16.1.2012

Mánudagur 16. 01. 12

Í Morgunblaðinu er sagt frá því í dag að Ólafur Ragnar Grímsson hefði yfirgefið 40 ára krýningarafmæli Danadrottningar í gær fyrir hápunkt þess til að fara til Abu Dabai og sitja þar nefndarfund. Undrun vekur að ekki skuli fundið að þessari framgöngu á opinberum vettvangi. Ber það aðeins vott doðanum sem lagst hefur yfir þjóðfélagið.

Fréttirnar um iðnaðarsaltið eru gallaðar að því leyti að ekki er gerð grein fyrir hinum raunverulega mun á því og matvælasalti. Framleiðandinn hefur sent frá sér yfirlýsingu um að munurinn sé í raun á þann veg að hann skipti litlu fyrir þann sem neytir vöru sem unnin er úr saltinu. Hefðu fréttamenn nálgast málið frá þeim sjónarhóli að skilgreina muninn hefði kannski ekki verið unnt að blása svona miklu lífi í málið.

Ég skrifaði í dag dálítinn pistil á Evrópuvaktina um kóka kóla frá Spáni en ekki Vífilfelli. Það var keypt til landsins af því að það var ódýrara frá Spáni. En var það selt á lægra verði komið til landsins? Ég velti fyrir mér í þessu samhengi hvort innflutningur á ódýrum landbúnaðarvörum leiði til þess að neytendaverð hér á landi lækki. Að svo verði er einn helsti áróðurspunktur ýmissa ESB-aðildarsinna. Skyldi hann standast frekar en annað í áróðri þessa fólks. Vondandi fáum við aldrei að reyna það.

Norska ríkisstjórnin birtir á morgun mikla skýrslu um EES-samstarfið. Það verður fróðlegt að rýna í hana. Hún breytir ekki neinu um fortíðina en spurning er hvaða áhrif hún hefur á framtíðina því að Norðmenn eiga í viðræðum við ESB um þróun EES-samningsins. Um nokkurra ára skeið hefur utanríkisráðuneyti Íslands verið með öllu áhugalaust um EES en lagt megináherslu á viðræður um aðild að ESB.