5.1.2012

Fimmtudagur 05. 01. 12

Í dag fór ég á Útvarp Sögu í þátt hjá Jóni Lorange um ESB-málefni.

ESB-RÚV tók sér fyrir hendur í dag að gefa álit sitt á gangi viðræðna við ESB á árinu 2011 og hringdi að fenginni ábendingu í utanríkisráðuneytið til að spyrjast fyrir um kostnað við viðræðurnar. Að sögn RÚV nemur  bókfærður kostnaður í utanríkisráðuneytinu 101,6 milljónum króna. Samkvæmt fjárlögum hafi 150 milljónum króna verið varið til  ESB-viðræðna allt síðasta ár. Þessu var gefin einkunn í fréttatíma RÚV og sagt: „Fullyrðingar þess efnis að kostnaðurinn hlaupi á milljörðum virðast því ekki standast skoðun.“ Fréttastofan lét þess ekki getið hverjum hún var að svara í þessum leiðara sínum. Hver hafði spáð því að milljörðum yrði varið til ESB-viðræðnanna á árinu 2011?

Í frétt ESB-RÚV kom fram að það hefði ekki „bara fallið til beinn kostnaður“. Síðan er rakið hve margir starfsmenn hafi „með einum eða öðrum hætti“ komið að viðræðunum. Þeim þætti málsins gaf RÚV þessa einkunn: „Það virðist ofmælt að stjórnsýslan sé undirlögð af þessu verkefni …“ Fréttastofan lét þess ekki getið hverjum hún var að svara í þessum leiðara sínum. Hver hafði sagt að stjórnsýslan yrði lögð undir ESB-viðræður á árinu 2011?

Hið einkennilega við fréttina er að þeir sem skráðu hana virðast ekki átta sig á því að hún ber með sér að í raun sé ekkert að gerast í samskiptum Íslands og ESB og enginn að vinna að málinu af hálfu íslenskra stjórnvalda, í raun sé látið reka á reiðanum. Þetta kemur heim og saman við þá staðreynd að viðræðuferlið tekur mun lengri tíma en ætlað var.  

Eins og ég hef bent á hér á síðunni hét Árni Páll Árnason, fráfarandi efnahags- og viðskiptaráðherra, því fyrir kosningar í apríl 2009 að í ársbyrjun 2011 yrði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarsamning. Nú lofar forsætisráðherra hins vegar að viðræðum verði lokið fyrir kosningar í apríl 2013.

Hlustendur RÚV-frétta verða líklega lengi að bíða þess að fréttastofan taki sér fyrir hendur að fara í saumana á þeim tímamörkum sem stjórnvöld undir forystu Samfylkingarinnar hafa talað um í tengslum við ESB-viðræðurnar.