6.1.2012

Föstudagur 06. 01. 12

Hér á landi býsnast menn stundum yfir því að vísað sé til Jóns Sigurðssonar forseta í samtímaumræðum og því velt fyrir sér hvernig sjónarmið hann falla að pólitískum viðhorfum líðandi stundar. Má jafnvel draga þá ályktun að það sé til marks um heimótta að vitna í Íslandssöguna máli sínu eða málstað til stuðnings. Þeir sem þannig hugsa afhjúpa helst eigin afdalahátt. Það yrði að minnsta kosti gert grín að þeim ef þeir áttuðu sig ekki á gildi heilagrar Jóhönnu af Örk fyrir Frakka. Í dag er 600 ára afmælisdagur hennar eins og lesa má hér.

Innan ESB mæla menn fyrir um friðun sela og hvala auk ýmissa fulga sem lifa á norðurslóðum þótt þeir leyfi að rjúpa sé skotin af því að hún finnst í ESB-löndum. Það er hluti aðlögunar Íslendinga að ESB-aðild að banna veiði þeirra fugla sem nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins vill nú að séu friðaðir. Það er hins vegar í anda blekkingarleiksins sem stundaður er í stjórnarráðinu vegna aðildarumsóknarinnar að embættismenn láta eins og friðunin hafi ekkert með ESB-aðildina að gera. Eitt er víst: friðunin mælist betu fyrir í Brussel en meðal þeirra sem nota brjóstvitið til að meta hvað fuglunum fyrir bestu.

Grábroslegt er að fylgjast með samskiptum fréttastofu RÚV og Ólafs Ragnars Grímssonar eftir að hann lýsti yfir því á nýársdag að hugur hans stæði ekki til forsetaframboðs í sumar. RÚV kaus að túlka þetta á þann veg að vafi ríkti um hvað í orðum Ólafs Ragnars fælist. Hann kýs hins vegar að draga fréttastofuna á asnaeyrunum, með því tryggir hann athygli og umtal. Hvað skyldu fréttamennirnir láta draga sig langt? Þeim má ekki takast að draga embættið ofan í svaðið.