11.1.2012

Miðvikudagur 11. 01. 12

Í dag ræddi ég við Brynjar Níelsson, hrl. og formann Lögmannafélags Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um störf sérstaks saksóknara, boðskap Evu Joly og leka til Kastljóssins á gögnum sem Brynjar telur aðeins geta komið frá fjármálaeftirlitinu eða sérstökum saksóknara.

Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, sat fyrir svörum hjá Sigmari Guðmundssyni í Kastljósi í kvöld. Enn hlýtur maður að spyrja til hvers Jón Gnarr hafi boðið sig fram, greinilega var það ekki til að standa öðrum til þjónustu eða til þess að leggja sig fram um lausn mála með hagsmuni umbjóðenda sinna í huga. Afsakanir hans fyrir aðgerðaleysi í hinu háa embætti eru jafn innantómar og annað sem hann hefur til málanna að leggja. Afrek hans eru lokun Austurstrætis fyrir bílaumferð og breyting á neðsta hluta Laugavegar og Skólavörðustígs í göngugötu að sumarlagi. Þá þótti honum jólaskreytingar í miðborginni skemmtilegar.