þingflokkanna. Þessir sömu þingflokkar héldu fundi í dag og þá er lögð áhersla á gagnvart fjölmiðlamönnum að deilumálin frá því fyrir helgi séu ekki á dagskrá.

Þeir sem utan standa eru í sporum Chaplins gagnvart stóra, ríka, fulla kallinum sem sýndi honum vinarhót þegar hann datt í það en sparkaði honum á dyr og vildi ekkert hafa með hann að gera þegar rann af honum. Samúðin var auðvitað öll með Chaplin því að enginn þolir til lengdar að vera leiksoppur slíkra duttlunga. Það er makalaust hve fréttamenn RÚV láta lengi hafa sig í að spila með ríkisstjórn sem veit hvorki í þennan heim né annan og leggur sig fram um það eitt að fela eigin vandræðagang.

Sunnudagur 22. 01. 12 - 22.1.2012

Í dag var aðalfundur Wagner-félagsins haldinn í Norræna húsinu. Selma Guðmundsdóttir var endurkjörin formaður. Sveinn Einarsson fræddi okkur um Wagner-söngvara frá Norðurlöndunum og kynnti okkur dæmi um list þeirra.

Wagner-félögin um heim allan hafa notið forgangs við sölu miða á hina árlegu sumarhátið í Bayreuth. Um áramótin var tilkynnt að þessi sérréttindi væru úr sögunni. Í mínum huga er furðulegt að tekin sé sú áhætta að höggva á tenglsin við helstu bakhjarla hátíðarinnar.

Í dag skrifaði ég á Evrópuvaktina um það ábyrgðarleysi Ólafs Ragnars að segja ekki hvort marka megi orð hans í nýársávarpinu eða ekki.

Laugardagur 21. 01. 12 - 21.1.2012

Alþingi er ákærandi í landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde. Ákærendur þurfa á öllum stigum máls að skoða hug sinn og leggja mat á stöðuna. Í landsdómsmálinu hefur tveimur meginatriðum ákærunnar verið vísað frá dómi. Þá er eðlilegt að ákærandinn athugi á skipulegan hátt hvort halda beri fast í ákæruna.

Slík athugun fer nú fram á alþingi. Fráleitt hefði verið að vísa málinu frá óathuguðu eins og Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, og fleiri vildu enda felldi meirihluti þingmanna tillögu um það. Málið er ekki komið í dóm og því er engin röskun á störfum dómstólsins að þingið taki til skoðunar hvort láta eigi eins og ekkert hafi í skorist þótt ákæran sé gjörbreytt eftir frávísunina.

Í raun er óskiljanlegt að þingmenn skuli leggjast gegn jafnsjálfsögðum hlut og þeim að þeir átti sig á nýjum aðstæðum í máli sem þeir hrundu af stað. Ráði fordómar afstöðu meirihlutans í þingnefndinni sem fær málið til skoðunar fellur hann á þessu prófi.

Föstudagur 20. 01.12 - 20.1.2012

Almennt segi ég ekki frá jarðarförum hér á síðunni. Ég geri undantekningu í dag. Klukkan 15.00 fór ég í jarðarför Jóhannesar Ó. Halldórssonar í Fossvogskapellu. Athöfnin var látlaus og virðuleg í anda hins látna sem ég kynntist fyrir 40 árum þegar ég vann á Almenna bókafélaginu og hann sinnti lestri prófarka fyrir félagið fyrir utan að vera höfundum einstakur leiðbeinandi ef svo bar undir. Þá þekkti ég hann einnig vegna starfa hans á alþingi þar sem hann meðal annars annaðist frágang og útgáfu þingtíðinda. Séra Hjálmar Jónsson jarðsöng og hitti naglann á höfuðið þegar hann vakti máls á því að í návist Jóhannesar gætti maður þess að sýna meiri virðingu og kurteisi en í návist fólks almennt. Það var líka rétt hjá séra Hjálmari að vekja athygli okkar á því að Jóhannes hefði ekki fellt sig við að prentvilla væri á forsíðu útfararskrárinnar þar sem stóð O í stað Ó fyrir millinafn hans.

Greidd voru atkvæði í kvöld á alþingi um hvort visa ætti tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun á ákæru á hendur Geir H. Haarde frá. Tillagan var felld með 31 atkvæði gegn 29. Þetta þýðir að tillaga Bjarna verður skoðuð í þingnefnd. Að lokinni atkvæðagreiðslunni ræddi tíðindamaður Smugunnar, vefrits VG, við Jóhönnu Sigurðardóttur:

„Spurð um eigin mat á áhrifin á stjórnarsamstarfið sagði Jóhanna: „Ég hef ekki hugmynd um það. Ég vona ekki. Það eru mörg verk sem eru óunnin hér sem þarf að klára, þannig að ég vona ekki.“

Jóhanna segist hafa vonast til þess að niðurstaða Alþingis yrði önnur. „Ég taldi að málið væri úr höndum Alþingis og ætti að fá sína lúkningu fyrir dómstólum. En nú er málið áfram í ferli þingsins og við það situr.““

Þessi orð forsætisráðherra einkennast ekki af miklu öryggi um framtíð stjórnarsamstarfsins. Tveir ráðherrar af átta í ríkisstjórninni og forseti alþingis greiddu atkvæði gegn skoðun forsætisráðherrans í þessu máli. Jóhanna hefur hins vegar enga burði til að beita þessa ráðamenn í stjórnarsamstarfinu pólitískum aga.

Það er ekki að ástæðulausu að mikill titringur hefur verið vegna  málsins í þinginu. Samfylking, vinstri-græn og Framsóknarflokkur klofna í málinu. Hvorki Jóhanna né Steingrímur J. Sigfússon hafa stjórn á þingflokkum sínum, klofningur magnast innan þingflokks vinstri-grænna og Björn Valur Gíslason þingflokksformaður sem spáði samþykkt frávísunartillögunnar reynist marklaus enda ræður hann yfir litlu öðru en stórum orðum.

Fimmtudagur 19. 01. 12 - 19.1.2012

Ég átti ekki von á uppsetningu á Kirsjuberjagarðinum eins og hún er í Borgarleikhúsinu. Hún gengur upp.

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er tekinn til við að blogga að nýju. Hann skrifar í dag um ástandið innan vinstri-grænna og segir meðal annars:

„Sumir þingmenn [les: Árni Þór Sigurðsson] virðast hafa tekið sér einkarétt á orðbragði eins og „sótraftar“  um félaga sína sem gera málefnalega og áreitislaust grein fyrir skoðunum sínum.

Kallað er eftir afsögn ráðherra og þingmanna og talað er um svik.

Fyrir suma kann þessi málflutningur og  vera nauðsynlegur til að draga athyglina frá  eigin svikum  eins og t.d. í ESB málunum.

Aðrir kunna að vera  í vörn fyrir forystumenn Samfylkingarinnar sem sátu í hrunstjórninni og dönsuðu þar með Sjálfstæðisflokknum,  en horfa nú gleiðbrosandi á.

Fyrir mér er þetta því miður of kunnuglegt  orðbragð.

Þetta er hluti af aðför til losa sig við öfluga félaga  úr trúnaðarstörfum eða ýta þeim úr flokknum.

Þessari aðför er beint gegn þeim sem standa í stafni á skútu þeirra hugsjóna sem, Vinstrihreyfingin  grænt framboð var stofnuð um.

Með þessum hætti  var aðförin að þingmönnunum Atla Gíslasyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Lilju Mósesdóttur.

Og nú skal láta sverfa til stáls gagnvart Ögmundi Jónassyni og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur.

Er nema von að félögum í VG  um allt land blöskri.“

Þetta birtist sama dag og Steingrímur J. Sigfússon lætur í viðtali við Bændablaðið að sér gangi vel að halda vinstri-grænum saman og hreykir sér jafnframt af því að vera áhrifameiri sem ráðherra en Jón Bjarnason.




Miðvikudagur 18. 01. 12 - 18.1.2012

Í Spegli RÚV er lagt út af skýrslu Norðmanna um EES á þann veg að samstarfið sé kostur sem enginn vilji en þeir sitji uppi með hann. Hvernig unnt er að komast að þessari niðurstöðu af lestri skýrslunnar er næsta óskiljanlegt. Þar er bent á að meðal norskra stjórnmálamanna sé víðtæk sátt um að haga samstarfinu við ESB á þennan hátt og huga ekki að áformum um aðild að ESB.

Það ber vott um að almennt geri menn ráð fyrir brottför Ólafs Ragnars frá Bessastöðum að enginn gerir opinberlega athugasemd við þá sérkennilegu ákvörðun hans að taka ekki þátt í hátíðarkvöldverðinum vegna 40 ára krýningarafmælis Margrétar Danadrottningar. Ef til vill hefur sama viðhorf ríkt meðal gestgjafanna í Danmörku, forseti Íslands væri á förum fyrir fullt og allt og teldi sig því ekki þurfa að sinna opinberum skyldum gagnvart norrænum þjóðhöfðingjum af sömu alúð og ella væri. Danska konungsfjölskyldan er auk þess vön því að Ólafur Ragnar láti hátíðir á hennar vegum sér í léttu rúmi liggja. Hann tók ekki þátt í konunglegu brúðkaupi í maí 2004 af því að hann vildi verða til taks á Bessastöðum í þágu Baugsmanna vegna fjölmiðlamálsins.

Karl Th. Birgisson tilkynnti afsögn sína sem ritstjóri vefsíðunnar Eyjunnar í dag. Síðan er rekin af félagi undir forystu Björns Inga Hrafnssonar. Undir ritstjórn Karls Th. hefur síðunni hrakað. Efnistökin hafa tekið mið af hagsmunum Samfylkingarinnar og ESB-aðildarsinna. Hvorugt á mikinn eða vaxandi hljómgrunn. Þá hefur uppfærsla nýs efnis á síðuna orið slappari eftir því sem nær dró að því að Karl Th. hætti. Egill Helgason, umræðustjóri RÚV, er helsta skrautfjöður Eyjunnar. Stefna hans hefur fallið að ritstjórnarmarkmiðum Karls Th.


Þriðjudagur 17. 01. 12 - 17.1.2012

Eftir því sem umræður verða meiri um tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun á landsdómsákærunni þeim skýrar birtist pólitískt eðli ákærunnar á alþingi. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifar grein í Morgunblaðið í dag og segist ætla að styðja tillögu Bjarna þótt hann hafi greitt atkvæði með ákærunni á sínum tíma. Vegna greinarinnar taka flokksfélög VG og Samfylkingarinnar við sér og álykta um að fella beri tillögu Bjarna. Málið tekur á sig hreina flokkspólitíska mynd.

Steingrímur J. Sigfússon vildi ekki segja neitt um afstöðu Ögmundar við fréttamenn í dag, sagðist ætla ræða málið í þingflokknum á morgun. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, líkir Ögmundi  við „sótraft“. Eftir að Steingrímur J. hafði greitt atkvæði með ákæru á hendur Geir H. Haarde sagðist hann hafa gert það með „sorg í hjarta“. Hann virðist ekki ætla að gera upp við sorgina núna heldur segist hann ekki hafa gert annað en fara að vilja meirihluta nefndarinnar sem vildi ákæra Geir.

Á dögunum skrifaði Róbert Spanó lagaprófessor grein í Fréttblaðið og taldi alþingi heimilt að afturkalla ákæruna. Í dag skrifar Stefán Már Stefánsson lagaprófessor grein í Morgunblaðið og telur ákæru alþingis haldna þeim ágöllum að hún sé í raun óboðleg frá lögfræðilegum sjónarhóli.

Mánudagur 16. 01. 12 - 16.1.2012

Í Morgunblaðinu er sagt frá því í dag að Ólafur Ragnar Grímsson hefði yfirgefið 40 ára krýningarafmæli Danadrottningar í gær fyrir hápunkt þess til að fara til Abu Dabai og sitja þar nefndarfund. Undrun vekur að ekki skuli fundið að þessari framgöngu á opinberum vettvangi. Ber það aðeins vott doðanum sem lagst hefur yfir þjóðfélagið.

Fréttirnar um iðnaðarsaltið eru gallaðar að því leyti að ekki er gerð grein fyrir hinum raunverulega mun á því og matvælasalti. Framleiðandinn hefur sent frá sér yfirlýsingu um að munurinn sé í raun á þann veg að hann skipti litlu fyrir þann sem neytir vöru sem unnin er úr saltinu. Hefðu fréttamenn nálgast málið frá þeim sjónarhóli að skilgreina muninn hefði kannski ekki verið unnt að blása svona miklu lífi í málið.

Ég skrifaði í dag dálítinn pistil á Evrópuvaktina um kóka kóla frá Spáni en ekki Vífilfelli. Það var keypt til landsins af því að það var ódýrara frá Spáni. En var það selt á lægra verði komið til landsins? Ég velti fyrir mér í þessu samhengi hvort innflutningur á ódýrum landbúnaðarvörum leiði til þess að neytendaverð hér á landi lækki. Að svo verði er einn helsti áróðurspunktur ýmissa ESB-aðildarsinna. Skyldi hann standast frekar en annað í áróðri þessa fólks. Vondandi fáum við aldrei að reyna það.

Norska ríkisstjórnin birtir á morgun mikla skýrslu um EES-samstarfið. Það verður fróðlegt að rýna í hana. Hún breytir ekki neinu um fortíðina en spurning er hvaða áhrif hún hefur á framtíðina því að Norðmenn eiga í viðræðum við ESB um þróun EES-samningsins. Um nokkurra ára skeið hefur utanríkisráðuneyti Íslands verið með öllu áhugalaust um EES en lagt megináherslu á viðræður um aðild að ESB.

Sunnudagur 15. 01. 12 - 15.1.2012

Seinni dagur 40 ára krýningarafmælis Margrétar II. Danadrottningar. Danska sjónvarpið sýnir frá hátíðarhöldunum og athygli vakti að Ólafur Ragnar Grímsson tók ekki þátt í kvöldverðinum í Kristjánsborgarhöll, hápunkti afmælisins þar sem Henrik prins flutti ræðu konu sinni til heiðurs og bauð gesti velkomna. Kynnar danska sjónvarpsins höfðu stór orð um dýrgripina sem Silvía Svíadrottning bar. Dorrit forsetafrú var einamana þegar hún gekk í höllina og vegna fjarveru Ólafs Ragnars átti Ísland ekki fulltrúa þegar þjóðhöfðingjar Norðurlanda gengu í veislusalinn sem sagður er hinn glæsilegasti í Danmörku. Á vefsíðu forsetaembættisins kemur ekki fram hvað kallaði Ólaf Ragnar heim frá Kaupmannahöfn.

Fyrir nokkrum árum hitti ég sænskan vin minn og vakti hann máls á því við mig að hann ætti ekkert erindi við fréttir í sænska sjónvarpinu af því að þær hefðu breyst í neytenda- og umhverfisvettvang. Margt bendir til að hið sama sé að gerast hér. RÚV sinnir hvoru tveggja af mikilli alúð og þegar sameina má neytenda- og umhverfismál eru fréttir um sama efni dag eftir dag. Að lokum er niðurstaðan jafnan að einhver eftirlitsaðili hafi brugðist. Því er markvisst haldið að okkur að hið opinbera eigi að hafa eftirlit með stóru og smáu.


Laugardagur 14. 01. 12 - 14.1.2012

Viðtalsþáttur minn með Brynjari Níelssyni hrl. á ÍNN er kominn á netið og má sjá hann hér.

Að sitja í Fljótshlíðinni og fylgjast með Margréti Danadrottningu og Henrik prins ganga um í anddyri tónlistarhallarinnar í Kaupmannahöfn og heilsa gestum sem þar koma saman til að fagna 40 ára krýningarafmæli drottningarinnar er næsta óraunverulegt en þó staðreynd. Ólafur Ragnar og Dorrit birtust á skjánum þegar þau komu til hátíðarinnar. Allt var það með pomp og pragt. Til að kynna gestina hafa þulir danska sjónvarpsins kjólameistara og sérfræðing í hirðsiðum sér við hlið. Eivör frá Færeyjum var ein þeirra sem söng.

Líklegt er að þessi sjónvarpsdagsskrá verði ein hin vinsælasta í Danmörku í ár enda er þar mikil hrifning á drottningunni og fjölskyldu hennar. Litið er á andstæðinga konungdæmisins sem sérvitringa ef ekki dóna að minnsta kosti ef þeir eiga sæti á þingi eða eru í hópi álitsgjafa,

Klakinn sem olli okkur hræðslu í gær var horfinn í morgun enda rigndi mikið í nótt. Svo vel er frá öllu gengið varðandi halla og leiðir fyrir vatn hér hjá okkur að ekki flæðir neins staðar í slíkri asahláku. Við höfum í raun meiri áhyggjur af roki en vatni því að hér hefur fokið, meira að segja gamalt útihús um árið.

Einkennilegt er að ekki hafi fundist heitt vatn í Fljótshlíðinni með eldfjöll í næsta nágrenni og eitt mesta háhitasvæði landsins.


Föstudagur 13. 01. 12 - 13.1.2012

Sagt er að föstudagur 13. sé óheilladagur. Ég hef ekki reynt það. Vinir evrunnar reyndu það hins vegar í dag þegar Standard & Poor's lækkaði lánshæfiseinkunn Frakklands og nokkurra annarra evru-ríkja. S&P telur að leiðtogum evru-ríkjanna hafi mistekist við björgunartilraunir sínar.

Eftir fund ESB-leiðtoganna 8. og 9. desember sagði Össur Skarphéðinsson að þáttaskil hefðu orðið í sögu evrunnar, henni væri borgið. S&P er ekki sammála honum. Enn einu sinni reynast leiðtogar Samfylkingarinnar meta stöðuna gagnvart ESB rangt. Óskhyggja ræður afstöðu þeirra en ekki raunsætt mat.

Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina um illa ígrundaða grein Kristjáns Vigfússonar, kennara við Háskólann Í Reykjavík, um ESB-aðildarviðræðurnar.  Hún einkennist af sama blekkingarleik og Árni Páll Árnason og Össur hafa stundað varðandi tímasetningar og efnisþætti ESB-málsins.

Fimmtudagur 12. 01. 12 - 12.1.2012

Í kvöld gafst mér færi á að sjá í Laugarásbíói forsýningu á The Iron Lady kvikmyndinni um Margaret Thatcher sem Meryl Streep leikur á þann hátt að hún hlýtur að fá Óskars-verðlaunin.

Myndin er í flokki með myndunum The Queen og The King's Speech sem slegið hafa í gegn og hlotið fjölda verðlauna. Það kemur vel fram í myndinni hve miklum þáttaskilum Thatcher olli innan Íhaldsflokksins, í Bretlandi og raunar heiminum öllum. Í sögunni er áréttað hvílík bylting varð með því að kona komst til æðstu metorða og rauf klúbb- og málamiðlunarandrúm karlanna sem skapaði Bretum sífellt meiri vandræði. Fyrir rúmum 22 árum sá Thatcher einnig hve óskynsamlegt væri fyrir Breta að tengjast evrópska myntbandalaginu.

Atriðin um hina öldruðu Thatcher sem lifir í eigin heimi eiga fullan rétt á sér en taka of mikinn tíma frá öðru efni og hve Meryl Streep tekst einstaklega vel að sýna hina einörðu og hugsjónaríku Thatcher.

Frakkar hafa gert heimildarmynd um hina ótrúlega atburðarás þegar þingmenn Íhaldsflokksins ákváðu að ýta Thtacher til hliðar. Þar gegndi Sir Geoffrey Howe lykilhlutverki en hann sagði af sér sem ráðherra þegar honum þótti Thatcher sýna sér óbærilegt ofríki. Flutti hann sögulega afsagnarræðu í neðri deild breska þingsins sem varð kveikjan að ferli sem um eina helgi leiddi til falls Thatcher en hún tók þá þátt í hátíðarhöldum í París til að fagna lyktum kalda stríðsins.

Boris Johnson, borgarstjóri í London, sem hefur skrifað lofsamlega umsögn um myndina segir að í henni sé Thatcher sýnd of grimm við Howe, hún hafi ekki lítillækkað hann á þann veg sem sýnt sé í myndinni. Hann nefnir einnig fleiri atvik úr myndinni þar sem höfundur handritsins tekur sér skáldaleyfi án þess að hnikað sé við staðreyndum.

Thatcher vekur enn sterkar tilfinningar og nú er deilt opinberlega um  hvort útför hennar eigi að verða State Funeral eða á lægri nótum. Deilur um það í blöðum eru dapurlegri en hvort við hæfi sé að sýna hana sem gamla konu með heilabilun í myndinni.

Miðvikudagur 11. 01. 12 - 11.1.2012

Í dag ræddi ég við Brynjar Níelsson, hrl. og formann Lögmannafélags Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um störf sérstaks saksóknara, boðskap Evu Joly og leka til Kastljóssins á gögnum sem Brynjar telur aðeins geta komið frá fjármálaeftirlitinu eða sérstökum saksóknara.

Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, sat fyrir svörum hjá Sigmari Guðmundssyni í Kastljósi í kvöld. Enn hlýtur maður að spyrja til hvers Jón Gnarr hafi boðið sig fram, greinilega var það ekki til að standa öðrum til þjónustu eða til þess að leggja sig fram um lausn mála með hagsmuni umbjóðenda sinna í huga. Afsakanir hans fyrir aðgerðaleysi í hinu háa embætti eru jafn innantómar og annað sem hann hefur til málanna að leggja. Afrek hans eru lokun Austurstrætis fyrir bílaumferð og breyting á neðsta hluta Laugavegar og Skólavörðustígs í göngugötu að sumarlagi. Þá þótti honum jólaskreytingar í miðborginni skemmtilegar.


Þriðjudagur 10. 01. 12 - 10.1.2012

Í morgun klukkan 08.00 fór ég á fund Alþýðusambands Íslands í hótel Nordica um þar sem rætt var um íslensku krónuna og hvort hún væri bölvun eða blessun. Ég skrifaði pistil um fundinn á Evrópuvaktina og má lesa hann hér. Þá birti ég frétt um erindi Arnórs Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóra eins og sjá má hér. Loks skrifaði ég stutta hugleiðingu um frásögn Guðmundar Gunnarssonar af fundinum eins og sjá má hér.

Ég starfaði í forsætisráðuneytinu þegar Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra sat við eldhúsborðið heima hjá sér og skrifaði Ólafslögin svonefndum um verðtrygginguna. Að nokkrum sem að því máli kom dytti í hug að með lögunum væri lagður grunnur að helstu röksemdum hluta ESB-aðildarsinna fyrir því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru er fráleitt. Með lögunum kom nýtt hagstjórnartæki til sögunnar í baráttu við verðbólguna.

Á fundinum í morgun var lögð áhersla á að styrkur krónunnar réðist af hagstjórninni. Arnór sagði að agi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefið reynst vel og þess vegna mundi Íslendingum vegna vel í aga evrusamstarfsins. Hagstjórnartæki hans felast með öðrum orðum

Mánudagur 09. 01. 12 - 9.1.2012

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur enn birt hættumat sem endurspeglar sömu þróun og áður að alþjóðvæðingin hefur rutt sér rúm í heimi afbrotamanna eins og annars staðar. Það er mikil óskhyggja að ímynda sér að Ísland verði „stikkfrí“ í þessu efni frekar en öðrum. Þegar greiningardeild lögreglunnar var komið á fót létu ýmsir eins og fé væri sóað og kröftum lögreglumanna beint inn á rangar brautir. Fyrsta hættumatið var birt á árinu 2008.

Fróðlegt væri að sjá úttekt á því hvort þróun löggæslu hafi verið í takt við breytingarnar sem lýst er í hættumatinu. Eitt er víst að kvikmyndahandrit taka mið af því eins sést í hinni nýju kvikmynd Borgríki. Ekki þarf annað en horfa á hana til að átta sig á því hvert stefnir í íslenskum undirheimum.

Hvað skyldu menn segja ef lögregla brygðist við því sem á hennar verksviði er á sama hátt og Jón Gnarr borgarstjóri þegar rætt er  við hann um aðgerðir til að tryggja öryggi borgaranna vegna hálku og óveðurs? Önnur eins uppgjöf og borgarstjóri sýndi er sem betur fer næsta óþekkt hjá þeim sem taka að sér að sinna trúnaðarstörfum fyrir almenning.

Sunnudagur 08. 01. 12 - 8.1.2012

Jón Lorange heldur áfram að birta kafla úr samtali okkar á þætti hans á Útvarpi Sögu eins og sjá má hér.

Mér finnst einkennilegt að sjá því haldið fram að ágreiningur um aðild Íslands að Evrópusambandinu snúist um hvort menn séu sammála um nauðsyn þess að Evrópuríki starfi saman. Deilan er ekki um það heldur hitt hvaða leið er skynsamlegust fyrir okkur Íslendinga til að stuðla að stöðugleika og jafnvægi í álfunni. Ég tel að það verði best gert með aðild að evrópska efnahagssvæðinu enda er samningurinn um það hluti af samstarfsneti í anda Evrópuhugsjónarinnar.

Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina þar sem vikið er að aðskilnaðarhreyfingum innan einstakra ESB-ríkja, þessar hreyfingar eiga margar fulltrúa á ESB-þinginu.

Laugardagur 07. 01. 12 - 7.1.2012

Jón Baldur Lorange sem ræddi við mig á Útvarpi Sögu fimmtudaginn 5. janúar hefur sett inn útdrátt úr hluta viðtalsins inn á vefsíðu sína eins og sjá má hér.

Páll Óskar Hjálmtýsson segir í samtali við Stöð 2 í kvöld að NASA eða salur gamla Sjálfstæðishússins í Reykjavík verði ekki rifinn án þess að hann fórni sér með honum. Hann hafi haldið að listafólk stæði að Besta flokknum sem nú stjórnar í Reykjavík með stuðningi Samfylkingarinnar. Talsmenn þess að salurinn verði varðveittur sem „félagsheimili“ Reykvíkinga hafi rætt við forráðamenn borgarinnar en talað fyrir daufum eyrum.

Eftir deilurnar um framtíð þessa salar er einkennilegt að enn skuli ekki hafa fundist friðsamleg lausn um hana. Það minnir orðið á einskonar þráhyggju að vilja rífa hann. Hvað veldur henni?

Þegar ég bauð mig fram til borgarstjórnar árið 2002, fyrir 10 árum, voru helstu deilumálin framtíð Reykjavíkurflugvallar og Sundabraut fyrir utan varnaðarorð okkar sjálfstæðismanna um skuldasöfnun borgarinnar og Orkuveitu Reykjavíkur. Enginn talar lengur um flugvöllinn eða Sundabraut eins og vænta mátti strax fyrir 10 árum og Reykvíkingar og fleiri súpa seyðið af skuldasöfnuninni. Ég man eftir ramakveininu sem upp var rekið þegar ég líkti fjármálastjórninni við Enron-hneykslið. Skyldi það hafa verið svo fjarri sanni?

Föstudagur 06. 01. 12 - 6.1.2012

Hér á landi býsnast menn stundum yfir því að vísað sé til Jóns Sigurðssonar forseta í samtímaumræðum og því velt fyrir sér hvernig sjónarmið hann falla að pólitískum viðhorfum líðandi stundar. Má jafnvel draga þá ályktun að það sé til marks um heimótta að vitna í Íslandssöguna máli sínu eða málstað til stuðnings. Þeir sem þannig hugsa afhjúpa helst eigin afdalahátt. Það yrði að minnsta kosti gert grín að þeim ef þeir áttuðu sig ekki á gildi heilagrar Jóhönnu af Örk fyrir Frakka. Í dag er 600 ára afmælisdagur hennar eins og lesa má hér.

Innan ESB mæla menn fyrir um friðun sela og hvala auk ýmissa fulga sem lifa á norðurslóðum þótt þeir leyfi að rjúpa sé skotin af því að hún finnst í ESB-löndum. Það er hluti aðlögunar Íslendinga að ESB-aðild að banna veiði þeirra fugla sem nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins vill nú að séu friðaðir. Það er hins vegar í anda blekkingarleiksins sem stundaður er í stjórnarráðinu vegna aðildarumsóknarinnar að embættismenn láta eins og friðunin hafi ekkert með ESB-aðildina að gera. Eitt er víst: friðunin mælist betu fyrir í Brussel en meðal þeirra sem nota brjóstvitið til að meta hvað fuglunum fyrir bestu.

Grábroslegt er að fylgjast með samskiptum fréttastofu RÚV og Ólafs Ragnars Grímssonar eftir að hann lýsti yfir því á nýársdag að hugur hans stæði ekki til forsetaframboðs í sumar. RÚV kaus að túlka þetta á þann veg að vafi ríkti um hvað í orðum Ólafs Ragnars fælist. Hann kýs hins vegar að draga fréttastofuna á asnaeyrunum, með því tryggir hann athygli og umtal. Hvað skyldu fréttamennirnir láta draga sig langt? Þeim má ekki takast að draga embættið ofan í svaðið.

Fimmtudagur 05. 01. 12 - 5.1.2012

Í dag fór ég á Útvarp Sögu í þátt hjá Jóni Lorange um ESB-málefni.

ESB-RÚV tók sér fyrir hendur í dag að gefa álit sitt á gangi viðræðna við ESB á árinu 2011 og hringdi að fenginni ábendingu í utanríkisráðuneytið til að spyrjast fyrir um kostnað við viðræðurnar. Að sögn RÚV nemur  bókfærður kostnaður í utanríkisráðuneytinu 101,6 milljónum króna. Samkvæmt fjárlögum hafi 150 milljónum króna verið varið til  ESB-viðræðna allt síðasta ár. Þessu var gefin einkunn í fréttatíma RÚV og sagt: „Fullyrðingar þess efnis að kostnaðurinn hlaupi á milljörðum virðast því ekki standast skoðun.“ Fréttastofan lét þess ekki getið hverjum hún var að svara í þessum leiðara sínum. Hver hafði spáð því að milljörðum yrði varið til ESB-viðræðnanna á árinu 2011?

Í frétt ESB-RÚV kom fram að það hefði ekki „bara fallið til beinn kostnaður“. Síðan er rakið hve margir starfsmenn hafi „með einum eða öðrum hætti“ komið að viðræðunum. Þeim þætti málsins gaf RÚV þessa einkunn: „Það virðist ofmælt að stjórnsýslan sé undirlögð af þessu verkefni …“ Fréttastofan lét þess ekki getið hverjum hún var að svara í þessum leiðara sínum. Hver hafði sagt að stjórnsýslan yrði lögð undir ESB-viðræður á árinu 2011?

Hið einkennilega við fréttina er að þeir sem skráðu hana virðast ekki átta sig á því að hún ber með sér að í raun sé ekkert að gerast í samskiptum Íslands og ESB og enginn að vinna að málinu af hálfu íslenskra stjórnvalda, í raun sé látið reka á reiðanum. Þetta kemur heim og saman við þá staðreynd að viðræðuferlið tekur mun lengri tíma en ætlað var.  

Eins og ég hef bent á hér á síðunni hét Árni Páll Árnason, fráfarandi efnahags- og viðskiptaráðherra, því fyrir kosningar í apríl 2009 að í ársbyrjun 2011 yrði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarsamning. Nú lofar forsætisráðherra hins vegar að viðræðum verði lokið fyrir kosningar í apríl 2013.

Hlustendur RÚV-frétta verða líklega lengi að bíða þess að fréttastofan taki sér fyrir hendur að fara í saumana á þeim tímamörkum sem stjórnvöld undir forystu Samfylkingarinnar hafa talað um í tengslum við ESB-viðræðurnar.

Miðvikudagur 04. 01. 12 - 4.1.2012

Að öllu óbreyttu verður ekki kosið til þings fyrr en í apríl 2013. Engu að síður segir RÚV tíðindi af væntanlegum framboðum, þau verði allt að níu ef marka má fréttir í kvöld. Fátt nýtt kom þó fram í fréttunum því að „usual suspects“ voru kynntir til sögunnar. Satt að segja bar fréttin helst þess merki að draga ætti athygli frá miklu stærri pólitískum álitaefnum á líðandi stundu, það er bullandi ágreiningi innan stjórnarflokkanna. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið afskrifuð innan Samfylkingarinnar og situr sem forsætisráðherra af því að þingflokkurinn þorir ekki í kosningar. Steingrímur J. Sigfússon talar ekki lengur um ríkisfjármál í fréttatímum heldur hvort rétt efni séu í áburði.

Gera má fréttir af nýjum framboðum bitastæðar með því að lýsa aðstandendum þeirra því að almennt eru þeir ekki fæddir í gær heldur hafa látið að sér kveða á ýmsan hátt meðal annar með pólitískri þátttöku. Það á til dæmis við um Sigurjón Þórðarson, leiðtoga Frjálslynda flokksins. Hann sat á þingi og tók oft til máls. Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi vitna ég í nokkrar þeirra. Sigurjón var í hópi þeirra þingmanna sem tók málstað Baugsmanna gegn ákæruvaldi og lögreglu af hvað mestri ákefð. Nú ræðir hann um samstarf við Borgarahreyfinguna. Er hún ekki stjórnmálaafl gegn spillingu í viðskiptalífinu?

Þriðjudagur 03. 01. 12 - 3.1.2012

Þegar umræður um val á eftirmanni Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum taka að snúast um afstöðu manna til ESB-aðildar sannar það aðeins hve brýnt er að taka málið af dagskrá og gera hlé á viðræðunum við ESB. Þær þjóna aðeins þeim tilgangi um þessar mundir að ala á úlfúð innan lands.

ESB gengur nú í gegnum mestu krísu í 53 ára sögu sinni. Að ímynda sér að ESB-forystunni sé kappsmál að bæta 320 þúsund manna ríki í hópinn við þessar aðstæður eða á næstu árum er út í hött. Aðildarríkin 27 munu á næstu misserum taka afstöðu til aðildar Króatíu á þjóðþingum sínum. Við aðildarsamninginn er hnýtt ákvæðum um breytingar á Lissabon-sáttmálanum vegna skilyrða Íra á sínum tíma. ESB-ríkin verða að efna loforð sem þá voru gefin.

Eftir aðild Króata hverfur raunverulegur þrýstingur á stækkun ESB í bili. Sambandið verður að taka á eigin málum og endurhanna skipulag sitt áður en frekari stækkun verður. Það mun til dæmis aldrei nást samstaða um að ríki sem urðu til við upplausn Júgóslavíu eignist sjö fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB eins og yrði að óbreyttu.

Viðræðunefnd Íslands hefur fengið fyrirmæli frá ESB um að búa umbjóðendur sína undir langvinnar umræður eins og fram kom í grein fulltrúa hennar í Fréttablaðinu 27. desember 2011. Í stað þess að láta menn sitja yfir engu árum saman er skynsamlegra að gera hlé að viðræðunum, beina kröftum embættismanna að hagnýtari verkefnum og endurskoða stöðuna í heild með hliðsjón af nýjum staðreyndum og breytingum á ESB.


Mánudagur 02. 01. 12. - 2.1.2012

Í einum pistla minna frá Berlín segir ég frá heimsókn til Hans Olafs Henkels. Hér má kynnast sjónarmiðum hans milliliðalaust.

Oddný Harðardóttir, nýr fjármálaráðherra, var gestur Helga Seljans í Kastljósi kvöldsins. Hún sagðist ætla að einfalda skattkerfið. Í fréttatímanum á undan þættinum var því lýst hvernig Steingrímur J. hefði flækt það og hækkað skatta. Hver trúir því að hann samþykki að eftirmaður sinni sem situr í sex mánuði einfaldi kerfið aftur? Vitleysan í stjórnarráðinu magnast eftir breytingar á ríkisstjórninni. Það var einkennilegt að Helgi Seljan skyldi ræða við Oddnýju eins og hún yrði ráðherra til einhverrar frambúðar þegar henni er mörkuð stund í samræmi við barneignarleyfi Katrínar Júlíusdóttur.

Sérkennilegt er að nýr fjármálaráðherra skuli ekkert spurður um evru og ESB þegar við Oddnýju er rætt á þessum örlagatímum. Hún lét eins og skoðun hennar á eignarhaldi ríkisins í bönkum gilti sem svar. Hvernig fellur þessi skoðun fjármálaráðherra að stefnu Samfylkingarinnar um ESB-aðild? Samfylkingin stefnir að inngöngu í ríkjasamstarf þar sem ákvarðanir í ríkisfjármálum eiga að verða sameiginlegar og nýr fjármálaráðherra er ekki spurður álits á þeirri stefnu. Þykir ESB-RÚV slík þöggun heppileg?

Í dag ritaði ég pistil á Evrópuvaktina um spunann vegna yfirlýsingar Ólafs Ragnars um að hann yrði ekki að nýju í framboði til forseta. Pistilinn má lesa hér.


Sunnudagur 01. 01. 12 - 1.1.2012

Gleðilegt nýár!

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs í sumar. Af því tilefni ritaði ég pistil á Evrópuvaktina.

Í pistlinum vitna ég meðal annars í nýársprédikun Karls Sigurbjörnssonar biskups sem einnig kveður embætti sitt á þessu ári. Biskup minnti á ósvífni ýmissa sem láta skoðanir sínar í ljós í netheimum. Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður vinstri-grænna, er í hópi hinna hatrömmustu eins og sannaðist strax eftir hann sagði álit sitt á ræðu biskupsins.

Björn Valur sýndi forseta Íslands óvirðingu við setningu alþingis og nú í upphafi árs ræðst hann með svívirðingum á biskup Íslands. Björn Valur er málpípa þess manns sem telur sig mestan valdamann á hinu nýja Íslandi Steingríms J. Sigfússonar. Síðast níddust þeir saman að samflokksmanni sínum Jóni Bjarnasyni til að færa Steingrími J. aukin völd. Þeim datt ekki í hug að taka upp hanskann fyrir Jón þegar hann sætti árás af hálfu Jóhönnu Sigurðardóttur. Björn Valur bætti í betur til að auka á niðurlægingu Jóns.