25.1.2012

Miðvikudagur 25. 01. 12

Í dag ræddi ég við Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóra HBGranda, á ÍNN. Við ræddum um tilraunir ríkisstjórnarinnar til að breyta kvótalögunum. Niðurstaðan varð sú að tækist henni ekki að knýja fram breytingu á þinginu í vor næði hún ekki þessu markmiði sínu. Saga þessa máls í meðförum stjórnarinnar er með miklum ólíkindum en sjón er sögu ríkari, þátturinn verður sýndur næst kl. 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Ég sé á mbl.is að Steingrímur J. Sigfússon er kominn til Brussel innan við fjórum vikum eftir að hann tekur við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og er tekinn til við að brosa á myndum með Stefan Füle stækkunarstjóra. Það lofar ekki góðu að Steingrímur J. leiti sátta við ESB og lýsi ánægju yfir viðtökunum. Reynslan af samningum á hans ábyrgð er á þann veg að honum er ekki unnt að treysta til að standa vörð um íslenska hagsmuni.

Jón Bjarnason fékk aldrei að fara til Brussel sem ráðherra. Hann þótti ekki nógu diplómatískur fyrir ESB. Nú er annað uppi á teningnum, ríkisstjórnin hefur eignast ráðherra sem hún treystir til að ræða sjávarútvegs- og landbúnaðarmál við ESB án þess að móðga Füle og félaga.