18.1.2012

Miðvikudagur 18. 01. 12

Í Spegli RÚV er lagt út af skýrslu Norðmanna um EES á þann veg að samstarfið sé kostur sem enginn vilji en þeir sitji uppi með hann. Hvernig unnt er að komast að þessari niðurstöðu af lestri skýrslunnar er næsta óskiljanlegt. Þar er bent á að meðal norskra stjórnmálamanna sé víðtæk sátt um að haga samstarfinu við ESB á þennan hátt og huga ekki að áformum um aðild að ESB.

Það ber vott um að almennt geri menn ráð fyrir brottför Ólafs Ragnars frá Bessastöðum að enginn gerir opinberlega athugasemd við þá sérkennilegu ákvörðun hans að taka ekki þátt í hátíðarkvöldverðinum vegna 40 ára krýningarafmælis Margrétar Danadrottningar. Ef til vill hefur sama viðhorf ríkt meðal gestgjafanna í Danmörku, forseti Íslands væri á förum fyrir fullt og allt og teldi sig því ekki þurfa að sinna opinberum skyldum gagnvart norrænum þjóðhöfðingjum af sömu alúð og ella væri. Danska konungsfjölskyldan er auk þess vön því að Ólafur Ragnar láti hátíðir á hennar vegum sér í léttu rúmi liggja. Hann tók ekki þátt í konunglegu brúðkaupi í maí 2004 af því að hann vildi verða til taks á Bessastöðum í þágu Baugsmanna vegna fjölmiðlamálsins.

Karl Th. Birgisson tilkynnti afsögn sína sem ritstjóri vefsíðunnar Eyjunnar í dag. Síðan er rekin af félagi undir forystu Björns Inga Hrafnssonar. Undir ritstjórn Karls Th. hefur síðunni hrakað. Efnistökin hafa tekið mið af hagsmunum Samfylkingarinnar og ESB-aðildarsinna. Hvorugt á mikinn eða vaxandi hljómgrunn. Þá hefur uppfærsla nýs efnis á síðuna orið slappari eftir því sem nær dró að því að Karl Th. hætti. Egill Helgason, umræðustjóri RÚV, er helsta skrautfjöður Eyjunnar. Stefna hans hefur fallið að ritstjórnarmarkmiðum Karls Th.