31.1.2012

Þriðjudagur 31.01.12

Nú er viðtal mitt  á ÍNN við Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóra HBGranda, komið á netið og má sjá það hér.

Ég skrifaði í dag pistil á Evrópuvaktina um hina furðulegu framgöngu Steingríms J. Sigfússonar gagnvart þingmönnum vegna ferðar hans til Brussel. Má lesa pistilinn hér.

Mér blöskraði í dag þegar Egill Helgason fullyrti ranglega á vefsíðu sinni að Evrópuvaktin nyti stuðnings frá Evrópusambandinu. Setti ég athugasemd á síðu Egils og leiðrétti hann rangfærslu sína; Evrópuvaktin fékk styrk frá alþingi. Það er einkennilegt hve ósannindin um uppruna styrksins til Evrópuvaktarinnar eru lífsseig. Þeim sem hallast að ESB-aðild þykir greinilega nokkru skipta að halda þessu að lesendum sínum á netinu.

Ég sé á síðu Egils að hann leggur sig fram um að rétta hlut Hallgríms vinar síns Helgasonar vegna umtals um framgöngu hans fyrir hrun þegar Hallgrímur gekk erinda Baugsmanna. Ekki er vinargreiði við Hallgrím að rifja þetta upp nema öll sagan sé sögð en Egill lætur undir höfuð leggjast að benda á hve langt Hallgrímur gekk við að rakka niður ákæruvaldið og grafa undan trausti til embættis ríkislögreglustjóra.