14.1.2012

Laugardagur 14. 01. 12

Viðtalsþáttur minn með Brynjari Níelssyni hrl. á ÍNN er kominn á netið og má sjá hann hér.

Að sitja í Fljótshlíðinni og fylgjast með Margréti Danadrottningu og Henrik prins ganga um í anddyri tónlistarhallarinnar í Kaupmannahöfn og heilsa gestum sem þar koma saman til að fagna 40 ára krýningarafmæli drottningarinnar er næsta óraunverulegt en þó staðreynd. Ólafur Ragnar og Dorrit birtust á skjánum þegar þau komu til hátíðarinnar. Allt var það með pomp og pragt. Til að kynna gestina hafa þulir danska sjónvarpsins kjólameistara og sérfræðing í hirðsiðum sér við hlið. Eivör frá Færeyjum var ein þeirra sem söng.

Líklegt er að þessi sjónvarpsdagsskrá verði ein hin vinsælasta í Danmörku í ár enda er þar mikil hrifning á drottningunni og fjölskyldu hennar. Litið er á andstæðinga konungdæmisins sem sérvitringa ef ekki dóna að minnsta kosti ef þeir eiga sæti á þingi eða eru í hópi álitsgjafa,

Klakinn sem olli okkur hræðslu í gær var horfinn í morgun enda rigndi mikið í nótt. Svo vel er frá öllu gengið varðandi halla og leiðir fyrir vatn hér hjá okkur að ekki flæðir neins staðar í slíkri asahláku. Við höfum í raun meiri áhyggjur af roki en vatni því að hér hefur fokið, meira að segja gamalt útihús um árið.

Einkennilegt er að ekki hafi fundist heitt vatn í Fljótshlíðinni með eldfjöll í næsta nágrenni og eitt mesta háhitasvæði landsins.