23.1.2012

Mánudagur 23. 01. 12

Myndin Edgar sem Clint Eastwood leikstýrir og framleiðir bætir enn einu meistaraverkinu í safn hans. Leonardo DiCaprio á stórleik í myndinni og raunar allir sem bera hana uppi.

Edgar J. Hoover varð goðsögn í lifanda lífi sem forstjóri FBI, bandarísku alríkislögreglunnar. Um þessa mynd má segja hið sama og um Thatcher-myndina að sjónarhornið er annað en þegar litið er á persónurnar utan frá. Eastwood leggur áherslu á að leita skýringar á manneskjunni á bakvið goðsögnina.

Í vikulokin var allt í uppnámi innan stjórnarflokkanna og menn höfðu í heitingum hver við annan innan þingflokkanna. Þessir sömu þingflokkar héldu fundi í dag og þá er lögð áhersla á gagnvart fjölmiðlamönnum að deilumálin frá því fyrir helgi séu ekki á dagskrá.

Þeir sem utan standa eru í sporum Chaplins gagnvart stóra, ríka, fulla kallinum sem sýndi honum vinarhót þegar hann datt í það en sparkaði honum á dyr og vildi ekkert hafa með hann að gera þegar rann af honum. Samúðin var auðvitað öll með Chaplin því að enginn þolir til lengdar að vera leiksoppur slíkra duttlunga. Það er makalaust hve fréttamenn RÚV láta lengi hafa sig í að spila með ríkisstjórn sem veit hvorki í þennan heim né annan og leggur sig fram um það eitt að fela eigin vandræðagang.