9.1.2012

Mánudagur 09. 01. 12

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur enn birt hættumat sem endurspeglar sömu þróun og áður að alþjóðvæðingin hefur rutt sér rúm í heimi afbrotamanna eins og annars staðar. Það er mikil óskhyggja að ímynda sér að Ísland verði „stikkfrí“ í þessu efni frekar en öðrum. Þegar greiningardeild lögreglunnar var komið á fót létu ýmsir eins og fé væri sóað og kröftum lögreglumanna beint inn á rangar brautir. Fyrsta hættumatið var birt á árinu 2008.

Fróðlegt væri að sjá úttekt á því hvort þróun löggæslu hafi verið í takt við breytingarnar sem lýst er í hættumatinu. Eitt er víst að kvikmyndahandrit taka mið af því eins sést í hinni nýju kvikmynd Borgríki. Ekki þarf annað en horfa á hana til að átta sig á því hvert stefnir í íslenskum undirheimum.

Hvað skyldu menn segja ef lögregla brygðist við því sem á hennar verksviði er á sama hátt og Jón Gnarr borgarstjóri þegar rætt er  við hann um aðgerðir til að tryggja öryggi borgaranna vegna hálku og óveðurs? Önnur eins uppgjöf og borgarstjóri sýndi er sem betur fer næsta óþekkt hjá þeim sem taka að sér að sinna trúnaðarstörfum fyrir almenning.