3.1.2012

Þriðjudagur 03. 01. 12

Þegar umræður um val á eftirmanni Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum taka að snúast um afstöðu manna til ESB-aðildar sannar það aðeins hve brýnt er að taka málið af dagskrá og gera hlé á viðræðunum við ESB. Þær þjóna aðeins þeim tilgangi um þessar mundir að ala á úlfúð innan lands.

ESB gengur nú í gegnum mestu krísu í 53 ára sögu sinni. Að ímynda sér að ESB-forystunni sé kappsmál að bæta 320 þúsund manna ríki í hópinn við þessar aðstæður eða á næstu árum er út í hött. Aðildarríkin 27 munu á næstu misserum taka afstöðu til aðildar Króatíu á þjóðþingum sínum. Við aðildarsamninginn er hnýtt ákvæðum um breytingar á Lissabon-sáttmálanum vegna skilyrða Íra á sínum tíma. ESB-ríkin verða að efna loforð sem þá voru gefin.

Eftir aðild Króata hverfur raunverulegur þrýstingur á stækkun ESB í bili. Sambandið verður að taka á eigin málum og endurhanna skipulag sitt áður en frekari stækkun verður. Það mun til dæmis aldrei nást samstaða um að ríki sem urðu til við upplausn Júgóslavíu eignist sjö fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB eins og yrði að óbreyttu.

Viðræðunefnd Íslands hefur fengið fyrirmæli frá ESB um að búa umbjóðendur sína undir langvinnar umræður eins og fram kom í grein fulltrúa hennar í Fréttablaðinu 27. desember 2011. Í stað þess að láta menn sitja yfir engu árum saman er skynsamlegra að gera hlé að viðræðunum, beina kröftum embættismanna að hagnýtari verkefnum og endurskoða stöðuna í heild með hliðsjón af nýjum staðreyndum og breytingum á ESB.