13.1.2012

Föstudagur 13. 01. 12

Sagt er að föstudagur 13. sé óheilladagur. Ég hef ekki reynt það. Vinir evrunnar reyndu það hins vegar í dag þegar Standard & Poor's lækkaði lánshæfiseinkunn Frakklands og nokkurra annarra evru-ríkja. S&P telur að leiðtogum evru-ríkjanna hafi mistekist við björgunartilraunir sínar.

Eftir fund ESB-leiðtoganna 8. og 9. desember sagði Össur Skarphéðinsson að þáttaskil hefðu orðið í sögu evrunnar, henni væri borgið. S&P er ekki sammála honum. Enn einu sinni reynast leiðtogar Samfylkingarinnar meta stöðuna gagnvart ESB rangt. Óskhyggja ræður afstöðu þeirra en ekki raunsætt mat.

Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina um illa ígrundaða grein Kristjáns Vigfússonar, kennara við Háskólann Í Reykjavík, um ESB-aðildarviðræðurnar.  Hún einkennist af sama blekkingarleik og Árni Páll Árnason og Össur hafa stundað varðandi tímasetningar og efnisþætti ESB-málsins.