28.1.2012

Laugardagur 28. 01. 12

Fór í ráðhúsið þar sem 100 ára afmæli ÍSÍ var haldið hátíðlegt með virðulegri athöfn. Vilhjálmur Einarsson varð fyrstur tilnefndur í heiðurshöll ÍSÍ. Ólafur Ragnar Grímsson hafði látið taka upp ávarp sitt og var það flutt af myndbandi, þar sagðist hann vera hinum megin á hnettinum, heyrði ég rétt. Ekkert er sagt um ferðalag hans á vefsíðu forsetaembættisins.

Jóhanna Sigurðardóttir flutti enn einn reiðilesturinn á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar. Að þessu sinni beindi hún spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum en ekki köttunum meðal VG eða sagðist tilbúin að leggja niður Samfylkinguna til að sameina ESB-aðildarsinna í nýjum flokki. Í tilefni af ræðu Jóhönnu skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina og má lesa hann hér.

Ég sé á netinu að DV ræðir við Steingrím J. Sigfússon sem heldur uppteknum sið og barmar sér undan ráðherraönnum og þakkar fjölskyldu sinni fyrir að sýna því skilning hvað hann geti lítið sinnt henni. Það er með ólíkindum að stjórnmálamaður sé alltaf að kveinka sér undan önnum við störf sín til að kalla fram samúð almennings. Það má ekki gleyma því að Steingrímur J. bauð sig fram til þessara starfa.

Jón Frímann öfgafyllsti ESB-aðildarsinninn í netheimum réttlætir 220 m. kr. stuðning stækkunardeildar ESB við kynningarstarf hér á landi með því að Morgunblaðið og Bændablaðið séu á móti aðild og andstæðingar aðildar hafi varið einum milljarði króna í „beinharðan áróður og blekkingar varðandi Evrópusambandið nú þegar“. Ekki er nóg með að Jón Frímann fari rangt með allar tölur heldur er hann illa máli farinn eins og þessi setning sýnir: „Enda eru andstæðingar Evrópusambandsins á Íslandi vel fjáðir á milli handana.“